Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Fyrstu skrefin

Sturlubarnið hefur tekið svolítinn tíma í að æfa sig í að ganga. Hann er búinn að ganga með í nokkuð langan tíma en hefur ekki viljað sleppa sér. En á meðan amma skrapp á ráðstefnu um leikskólamál til Noregs tók pilturinn upp á því að fara yfir heilu gólfin án hjálpar á tveimur jafnfljótum. Dálítið staurfættur en fór samt. Afi tók af þessu alveg dásamlegt myndband, það sem stendur upp úr (ja fyrir utan skrefin) er að Sturlubarnið sleppti aldrei augnsambandi við afa á gönguferð sinni. Horfði allan tímann einbeittur á afa. Leit ekki niður, ekki til hliðar, bara á afa. Enn eru nú bara tvær tennur komnar upp, kannski heldur hann upp á eins árs afmælið seinna í mánuðinum með fleiri tönnum.   

Leikskóladvölin gengur eins og í sögu. Þegar hann er orðinn aðeins æfðari ætla ég að fá að vera dagspart með honum og gera uppeldisfræðilegar skráningar. Hlakka mikið til. 

Evrópuverkefni   

Annars er það helst í fréttum að ég á von á dönskum gesti Henrik Bak í næstu viku sem ætlar að heimsækja nokkra skóla. Hann hefur í huga að bjóða þeim í samstarfsverkefni sem snýr að fjölmenningu og skapandi starfi. Þetta er verkefni sem nokkur lönd koma að og snýr að því að byggja upp vitund um það sem sameinar og það sem er sérstætt í Evrópu. Sjálf þekki ég fólk í nokkrum löndum sem tekur þátt. Þau halda úti heimasíðu frá Hollandi sem hægt er að lesa fleira um verkefnið.  Ef einhverjir skólar hafa áhuga á að fá okkur í heimsókn eða vera með í verkefninu þá er um að gera að senda mér póst.

 


Orðaforði 36 mánaða barna, 400 orð = félagslega lélegt atlæti 3000 orð = félagslega vel sett

Fyrirlestur John Bennett um nauðsyn gæðaleikskóla fyrir yngstu börnin á EECERA ráðstefnunni í Noregi var góður. Hann tengdi erindi sitt rannsóknum á ýmsum sviðum sem sýna allar fram á mikilvægi gæða í leikskólastarfi, bæði frá forsendum barnsins og samfélagsins. Hann skoðaði rannsóknir um heilann, hagfræðilegar rannsóknir nóbelsverðlaunahafa (Heckman) og rannsóknir um t.d. stöðu barna eftir félagslegum bakgrunni þeirra. Hann fjallaði um hvernig leikskólinn gæti jafnað aðstöðumun á milli þjóðfélagshópa. Það var t.d. sjokkerandi að sjá upplýsingar um orðaforða 3ja ára barna eftir því hvaða þjóðfélagshóp þau tilheyra. Munurinn á börnum sem komu úr velsettum hópum og þau sem komu úr verst settu hópunum er gríðarlegur. Við þriggja ára aldur eru velsettu börnin með um 3000 orð á sinni könnu á meðan að börnin úr lægsta hópnum er með um 400 orð. Vygotsky sagði tungumálið vera tæki hugsunar. Og við vitum að hugsun er undirstaða framfara. Ef börn úr verst settu þjóðfélagshópunum hafa 3ja ára innan við 1/4 af orðaforða best settu barnanna sjá flestir hverjar afleiðingarnar geta verið. Til að mæta þessum mun og til að styrkja öll börn skipta leikskólar máli en ekki bara hvaða leikskólar sem er. Bennett lagði áherslu á gæðaleikskóla, þar sem áherslan er á þroska barna og vellíðan en ekki akademísk vinnubrögð. Hann var duglegur í erindi sínu að hrósa Norðurlöndunum og taldi að önnur ríki ættu að taka sér þau til fyrirmyndar. 

Annað sem Bennett lagði áherslu á er uppeldisfræðileg skráning (sem ég hef oft fjallað um hér á blogginu). Gildi hennar til að kynnast börnum og hvernig hægt væri að nota hana sem leið til að sýna fram á gæði starfsins. Í Noregi er reyndar búið að setja inn í Aðalnámskrá leikskóla að í leikskólum eigi að gera uppeldisfræðilegar skráningar. Í okkar aðalnámskrá frá 1999 er líka fjallað um mikilvægi uppeldisfræðilegra skráninga. Þó ekki sé það gert með jafn afdráttarlausum hætti hér og í Noregi en í aðalnámskrá stendur: 

 

Leikskólakennari þarf að ætla sér tíma til uppeldislegra athugana og skráningar á atferli barns, bæði þegar það er eitt og í samspili við barnahóp. (Aðalnámskrá leikskóla, 1999, bls. 14)

Við höfum frá upphafi leikskólabrautar við Háskólann á Akureyri (1996) kennt uppeldisfræðilegar skráningar. Mjög margir fyrirlestrar á ráðstefnunni byggðu einmitt á gögnum sem safnað var með þeirri aðferð, m.a. þeir fyrirlestrar sem standa mest eftir hjá mér.

Á ráðstefnunni Rödd barnsins sem haldin var á vegum Reykjavíkurborgar og RannUng í vor fjallaði ég í erindi sem bar heitið; Hvert barn er sinn eigin kór m.a. um gildi uppeldisfræðilegrar skráningar. Til stendur að gefa fyrirlestra tengdum ráðstefnunni og efni hennar út í bók í haust. Efa ég ekki að hún verður mikill akkur fyrir leikskólasamfélagið og bíð ég spennt. Mitt erindi verður hinsvegar ekki þar á meðal m.a. vegna þess að það féll ekki að ritstjórnarlegum áherslum og ég kærði mig ekki um að breyta því í þá átt sem ritstjórn vildi. Ég hef því ákveðið að henda erindinu hér inn (og einhverjum fleirum) og fylgja þau sem skrár með þessari færslu. Vona ég að einhver geti haft af þessu gagn. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aðlögun barna í leikskóla

Aðlögun Sturlubarnsins og foreldra hans að leikskólanum gengur vel. Hann kveður brosandi og fagnar þeim brosandi. Við fórum og sóttum hann á föstudag og fengum að vita að þær hefðu varla heyrt hann gráta. Eina vandamálið er að venja hann við hinn íslenska heimilismat, en ég held að það sé leikskólamaturinn nú til dags. (Hvar annarstaðar er soðin ýsa með kartöflum og smjöri, kjötbollur í brúnni sósu, slátur og kartöflustappa, lifur með lárviðarlaufi og kjötsúpa á mánaðarmatseðlinum?) Mér skilst þó að þetta með hafragrautinn sé að koma hjá drengnum.

Ný aðferð við aðlögun 

Talaði annars við unga vinkonu mína sem er leikskólakennari í Svíþjóð í gær, hún sagði mér að nú sé þar víða verið að taka upp nýtt aðlögunarkerfi fyrir yngstu börnin (og hin). Það felst í því að allt að 10 foreldrar og börn mæta saman í leikskólann. Foreldrar eru svo með sínum börnum næstu þrjá daga allan tímann, ekkert verið að skreppa fram í kaffistofu eða slíkt (svona eins og víða er gert). Foreldrar sinna sínum börnum skipta á þeim og gefa að borða og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn setur út verkefni (gerir kannski skráningar). En á fjórða degi koma börnin að morgninum og kveðja og eru svo allan daginn. Punktur.  Einstaka börn hafa foreldra sína fjóra daga en mér skyldist að þau séu fá. Í lok ágúst er svo allri aðlögun lokið. En í leikskólanum er aðlögunartíminn oft gríðarlega erfiður. Bæði fyrir börn og starfsfólk. Oft er mikið grátið og þá þarf sterk bein hjá starfsfólkinu. Vinkona mín segir mér að þetta kerfi sé almennt að ryðja sér til rúms í Svíþjóð og það sé mjög mikil ánægja með það. Allt vetrarstarf hefjist fyrr og álag á börn, foreldra og starfsfólk sé minna.

Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Líðan þeirra skili sér svo þegar þeir ræða við barnið um leikskólann og þegar þeir koma og kveðja barnið.

Lítil reynslusaga 

Ég man eftir leikskólastjóra í einum leikskóla fyrir mörgum árum. Þar var barn sem grét og grét og kveðjustundin var endalaust dregin á langinn. Barnið var kjökrandi og foreldrar nánast líka. Starfsfólkið var farið að fá kvíðahnút í magann þegar það sá barnið birtast vitandi að þá tæki við langt sársaukafullt ferli. Leikskólastjórinn sá að svo gat ekki gengið lengur og kallaði foreldrana á sinn fund. Hún sagði mér að hún hefði bara spurt þau hreint út hvort þau vildu að barnið væri í leikskólanum. "Jú jú" sögðu foreldrarnir. "Treystið þið okkur" spurði hún, "Já, já" sögðu foreldrarnir.  Jæja sagði mín kona þá, "hvernig væri að þið færðuð að haga ykkur í samræmi við það".  "Það eruð þið og hegðun ykkar sem er vandamálið ekki barnið". Það eruð þið sem segið; "ææi, greyið nú verðum við að skilja þig eftir, við sækjum þig eins fljótt og við getum". Þú þarft nú ekkert að vera langan dag í dag." Með þessu eruð þið að senda barninu ykkar skýr skilaboð". Foreldrarnir hrukku víst í kút og urðu jafnvel soldið foj. En svo hugsuðu þau málið og  strax á næstu dögum breyttist þeirra afstaða og barnið kom glatt og fór glatt. 

Þetta er svona lítil reynslusaga í pottinn, ég hef reyndar alltaf dáðst að þessari nálgun viðkomandi, ég er ekki viss um að ég hefði treyst mér svona beint í hana sjálf. En eftir stendur að hún skynjaði hvar vandinn lá og hafði í sér að taka á honum.

Jæja best að fara að klára undirbúning fyrir Noregsferð, er á leið á samevrópska leikskólaráðstefnu þar sem ég á örugglega eftir að heyra margt merkilegt.  Lilló verður hér og heldur utan um framkvæmdir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband