Í þöggun felst ógn við lýðræði

Að óhreinka stefnur/strauna  í leikskólamálum eða taka opinberlega afstöðu til þeirra - í mínum huga er þetta tvennt mjög ólíkt - en stundum er eins og fólki finnst það vera það sama. og í leiðinni verður það tabú. Það er ekki að óhreinka stefnu eða starf að hafa á því skoðun, heldur er það lýðræðisleg nauðsyn. Hvernig það er gert er hins vegar annað mál. Trúin á að maður hafi höndlað sannleika er hættulegust af öllu. Ég vona sannarlega að mér takist það aldrei. 

Nýlega skrifaði ég grein í slóvenskt rit þar sem ég bar saman Reggio og DAP (Starf sem hæfir aldri og þroska í leikskólum), ég bar þetta saman við hugmyndir John Dewey um lýðræði og ég bar þetta saman við hugmyndir tveggja samtímafræðimanna, þeirra Mörtu Nussmaum og David Helds um forsendur lýðræðis. Ég skoðaði svo líka stefnu sem kallast Step by Step og er afar áhrifamikil í löndum austan járntjaldsins fyrrverandi.

  

Að sjálfsögðu komst ég að ákveðinni niðurstöðu, um það snúast fræðin meðal annars. Það er nefnilega hættulegast öllu lýðræði að hafa enga skoðun eða að þora ekki að ræða skoðanir sínar af misskilinni tillitsemi. Þögnin er bæði áhrifamikil og hættuleg. Það er hægt að kúga til þagnar.

Það er ekki að óhreinka skoðun/stefnu að bera grundvallarþætti hennar saman við hugmyndir um jafnrétti og lýðræði.

Það er ekki að óhreinka stefnu eða starf að setja ýmsa varnagla eða spyrja spurninga við það hvernig og hversvegna fólk er að gera það sem það gerir. Að biðja um rök og ástæður, að biða um umræðu. Það er ekki árás, það er lýðræði. Jafnvel þó einhverjum kunni ekki að líka við það. Ef eitthvað er þá er það okkar ábyrgð samkvæmt siðarreglum - en líka að gera það faglega og að geta sjálfur svarað faglega fyrir sitt starf og starfsaðferðir.

Fyrir nokkrum árum þegar tölvur með börnum voru að byrja inn í leikskólum þá valdi einn leikskóli að fara þá leið að fá fyrirtæki í samstarf við sig, Tölvum var raðað hlið við hlið inn í lokað gluggalaust herbergi og svo fengu börnin stundarskrá og á henni var xx mínútur í tölvustund x mörgum sinnum í viku. Í tölvustundinni var börnunum kennt að sitja á höndum sér þangað til kom að þeim og þau látin fylgja eftir einhverju prógrammi - máttu ekki reyna sig áfram. Algjörlega í andstöðu við það sem hefði talið vera aðall þessa leikskóla.

  

Þetta verkefni var kynnt á vegum leikskólakennarafélagsins og ég mætti á þá kynningu á þessum fundi spurði ég ýmissa spurninga um grundvallaratriði varðandi uppeldisfræðina sem að baki lá og gagnrýndi þetta fyrirkomulag. Þær sögðu mér eftir á, að þær hefði verið mér afar reiðar, fundist ég óþarfa berorð í spurningum mínum - en þær hefðu samt farið að hugsa. Sami leikskóli kynnti svo sama verkefni á ráðstefnu erlendis fáum mánuðum seinna. Þar voru þær teknar í nefið. Þær tóku þá ákvörðun að endurskoða hvernig þær unnu með tölvurnar og hafa eftir því sem ég best veit verið afar framarlega og pedagógískar í tölvumálum síðan.

Nýlega bloggaði ég smávegis um leikskólabyggingar http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/248474/ þar sem ég m.a. fjallaði um þau skilaboð sem rýmið sendir - í þessu bloggi hélt ég mig við Reggio og Waldorf að hluta en minnist aðeins á annað starf án þess að nefna nokkur nöfn. En í sjálfu sér er ég með því að gera öllum öðrum leikskólum á Íslandi óleik, selja þau undir hatt þeirrar hugmyndafræði.

Af blogginu: 

Þar er ljóst að sú hugmynd að verkefni barna á veggjum séu subbuskapur sem þurfi að afsóða reglulega, á ekki við. Þar er ekki gefin út þau skilaboð að myndir á vegg séu tímasóun starfsfólks eða ofáreiti fyrir hegðunartrufluð börn eins og til er í fjölda íslenskra leikskóla. Viðhorf sem er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Ég held að þvert á móti að með slíkum skilaboðum sé verið að senda allt önnur skilaboð til barna

(ps. Þetta er tekið úr námskrá viðkomandi hugmyndafræði - Myndir = tímasóun (afþurrkun) + áreiti fyrir hegðanartrufluð börn)

 

Þar sem ég er gjarnan kennd við starf í anda Reggio Emilia er best að tala fram að í mínum huga er það heldur ekki yfir gagnrýni hafið .Ég geri til dæmis grein fyrir gagnrýni sem fræðikonur hafa sett fram um Reggio í greininni sem ég sagði frá sem ég deili með þeim - ég segi líka frá mínum eigin áhyggjum um hættur sem ég tel Reggio geta staðið frammi fyrir. Í Stokkhólmi varð mér næstum um og ó í einum leikskólanum sem ég heimsótti. Ég spurði líka erfiðra spurninga þar, hvort mér fannst svörin sem ég fékk fullnægjandi er annað mál, en ég fékk svör.

Hingað til hef ég komið mér hjá að ræða opinberlega þá leikskólahugmyndafræði sem mér persónulega stendur stuggur af. Með því er ég að skjóta mér undan faglegri ábyrgð gagnvart börnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Njóttu afmælisins  Skemmtu þér fallega. Vertu ekki of grimm við sjálfa þig ...

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.6.2007 kl. 19:33

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sko núna er ég eins og eldhnöttur eftir íslenska sól - sat nefnilega á kaffi París með tölvuna allan seinnipartinn - bloggaði meira að segja færsluna hér að ofan þar - hitti þar Valgerði bloggvinkonu mína og skólasystur úr menntaskóla, sem líka var að sleikja sólina.

Þangað komu svo Lilló, Palli  (mínir sönnu vinir og bloggvinir) og Liv og drukku afmæliskaffi með mér. Nú er ég mætt heim og er byrjuð að baka.  Er hægt að biðja um betri dag.

Er annars búin að vera að slóra, á að vera að vinna að rannsóknaráætlun sem ég ætla að koma af mér á laugardag - var að lesa Bob vin þinn í dag á Austurvelli - fannst það vel viðeigandi þar sem kaflinn fjallar um alþjóðleg áhrif á menntastefnur þjóða

Kristín Dýrfjörð, 28.6.2007 kl. 19:46

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Já, finnst þer ekki Bob góður? Hann skuldar mér kennaraskiptaheimsókn, en ég get ekki lagt á hann að koma að vetrarlagi þar sem honum finnst íslenskt sumar kalt! Hann lifði þó af drengjamenningarráðstefnuna. Er það Valgerður Halldórsdóttir sem er skólasystir þín?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.6.2007 kl. 20:14

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Jú, Bob er fjandi góður og það sem er ekki verra get nýtt mér skrif hans í áætluninni. Hlakka mikið til að hlusta aftur á hann. Finnst það í sjálfu sér stórmerkilegt að það sem helst heillar mig í fræðunum kemur frá Ástralíu - kannski við ættum að skipuleggja hópheimsókn frá þeim.

Rétt til getið, við Valgerður deilum því að vera stúdentar frá FB fyrir 25 árum, við erum af hinu svokallaða Guðmundarstaðakyni - nefnt eftir skólameistara vorum. Við vorum í skólanum á miklum mótunartímum og ég fyrir mína parta fékk að valsa svolítið um skólann námslega sem hentaði mínum klofnu áhugamálum ágætlega.  

Kristín Dýrfjörð, 28.6.2007 kl. 20:30

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

einn brandari léttur brandari. Ég var að ræða við leiðsagnarkennara minn um að ég ætlaði mér að nýta framsetningu Jennifer Gore á hugmyndum um valdið, og svona til að skýra hvaðan hún kemur  hugmyndafræðilega segi ég, hún var í Madison, einn af nemum Apple held ég. Hann svaraði eldsnöggt "Oh, from that barrel" 

Kristín Dýrfjörð, 28.6.2007 kl. 20:35

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ken Zeichner var aðalleiðbeinandi Jennýjar en hún var líka hjá Mike og svo var hún í hinum fræga miðvikudagshópi Toms Popkewitz. Hún kom til Madison ári á eftir mér og kláraði nú samt að mig minnir á undan mér - eða fór a.m.k. til baka til Ástralíu. Annars finnst mér þetta frekar fyndið

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.6.2007 kl. 20:46

7 identicon

Skemmtilegur lókall hér í gangi  - hætti mér ekki inn í umræðuna - en segi bara kvitt og knús - fannst þessi pistill hin áhugaverðasta lesning

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 21:31

8 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það - nú er gestagangur yfirstaðinn og við taka hlaðar af uppvaski - sem er víst líka fylgifiskur veisluhalds.

Hér urðu m.a. miklar umræður um virkjanamál og Landsvirkjum, þar sem karl faðir minn og Páll vinur okkar áttust við - en þeir koma "dáldið" úr sitthvorri áttinni í þeim efnum.

Kristín Dýrfjörð, 28.6.2007 kl. 23:31

9 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Hæ aftur og aftur til hamingju með afmælið - Þetta var fínn dagur á Austurvelli og ekki spurning að fara þangað aftur við tækifæri.  Ég mæli með Ástralíu - þið verðir ekki svikin!

Það hefði verið spennandi að fylgjast með umræðunni í afmælinu - líklega er ég nær Páli en pabba þínum  í skoðunum  Bið að heilsa ykkur fyrir norðan!

Valgerður Halldórsdóttir, 28.6.2007 kl. 23:46

10 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það, ég held að það sé nokkuð öruggt að í þessu máli séuð þið pabbi sennilega nokkuð langt frá hvort öðru - jafnvel stjarnfræðilega - en svo liggja leiðir saman í öðrum málum eins og gengur og gerist í pólitík hjá annars hugmyndafræðilegum samherjum **).  

Kristín Dýrfjörð, 29.6.2007 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband