Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Dagur í forsælu

Auðvitað er það stórkostleg upplifun að þurfa að vera í forsælu úti í garði, að taka síesta á miðjum degi hér á Íslandi. Í síestunni notaði ég tækifærið og skypaði til vinkonu í spánskri síestu. Svo kom Sturlubarnið í heimsókn og við skruppum í stútfullan miðbæinn í gönguferð. Allir brosandi og góðir við náungann. Við hittum stelpur í gönguferð með hvuttann Pjakk, svo hittum við líka tvo aðra hunda, Birtu og Sigga. Sturlubarnið var afar upptekinn af þeim öllum. Vildi fá að klappa og svo er hann nýbúinn að uppgötva snjáldrið á þeim. Vil pota í það. Hann fékk líka að pota tánum í lækinn á Ingólfstorgi og gefa öndum í drulluskítugri tjörninni oggu brauð. Hann er líka alltaf jafnheillaður af myndunum af börnunum á Lækjatorgi, hans fyrsta listræna upplifun sennilega. Hann var ekki eins glaður með að sjá galdramanninn á torginu, fór að háskæla.

sturla og amma Sturlubarnið að sýna ömmu fuglana

Sturla og afiVatnið er kalt

Sturla skoða vatniðen spennandi

Sturlubarnið er annars að uppgötva leyndardóm bóka. Að hann getur flett þeim sjálfur og svo á hann svona lyftibók og hann nú er hann hættur að reyna að rífa og lyftir og gáir undir. Ég fjárfesti í fyrra í ódýrri plöstunarvél og nú plasta ég inn fyrir hann myndir og bý til bækur. Ég er búin að plasta inn mynd af kisunni Snata, ef mamma hans biður hann að finna kisu flettir hann fram og til baka og heldur svo stoltur uppi myndinni af Snata.  

Að lokum þá fannst mér ekki mikið til frammistöðu borgarstjóra koma, en hins vegar fannst mér Helgi heldur ekki alveg standa sig nógu vel. Var stundum heldur fljótur að grípa frammí. Mér fannst borgarstjóri líka heldur bláeygur að halda að hann gæti komið og rætt það sem hann vildi en ekki það sem borgarbúar eru að velta fyrir sér. Þ.e. hvernig hann stýrir og tekur ákvarðanir.  


Ofbeldi gegn lýðræðinu

Í ljósi frétta þess eðlis að Hanna Birna hafi náð sáttum við Listaháskólann er forvitnilegt að vita hvort allur borgarstjórnarmeirihlutinn hefur fundið samstarfsflöt með listaháskólanum eða hvort það eru bara sjálfstæðismenn í skjóli framsóknar (sem er reyndar saga til næsta og þarnæsta bæjar). Mér finnst reyndar eins og verið sé að beita lýðræðið ofbeldi með síðustu ráðagjörð borgarstjórans. En það hlýtur að flokkast undir ofbeldi gegn lýðræðinu að setja fólk úr nefndum vegna þess eins að það hefur ekki nákvæmlega sömu skoðun og fyrsti fulltrúi viðkomandi lista. Mér finnst reyndar aumt að sjálfstæðismenn hafi svo bogna sjálfsmynd að þeir dansa með. Öðruvísi get ég ekki séð að varaformannskiptin eigi sér stað.

Í stjórnmálum verður fólk að geta verið stærri en eigið sjálf, það verður að kunna að deila og semja. Það verður að kunna að stundum þarf að fara leiðir málamiðlanna. Það verður líka að læra að velja þær orrustur sem það vill legg allt undir fyrir. Því miður sé ég ekki að borgarstjórinn hafi slíkt á valdi sínu. Því miður.


mbl.is Verðlaunatillaga um Listaháskóla Íslands yfirfarin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættarmót á Eskifirði - veiðimenn og kerlingafleytarar

Um helgina vorum við á niðjamóti á Eskifirði. Ég hafði ekki komið á Eskifjörð í 39 ár og var ekki viss um að rata. Var þó fljót að átta mig og fann strax hús afa og ömmu, hótelið þeirra og barnaskólann, gömlu símstöðina og bryggjurnar sem ég lék mér á sem barn. Ég verð að viðurkenna að allar fjarlægðir voru miklu meiri í minningunni. Mér fannst t.d. órafjarlægð heiman frá ömmu og afa niður að girðingunni þangað sem við sóttum mjólkurbrúsann þeirra á nagla. Já eða út í pöntunarfélag. Nú sé ég að þetta er allt steinsnar. Svona breytist afstaðan með lengd lappanna.

 Sjónarhæð húsið sem afi byggði og matti hræði steypuna í Hótel afa og ömmu 

Gamli barnaskólinn

Á leiðinni til Eskifjarðar fórum við norðurleiðina, gistum á Akureyri hjá vinkonu okkar sem reyndar er ættuð frá Eskifirði (Örnu Valsdóttur), skruppum út á Hjalteyri og fengum okkur kaffi í Bókaval sem heitir kannski Penninn núna og keyptum kjöt á grillið hjá Friðrik og Öddu á Friðriki fimmta. Síðan var lagt austur, stoppuðum reyndar í nokkra tíma við Ljósavatn þar sem Lilló reyndi árangurslaust að ná í fisk.

Eftir nokkur stopp á leiðinni renndum við frá Egilstöðum og beint inn í austfjarðarþokuna. Þokan lá eins og þétt slæða yfir og við sáum vart handa okkar skil. Lilló spurði hvar góða veðrið sem ég svo lofaði fyrir austan væri. Ég náttúrulega fljót til tilkynnti að það væri ekkert að þokunni, hún væri líka stór hluti af austfjörðunum og veðursældinni þar. Það er nefnilega lygnt í þokunni.

Síðasta aftakan á Austfjörðum á Mjóeyri

Þegar á tjaldstæðið við Mjóeyrina kom voru flestir mættir. Fólk í óðaönn að koma sér fyrir. Systkini (helmingur) mín höfðu verið á göngu fyrir austan alla vikuna áður. Búin að búa í tjaldi í viku, orðin nokkuð vön. Þeir sem ekki vildu stunda tjaldlíf gátu fengið leigð frábær smáhýsi. 

Við erum nokkuð dugleg að halda ættarmót, niðjar Kristínar Þorsteinsdóttur og Viggós Loftssonar, gerum það reglulega og venjulega er afar vel mætt. Mæting var þó frekar dræm í þetta sinn vorum um 35. Kannski var fjarlægðinni frá Reykjavík um að kenna. En hvað um það við sem mættum vorum afar ánægð og þótti gaman að vera með foreldrum okkar sem rifjuðu upp æskuárin á Hlíðarenda. Logi bróðir minn sá um skipulagið í þetta sinn og fórst það afar vel úr hendi.  

Efri röð mamma (Kristín), Matti, Doddi, Siggi neðri röð, Valdi, Haukur, Afi Viggó, Fúsi,  Amma Kristín með Tona í fanginu og Unnur við hlið hennar

Amma og afi með hópinn sinn

Lilló skrapp strax niður í fjöru með börnunum og viti menn í fyrsta kasti beit á þyrsklingur hjá sjálfri fiskifælunni, setti það mikið kapp í börnin sem upp frá þessu gerðust veiðimenn. Íris sem aldrei hafði farið í veiði varð undir eins mikil aflakló, náði strax miklu lagi á stönginni og kastinu. Hún veiddi m.a. hina prýðilegustu lúðu sem var grilluð um kvöldið.

´lilló að fixa stöng fyrir börninBaldur með stöngina

sölvi íris og lilló við veiðar

Daginn eftir var farið í bástferð á firðinum, bæði til að skoða og veiða. Fannst börnunum þetta hin mesta skemmtun. Á eftir fóru Mamma og Matti bróðir hennar með okkur í gönguferð um bæinn, sýndu okkur og sögðu frá. Við enduðum á byggðasafninu sem geymir einmitt eldavél langömmu okkar Þuríðar Andrésdóttur.

Gamlar endurminningar rifjaðar uppSteinn þar sem húsið sem langafi minn byggði og mamma og systkini hennar fæddust í 

var það þarnamamma og matti 2

eldavél Þuríðar langömmu minnar af Hlíðarenda (á byggðasafninu)

 

Viggó bróðir minn, Barbara kona hans og gerður systir eru öll áhugafólk  um kajakaróður. Þau höfðu verið að róa hér og þar við austurland og nú voru bátarnir teknir niður. Gerður og Viggó fóru í langan túr og svo kenndi Gerður, Viggó Þór tökin. Mér skilst að  hann hafi smitast alvarlega (reyndar held ég líka að lítið hafi þurft til en það er nú önnur saga). 

Gerður og Viggó Þór kennslagerður pró

Viggó þór á ferðViggó í blautgalla

 

Um kvöldið grilluðum við saman í Randulffssjóhúsi. Þar er frábær aðstaða. Börnin höfðu nóg við að vera og hinir fullorðnu líka. Grjótburður, veiðar, matur, rabb og meira rabb að ógleymdum kerlingafleytingum, allt var þetta ástundað að mikilli list.

Andri Sigfús í fjöru2á meðan Baldur og Óskar páll burðuðust með grjót þá veiddi Sölvi einn

fleyta kerlingum2Hér er fengurinn

lúðan tilbúin fyrir grillVera með Martein

lilló, íris, birta og ingibaldur með stóra á bryggjunni

fleyta kerlingummatti og unnur

Frænkurkarlar grilla

Eftir matinn fórum við niður á Mjóeyri á þann stað sem Eskfirðingar höfðu sín áramótabál á árum áður (og kannski enn), þar var kveiktur varðeldur og sungið við m.a. gítarundirleik Lilló. Sumt kunni hann ekki t.d. lagið sem öll börnin kunna um bahama og vísakort. Við sungum líka Þýtur í laufi en lagið er eftir Dídu (Aldísi Þuríði Ragnarsdóttur) frænku mína. Ragnar ömmubróðir minn var einmitt skólastjóri í Barnaskólanum á Eskifirði á árum áður. 

Tunglið, hólmatindur og Logivarðeldur á Mjóeyrinni þar sem áramótabrennan var þegar mamma ólst upp

Daginn eftir á sunnudegi, fórum við systkinin með mömmu út í Helgustaðarnámu þar sem afi vann áður fyrr. Ég gleymdi því miður að setja rafhlöðuna í myndavélina. Það var gaman að koma að námunni. þegar við vorum lítil var (og er) til silfurberg heima sem við gátum lesið í gegn um. Alveg tær steinn. Svona eins og var notaður í smásjár og fleytti fram þekkingu mann á eðli ljóssins og ljósbroti.

icelandspar_060305 Sifurberg í náttúrusögusafni í London.

 


Þegar krabbi býr með meyju ja eða meyja með krabba

Það er hrikalega erfitt að losa sig við drasl sem maður hefur sankað að sér. Jafnvel skó sem ég hef ekki farið í í rúm 30 ár. En vegna framkvæmda í kjallaranum (já þær eru hafnar) þá hefur undanfarna daga reynt á getu mína til að henda og standast freistingar. Getu til að henda pappírum sem eru í raun vitagagnslausir og ég á öruggleg ekki eftir að líta í, skó, fatnað sem er út úr korti á allan hátt. Svo hef ég þurft að standast þær freistingar að gramsa ekki í pokunum sem Lilló er búinn að úrskurða hending. Hann nefnilega hefur mun hærri stuðul en ég, hlutir sem mér finnast alveg nothæfir og alls ekki hendingur lenda alveg án vandmála í hans pokum. Ég féll aðeins í dag, "bjargaði" svona einum eða tveimur hlutum.

Hér áður fyrr tók Lilló alltaf til í geymslunni þegar ég var ekki heima. Þá hafði hann úrskurðarvald um það sem honum sýndist. Þegar leikföng drengjanna voru búinn að vera x mörg ár í geymslunni tók hann sig til ætlaði að henda þeim. Mágur minn einn kom þá í heimsókn og bjargaði til annarra barna í fjölskyldunni megninu af því dóti. Sjálfsagt hefur þessi tiltektardella hans í geymslunni í áranna rás gert það að verkum að það er enn hægt að þverfóta hér um slóðir.  Mér hefur verið bjargað frá sjálfri mér.

Lilló er eins sjá má meyjan á heimilinu en ég krabbinn, kannski að það útskýri sitthvað. Ja ef maður trúir á slíkt. Reyndar hef ég hann grunaðan um að skipta sér ekki af dótinu ef ég væri með það í kerfi, væri búin að flokka það og helst skrá, þá liði meyjunni á heimilinu sennilega ágætlega með það, vandamálið er að krabbinn er bara ekki nógu skipulagður til slíks. Hann er nefnilega alltaf að hoppa á milli verka (svona eins og að blogga og taka til). Þessi munur á okkur sést líka ágætlega í ýmsu öðru t.d. hvernig við hengjum upp myndir, ég vil ekki mjöggg beinar línur, Lilló vill mjöggg beinar línur. En á endanum blessast þetta nú samt og við komumst á sameiginlegri niðurstöðu.  

En það er best að halda áfram í kjallarnum... hafa auga með kauða ... 

Við tókum við á það ráð í vikunni að setja hér út á stétt kassa með alskins bókum, gömlum og nýjum, íslenskum og erlendum og miða á kassann þar sem við báðum vegfarendur að bjarga sér með bók eða bækur. Það gekk nokkuð vel að losa kassann (við fylltum nokkrum sinnum á), vonum við nú að bækurnar lifi framhaldlífi á nýjum stöðum.  


Hættur þess að drekka kók læt

Í fyrrakvöld skrapp ég út í sjoppu. Þar er líka vídeóleiga, strákurinn í afgreiðslunni fór þegar að spyrja mig hvort ég hafi séð hina eða þessa myndina. Þessi er rosagóð. Góðir leikarar í þessari. En þessi heldurðu að þú viljir sjá hana. Á endanum læt ég tilleiðast og tek eina, skila henni reyndar óséðri. Svo kom að meðlætinu, "ég ætla að fá tvo lítra af kók læt" segi ég. "Ertu viss um að þú viljir ekki venjulegt kók, það er miklu hollara". "" segi ég "ætla að hafa það læt" "En veistu ekki að þýskir vísindamenn er búnir að rannsaka og sanna að það er óhollara að drekka kók læt með fullt af gerviefnum en að vera í New York í viku". Ég horfi alvarlega (en glottandi inn í mér) framan í piltinn og segi." Já en það er tölfræðilega ekkert hættulegt að búa í New York í viku."  "Viltu kvittun?"

Mundi eftir þessu þegar ég las um hættur þess að búa í Reykjavík.   


Frítt í strætó að fordæmi Akureyringa

Á tímum þegar verðið á olíu og bensíni stígur hratt og mun hraðar en tekjur fólks sjást ýmsar breytingar á atferli fólks. Á dögum eins og 17 júní og Menningarnótt hef ég pirrað mig yfir þeirri áráttu úthverfabúa að þurfa endilega að taka stóru jeppana sína (helst upphækkaða) og skreppa með fjölskylduna í miðbæinn. Í miðbænum vilja þeir svo leggja sem næst Lækjargötu, helst upp á gangstétt fyrir utan gluggann hjá mér eða nágrönunum. Kannski væri mér sama nema að þetta skerðir dagsbirtuna hjá mér verulega, útsýnið hjá mér verður ekkert nema svartar rúður bílanna. Vel að merkja það er hægt að leggja þremur jeppum fyrir utan stofugluggann minn. En síðasta 17. júní fann ég breytingu, það voru  örfáir jeppar á ferð, (svona miðað við venjulega), fyrir utan gluggann hjá mér lögðu 5 smábílar og það varð ekki skuggsælt í stofunni.   

Ég held líka að nú sé færi til stærri breytinga. Strætisvagnar Reykjavíkur ætla að bjóða út hluta af starfsemi sinni. Í tengslum við það útboð hafa m.a. komið fram tölur um hvað kostar að reka kerfið til 10 ára. Inn í þær tölur er sennilega ekki tekinn neinn sparnaður af minnkandi álagi af gatnakerfi ef fleiri fara að nota strætó, það er örrugglega ekki reiknað út hvað koltvísýringsútblástur okkar minnkar ef fleiri nota strætó, það er örugglega ekki reiknað út hvað vöruskiptajöfnuður við útlönd lagast við færri innflutta bíla og minni innflutning á bensíni ef fleiri nota strætó. Ég held að nú sé lag fyrir borgaryfirvöld (og auðvitað líka hin sveitarfélögin sem eru í strætósamlaginu) að fara að fordæmi Akureyringa og hafa frítt í strætó fyrir alla.

Ég held að einmitt nú séu hagstæðar aðstæður, það fari saman, þjóðfélagsástand og hugmyndafræði sem gerir slíka tilraun mögulega.


Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Hvað er betra á góðum degi en að verja honum með fjölskyldunni. Það er nokkuð langt síðan ég fór síðast í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Í dag fórum við þangað. Garðurinn er staður margra tækifæra. Tækifæra til þess að prófa nýja hluti, tækifæra til að vera saman með fjölskyldunni, tækifæra fyrir börn að hitta önnur börn, nálgast þau og tala við þau. 

Allt þetta fékk Sturlubarnið að prófa í dag. Hann sá og snerti dýr sem hann vissi ekki einu sinni að væru til, hann fékk að skríða um og rannsaka umhverfið, hann fékk að fara í hringekju og í litlu lestina. Með honum var frækna hans hún Diljá og líka Guðmundur Páll vinur minn. En myndir segja meira en mög orð og læt ég nokkrar fylgja með.

Eitt samt. Það væri í lagi að hafa tækin í betra lagi, litlu bílarnir voru rafmagnslausir, allar gröfur rafmagnslausar og allt of fári bátar á vatninu. Sá allavega tvo liggja óvirka á bakkanum. Svo fékk ég tækifæri til að líta í vísindatjaldið, þar er margt skemmtilegt og vel útfært.

DSC00492DSC00494DSC00505 DSC00500DSC00502

DSC00507DSC00520DSC00522DSC00527DSC00519DSC00528DSC00530DSC00531DSC00532DSC00533  DSC00535 DSC00537

DSC00538

DSC00540

 og hér má sjá Sturlubarnið alveg búinn á því eftir langan og skemmtilegan dag með mömmu, pabba, Svavari afa, Pöllu ömmu, Hinna frænda, Hörpu og uppáhaldsfrænkunni henni Diljá, og svo auðvitað Guðmundi Páli og ömmu Kristínu. Lilló afi var að vinna og missti af öllu saman.  


Eins og svarthol í skammdeginu

Litir og birta hafa mikil áhrif á líðan margra, þ.á.m. mína. Litur sem er í lagi á björtum sumardögum verður eins og svarthol í umhverfinu í myrkri, rigningu og skammdegi. Mér finnst t.d. húsið á Lækjartorgi sem merkt er gestastofa allt í lagi núna, en ég held að að verði skelfilegt í haust og vetur. Stundum held ég að fólk gleymi að skammdegið er langt á Íslandi. ég vona að Blönduósingar hafi ráð á að lýsa kirkjuna upp í hvert sinn sem ljósmagn fer niður fyrir ákveðið stig svona til að draughræddar manneskjur þori framhjá henni.

Gamli skólinn í forgrunni en nýja kirkjan í bakgrunni


mbl.is Kirkjan dökknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrollvekjandi mynd af hegðunarskólum

Áðan svissaði ég yfir á DR 2 og lenti á mynd um hegðunarmótunarskóla (WWASP) í Bandaríkjunum fyrir unglinga 12 -18 ára. Eigandi þeirra er mormóni sem segist byggja starf sitt á á Skinner og Guði. Eigandinn hefur rakað saman milljónum. Skólarnir (ef kalla á svona stofnanir skóla) eru um öll Bandaríkin og nokkrum öðrum stöðum þar sem lög um börn eru e.t.v. ekki sterk s.s Jamica og Costa Rica.

Á vefnum er að finna fjöldann allan vefsíða fólks sem hefur verið í þessum skólum og telur þá vera kúlt. Þar eru sjálfshjálparsíður og aðvaranir til foreldra. Merki sem foreldrar eiga að taka alvarlega s.s. ef barnið þeirra má ekki tala við það einslega, eða læknishjálp er ekki á staðnum eða að... listinn er langur. Aðrir þakka guði fyrir að hafa fundið þessa skóla, þeir hafi bjargað fjölskyldum þeirra.

Málaferli hafa verið í gangi gegn skólunum. Vegna, ofbeldisbrota af ýmsu tagi, meðal þeirra líkamlegar refsingar og kynferðislegt ofbeldi. Einn fyrrum starfsmaður lét þau orð falla að þegar hún hafi heyrt lýsingar frá Abu Grail fangelsinu, hafi það minnt hana á vinnustað sinn. Um hana hafi farið hrollur. Önnur sagði við töluðum aldrei um þetta, þá hefðum við misst vinnuna. best að þegja og þá er eins og ekkert hafi gerst. Heimildarmyndin fylgdi eftir málaferlum móður sem átti að neyða til þagnar um það sem hún upplifði í skóla sem hún sendi drengina sína í, í góðri trú. Vel að merkja hún vann, það er ekki hægt að banna foreldrum og börnum að ræða um reynslu sína opinberlega. Ekki einu sinni þó því sé borið við að aðferðafræðin sé viðskiptaleyndarmál.

Aðaleigandi skólanna var einn aðal fjáröflunarmaður repúblikanaflokksins í Utah, aflaði 2,7 milljón dollara í kosningarsjóði þeirra.  Í fyrra varða hann að segja af sér sem einn aðalstjórnandi fjáröflunarhóps Romney "langar til að verða" forsetaframbjóðanda. Uppi voru getgátur um að Romney yrði að skila öllu fénu, gæti ekki haft svona lík í lestinni sinni.

Eftir að hafa horft á heimildamyndina sem að hluta var tekin með földum vélum inn í skólanum og lesið mér til á vefnum setur að mér hrollur. Minnti mig á heimildarmynd um ofurkristnu skólana sem sýnda var í sjónvarpi hér í fyrra.    

Að lokum BANDARÍKIN og Sómalía eru einu ríki heims sem ekki hafa treyst sér til að skrifa upp (USA fullgilda) á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.


Ljósmyndaáhugi Sturlubarnsins

Ég var víst búin að gleyma því að ég var ráðin sem sérstakur upplýsingafulltrúi Sturlubarnsins, foreldrarnir gerðu það að mér óspurðri. Tilkynntu mér að vegna eigin leti hefðu þau afráðið að mér bæri mér að sjá um að halda uppi fréttum af honum fyrir ættingja um víða veröld. Langa færslan hér á efir er til að ég verði ekki rekin fyrir að standa mig ekki í stykkinu.

Í dag kom Sturlubarnið í smá heimsókn, átti að sofa allan tímann en reif sig upp eftir tæpan klukkutíma. Vissi sem var að hann fengi fulla þjónustu. Við vorum reyndar með hann í göngutúr svo að pilturinn fékk að setjast upp í vagninum. Hann horfði á fólkið og hló. Nú er hann nýbúinn að fatta að bretta upp á efri vörina og fitja aðeins upp á nefið þegar hann brosir og okkur finnst það svo fyndið að við hlæjum. 

Sturlubarnið er nú ekki enn farinn að sleppa sér, fer í varlega könnunarleiðangra meðfram öllum húsgögnum og veggjum ef því er að skipta. Hann er líka búinn að uppgötva að sumstaðar hanga myndir sem hann hefur áhuga á neðarlega á veggjum. Hann er mjög upptekinn af ljósmynd af okkur systkinum frá því að við vorum smábörn. Hann sýnir henni sömu viðbrögð og þegar hann  kemur auga á hund, kött eða þegar hann sér börn, hann kætist allur og fer að iða. Líka þegar hann sé börn á mynd. Þegar hann nær myndinni af okkur reynir hann sitt besta til að koma henni á gólfið. Annars klappar henni bara svolítið harkalega. 

Í dag fór ég og náði í lítinn dráttarvélarvagn úr tré. Hann er síðan strákarnir voru litlir. Vagninn er með bandi og þó að Sturlubarnið vilji ómögulega sýna hvað hann er stór, tók hann svona hálfa mínútu að fatta að kippa í bandið og þá kom vagninn, aftur og aftur, höndin meira að segja sett aftur fyrir öxl til að ná betra togi og sveiflu. Ég held að þetta með að sýna hvað hann er stór, honum finnist það frekar heimskulegt. Miðað við hvað hann hefur gott verkvit að mati ömmunnar ætti hann að ná þessu. En ég held að hann sjái bara ekki tilgang. Mamma hans ætlar samt ekki að gefast upp, ætlar að kenna honum þetta. Keppnismanneskjan í henni kemur fílefld fram. Hann á að ná þessu, en hann kann að gefa fimm, náði því eins og skot.  

Nú fetar hann sig meðfram öllu líka borðum sem eru í hans hæð. Ef hann sér glitta í bók reynir hann sitt besta til að ná í hana. Í dag reyndi hann að ná í bók af sófaborðinu í sjónvarpsherberginu, sinnti engu mun áhugaverðari leikfangi sem hann átti þar. Afi skildi ekkert af hverju hann reyndi ekki að ná í dótið, ég sagði að það væri af því að hann vissi innihald bókarinnar, hún fjallar um rannsókn á yngstu börnum leikskólans. Er einmitt byggð upp á lýsingum á því sem börn eru að gera og túlkun á því. Höfundurinn er að nota nýstárlega aðferð til að gefa börnunum rödd. Annars getur Sturlubarnið núna fært hluti á milli handa þegar hann stendur, ef hann þarf að ná á þeim betra taki og ef hann þarf að setjast. Hann getur nefnilega alveg staðið óstuddur. Í dag þurfti hann að leysa það að setjast niður með bókina. Til þess varð hann fyrst að koma henni á milli handa, styðja sig við borðið, fara niður á hnén og þaðan í sitjandi stellingu. Auðvitað kláraði hann þetta, verkvit segi ég. Vona samt að hann láti bókahilluna vera, enn um sinn. Nóg að tæta þar. 

Ég verð að viðurkenna að mér finnst gott að sjá hvað hann er varkár í að taka fyrstu skrefin. Hann er reyndar farinn að leggja í könnunarleiðangra hér hjá okkur. Skreppur fram þó enginn sé þar. Búinn að uppgötva hurðina inn á kló. Meira að segja farinn að sýna stigagatinu áhuga. Held reyndar að það tengist því að oft þegar hann kemur er afi niðri og Sturlubarnið á vona á að sjá hann koma upp tröppurnar. Þegar hann kemur inn kemur hann alltaf brosandi í fangið á mér en lítur svo fljótlega í kringum sig. Lítur þá gjarnan í áttina að stiganum, niður.  

Við keyptum hókus pókus stól um daginn, nú situr hann þar stundum og fær cerios hringi, það er svolítið síðan hann náði valdi á pinsettugripi á annarri hendi nú hefur hann náð því á báðum. (Pinsetta - að grípa með þumalfingri og vísifingri) og getur raðað ceriosinu, já eða brauðinu upp í sig. Hann er matargat hið mesta og ég held að uppáhaldsmaturinn hans sé bíójógúrt með mangóbragði. Alla vega þegar hann er hér. Jæja, ætli þetta fari ekki að verða nóg af ömmumonti í bili og starf upplýsingafulltrúans hlýtur að vera öruggt enn um sinn.    


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband