Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Leikskólakennarar þurfa að muna að setja súrefnisgrímuna á sig

Fækkun leikskólakennara hjá borginni um 2% er gríðarlega alvarlegt mál fyrir leikskólana þar. Því miður get ég ekki sagt að mér komi þessar tölur á óvart og er ein þeirra sem hef bent að þessi þróun væri í farvatninu. Ef borgin ætlar að snúa þróuninni við verður hún að vinna í vinnuaðstæðum starfsfólks. Fólk sem vinnur við vondar aðstæður ár eftir ár og þegar á ofan bætist lítil sem engin nýliðun leikskólakennara á sér stað, það verður vonlítið í starfi, álagið sligar það og starfsfólk verður auðveldari bráð allra umgangspesta. Álagskennd veikindi fara líka að hrjá það. Bæði börn og starfsfólk eiga betra skilið.

Tölurnar ganga ekki upp - aðgerða er þörf

Mér hefur ítrekað verið hugsað til þeirra talna sem fjármálastjóri menntasviðs borgarinnar tók saman og ég fjallaði um nýlega. Þar kemur t.d. í ljós að leikskólastjórar þurfa að að hafa til starfsfólk fyrir rétt tæpa 2000 tíma fyrir hvert barn á móti tæplega 1000 tímum í grunnskólanum. Tími barnanna hefur aukist á síðustu 8 -10 árum. Þyngslin hafa orðið meiri. Húsæðið betur nýtt (ofnýtt), fermetrarnir orðið færri og á síðustu tveimur árum hefur verið hert á starfsmannamálum og t.d. dregið úr afleysingum. Það er líka ágætt að hafa í huga að í leikskólum kemur ekki inn afleysing fyrir kaffitíma starfsfólks, þannig er meðalbarnið 8,2 tíma á deildinni sinni en starfsfólk er 7,25 tíma.

Undirbúningstímar þurfa að verða heilagir 

Í grunnskólum er undirbúningstími kennara heilagur, þó það vanti fólk í skólavistina þá hlaupa kennarar ekki til (mér vitanlega) og leysa upp á von og óvon um að fá undirbúningstímann sinn þegar betur stendur á. Ég hef hinsvegar heyrt foreldra í leikskólum kvarta undan fundartíma starfsfólks - yfir því að fólk fari í undirbúning. Hvort það sé ekki tímasóun og tímaum betur varið með börnunum. Ég held að það sé nokkuð algengt að það sem víkur fyrst af öllu í flestum leikskólum þegar stefnir í mannahallæri eru réttindi starfsfólks.

Súrefnisgríman er fyrst sett á fjölskyldur og börn - svo starfsfólkið 

Ég er þeirrar skoðunar að þegar þarfir starfsfólks eru ávallt látnar víkja fyrir þörfum annarra sé það eins og að setja grímuna fyrst á barnið og svo á sjálfan sig í fluginu. Ef flugið fer niður er sá sem fyrst hugsar um barnið og svo um sig líklegri til að verða barninu að meira ógangi en gangi í reynd. Ef starfsfólk leikskóla fer ekki að hugsa um eigin hagsmuni er hætt við að það fari eins um það og þá í reynd leikskólann og börnin sem þar eru. Leikskólakennarar verða að fara að setja súrefnisgrímuna á sig, það gerir það enginn fyrir þá.

Baráttan stendur vissulega um laun en hún stendur ekki síður um vinnuaðstæður. Sveitarfélögin verða að fara að átt sig á því.  

PS. Það er best að viðurkenna að ég missti mig aðeins á lyklaborðið eftir að hafa lesið um fækkun leikskólakennara hjá borginni. Mér hefur verið bent á að uppsagnir hjá borginni hafi ekkert verið óeðlilegar, bara fólk að skipta um vinnustaði, ég get keypt það, en það er óeðlilegt að mikill fjöldi virðast hafa fært sig frá borginni. Það eru hljóð en samtímis æpandi skilaboð.


mbl.is Lægra hlutfall leikskólakennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikskólinn og félagslega réttlætið

Ég segi stundum að ég hér áður fyrr hafi leikskólakennarar í borginni skipst í tvo hópa, annarsvegar þá sem unnu í leikskólum með hálfdagsbörn gifta fólksins og svo við sem unnum á dagheimilum með börn einstæðra foreldra og námsmanna. Heimur okkar og veruleiki var um margt ólíkur. Við sem vorum á dagheimilunum upplifðum meira fátækt og erfiðleika á heimilum barnanna en leikskólafólkið. Starfið okkar snérist oft um það sem kalla má félagslegt réttlæti. Að það var leikskólans að tryggja börnum ákveðinn jöfnuð. Sjálf starfaði ég á dagheimili sem mörg börn áttu undir högg að sækja. Leikskólinn var þeirra vin, staðurinn sem þau voru jöfn og þar sem þau fengu ýmsar þarfir uppfylltar sem stundum var erfitt að uppfylla heima. Sum þessara barna bjuggu við skert félagslegt tengslanet og þá greip dagheimilið iðulega inn. Á þessum árum átti ég t.d. í nánu samstarfi við heimilislækna, félagsráðgjafa, sálfræðina og fleiri. Stundum var þvegið af börnunum í leikskólanum og stundum voru þau þrifin. Leikskólastjórar fóru heim til sumra barna og sóttu þau í leikskólann og fóru með foreldrum að versla fatnað á önnur. Leikskólinn var tæki til að jafna aðstæður barna í borginni og ég held að hann hafi að mörgu leyti gert það vel. Þetta var fyrir tíma hinna mörgu nýbúa.

Fyrsta skólastigið – menntaorðræðan

Þegar dagheimilin urðu að leikskólum, skilgreindust sem fyrsta skólastigið var eins og þetta hlutverk og kannski öllu heldur hugmyndafræði hafi verið skilin eftir. Við fengum námskrár og menntunarorðræðan varð okkar orðræða. Starfshættir okkar á gömlu leikskólunum féll í gleymskunnar dá. En nú má spyrja hurfu þessi börn við formbreytinguna, urðu aðstæður þeirra allt í einu gullnar? Auðvitað ekki, en sýnileikinn minnkaði, þau féllu inn í hópinn, sum týndust þar. Hugmyndin um leikskólann sem verkfæri til að tryggja félagslegt réttlæti vék fyrir hugmyndinni um menntastofnun.

Með áherslu á það sem nefnt er velferð barna í nýjum námskám er verið að viðurkenna þetta hlutverk á ný og lyfta því á loft.

Staðið vörð um velferð barna

Nú hef ég haft uppi ýmislegt um aðstæður leikskólakennara hjá borginni til að sinna starfi sínu og það sem mér hefur fundist ákveðin aðför að leikskólanum. Það er ekki sanngjarnt að fjalla bara um það sem miður fer en geta þess ekki sem vel er gert. Um hvað hefur borgin staðið vörð? Að vissu leyti má segja að þau hafi staðið vörð um hið félagslega réttlæti. Gjöldin sem foreldrar borga hjá borginni eru með því lægsta borgað er. Um það munar. Það eru líka í gangi merkileg verkefni sem snúa að samþættingu skólastiga, þjónustustofnana og aðila utan borgarkerfisins eins og Landlæknis í Fellahverfi. Þar sem einmitt er hugað að því sem ég vil nefna félagslegt réttlæti. Sjálfri finnst mér að hverfi (og þau eru til) þar sem aðstæður eru nokkuð langt frá því sem kalla mætti normið fái veglegri fjárveitingar. Sem dæmi þarf barn sem á báða foreldra af erlendum uppruna og er kannski líka frá mjög ólíku málssvæði meira en klukkutíma á viku í málörvun, aðalmálumhverfi barnsins er í leikskólanum og á því mun framtíðarskólagang þess hérlendis hvíla. Að leggja mikið í á fyrstu árunum er þess vegna spurning um skynsemi og félagslegt réttlæti. Við vitum að ástandið er mismunandi á milli leikskóla og við þurfum að vinna með það.

Borgin hefur líka staðið vörð um þá sem taka samning t.d. Eflingar, það fólk heldur sínu neysluhléi og er væntanlega betur borgað en sambærilegum störfum í öðrum bæjarfélögum. Um það var sátt á sínum tíma. Reyndar var neysluhléið ekki tekið af leikskólakennurum hjá borginni á sama tíma og hjá öðrum sveitarfélögum. Þar sem það var gert strax í upphafi kreppunnar.

Það er að birta til og gleðilegt merki þess er að borgin hefur bætt við sjötta skipulagsdeginum til að gefa leikskólum svigrúm til að skipuleggja sig og væntanlega vinna að betra starfi. Vonandi fylgja verkefnastjórastöður og fleira með í vetur.

Annað sem er til fyrirmyndar hjá borginni er þróunarsjóðurinn sem öll skólastigin geta sótt í. Þegar hann varð til á sínum tíma var hann lyftistöng fyrir leikksólastarf og þar hafa mörg frábær verkefni litið dagsins ljós. Verkefni sem hafa haldið orðstý borgarleikskólanna á lofti.

Sumum finnst ég stundum ósanngjörn við borgina, það má vel vera. En hinsvegar þá vann ég þar lengi var leikskólastjóri á tínda ár og ég er kjósandi þar. Svo er ég líka í Samfylkingunni og verð að viðurkenna ég er viðkvæmari fyrir gjörðum sem hún kemur að en aðrir.


Leikskóli á útsölu

Þegar verið er að ræða leikskólamál heyrist gjarnan hvað hann sér dýr fyrir samfélagið. Að sveitarfélög hafi bara ekki kost á að gera betur en þau gera. Í leikskólum hefur hins vegar borið við að fólk sé orðið þreytt á sínum vinnuaðstæðum t.d. í nýjum tölum frá RannUng þar sem m.a. streita á meðal leikskólakennara var rannsökuð. Við vitum að allir þurftu að herða ólar eftir hrun líka þeir sem höfðu ekkert hagnast á góðærinu og voru bara með nokkuð herta ól. En meira þurfti til.

Alvarleg staða í Reykjavík

Í Reykjavík var farið út í hraðar sameiningar leikskóla og dregið úr t.d. afleysingum. Leikskólakennarastéttin fékk að heyra hvað hún hefði það gott og nú ætti að taka á. Stöður sem styrktu leikskólann faglega og gáfu oft reyndum og vel menntuðum leikskólakennurum færi á að þróa sig á sínu sérsviði (verkefnastjórastöður) voru lagðar af, þær voru bruðl. Neysluhléið í Reykjavík var að mestu tekið af leikskólakennurum. Víða hefur verið erfitt að komast í undirbúning á dagvinnutíma. Framlag til yfirvinnu hefur minnkað, í borginni ríkti um tíma yfirvinnu- og ráðningarbann. Leikskólakennarar njóta ekki lengur forgangs með börn sín í leikskóla, það merkir að þeir eru lengur heima í foreldraorlofi og eða þeir færa sig til sveitarfélaga þar sem forgangur ríkir, eins og í Kópavog. Staða aðstoðarleikskólastjóra hefur breyst og víða að þeim saumað, þeim hefur fækkað og dregið úr starfi þeirra utan deilda. Allir í leikskólanum hafa hlaupið hraðar, sumir vegna þess að þeir trúðu því að leikskólinn væri svona dýr og mikil áþján fyrir skattgreiðendur. Að hann væri lúxsus.

Dýr leikskóli

Allt hefur þetta verið gert til að spara vegna þess að leikskólinn er svo dýr fyrir samfélagið. En hvað kemur í ljós. Í nýjum tölum frá borginni kemur í ljós að leikskólinn er á ÚTSÖLU. Að hver klukkutími í grunnskóla er um 60% dýrari en klukkustund í leikskóla. Að hvert leikskólabarn kostar 824 kr. á klukkutímann en hvert grunnskólabarn 1335 kr. á klukkutímann. Það kemur í ljós að með 6- 15 ára börnum eru fleiri stöðugildi en fyrir börn í leikskóla þar sem börn eru frá 18 mánaða til 5 ára. (Hér ætla ég ekki að fara í klassískan samanburð á fermetrum fyrir börn í leikskólum og grunnskólum sem eru leikskólanum mjög í óhag). Stundum þegar rætt er um mismuna á dreifingu á fjármagni milli leikskóla er borið við jafnræðisreglu, hvað með jafnræði á milli barna á mismunandi aldursskeiðum?

Þjónustustofnun

Foreldrar kvarta stundum undan því að leikskólinn sé ekki nógu mikil þjónustustofnun samt eru starfsdagar þar eru 235 en í grunnskólanum 180, leikskólinn er opinn 11.1 mánuði en grunnskólinn 5,76 mánuði. Hvert barn er 1996 tíma í leikskóla á ári en 998 tíma í grunnskóla. Til að skila fullri vinnuskyldu þarf hver launamaður að skila 1800 vinnuskyldustundum og lágmarks orlof er 196 vinnuskyldustundir. 100% vinna og sumarorlof er sambærilegt meðalviðveru BARNS Á ÁRI Í LEIKSKÓLUM. Svo er kvartað undan skilningsleysi leikskólans við foreldra og atvinnulíf. Það er ljóst að leikskólakennarar hafa ekki nema brot af undirbúning grunnskólakennara, til að undirbúa nærri tvöþúsund klukkutíma fyrir börn. Starfsaðstæður þeirra til að sinna þessum undirbúningi er líka mun lakari fyrir utan almennt starfsumhverfi.

Ef ég væri leikskólakennari í Reykjavík væri ég öskuill. Nú fer í hönd fjárhagsáætlanagerð, vonandi sjá pólitíkusar að þeir hafa höggið of lengi og of fast í sama knérum. Leikskólinn er ekki ÚTSÖLUVARA.

Að lokum hér er ekki ætlunin að gera lítið úr grunnskólanum aðeins að benda á samanburðinn og hversu óhagstæður hann er leikskólanum. Og þó svo hér sé fjallað um borgina eru tölur sennilega sambærilegar fyrir önnur sveitarfélög.

Erindi og glærur Kristínar Egilsdóttur fjármálastjóra mennta- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Svona bjartsýnismoli - þrátt fyrir þessar aðstæður hitti ég dag eftir dag leikskólakennara sem elska starfið sitt sem gætu ekki hugsað sér að gera neitt annað sem eru skuldbundnir börnunum og faginu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband