Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Stóra og Litla skrýmslið eru í uppáhaldi

Ég skrapp um daginn í Þjóðleikhúsið. Við Sturla skruppum á Stóra skrýmslið og Litla skrýmslið. Sýningin fór fram í leikfimishúsinu sem ég fór í bakæfingar sem barn og heitir núna Kúlan. Sýningin var einstaklega flott og vel upp sett. Ég var t.d. mjög hrifin af myndavarpanotkuninni.

 Sýningin höfðaði til barnanna sem gátu sum ekki stillt sig um að taka þátt í samræðum leikaranna. Amman sem t.d. hafði sagt 4. ára barninu að hann yrði að gæta þess að trufla ekki leikarana tilkynnti það öllum um leið og sýninginn hófst. Það eru meðmæli þegar að börnin átta sig ekki á mörkum sögunnar og upplifunar sinnar. Þannig var það á þessari sýningu, þau voru inn í sögunni. En það sem var líka gaman var að það var passað upp á að hafa nokkra fullorðins brandara og tilvísanir inn á milli, svo amman gæti skellt upp úr. Við Sturla skemmtum okkur svo að ég gæti alveg hugsað mér að fara aftur. Hann líka.

Svona oggu leikhús

Skólasystur og samferðakonur

Árið 1992 kláraði ég framhaldsnám í stjórnun menntastofna. Ég var í hóp með öflugum konum, flestar starfandi leikskólastjórar. Veturinn reyndi mjög á okkur á mismunandi hátt. Hver okkar bar marga hatta. Við vorum mæður, eiginkonur, ömmur, vinkonur, stjórar í leyfi, við vorum eins ólíkar og við vorum margar. Við tókust á við mörg mismunandi verkefni þennan vetur, innan skóla og utan. Tókum þátt í sorgum og gleði. Við ákváðum að fara í námsferð til útlanda, Bandaríkin urðu fyrir valinu. Við lögðum á ráðin um fjáröflun, gáfum út bæklinga fyrir stjórnendur og seldum í næstum alla leikskóla landsins. Keyptum okkur dragtir og silkiblússur í henni Ameríku. Dragtirnar okkar voru eins litskrúðugar og vorið eins og útskriftarmyndin ber með sér. Við bundumst sterkum, sterkum böndum. 

Við ákváðum að þetta væru bönd sem við vildum ekki að trosnuðu og þessar skipulögðu konur skipulögðu morgunkaffi einu sinni í mánuði alla vetrarmánuði. Við skipulögðum líka skipulagið og því höfum við svo fylgt af samviskusemi í 20 ár. Ætli það séu ekki að vera 15 ár frá því að við sáum fram á að hópurinn okkar mundi nú halda saman í gegn um þykkt og þunnt. Þá skipulögðum við eiginmenn og elskhuga með í hópinn. Svona þrisvar á ári eru þeir með. Við förum í ferðir innan lands og utan (já meira að segja farið í fótboltaferð) með elskhugunum og svo höldum við okkar árshátíð. Nú draga elskhugarnir sig í hóp og hlægja hátt saman gera svo kröfur um að eiga hlutdeild í dagskránni. Kannski er það vegna þess að þeir skilja ekki að við skulum alltaf skipuleggja grill þegar úrstlitaleikir eru í meistaradeildinni og ekki tryggja neitt sjónvarp á staðnum.

Á tuttugu árum höfum við fylgst að í lífinu, tekið þátt í gleði og sorg. Orðið vitni að barnsfæðingum, nýjum hlutverkum, andlátum, veikindum, nýjum starfshlutverkum, eftirlaunum. Við deilum gleði og sorg. Við hlægjum mikið. 

En í hvert sinn sem við hittust eru samt leikskólamál það sem við ræðum mest. Við brennum nefnilega allar enn fyrir starfinu okkar. Við erum ekki alltaf sammála, stundum meira að segja mjög ósammála en það skiptir ekki máli. Það er nefnilega samræðan sem skiptir öllu. Að hlusta og vera hlustað á. Það eina sem ég hef áhyggjur að geti skákað leikskólamálum eru skorkortin þeirra í golfinu. Sýnist eins og fleiri og fleiri í hópnum sogist að grænum flötum og hvítum litlum kúlum. Samkeppnin er að harðna.

Í kvöld er vor árshátíð og ég hlakka til að hitta skólasystur mínar og elskhuganna þeirra. Þar verður kátt


Að sitja upp á hól og horfa yfir

Ég sit upp á góðum hól með nokkur sett af gleraugum mér við hlið og horfi yfir vettvang leikskólans. Stundum set ég upp kynjagleraugun, stundum set ég upp frjálshyggjugleraugun, stundum er það gleraugun sem hjálpa mér að greina  hina félagslegu orðræðu sem ég set upp. Yfirleitt reyni ég að nýta lýðrræðisgleraugun, helst að sitja á hólnum þar sem jarðvegurinn er gegnsýrður lýðræði. Stundum finnst mér þessi seta erfið og ég sé ekki alveg það sem er fyrir framan mig. Jafnvel þó gleraugun séu með ágætan styrk. Stundum blasa hlutir við og ég skil ekki af hverju allir aðrir sjá þá ekki. Svo er þetta með blindu blettina. Þeir eru auðvitað vandamál, jafnvel þó ég reyni að snúa mér í allar áttir og ná sem mestu inn í sjónarsviðið. Það verða alltaf blindir blettir, þverstæður sem þarf að takast á við. Það er líka ákveðin hætta sem fylgir svona hólasetu, meðal annars hætta sem byggir á að horfa í allar áttir með endalaust ný gleraugu og ná ekki fókus. Stundum þegar mér líður akkúrat þannig, þá er verður mér hugsað til Kjarval sem sagðist gjarnan mála sama mótívið aftur og aftur, í mismunandi veðri eða frá öðru sjónarhorni. Auðvitað felst galdurinn í að horfa og hugsa, endurhugsa og skilgreina og stundum að færa sig á nýjan hól.   


Leikskólinn, ég og frjálshyggjan

Það er nokkuð síðan ég leit hér inn. Hef verið upptekin við að klára ýmis verkefni, fyrir jól var það að klára yfirferð námsritgerða, las mörg spennandi og skemmtileg verkefni eftir leikskólakennara framtíðarinnar. Síðan tók við lokapússning á tveimur greinum. Önnur er búin að fara í gegn um ritrýningarferli og var birt rétt fyrir áramót. Þar er ég að gera tilraun til að greina áhrif nýfjrálshyggjunnar á íslenskt leikskólastarf. Nota til þess erlent líkan og skoða kerfið frá því sjónarhorni. Ég kemst að þeirri niðurstöðu að við (leikskólafólk) höfum verið á bullandi ferð með nýfrjálshyggjuna í aftursætinu. Og það skal viðurkennt að mér finnst það ekki hafa verið góður aftursætisbílstjóri.

Einhverjum fannst greinin mín heldur dapurleg lýsing og ég hef verið spurð hvort ekkert jákvætt hafi gerst hjá/í málefnum leikskólans sl. tíu ár. Um það fjallar greinin ekkert, enda er ég ekki að gera tilraun til að svara til um innra starf leikskóla, starfshætti eða uppeldisstrauma. Þetta er fyrst og fremst úttekt á kerfinu eins og það birtist mér af sjónarhóli nýfrjálshyggjunnar. Innan leikskólans hafa frábærir hlutir átt sér stað þrátt fyrir að þessu skólastigi hafi verið þrengt ótæpilega. Um það las ég meðal annars í verkefnum leikskólakennara framtíðarinnar og veit af samræðum mína við aðra leikskólakennara.

Hér áðan sagðist ég vera að vinna í annarri grein en hún fjallar einmitt um innra starf leikskóla. Hún er rétt að leggja af stað í ferlið og nú er bara að sjá til hvar hún endar. 

Í haust birtist kafli eftir mig þar sem ég velti fyrir mér hvort leikskólinn væri sólkerfi, pláneta eða við það að falla inn í svarthol grunnskólafræðanna. Hann er á netinu fyrir þá sem áhuga hafa (fara bara á leitir.is). Í rýndi ég bók sem Jafnréttisstofa gaf út og færði öllum leikskólum. Ég var ekkert yfir mig hrifin en var hrifin af hvernig leikskólinn Lundarsel á Akureyri vann með bókina.

Ég var líka í ritstjórn hinnar nýju aðalnámskrár leikskóla. Skemmtilegt verkefni þó auðvitað "liti" námskráin ekki alveg eins út og ég og fleiri hefðum kosið )bæði útlit og innihald). Bind vonir mínar við að sumt verði lagað eins og hægt er þegar hún verður gefin út á pappír. Ég er líka búin að taka þátt í mörgum þjóðfundum um leikskólamál og á víst eftir að verða á fleirum nú á næstunni. Hélt svo nokkra fyrirlestra á ráðstefnum.

Eftir áramót hef ég svo verið að semja kennsluáætlanir. Ein þeirra er í nýjum og spennandi áfanga sem tengist hinum nýjum námskrám. Svo er ég að vinna í þriðju greininni sem ég kannski klára einhvertíma í vor. Vona annars að árið verði mér drjúgt í pælingum um uppáhaldsviðfangsefni mitt, leikskólann.

Gleðilegt ár.

Kristín Dýrfjörð. (2011). Áhrif nýfrjálshyggju á íslenskt leikskólastarf.  Íslenska þjóðfélagið. 2, bls.  47-67.

Kristín Dýrfjörð. (2011). Í hvaða leikskóla varst þú eiginlega? [fræðilegur ritdómur], Uppeldi og menntun , 2011,  20 (1),. 135-138

 Kristín Dýrfjörð. (2011). Er leikskólinn sólkerfi, reikistjarna eða tungl? Eftirnýlenduvæðing leikskólahugmyndafræðinnar. Í (ritstj.). Ása Guðný Ásgeirsdóttir, Helga Björnsdóttir og Helga Ólafsdóttir. Rannsóknir í félagsvísindum XII:  Félags- og mannvísindadeild. Bls 381-388. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband