Strokað yfir einstaklinginn

Um daginn fór ég í Bykó - þar voru foreldrar með lítið barn. Barnið merkt bak og fyrir leikskólanum sínum, það var í allt of stórum bómullarbol yfir flíspeysunni sinni, bæði merkt leikskólanum.  Mér er yfirleitt alveg sama um tísku, það sem einum finnst ljótt finnst öðrum flott - segir ekkert annað en um hvað mér finnst fallegt og það er örugglega ekkert í takt við tískuna. En ég varð fyrir sjokki með sjálfa mig. Ég nefnilega horfði á barnið og sá það ekki, ég sá bara fötin og skólann sem það var vandlega merkt. Svona eins og það hefði verið gangandi kókakóla auglýsing. Öll merki um einstakling voru strokuð út - til þæginda fyrir foreldra virðist vera af því sem ég hef lesið eða til þess að koma í veg fyrir einelti. Því miður kaupi ég ekki slík rök. Ef fötin eru ástæða eineltis væru eineltismál ekki jafn flókin og þau eru. Þá dygðu sennilega hókus pókus lausnir.

 

Fyrir nokkru hlustaði ég á fyrirlestur félagsfræðings sem sagði frá ferðalagi sínu til Pakistans. Hann sagðist hafa ferðast þar með rútu um héruð. Einn áningarstaðurinn var við akur þar sem konur unnu í litskrúðugum saríum. Fólkið sem var með honum varð mjög uppnumið og ræddi um hvað þetta væri mikið óskapalega falleg sjón. Félagsfræðingurinn sagði þá,  "já en tókuð þið eftir mönnunum í þorpinu sem við vorum að fara í gegn um?" "Já, já" sagði fólkið.  Tókuð þið eftir hvernig þeir voru klæddir? Spurði hann. "Já, já" sagði fólkið "í einlitum kakífötum". "Einmitt" sagði félagsfræðingurinn, "þannig geta þeir betur fylgst með fólkinu á ökrunum sem er gert áberandi í litskrúðugu fötunum sínum á meðan þeir eru klæddir felulitum."

 

Báðir hópar voru þannig í einkennisbúning, sem þjónuðu ákveðnum en samtímis földum tilgangi. Alveg eins og ég held að það þjóni földum tilgangi að klæða börn í leikskólabúninga. Og í guðanna bænum forðið mér frá rökum um einfaldara líf fyrir foreldra og minna einelti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Mikið er ég þér hjartanlega sammála!  Skólaföt koma því miður ekki í veg fyrir einelti eða annað ofbeldi í skóla. Ég er heldur ekki viss um að "þægindarökin" gildi heldur.

Valgerður Halldórsdóttir, 5.6.2007 kl. 18:15

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

þetta samt einna sterkustu rökin sem beitt er. En vinur minn skólastjóri í Bretlandi sagði mér einu sinni að skólabúningar einir sér leysi ekki mikið - þeir fara nefnilega misvel - þeir eyðast misvel - þeir eru mishreinir allt atriði sem hægt er að nota til eineltis - og samkvæmt hans reynslu, notað. Það þarf að tryggja ákveðin kúltúr og sterk viðurlög - til að tryggja að einelti hvorki þrífist eða fari af stað.  

Kristín Dýrfjörð, 5.6.2007 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband