Hver hefur vald til að breyta innan leikskólans? Um uppeldisfræðilega skráningu

Hvað er þessi uppeldifræðilega skráning?

 Uppeldisleg skráning er þýðing á orðunum pedagogisk documentation. Gunnilla Dalhberg hefur er sú fræðikona sem hefur skrifað einna mest um bakgrunn og heimspeki uppeldislegrar skráningar utan Ítalíu. Árið 1999 kom út bókin Beyond Quality in Early Childhood in Postmodern Perspective eftir hana, Peter Moss og Alan Pence. Í bókinni er fjallað um uppeldislega skráningu sem leið að til að skilja nútímabarnið. Hér er gerð grein fyrir nokkuð af þeim hugmyndum sem þar birtast.   

Að auka skilning

Uppeldislegri skráningu er fyrst og fremst ætlað að auka skilning á hvað er um að vera í leikskólanum, í starfinu. Henni er ætlað að sýna, um hvað barnið er fært, hvað í raun býr í því. Án þess að verið sé að meta það eða mæla við fyrirframgefna staðla. Mikilvægt er að hafa í huga að uppeldisleg skráning er ekki og á ekki að vera atferlisathugun. Tilgangur atferlisathuganna er að athuga hvort og hvernig að barnið stendur m.t.t. ákveðinna staðla eða þess sem er talið NORMALT, einhverra fyrirframgefinna stærða. (t.d. á þriggja ára barn að vera farið að halda sér þurru. hoppa, komin með svona mörg orð og svo framvegis). Það er ekki hlutverk skráningar að skoða þetta. Þó að auðvitað geti skráningin leitt slíkt í ljós, þá er það ekki markmið hennar. 

Samkvæmt póstmódernískum hugmyndum er skráningunni ekki ætlað að vera beinn fulltrúi eða sönn mynd þess sem barnið segir og gerir, skráningin er ekki heilagur sannleikur um starfið. Heldur sýnir hún okkur einn sannleika, nefnilega þann sem við skynjuðum. (en þar með er enginn sem getur sagt að hann hafi verið sá eini rétti). 

Með skráningu er ímynd leikskólans skýrð og starfið er gert sýnilegt. Hún er samtímis leið fyrir leikskólakennarann til að kynnast hverju barni og hvernig það tileinkar sér þekkingu. Skráning er bæði ferli og innihald, þegar að rætt er um uppeldislega skráningu er alltaf verið að ræða um hvorutveggja. 

 

Að nota uppeldisfræðilega skráningu sem tæki til að þróa starfið

Það sem eftir er af umfjölluninni byggir á kafla í bók Hillevi Lenz Taguchi – documentation som pædagogisk refleksion, dönsku útgáfunni frá 2000.  Uppeldisfræðileg skráning er bæði tæki til samskipta og hún er leikskóla lífstíllHillevi segir að með því að taka upp uppeldisfræðilega skráningu sem vinnutæki/aðferð þá sé það ekki spurning um að breyta úr einni aðferð í aðra. Það snúist ekki um að breyta stjórnun, eða það að eftir að hafa gert fáeinar skráningar á þemum geti maður sagt "ég vinn í anda Reggio". 

 

Að spora brautina

Málið snýst um að nota tækni sem hefur verið þróuð í Reggio Emilia til að spora braut. Leggja braut fyrir stöðugt þróunar og umbreytingarstarf. Skráninga-vinnan getur gefið upplýsingar um hvar við stöndum núna. Hvert er viðhorf til barna, náms, starfsfélaga, fjölskyldna og svo framvegis. Í leiðinni þá gefur skráning upplýsingar um hvað börnin geta, hvernig þau hugsa og hvernig þau nema.

 

 

Uppeldisfræðileg skráning er hluti af námsferli

Þannig er hægt að nýta sér skráningu sem hluta af námsferli, bæði leikskólakennarans og barnsins. Ferli sem aldrei lýkur. Það er sem sagt ekki neitt eitt lokamarkmið með starfi í þróun heldur er á þetta að vera sífelld virkni. Við segjum kannski á stundum á við séum að fylgja barninu eftir með skráningum – en í rauninni er það ekki rétt – við verðum að vera samferða í þessari ferð. Ganga samstíma barninu í námsferlinu.  Í praxís má segja að þetta merki að vera sporinu á undan barninu – eða eins og Valborg orðaði varðandi leikinn þegar hún fjallaði um Vytgoskij “að vera höfðinu hærri”. Hillevi bendir á að mikilvægt sé að ekki sé litið á barnið og bernskuna rómantískum augum. Ef það er gert má segja við séum komin til baka á tíma Rossueau og rómantíkurnar. Við verðum þess í stað að líta á þann fullorðna sem tekur ábyrgð á virku, skapandi þróunarstarfi. Þar sem barnið eins og hinn fullorðni, tekur virkan þátt í nýsköpun. Barnið er hvorki ekki valdalaust og skoðanalaust peð. Það tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu.

 

 

Að þróa starfið frá botni og upp – að sigrast á hefðunum

Hillevi vill alls ekki líta þröngum og hefðbundnum augum á þróunarstarf, telur að ef það er gert þá sé hættan að utanaðkomandi segi fyrir – það sé topp niður módel. Hún bendir líka á að innan skólakerfisins höfum við löngum átt það til að skilja á milli yfirmarkmiða (opinberu námskránna) og þess sem gerist í raun og veru (lifaða námskráin). Hún bendir á trú manna  á að markmiðsetning og tilskipanir á efsta þrepi hafi áhrif á gólfið – í raun sýni rannsóknir að slíkt sé erfitt, það sé erfitt að fara gegn því módeli sem fólk er að vinna eftir.

 

 

Það sem situr í veggjunum 

Í leikskólum skapast oft mjög sterk menning og starfshefðir  sem byggja á hefðum og vinnuaðferðum sem hafa þróast á viðkomandi stað. Hún tilgreinir rannsóknir sem sýna fram á að þrátt fyrir að reglugerðir og tilskipanir breytast, breytist frekar lítið innan leikskólans. Hún veltir fyrir sér hvernig geti staðið á því.  Hún vísar m.a. til doktorsritgerðar Bo Henckel  þar að í viðtölum við leikskólakennara komu fram lýsingar á tölvuverðum fjölbreytileika í vinnuaðferðum og starfsháttum en þegar starfið sjálft var skoðað kom fram frekar lítil munur. Þannig kom fram að þær hefðir sem réðu ríkjum í skólum voru sterkari en kannski ný kunnátta sem fólk kom með. Sem dæmi geta nýir leikskólakennara velt fyrir sér hvernig þeirra þekking og reynsla kemur til með að hafa áhrif inn í þann starfsmannahóp sem fyrir er. Hvort að það sem situr í veggjunum verði áhuga og vilja til breytinga yfirsterkar? Því má líka velta fyrir sér þegar leikskólar segjast taka upp hina og þessa stefnuna hverju það í raun breytir. Ef þið horft er til þess sem póststrúktúralistarnir segja um áhrif tungumálsins – er ekki nóg að breyta sínum eigin orðaforða og hugsunarhætti heldur verður líka að skora á og taka umræðuna upp við barnahópinn. Ögra staðalmyndum og takast á við viðteknar hugmyndir.

 

 

Hvorki né eða bæði og

Hillevi fjallar svo um rannsókn sem var gerð á meðal norskra leikskólakennara þar sem þær fóru inn í grunnskólann með áður elstu börnunum leikskólans (fyrir nokkrum árum fóru 6 ára norsk börn fóru inn í grunnskólann). Þar kom fram að ekki varð til sambræðingur eða bæði/og leikskóli og grunnskóli, heldur annaðhvort. Annað hvort líktist bekkirnir hefðbundnum grunnskóla eða hefðbundnum leikskóla. Hillevi veltir upp spurningunni, hvernig er eiginlega hægt að breyta undirstöðu eiginn skilnings eða á því á hverju skoðanir um hvað felist í starfinu eru byggðar.

 

 

Hvaða leið er fær?

Hillevi spurði sjálfa sig að: Hvernig get ég öðlast skilning á vanabundna starfinu mínu – og þeim munstrum sem ég hef komið mér upp þar?  Hvernig get ég túlkað þau merki sem er að finna í starfinu? Hvað merki er ég að gefa börnunum þegar ég t.d. bið það um að gera leirkarl? Hvað leiðir get ég farið til að gefa starfinu og sjálfri mér nýja merkingu?

 

 

Uppeldisfræðileg skráning

Uppeldisfræðileg skráning er sameiginlegt verkefni sem byggir á sameiginlegir ígrundun. Hillevi telur að með því að beita þessu tæki sem skráning er sé hún nær svarinu en ella. Vegna þess að uppeldisfræðileg skráning byggir á að skoða frá botni og upp. En hún bendir líka á að skráning sé ekki jafneinföld og hún virðist við fyrstu sýn. Hún sé sameiginlegt tæki, milli barna, starfsfólks og jafnvel foreldra. Og byggir á þeirri hugmynd að virk, stöðug ígrundun sé eina leiðin til að raunverulega breyta starfsháttum.

  

Hún bendir á að í Reggio sé markmiðið að allir séu þátttakendur í mótun uppeldisstarfsins – börnin – starfsfólkið – foreldrar – pólitíkusar – fólkið í bænum og svo framvegis. Að litið er á leikskólann sem stað þar sem lýðræði á sér stað og stutt er við lýðræðið.

  

Annað sem hún bendir á er að í Reggio  þá tekur þróunarstarfið ekki bara mið að því sem er að gerast í praxís, heldur líka í kenningum. Hún vitnar til Gunnillu Dahlberg sem segir að mikilvægast sé að gera sér grein fyrir bæði því sem er næst og fjærst. Með uppeldisfræðilegri skráningu er okkur gert kleift að vera mjög nálæg, ofan í efninu en samtímis líta á það og ígrunda með fjarlægari augum kenninga.   

  

Valdið kemur því að hennar mati hvorki alfarið ofan eða neðanfrá  heldur frá báðum (og því til stuðnings notar hún kenningar Foucaults um valdið).

 

 

Orðræðan um frjálsa barnið

Hillevi fjallar um sögu leikskólans og áhrifum hennar á nútímann – gerir samanburð a leikskólahefðum í nokkrum löndum. Hún fjallar síðan m.a. um áherslur Ölfu Myrdal sem byggðu á sálfræðinni og hvernig hún fór að því að setja guð og föðurlandið út úr leikskólanum sem æðstu gildi og kom þess í stað inn félagslegum og siðferðilegum og umfram allt sálfræðilegum gildum (í Fröbelskólunum er það guð og föðurlandið að hluta). Hillievi fjallar svo um hversu mikilvægt var fyrir leikskólann að aðskilja sig hugmyndafræðilega frá grunnskólanum. Þetta hafi skapað orðræðuna um frjálsa og skapandi barnið. Þar sem frjáls leikur og skapandi starf gaf barninu tækifæri til að þroska persónuleika sinn öfugt við þá starfshætti sem tíðkuðust í grunnskólanum.

Skipulag hefur áhrif á mönnun leikskóla

Hillevi fjallar um það hvernig skipulag leikskóla styður ákveðin vinnubrögð og mönnun. Hvernig leikskólar sem eru byggðir upp sem verkstæði krefjast t.d. færri starfsfólks en þeir sem eru byggðir eru upp sem heimili – má af gamni benda á að þegar ákveðin uppbygging á sér stað í Reykjavík um miðjan  sjöunda áratug síðust aldar lætur Guðrún Erlendsdóttir (mbl 1966) þáverandi nefndarkona barnaverndarnefndar borgarinnar hafa eftir sér að stefnan sé að leikskólar “líkist einkaheimilum sem mest” (og sjáið hvaða nefnd hafði með leikskólann að gera) í viðtali við Moggann sögðu nýútskrifuðu leikskólakennararnir að hlutverk sitt væri “að vera börnunum sem móðir”. ( Mbl 1967)  Þannig að þið sjá má að sama umræða átti sér stað hérlendis og átti sér stað í Svíþjóð. 

 

Hver hefur valdið?

Samkvæmt skilningi Foucault þá höfum við alltaf vald, sem við getum veitt öðrum eða valið að stjórna sjálf. Í því felst að við ráðum því hvaða leið við veljum til að ná eða öðlast skilning um okkur sjálf og það umhverfi sem við hrærumst í. Í gegnum um uppeldisfræðilega skráningu getum við tætt af okkur ytri-lögin, flysjað okkur inn að kjarna. Við getum borið kennsl á og gert sýnilegt það sem stjórnar okkur, þ.e.a.s. þeim meginhugmyndum sem við störfum eftir og við látum stjórnast af. Hugmyndir sem við látum stjórna því hvernig við sem leikskólafólk vinnum og hvernig við störfum með börnunum.

 

Skráningin getur opnað glugga fyrir okkur gert okkur kleift að sjá hvernig í raun við erum og störfum. Hún gerir okkur kleift að breyta, eða finna andstæðurnar í okkur sem e.t.v. gerir starfið eftirsótt og ánægjulegt fyrir okkur bæði siðferðis, og fagurfræðilega. Við vöxum og þroskumst í starfi.

 

En það er líka vegna þessa valds sem við höfum yfir eigin sjálfi að við lendum í vandræðum með að breyta okkur sem og  starfsháttum og hugmyndum. Við höfum jafnvel lært að eitthvað sér rétt, satt og fallegt en nú stöndum við jafnvel frammi fyrir því að skora þær hugmyndir á hólm, vilja losna við þær. Þetta er líka erfitt því að auðvitað verðum við að sætta nýjar og gamlar hugmyndir inn í okkur og mynda úr þeim eitthvað sem vonandi stærra.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband