Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Sjálfboðaliðar

thjodfundur_logo_undirtitill_270x120

Það er svo merkilegt hvað fólk er tilbúið að leggja á sig fyrir góðar hugmyndir og góð málefni. Við Íslendinga höfum í gegn um tíðina séð hverskonar grettistaki er hægt að lyfta með samstilltu átaki. Stundum hafa tilefnin verið vegna áfalla sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir og stundum þegar við viljum styrkja góð málefni eins og t.d. byggingu Grensásdeildar. Ávallt þegar ég upplifi slík andartök eða atburði verð ég snortin og gleðst yfir því að tilheyra þessum samstæða en samt margbreytilega og ólíka hópi.

Fyrir mörgum árum stóð ég á slíkum krossgötum í eigin lífi, ég stóð fyrir framan hruni á minni heimsmynd sem ég vona að ég eigi aldrei eftir að upplifa aftur. Í einu vetfangi hrundi heimurinn eins og ég þekki hann og eftir stóð ég. En þá fann ég einmitt þennan samhug þjóðarinnar, fann hvað var gott að tilheyra þessum hóp, Íslendingar. Hóp sem réttir fram hendur og hjálpar. Bláókunnugt fólk sem lét sér annt um mig. Hvað eftir annað höfum við Íslendingar getað sýnt í verki hvers við erum megnug þegar við viljum.  

Undanfarna vikur og mánuði hef ég fylgst með því fólki sem stendur að Þjóðfundi. Séð allar þær vinnufúsu hendur sem að honum standa. Næstum getað þreifað á allri þeirri hugarorku sem þar er að finna. Hundruð kvenna og manna sem leggja fram vinnu sína sem sjálfboðaliðar, að sjálfsögðu endurgjaldlaust. Á einhverju andartaki var mér boðið með í hópinn. Boðið að leggja mitt að mörkum. Endurgjaldið sem mér var lofað er ánægja, gleði, oggu þreyta og að hitta og að kynnast skemmtilegu fólki. Mér finnst það reyndar mikið endurgjald. Mér finnst líka gaman að sjá og skynja hina miklu vídd sem er í hópi þeirra sem að Þjóðfundi standa. Fólk sem kemur frá mismunandi stöðum í lífinu, með mismunandi reynslu, menntun og bakgrunn.

Helst hefði ég viljað fá boð á Þjóðfund, mundi glöð gefa eftir svæðisstjórahlutverkið fyrir þau forréttindi að fá að leggja fram hugmyndir og pælingar, fyrir að fá að vera þátttakandi í umræðunni. Ég vona sannarlega að þeir sem hafa fengið boð staðfesti þau og ekki bara það, heldur mæti og verji laugardeginum í þágu framtíðarinnar í Laugardagshöllinni.

Ps. á morgun ætla ég að skrifa um hvað mig langar að gera persónulega með hugmyndafræðina og tæknina sem hefur verið að mótast í tengslum við Þjóðfundinn, (þekkingin sem hefur orðið til er nefnilega alveg ótrúlega mikil).

 

Þjóðfundur

 


mbl.is Þjóðfundur um framtíðarsýn Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eru ekki allir valdir með slembiúrtaki á Þjóðfundinn?

Ég er svo heppin að vera einn 18 svæðisstjóra á Þjóðfundi. Á mínu svæði verða 9 lóðsar sem leiða umræðuna við borðin 9 sem eru á svæðinu, en lóðsarnir taka ekki þátt í umræðunni. Þeim er fyrst og fremst ætlað að vera þjónar borðsins. Á hverju borði eru 9 fundarmenn með málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt. Saman við borð geta raðast smiðir, háskólakennarar, fiskvinnslufólk, þingmenn, fólk sem starfar í frjálsum félagasamtökum, vonandi eins ólíkur hópur og hægt er að hugsa sér. Við borðið eru allir jafningjar þar sem hver og einn fær jafnmörg og mikil tækifæri til að hafa áhrif á það sem gerist þar. Lóðsarnir eiga að gæta þess að stýra umræðunni í anda jafnræðis og halda henni á jákvæðum nótum. Þjóðfundi er nefnilega ekki bara ætlað að vera stefnumót við framtíðina, heldur líka gefandi og ánægjuleg reynsla fyrir þá sem taka þátt. 

Ég hef verið spurð hvers vegna ákveðinn hópur fólks frá frjálsum félagasamtökum, þingmenn, ráðherrar og fólk innan úr stjórnkerfinu er boðið að mæta á fundinn (um 300 manns í heildina). Ég svara að ef við viljum að þetta fólk sem sannarlega hefur möguleika til að ýta breytingum úr vör eða fylgja þeim eftir, ef það er með á fundinum er líklegra að það taki niðurstöður til sín, það tekur jú þátt í að móta þær. En mér finnst líka mikilvægt að benda á að þessi hópur dreifist með öllum hinum á öll borðin. Þess vegna er hlutverk lóðsana sem stýra borðunum einstaklega mikilvægt. Það er þeirra hlutverk að gæta þess að allar raddir, öll sjónarmið komi fram og njóti sín. Að hver sem ég er er ég jafnmikilvægur og næsti maður eða kona.Til að trygga að allir fái notið sín á fundinum verða til taks aðstoðarmenn fyrir þá sem eiga erfitt t.d. með að skrifa eða annað. Þannig verður reynt að tryggja að allir sem hafa fengið boð geti sannarlega verið þátttakendur. 

Í kvöld þá hittumst við öll af mínu svæði, allir lóðsarnir voru fullir tilhlökkunar, þeir hlakka til að hitta fólkið sem verður með því við borð og að fá tækifæri til að taka þátt í þessum ótrúlega atburði með því.   

 


Þjóðfundur 2009 - fimm dagar

thjodfundur_logo_undirtitill_270x120 Það er farið að styttast í Þjóðfundinn. Mér finnst næstum eins og ég sé að telja niður í jólin en samt eitthvað miklu meira. Ég trúi nefnilega að þjóðfundurinn sé svo merkilegt fyrirbæri að í framtíðinni eigi hann eftir að rata í sögubækur. Dagsetningin eigi eftir að stimplast inn hjá þjóðinni, fjórtándi nóvember 2009. Á miðjum frostavetri 1918, þann 1. desember fékk þjóðin fullveldi. Spánska veikin nýbúin að fara eins og eldur um sinu og hafði lagt fjölda fólks af velli. Fólk var í sárum en það gaf sér tíma til að mæta fyrir framan stjórnaráðið til að verða vitni að þessari merku stund. Okkar vetur er fallegur og frosthörkur hafa ekki náð tökum á þjóðinni eða þjóðarsálinni þrátt fyrir allt. Þjóðfundurinn er hluti af því vori sem við eigum í vændum. 

Á þjóðfundi

Á Þjóðfundi gefast tækifæri til að ræða um þau gildi sem við leggjum til grundvallar í lífinu hvert og eitt. Og við fáum tækifæri til að heyra um þau gildi sem aðrir leggja áherslu á sínu lífi. Við fáum líka tækifæri til að ræða þessi gildi og komast að einhverri niðurstöðu það hvaða gildi skipta okkur máli sameiginlega.  En það er ekki allt, við fáum líka tækifæri til að varpa fram hugmyndum okkar að þeim stoðum sem við veljum að samfélag okkar byggi á. Hverskonar samfélag við viljum vera þátttakendur í. Hvers konar atvinnulíf viljum við sjá blómstra, hvers konar menntakerfi eða heilbrigðiskerfi, hvað með sjálfbærni og umhverfismál. Hvernig samfélagi viljum við skila til barna okkar og hvernig samfélagi viljum við eldast í, já eða foreldrar okkar og afar og ömmur.  Við fáum tækifæri til að ræða þetta allt á fundinum. Við fáum tækifæri til að velja á milli þeirra hugmynda sem okkur þykja markverðastar. En samtímis vita að það verður haldið utan um allar hugmyndir.

Það er nefnilega þannig að allar hugmyndir sem koma fram á fundinum verða færðar til bókar og þær opnaðar öllum  sem vilja til að skoða (vefsíða) það verður til gríðarlegur gagnabanki á fundinum, gagnabanki sem á eftir að vera fræðimönnum viðfangsefni næstu árin og kannski hundrað árin. Það verður merkilegt að skoða eftir 10 ár hvað var Íslendingum efst í huga ár eftir hrun. Hver var þeirra framtíðarsýn og hversu nálægt henni verður samfélagið þá.

Mér finnst líka mikilvægt að segja frá því að stefnt er að því að vinna úr öllum niðurstöðum á fundinum, þannig að þegar fundi lýkur liggur fyrir vilji þversniðs þjóðarinnar. En það er ekki allt því að í heilt ár á eftir veður hugmyndum fundarins fylgt eftir með fundum og verkefnum.

Það er kjarkmikið fólk sem lagði af stað með hugmynd, vegna þess að það veit sem er að allt sem þarf er hugmynd og vilji. Þessu fólki sem hefur lagt nótt við nýtan dag til að vinna að framgangi Þjóðfundarins og trúaða á verkefnið vil ég færa mínar bestu þakkir. Takk fyrir að hafa vilja, trú og þor. 

 

 Þjóðfundur 2009 vefsíða
mbl.is Þjóðfundurinn vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband