Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Mest skráða tímabil mannskynssögunnar - mögulega gleymt?

Ég ákvað að nota mér þann möguleika að senda stafrænar myndir til framköllunar í Hans Petersen. Minnug þeirra orða fræðimanns sem ég man því miður ekki hvað heitir, að þrátt fyrir að okkar tímar væru sennilega þeir mest skráðu í sögu mannsins, væri minna til að minnast fyrir næstu kynslóðir, sennilega hyrfu minningar okkar með breyttri stafrænni tækni. Sjálf hef ég lent í að missa flottar myndir þegar harðir diskar hafa krassað. Einhvern vegin ætlar maður alltaf að vera með afrit en stundum myndast gloppur. Með því að senda í framköllun var ég að gera tilraun til að loka einhverjum gloppum. Ég var líka nokkuð ánægð með afraksturinn. Sérstaklega fannst mér gaman að nýta mér þann möguleika að kroppa myndir áður en ég sendi þær. Læt fylgja með mynd af lítilli frænku minni sem ég tók út í garði sl. föstudag.

100_4697
Í felum á bak við flaggstöng.


Ógn byssunnar

Á stuttum tíma hafa tveir menn með gengdarlausri frekju sem hlýtur að eiga sjúklegar rætur, reynt að stjórna lífi þeirra sem nærri þeim standa með ógn byssunnar. Ekki er lengra en í síðustu viku að maður var dæmdur fyrr morðtilraun gagnvart eiginkonu sinni. Núna er það fyrrverandi maki sem hefur ekki skilið að hann var fyrri maður. Morðið kallar á umræðu um úrræði vegna heimilisofbeldis. Um rót þessa ofbeldis, um forvarnir sem vinna þarf að. Hér þurfa fjölmiðlar að standa vaktina.

   

En hvað gerir það að verkum að menn telja sig hafa slíkt vald yfir þeim sem nærri þeim standa að þeir geta hugsað sér að svipta þá lífi. Ekki veit ég hvort hægt er að rekja dæmin til aukinnar skotvopnaeignar almennings, aukins heimilisofbeldis eða þess að firring gagnvart mannslífum virðist vera að aukast í samfélaginu. Því miður þarf fólk ekki að undirgangast geðheilbrigðispróf til að fá skotleyfi og byssueign virðist vera töluvert almenn.

 

Margar fjölskyldur eiga nú um sárt að binda. Fjölskyldum bæði fórnarlambsins og þess sem ódæðið framdi votta ég mína dýpstu samúð.


mbl.is Árásarmaðurinn svipti sig lífi; fannst látinn á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíski riddarinn - Össur

Össur fjallar á bloggi sínu um þátt í sjónvarpinu sem hann sá eiginlega ekki. Rétt að hann hafi fylgst með og hjó eftir einum "skandal", Valgerðar með ungliðana. Hann fellur í þá gryfju sem hann telur talsmann Þjórsárvirkjunar falla í. En Össur segir á bloggi sínu um hann “Mér fannst það ekki traustvekjandi fyrir málstaðinn þegar talsmaður þeirra fór með frásögn af ummælum mínum af fundi í iðnaðarráðuneytinu þar sem hann var ekki viðstaddur - og fór eðlilega ekki rétt með.” Verra finnst mér að Össur tók ekkert eftir því að “skúffuféð” svonefnda er löðrandi í geðþóttaákvörðunum um annað en góðverk. Löðrandi af kjördæmapoti. Löðrandi af eyðslusemi fyrir kosningar. Auðvitað efast enginn um réttmæti þess að ráðherrar hafi tiltekin auraráð. Þetta er löglegt fé. En jafnframt eru margar ákvarðanirnar um ráðstöfunina ekki boðlegar og ýmsar siðlausar. Til þess eins fallnar að ráðherrar geri sig breiða á kostnað okkar skattborgarana.

 

Já mikið á sá gott sem getur slegið sig sjálfur til riddara og síðan hreykt sér af því. Það getur félagi Össur gert og er alveg ófeiminn við. Engin er að efast um að mörg þessara verkefna eru þörf og eðlilegt að styrkja. Spurningin er hins vegar hvort það sé eðlilegt að styrkur sé undir því komin, að maður þekki mann.

 

Líka er hægt að velta fyrir sér að ef fólk telur eðlilegt að skúffufé sé til staðar, en aðstæður eins og í sumum ráðuneytum nú að mest allt skúffufé sé uppurið. Þarf þá ekki fjárveitingarnefnd að koma til og gauka smá fé að þeim ráðherrum sem tóku við tómum skúffum? (Eins og t.d. í utanríkisráðuneytinu).


Lífshættulegur leikur á ísköldu Þingvallavatni

 

þingvellir batur
Smellið á myndina til að stækka

 

 

Það er gaman að eiga góðar græjur, og það er gaman að geta notað þessar græjur sér og öðrum til ánægju. En hinsvegar krefst það líka ákveðinnar ábyrgðar. Sérstaklega þar sem börn eru. Í dag var ég á Þingvöllum, þar varð ég vitni að vítaverðu athæfi fullorðins fólks. Það var búið að smíða einhverskonar pramma ofan á gúmmíbát með utanborðsmótor. Á prammanum var fólkið svo búið að koma sér fyrir með sólstóla og veiðistangir. Þarna átti augljóslega að hafa það náðugt. Ég læt meðfylgjandi myndir segja allt sem segja þarf  um bátinn. Það sem sló mig var að á prammanum voru 2 börn og hvorugt þeirra var í björgunarvestum, ekki frekar en hinir fullorðnu. Á prammanum var hundur sem gekk laus. Ég reikna með að flestir viti hversu kalt Þingvallavatn er. Ef eitthvað fer úrskeiðis á svona pramma eru bjargráðin ekki mörg. Ef einhver les þetta blogg og þekkir þetta fólk, væri ráð að benda þeim á ábyrgðarleysið.

 

 

 

þingvellir batur 2

 

 

 

þingvellir batur 3

 

 

 midnættiÞessi var tekin um 11.30 og enn hefur bæst við á pramann.

 

Myndirnar eru allar teknar með 12 sinnum optical súmmi úr töluverðri fjarlægð.

 


"Réttindalausar" einkaþotur

Í sumar hefur umferð einkaþotna verið mjög áberandi yfir miðborg Reykjavíkur með tilheyrandi gný. Fokkerinn hljómar eins og saumvél við hlið þeirra. Suma daga hafa þoturnar lent og tekið upp hver á fætur annarri á örskömmum tíma.

  

Eitt af því sem hefur verið í umræðunni er aðstöðuleysi einkaþotna á Reykjarvíkurflugvelli og fram komið krafa um byggingu aðstöðu til afgreiðslu og geymslu á þessum vélum. Nú veit ég ekki hvort það er til að rýma fyrir einkaþotum að landgræðsluvélin er ekki lengur í skýli heldur stendur eins og vængstýfður fugl út á vellinum. Ég velti hins vegar fyrir mér hvers vegna öllum þessum einkaþotum er ekki vísað til Keflavíkur, þar er fín aðstaða og góð skýli.  Mér finnst það líka umhugsunarvert að þeir sem eiga þessar þotur velja að borga ekki gjöld af þeim til íslensks samfélags, því samkvæmt fréttum eru flestar þoturnar skráðar í skattaparadísum í Suðurhöfum.  

 

Ég hef löngum varið innanlandsflugið – og á meðan ekki er búið að ganga frá fljótlegum samgöngum á milli Reykjavíkur og Keflavíkur get ég ekki séð að það sé hægt að færa það. En umburðarlyndi mitt nær ekki til háværra leikfangna auðmanna. Fyrir utan það, þá velti ég fyrir mér hversu réttlætanlegt það er frá öryggissjónarmiði að aðflugsleiðir þessara véla eru yfir þinghúsinu.


Að velja sér grafskrift

Sumt sem maður gerir er endanlegra en annað, eitt af því er að velja sér grafarskrift og legstein. Hvorutveggja nokkuð sem við Lilló ætluðum að gera í sumar, fyrrasumar og sumarið þar áður. Enn erum við ekki búin að því. Finnum okkur ýmislegt til dundurs annað en að heimsækja steinsmiðjur. Í grófum dráttum erum við búin að ákveða hvernig steininn á að vera. En það að panta hann, leggja inn nöfnin og koma honum fyrir á leiðinu er svo endanlegt og erfitt. Einhvern vegin er þetta meira en að velja sér sófasett, eða nýjan bíl. Þessi steinn verður yfir okkur, jafnvel í hundruð ára. En þangað til verður hann yfir Sturlu okkar, afa hans og langafa svo lengi sem við lifum. Hann er merki um forgengnileika lífsins. Áminningu um að hvert líf sem er lifað verður að vera í núinu. Að við verðum að varðveita og fagna minningum okkar, hversu sárar sem þær kunna að vera. En líka áminning um að okkur ber skylda til að stuðla að mögulega ríkulegri úttekt úr minningarbankanum seinna. Það gerum við með því að verja tíma með þeim sem okkur þykir vænt um.  


Háóléttir karlar

Ég er ein þeirra sem dreyma mikið. Suma drauma man ég óljóst, suma því miður of vel. Reyndar er það svo að ef mig dreymir mjög mikið, lít ég á það sem merki um efnaskort og treð í mig B vítamíni af miklum móð.

   

En ástæða þessa bloggs er að undafarið hef ég verið að horfa á auglýsingarherferðina um enska boltann. Um biðina, óþreyjuna en líka tilhlökkunina. Herferðin minnir mig á draum sem mig dreymdi fyrir sennilega einum aldarfjórðungi. Ég var að ganga upp Bankastrætið þegar ég tók skyndilega eftir því að á ferli var mikill hópur óléttra karla. Með barnavagna og bumbur út í loft. Var mér þetta afar eftirminnilegur draumur sem mér fannst á þeim tíma líka svo fyndin að ég deildi honum með vinkonum mínum sem dæmi um absúrd drauma. Í draumnum voru karlarnir klæddir sínum venjulega fatnaði ekki kjólum eða slíkt. Þetta voru bara venjulegir háóléttir meðal-Jónar. Kannski er það sú tilfinning að bíða eftir barni sem jafnast helst á við óþreyju sumra karla eftir boltanum. Er að spá í hvort það hafi verið karl eða kona sem átti hugmyndina að þessari herferð?


mbl.is Ljungberg orðaður við West Ham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsögn - Mogganum ekki samboðin

Fannst alveg óþarfi að nota þessa fyrirsögn bæði í mogganum í morgun (þar sem hún var flennistór) og hér á vefnum, virkar eins og skemmdarverk og leiðindamórall hjá blaðinu. Ég veit um fólk sem er búið að bíða spennt eftir síðustu bókinni og með fyrirsögnum sem þessum er verið að gefa ýmislegt í skin. Finnst þessi húmor fyrir neðan virðingu moggans. 
mbl.is Harry Potter allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðstefna um hönnun manngerðs umhverfis fyrir börn

Mánudaginn 17. september 2007.

Klukkan: 10 – 16

Staður: Purcell room, Soutbank Centre, London
 

Dags ráðstefna, þar sem kynnt verður samtal hönnunar og uppeldisfræði. Áherslan verður á hvernig æskileg gæði rýmis sem börnum er boðið upp á getur verið, þetta er gert með dæmum frá Reggio Emilia, þar sem sagt verður frá samstarfi leikskóla og arkitekta/hönnuða.  Kynningarefni.

Fyrirlesarar: Vea Vecchi, myndlistakona og uppeldisfræðilegur stjórnandi sjónlista í Reggio Emilia, Michele Zini, arkitekt og hönnuður, Mauritzio Fontanili (play +) og John Waldron, arkitekt og ráðgjafi.  Kostnaður: 143 pund. Frekari upplýsinga er hægt að afla hjá ReFocus Network:Margaret@sightlines-initiative.com   www.sightlines-initiative.com    www.studiouk.net


Lagatæknilegur dans

Þessa síðustu daga virðast dómarar vera mjög fastir í tæknilegum atriðum - getur verið að  baugsdómar hafi þessi áhrif - umfjöllun um lagatæknilegar hliðar og útfærslur virðast vera að vefjast eitthvað fyrir dómurum og löggæsluaðilum. Næst þegar ég fer í mátunarklefa og tel mig vera í lokuðu rými, er það hin  vitleysa  hjá mér,  ég er það alls ekki - ég er opnu rými samkvæmt þessu. Hvaða bull er þetta - ef dansað væri fyrir opnum tjöldum væri kannski hægt að segja opið rými en um leið og tjöldin eru felld er búið að afmarka og loka rýminu samkvæmt mínum skilningi. Þessi dómur eins og sumir aðrir undafarna vikur, hlýtur að rata til hæstaréttar.
mbl.is Eigandi Goldfinger og dansari á staðnum sýknuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband