Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Listir og eðlisfræði í leikskóla

skoða með stækkunarglerjum
 

Síðustu tvær vikur hafa verið ótrúlega skemmtilegar og gefandi. Ég var að ljúka kennslu á sumarönn leikskólakennaranema við Háskólann á Akureyri. Ég er svo heppin að fá að kenna og hafa umsjón með námskeiði sem er tengin á milli nokkurra greina. Í námskeiðinu kenna, börn og starfsfólk leikskóla, starfandi fjöllistakona á Akureyri og prófessor í eðlisfræði við HA. Námskeiðið er hugsað til að tengja saman skapandi starf og raunvísindi. Sérstaklega leggjum við áherslu á stærðfræði og eðlisfræði, og útfærum verkefni þeim tengd í gegn um skapandi starf. Tengjum saman í leik listgreinar og raungreinar.  

Það sem alltaf gleður mig jafnmikið og styrkir trú mína á getu barna eru þær AHA upplifanir sem ég verð vitni að, sú gleði sem ég sé og skynja hjá börnunum. Sú ótrúlega einbeiting sem á sér stað og það að þarna taka allir þátt á eigin forsendum. 

          Skoða auga 2    Skoða auga 3

Ég var svo heppin  að ná mynd af einu svona AHA andartaki – reyndar mitt eigið AHA. Þannig var að nokkur börn á Iðavelli höfðu verið að spá í flotkraft og verið með ýmislegt úr sínu nánasta umhverfi til að skoða hvað flýtur og sekkur – þau höfðu líka verið að spá í hvernig ýmis efni taka misjafnlega hratt í sig lit (rauðan í þessu tilfelli)eða taka engan lit. Eftir að hafa skoðað þetta í góða stund og sett fram ýmsar tilgátur athuguðu þau hvort þær stæðust. Komust t.d. að því að sykurmolar ekki bara sökkva heldur leystast líka upp. Á eftir færðu þau sig svo yfir á myndvarpa og skoðuðu sömu hluti þar. Ég spyr hvernig standi á því að pastaslaufan á myndvarpanum er ekki bleik á veggnum. Mín hugmynd var að leiða þau í umræður um hluti sem hleypa ljósi í gegn um sig og eðli skugga. Nema stúlka á fimmta ári tekur þá pastaslaufuna af myndvarpanum gengur yfir að veggnum og segir “sjáðu núna er hún bleik”.  Í framhaldi fóru börnin að vinna með það sem var á veggnum samtímis því sem var á myndvarpanum.

       skoða skugga       bleikt pasta                              Myndavarpi      

Annað svona dæmi tengist heimsókn barna af Lundarseli í listgreinastofu Háskólans á Akureyri sl. föstudag. Ein af þeim vinnustöðvum sem við settum upp var myrkrarými til að skoða með vasaljósi. Inn í rýmið höfðum við fest ýmislegt sem gaf frá sér mismunandi endurvarp þegar ljósgeisli lenti á því og nokkrar handbrúður. Fyrir framan þetta litla rými var önnur vinnustöð sem tengdist rafmagni. Það leið ekki langur tími þangað til börnin uppgötuðu og fóru  að búa til sína "eigin ljósgjafa" úr gömlum jólaseríum og fara með inn til að skoða. Svo heyrðist –“æi nú datt þetta í sundur” og þá þurfti að koma fram og tengja upp á nýtt.

    rafmagn ljós í myrkri        ljós í myrkri 


Viðunandi vinnuaðstæður!

Ég hjó sérstaklega eftir í gær þegar fjallað var um fréttir af Kárahnjúkum frá Portúgal að talsmaður Impregilo á Íslandi sagði aðstæður þar vera viðunandi- hann sagði ekki góðar, ekki frábærar, ekki alveg til fyrirmyndar, nei hann sagði viðunandi.

 

Hvað er viðunandi?  Á 6 áratugnum þóttu aðstæður á Breiðavík vera viðunandi, það þykir viðunandi að svona og svona margir eru á biðlistum, það þykir viðunandi að 80% séu t.d. almennt ánægðir með tiltekna þjónustu.  Viðunandi merkir í mínum huga eitthvað sem er ekki nógu gott en hægt að lifa við - er það þær kröfur sem Impregilo gerir fyrir hönd síns fólks, getur Landsvirkjun fyrir hönd íslensku þjóðarinnar fallist á að vinnuaðstæður séu bara viðunandi?


Dagur á Iðavelli

Hreint ótrúlega skemmtilegur dagur hjá mér í dag. Ég er svo heppin að hafa fengið að verja öllum deginum í leikskólanum Iðavelli á Akureyri. Var þar með fjarnemana mína og þeir settu upp litla vísindasmiðju með börnunum.

 

Eitt þeirra verkefna sem mikla athygli vakti var "gjósandi eldfjall". "og svo sprakk það, alla leið upp í loft upp í ljósið" sagði Ingi og hló og hló. En valdi svo að færa sig á öruggari stað áður en græna eldgosið hófst aftur. Særún vildi vera viðstödd tilraunir með eðlisþyngd og skráði allt nákvæmlega hjá sér í litla bók.  Fyrir aftan hana sat háskólanemi og skráði líka nákvæmlega .

 

Særún náði í fjarstýringu og beindi henni að mér og setti mig í gang. Ég sagði í gegn um op á pappakassa hvað væri helst í fréttum. Það sem var helst í fréttum þennan dag á Iðavelli var heimsókn leikskólakennaranema frá háskólanum á Akureyri.

 

"Hvort er þyngra hestur eða lamb?" spurði annað barn og lét þau svo vega salt. Hvort skyldi hafa verið þyngra? Hvað gerist ef ég set rauðan lit saman við gulan? Spurði Anna. "Sjáðu, sjáðu það er hægt að breyta nagla í segul" heyrðist einhverstaðar.

 

Svona förum við að því að styrkja rannsóknareðli barna sagði Arna Valsdóttir vin- og samstarfskona mín einu sinni og sannarlega hefur hún rétt fyrir sér. Takk fyrir börn og starfsfólk á Iðavelli. Þið eruð alltaf yndisleg.

 Á morgun á ég annan jafn skemmtilegan dag fyrir höndum - ég get vart beðið.


Magga Pála flott í Kastljósinu

Það verður ekki af Möggu Pálu skafið hún starfar af ástríðu. Horfði á Kastljósið áðan og verð að viðurkenna að mér finnst persónan Magga Pála alltaf jafn áhugaverð og skemmtileg. Hvað svo sem mér finnst annars um hugmyndafræði hennar.

 

Ég sagði við Lilló áðan að það væri nú fyndið hvað við ættum þrátt fyrir allt margt sameiginlegt miðað við það hugmyndafræðilega gap sem á milli okkar er. Stundum notum við meira að segja sömu rökin og jafnvel svipaðar myndlíkingar en komust að mjög svo ólíkum niðurstöðum. Eitthvað var það sem hún sagði sem Lilló fattaði ekki alveg en ég sagði, "æi allir leikskólakennarar vita hvað hún er að tala um". Þrátt fyrir allan hugmyndafræðilegan mismun slær leikskólahjartað sterkt og skilur slátt annars slíks hjarta.

 

Lýsingar hennar á fyrstu dögum í starfi í leikskóla voru eins og talaðar úr mínu hjarta - lýsing hennar á þeirri gjöf sem það er sálinni að sjá barn gleðjast - sjá barn þroskast kölluðu fram sömu tilfinningar hjá mér og sennilega allmörgum leikskólakennurum. Og við brosum hringinn.

 

Ég veit að ef Magga Pála hugsar einhvertíma til mín (sem ég á nú ekkert sérstaklega von á) þá vonar hún sennilega að ég taki sönsum og sjái gildi hjallastefnunnar sem verður seint. Á sama hátt vona ég að hún sjái þá galla sem ég sé á henni, sem líka gerist seint. Sennilegast er að höldum áfram að vera sammála um að vera ósammála.


Af ávöxtunum skulum vér þekkja þá

Fyndin forsjárhyggja hjá hinu nýja leikskólaráði í Reykjavík. Búið að birta lista með fallegum litmyndum af æskilegum berjum og ávöxtum sem leyfast í leikskólaparadís. Sérstaklega þegar börnin kveðja hana.

 

Þar má borða, bláber og kíví, jarðaber og appelsínur. Ekkert traust til leikskólastjóra - ekki treystandi til að ákveða hvað má borða í veislum barnanna.

 

ps. Það má líka borða frostpinna og kanilsnúða.  

listi
Er þetta ekki dæmalaus og í leiðinni pínlegur texti:

 

Minnt skal á að skammtastærðir eru ekki síður mikilvægar en það sem er á boðstólum og er mjög mikilvægt að skammta hæfilega t.d. þegar boðið er upp á súkkulaðiköku.

 

Ef fleiri en ein tegund veitinga er á boðstólum er æskilegast að þar á meðal séu ávallt ávextir, ber eða grænmeti. Ef ávextir og grænmeti eru skorin í hæfilega munnbita eru meiri líkur á að börnin borði vel af þeim.  

... ekki er mælt gegn því að afmælisbörnin fái þá verðskulduðu athygli sem fylgir hverjum afmælisdegi. Væri til dæmis hægt að bjóða upp á ávexti á sjálfan afmælisdaginn og fylgir þeim venjum sem tíðkast á afmælisdögum s.s. að hafa kórónu, fána o.d.frv.á sjálfan afmælisdaginn og svo kæmi "afmæliskakan" einu sinni í mánuði  

 

 


Sko

Er að jafna mig eftir úrslit kosninga. Óbilandi bjartsýni segir mér að við gerum betur næst.  Get núna fylgst með leikléttu stjórnmálanna af hliðarlínunni. hrópað og kallað og haft óábyrgar skoðanir.  

Fagrabrekka starfar í anda Reggio

Í kvöld var ég á skemmtilegum fundi. Leikskólinn Fagrabrekka í Kópavogi kynnti starfið sitt fyrir starfsfólki sjö annarra leikskóla sem allir starfa að einhverju leyti í anda Reggio. Þarna mættu um 40 leikskólakennarar og komust færri að en vildu. Allar voru þær á eigin tíma. Held að það sé þessi óþrjótandi fagáhugi sem er styrkur þessarar stéttar. Á fundinum í kvöld voru sex sveitarfélagsreknir leikskólar og tveir einkareknir, frá fjórum sveitarfélögum. 

Á fundinum sýndi starfsfólkið á Fögrubrekku nokkrar skráningar. Bæði frá eldri heildstæðum verkefnum og frá verkefnum sem enn eru í gangi. Verkefni sem sína mátt barna og megin. Við létum okkur hafa það að sitja í tvo tíma á stólum sem ætlaðir eru fyrir 4ára börn, og horfðum og hlustuðum hugfangnar á lýsingar á þessu frábæra starfi. 

Það sem mér finnst svo vænt um í Reggio skólunum er þessi óþrjótandi virðing fyrir börnum og hugmyndum þeirra sem birtist í öllu starfinu. Þar er litið á barnið sem samverkamann, sem kennara. Í leikskólum sem starfa í anda Reggio eru ekki áhyggjur af valdráni barna. Þar felst lýðræðið í hlustun.

Fagrabrekka fékk líka að vita í vikunni að þær hefðu fengið styrk úr þróunarsjóð leikskóla til þess að vinna úr skráningum á verkefni fjögurra ára barna, þar sem þau hönnuðu og saumuðu kjól frá grunni. Frábært verkefni sem ég hlakka til að sjá gefið út.

Í  kvöld ákváðum við næstu skref okkar, ræddum um sameiginlega starfsdaga, þar sem við gætum miðlað hvor annarri þekkingu og reynslu. Við settum sama vinnunefnd og mikið óskaplega hlakka ég til að hitta þær í júníbyrjun. Takk fyrir mig Fagrabrekka.


Einu sinni var legó besta barnapían

Gleymi aldrei einni skólasystur minni við Erikson institutie í Chicago sem lék lista vel og sagði

"It is ok for children to see gun-fighting and lot of dead people before lunch, but everything goes crazy if there is a glimpse of uncovered breast "

Stundum þegar ég les rannsóknir sem þessar fer ég að hallast að Waldorf hugmyndafræðinni. Sem afneitar svona tæknidóti nálægt börnum.  En svo er ég svo mikið tæknifan sjálf að mér finnst það kannski fulllangt gengið. Börn eru áhugasöm um umhverfi sitt allt frá fæðingu og þau veita því eftirtek.

Miðað við hvað mikið af tækjum eru í gangi á flestum heimilum er ekki skrýtið að börnin veiti þeim athygli þau eru nú einu sinni rannsakandi og forvitin.  Kemur í okkar hlut að ofbjóða ekki skynfærum barnanna.


mbl.is Ung börn í Bandaríkjunum horfa mikið á sjónvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hattarnir í leikskólanum

Í leikskólanum setja leikskólakennarar upp marga og mismunandi hatta. Þeir mega hvorki vera of þröngir né of víðir, en þeir eru samt ákaflega mismunandi, sumir eru ljósir, aðrir dökkir, sumir barðmiklir aðrir barðlausir, sumir skreyttir, sumir kúptir aðrir oddhvassir, en hver og einn þeirra verður að passa á sinn haus.

Hattarnir eru hlutverkin sem við verðum að vera færar um að bregða okkur í hvenær sem er. Meðal þessara hatta sem við setjum upp eru hattar sem hjálpa okkur að vinna með tilfinninga- og félagsþroski og sköpunargleði.

Mikilvægt veganesti útí lífið er að barnið nái að þróa tilfinninga- og félagsþroska og það læri að fagna og beita sköpunargleði sinni. 

Ef foreldrar eða aðrir koma inn á deild í leikskólanum sjá þeir að öllum líkindum dæmi um alla ofangreinda þætti á innan við klukkutíma. Þeir sjá hann Pétur gráta vegna þess að eitthvað kom upp á, þeir sjá Elínu og Bjarna sem eru að leika saman og skiptast á og þeir sjá Dísu, Gerði og Garðar byggja úr kubbunum, sjá þau standa upp og virða fyrir sér sköpunarverkið.

Áhorfandinn sér uppákomur sem tengjast sköpun, tilfinninga- og félagsþroska. Hann sér atriði sem standa upp úr í starfi leikskólakennarans og einkennir allt hans starf.

Til að ég þori að vera ég sjálfur verður sjálfsmynd mín að vera í lagi:

Ég verð að vita hver ég er.

Sjáðu hvað ég get, ég get gengið, skriðið, látið í mér heyra!

Ég verð að vita að ég tilheyri hóp.

Ég get búið til orm úr leirnum alveg eins og þú!

Ég verð að vita að ég er einstök.

Þetta er mamma mín og þarna er mamma þín

Ég verð að vita að ég bý yfir valdi.

Ég ræð sjálf hvað ég mála, hvaða liti ég vel! Hvað ég er í leiknum.

Ég verð að kunna að hlæja og gráta með vinum mínum, ég verð að kunna að deila með þeim en líka að standa á mínu. Ég verð að þora að vera ég sjálf/ur.

Það er starf leikskólakennarans að styðja við leit barnsins að sjálfinu. Í leikskólanum gerum við það með ýmsu móti ef við t.d. horfum á sjálfsmyndina hér að ofan og spyrjum hvernig eru þessi atriði tengd starfinu á deildinni?

Við kennum börnum að sýna hvort öðru hlýju og umhyggjusemi við gerum það markvisst með góðu fordæmi, við veljum sögur og bækur þar sem atvik tengjast því að sýna umburðarlyndi og væntumþykju. Við hjálpum börnum að leysa úr deilum með orðum og gerðum.

Við kennum börnum að skiptast á að leika sér saman, rannsaka saman. Við rannsökum og leikum saman. Í leikskólanum er sköpun sennilega það hugtak sem við höldum mest upp á. Það hugtak sem ber starfið upp og gerir það svo skemmtilegt. Sem gerir hvern dag nýtt ævintýr

og ef þú vilt kynnast þessu frábæra starfi og hvernig þú getur menntað þið til þess þá skaltu smella HéR

 


Reynsla úr Þingholtunum

Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um reynslu af því að búa á næstu slóðum við gistiskýlið í Þingholtsstræti. Ég ákvað að birta hluta úr því bloggi aftur. Ég er að hluta alin upp á Sauðárkróki,  þar sem sögunni um Guðmund góða og Heiðnaberg í Drangey var haldið mjög að okkur. Að í öllum samfélögum yrði að vera pláss fyrir þá sem sama samfélag vill að öllu jafnan ekki sjá eða vita af.

Ég gladdist því við að lesa grein í Mogganum 2. maí sl. eftir pjakk úr götunni minni, hann Bolla Thoroddsen. Þar ræddi hann reynslu sína af að alast upp nánast í næsta húsi við gistiskýlið í Þingholtsstræti. Húsið sem hann og krakkarnir í hverfinu kölluðu fyllibyttuhúsið. En ekki í illsku.

Húsið í Þingholtsstræti og fólkið sem þar átti sinn næturstað var hluti af æsku þeirra og umhverfi. Sem er enn hluti af því umhverfi sem ég bý í og hef gert í tvo áratugi.  

Sonur minn upptvötaði hversu mikið öðruvísi Reykjavík hann var alin upp við þegar hann vann hjá ÍTR og þau fóru með krakkana úr úthverfunum niður í bæ - og hann sá þau börn upplifa í fyrsta sinn það sem var hluti af uppvexti hans. Hluti af því hlutskipti sem sumir búa við og við ræddum hér heima.   

Ég vil taka undir með Bolla, hér höfum við aldrei orðið fyrir ónæði. Því miður er staðreynd að það er fólk á götunni. Af ýmsum ástæðum sem samfélagið getur ekki alltaf ráðið við. En við getum eftir aðstæðum búið þessu fólki mannsæmandi athvarf.  Takk Bolli

Ps. Ræddi aðeins við son minn áðan og hann sagði, mamma það var einn galli á Farsótt (gistiheimilið gekk líka undir því nafni), þeir máttu ekki koma þar undir áhrifum en ef það var kalt þá brutu þeir smá af sér. Ég man sérstaklega eftir einum, sagði hann, algjör ljúflingur en hann gerði þetta oft. braut rúðu eða eitthvað og settist svo bara og beið eftir löggunni. Syni mínum finnst að Farsótt eigi að taka við fólki undir áhrifum.   

 


mbl.is Mótmæla staðsetningu á heimili fyrir heimilislausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband