Orðaforði 36 mánaða barna, 400 orð = félagslega lélegt atlæti 3000 orð = félagslega vel sett

Fyrirlestur John Bennett um nauðsyn gæðaleikskóla fyrir yngstu börnin á EECERA ráðstefnunni í Noregi var góður. Hann tengdi erindi sitt rannsóknum á ýmsum sviðum sem sýna allar fram á mikilvægi gæða í leikskólastarfi, bæði frá forsendum barnsins og samfélagsins. Hann skoðaði rannsóknir um heilann, hagfræðilegar rannsóknir nóbelsverðlaunahafa (Heckman) og rannsóknir um t.d. stöðu barna eftir félagslegum bakgrunni þeirra. Hann fjallaði um hvernig leikskólinn gæti jafnað aðstöðumun á milli þjóðfélagshópa. Það var t.d. sjokkerandi að sjá upplýsingar um orðaforða 3ja ára barna eftir því hvaða þjóðfélagshóp þau tilheyra. Munurinn á börnum sem komu úr velsettum hópum og þau sem komu úr verst settu hópunum er gríðarlegur. Við þriggja ára aldur eru velsettu börnin með um 3000 orð á sinni könnu á meðan að börnin úr lægsta hópnum er með um 400 orð. Vygotsky sagði tungumálið vera tæki hugsunar. Og við vitum að hugsun er undirstaða framfara. Ef börn úr verst settu þjóðfélagshópunum hafa 3ja ára innan við 1/4 af orðaforða best settu barnanna sjá flestir hverjar afleiðingarnar geta verið. Til að mæta þessum mun og til að styrkja öll börn skipta leikskólar máli en ekki bara hvaða leikskólar sem er. Bennett lagði áherslu á gæðaleikskóla, þar sem áherslan er á þroska barna og vellíðan en ekki akademísk vinnubrögð. Hann var duglegur í erindi sínu að hrósa Norðurlöndunum og taldi að önnur ríki ættu að taka sér þau til fyrirmyndar. 

Annað sem Bennett lagði áherslu á er uppeldisfræðileg skráning (sem ég hef oft fjallað um hér á blogginu). Gildi hennar til að kynnast börnum og hvernig hægt væri að nota hana sem leið til að sýna fram á gæði starfsins. Í Noregi er reyndar búið að setja inn í Aðalnámskrá leikskóla að í leikskólum eigi að gera uppeldisfræðilegar skráningar. Í okkar aðalnámskrá frá 1999 er líka fjallað um mikilvægi uppeldisfræðilegra skráninga. Þó ekki sé það gert með jafn afdráttarlausum hætti hér og í Noregi en í aðalnámskrá stendur: 

 

Leikskólakennari þarf að ætla sér tíma til uppeldislegra athugana og skráningar á atferli barns, bæði þegar það er eitt og í samspili við barnahóp. (Aðalnámskrá leikskóla, 1999, bls. 14)

Við höfum frá upphafi leikskólabrautar við Háskólann á Akureyri (1996) kennt uppeldisfræðilegar skráningar. Mjög margir fyrirlestrar á ráðstefnunni byggðu einmitt á gögnum sem safnað var með þeirri aðferð, m.a. þeir fyrirlestrar sem standa mest eftir hjá mér.

Á ráðstefnunni Rödd barnsins sem haldin var á vegum Reykjavíkurborgar og RannUng í vor fjallaði ég í erindi sem bar heitið; Hvert barn er sinn eigin kór m.a. um gildi uppeldisfræðilegrar skráningar. Til stendur að gefa fyrirlestra tengdum ráðstefnunni og efni hennar út í bók í haust. Efa ég ekki að hún verður mikill akkur fyrir leikskólasamfélagið og bíð ég spennt. Mitt erindi verður hinsvegar ekki þar á meðal m.a. vegna þess að það féll ekki að ritstjórnarlegum áherslum og ég kærði mig ekki um að breyta því í þá átt sem ritstjórn vildi. Ég hef því ákveðið að henda erindinu hér inn (og einhverjum fleirum) og fylgja þau sem skrár með þessari færslu. Vona ég að einhver geti haft af þessu gagn. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband