Aðlögun barna í leikskóla

Aðlögun Sturlubarnsins og foreldra hans að leikskólanum gengur vel. Hann kveður brosandi og fagnar þeim brosandi. Við fórum og sóttum hann á föstudag og fengum að vita að þær hefðu varla heyrt hann gráta. Eina vandamálið er að venja hann við hinn íslenska heimilismat, en ég held að það sé leikskólamaturinn nú til dags. (Hvar annarstaðar er soðin ýsa með kartöflum og smjöri, kjötbollur í brúnni sósu, slátur og kartöflustappa, lifur með lárviðarlaufi og kjötsúpa á mánaðarmatseðlinum?) Mér skilst þó að þetta með hafragrautinn sé að koma hjá drengnum.

Ný aðferð við aðlögun 

Talaði annars við unga vinkonu mína sem er leikskólakennari í Svíþjóð í gær, hún sagði mér að nú sé þar víða verið að taka upp nýtt aðlögunarkerfi fyrir yngstu börnin (og hin). Það felst í því að allt að 10 foreldrar og börn mæta saman í leikskólann. Foreldrar eru svo með sínum börnum næstu þrjá daga allan tímann, ekkert verið að skreppa fram í kaffistofu eða slíkt (svona eins og víða er gert). Foreldrar sinna sínum börnum skipta á þeim og gefa að borða og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn setur út verkefni (gerir kannski skráningar). En á fjórða degi koma börnin að morgninum og kveðja og eru svo allan daginn. Punktur.  Einstaka börn hafa foreldra sína fjóra daga en mér skyldist að þau séu fá. Í lok ágúst er svo allri aðlögun lokið. En í leikskólanum er aðlögunartíminn oft gríðarlega erfiður. Bæði fyrir börn og starfsfólk. Oft er mikið grátið og þá þarf sterk bein hjá starfsfólkinu. Vinkona mín segir mér að þetta kerfi sé almennt að ryðja sér til rúms í Svíþjóð og það sé mjög mikil ánægja með það. Allt vetrarstarf hefjist fyrr og álag á börn, foreldra og starfsfólk sé minna.

Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Líðan þeirra skili sér svo þegar þeir ræða við barnið um leikskólann og þegar þeir koma og kveðja barnið.

Lítil reynslusaga 

Ég man eftir leikskólastjóra í einum leikskóla fyrir mörgum árum. Þar var barn sem grét og grét og kveðjustundin var endalaust dregin á langinn. Barnið var kjökrandi og foreldrar nánast líka. Starfsfólkið var farið að fá kvíðahnút í magann þegar það sá barnið birtast vitandi að þá tæki við langt sársaukafullt ferli. Leikskólastjórinn sá að svo gat ekki gengið lengur og kallaði foreldrana á sinn fund. Hún sagði mér að hún hefði bara spurt þau hreint út hvort þau vildu að barnið væri í leikskólanum. "Jú jú" sögðu foreldrarnir. "Treystið þið okkur" spurði hún, "Já, já" sögðu foreldrarnir.  Jæja sagði mín kona þá, "hvernig væri að þið færðuð að haga ykkur í samræmi við það".  "Það eruð þið og hegðun ykkar sem er vandamálið ekki barnið". Það eruð þið sem segið; "ææi, greyið nú verðum við að skilja þig eftir, við sækjum þig eins fljótt og við getum". Þú þarft nú ekkert að vera langan dag í dag." Með þessu eruð þið að senda barninu ykkar skýr skilaboð". Foreldrarnir hrukku víst í kút og urðu jafnvel soldið foj. En svo hugsuðu þau málið og  strax á næstu dögum breyttist þeirra afstaða og barnið kom glatt og fór glatt. 

Þetta er svona lítil reynslusaga í pottinn, ég hef reyndar alltaf dáðst að þessari nálgun viðkomandi, ég er ekki viss um að ég hefði treyst mér svona beint í hana sjálf. En eftir stendur að hún skynjaði hvar vandinn lá og hafði í sér að taka á honum.

Jæja best að fara að klára undirbúning fyrir Noregsferð, er á leið á samevrópska leikskólaráðstefnu þar sem ég á örugglega eftir að heyra margt merkilegt.  Lilló verður hér og heldur utan um framkvæmdir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halló, hvernig ganga framkvæmdir? Góða ferð til Noregis og góða skemmtun.

Líst vel á þessa hugmynd Svía um aðlögun.

kveðja,Síta

Síta (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 13:00

2 identicon

Sæl og takk fyrir innleggið

 Spurning um að skoða þessa aðferð hjá Svíum - við ætlum að endurskoða aðlögunarferlið okkar á morgun

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 18:16

3 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Sæl Kristín. Þetta sænska aðlögunarferli er afar áhugavert. Góða ferð á ráðstefnuna - ég hlakka til að lesa um það sem helst vekur áhuga þinn þar, að ferð lokinni.

Ingibjörg Margrét , 3.9.2008 kl. 20:10

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sælar allar, hitti íslenska hópinn áðan, voru allar glaðar. Ég verð hér með eitt erindi og eitt veggspjald. Erindið er um nýfrjálshyggju og lýðræði í leikskólum á Íslandi og veggspjaldið um, tengsl Vísindasmiðju á vetrarhátíð við námskeiðið vísindasmiðja og hugmyndafræðina á bak við það. Bæði mín erindi verða á morgun og svo get ég glöð fylgst með öllu öðru sem ég hef áhuga á.

Já mér líst vel á að við skoðum sænski aðlögunarleiðina. Svava hafðu samband við Önnu Lindu, hún getur örugglega frætt þig um þetta allt í smáatriðum. Fannst ég verð að deila henni með ykkur.

Kristín Dýrfjörð, 3.9.2008 kl. 20:30

5 identicon

Mjög áhugavert þetta með aðlögunina. Alveg tími komin að skoða þetta betur, við erum t.d að aðlaga 20 börn á eina deild þetta tekur sinn tíma, ekki bara það þá er stundum mikill grátkór þegar næstu 4 eða 5 koma inn og koll af kolli. Mjög áhugavert að lesa bloggin þín.

Þóra Jóna (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 00:01

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl Þóra Jóna, ég hitti einmitt leikskólakennara í gær sem sagði mér að leikskóli sem hún tengist ætli að skoða þetta alvarlega. Ég þekki þetta alveg með álagið á litlu deildunum á haustin. Vann á einum fyrsta ungbarnaskóla Reykjavíkurborgar (Hlíðarenda) fyrir meira en tveimur áratugum, þá nýútskrifuð fóstra. Veit að einhverjar ætla að setja sig í samband við Önnu Lindu, svo er örugglega hægt að gúggla þetta á sænsku. Fá það sem þeir hafa verið að skrifa um málið. Held samt í þeirra huga hljóti kostirnir að vera miklu fleiri en mögulegir gallar. Annars væri þetta ekki að verða bæði vinsælt og útbreidd aðferð. En ef einhver prófar hér væri afar áhugavert að fá að heyra af því. Endilega að senda mér línu.

Kristín Dýrfjörð, 10.9.2008 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband