Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Skólaþróunardagur SARE

Starfsfólk 13 leikskóla mætti snemma á laugardagsmorgun í leikskólann Stekkjarás í Hafnarfirði til að verja deginum í að ræða um starfið sitt. Það mætti til að kynna fyrir hvert öðru hvað það er að gera, hvernig það gangi og hvert það stefni, það mætti til að tala saman og til að læra saman.


 

Aðspurð sagði einn fyrirlesarinn mér að hún væru búin að vera alla vikuna að undirbúa erindið og það hefðu verið afar lærdómsríkt. Hún hefði notað tækifærið og farið yfir starfið, mátað það sem þær eru að gera við fræðin. Þetta hafi styrkt hennar áherslur og gert hana öruggari í því sem hún er að gera. Ég held að sama megi segja um fleiri.


 

Einn leikskólakennari sagði við mig með gleði í röddinni, Kristín mér finnst eins og ég sé kominn 20 ár aftur í tímann. Hún sagði „veistu að í dag fer maður ekki svo á ráðstefnu að það sé ekki fyrirtæki út í bæ sem heldur um allt, er á stórum hótelum í flottum sölum“. Á Stekkjarási skiptum við fólki upp í hópa, inn á deildir, sumir fengu fín sæti aðrir sátu á verri stólum. En öllum virtist sama, því fólk var upptekið af innihaldinu. Ég held að minning viðmælanda míns hafi tengst grasrótarstarfinu og þeirri grósku sem átti sér stað í leikskólastarfinu fyrir 20 árum, þegar þróunarsjóður leikskóla var nýstofnaður, þegar við vorum að stofna félagið okkar. Þegar framhaldsnámið var að fara af stað. Þegar hver einasti fagfundur var svo vel sóttur að færri komust að en vildu.


 

Á heimleiðinni sagði Guðrún Alda við mig, þetta hefði nú geta misskilist þetta með afturhvarfið, ef einhver ungur leikskólakennari eða starfsmaður hefði verið að hlusta. En af því að við vorum báðar virkar í félagstörfum fyrir 20 árum vissum við hvað viðkomandi var að fara.  


 

Andinn á Stekkjarási á laugardaginn minnti okkur fleiri á þennan skemmtilega tíma og ég er viss um að við eigum eftir að upplifa marga svona daga í framtíðinni.

Næstu daga mun ég reyna að finna tíma til að skella inn myndum, ég vona að það verði fyrr en seinna.

Þeir sem hinsvegar vilja skoða glærur Sigríðar Jónsdóttur, leikskólastjóra á Funaborg um það að svara börnum með jái í 99% tilfella, geta smellt á slóðina hér að neðan.

http://funaborg.is/images/stories/Skjol/HagnytarUpplysingar/a_segja__jai_99__tilfella.pdf


Svei umsögn borgarinnar um menntunarfrumvarp kennara - afturhaldssemi og fordómar

Vonbrigði, vonbrigði, vonbrigði. Mér finnst umsögn borgarinnar bera vott um skort á framsýni í leikskólamálum. Hvernig dettur fólkinu í hug að það þurfi og eigi að gera aðrar menntunarkröfur til leikskólakennara en t.d grunnskólakennara? Þessi umsögn ber vott um að hræðslu og hræðsluáróður. Mér finnst hún byggja á virðingarleysi fyrir leikskólanum og því starfi sem er þar. 

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að takmarkið náist 1.2. og þrír heldur að það geti tekið lengri tíma, það er gert ráð fyrir að þeir sem útskrifist með 1 gráðu (B.ed próf) hafi starfsréttindi í leikskólanum sem séu þó víkjandi þegar meistari sækir um. Leyfi ég mér jafnframt að benda á eftirfarandi heimild í 23 gr. frumvarpsins;

"Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í leikskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í leikskólum samkvæmt þessari grein."

Mönnunarvandi leikskólanna - margþættur

Miðað við mannfjöldaspár má reikna með að fjölgun barna í landinu standi í stað eða jafnvel að þeim fari fækkandi á næstu áratugum. Miðað við þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað í leikskólum má ætla að ekki þurfi að byggja leikskóla jafn mikið og hratt og gert hefur verið undanfarin 10 ár. En á það skal líka bent að undanfarin 10 ár hefur menntun og inntaka í leikskólakennaranám ekki fylgt fjölgun leikskólarýma. Það er m.a. hluti af mönnunarvandanum fyrir utan starfsaðstæður í leikskólum sem eru mannskemmandi bæði fyrir börn og starfsfólk. Þá á ég við fáránleg mörk um fermetra sem leiða til marháttaðra vandamála. Rískasta (og stundum nískasta) þjóðfélag í heimi hefur stappað börnum inn í leikskóla eins og síld var stappað í tunnur hér áður fyrr.  Allt af því að hún sér eftir þeim peningum sem fer í að byggja hús utan um börnin.

Í fyrsta sinn er löglegt að ráð ófaglært fólk - bætt réttarstaða 

Mér finnst borgin líka gleyma því að nú er gert ráð fyrir í fyrsta sinn að það sé löglegt að ráða aðra en leikskólakennara til starfa með börnum.  Hluti af samkomulaginu um lögverndun og meistaragráðuna er að nú er gert ráð fyrir að 2/3 hluti starfsmanna sé leikskólakennarar og 1/3 ófaglærður. Veit ég að stéttarfélög þessa hópa fagna ákvæðinu - enda lengi beðið um það. Varðandi lögverndun þá skiptir hún máli. t.d. er ekki hægt að bjóða upp á kennsluréttindanám til starfa í leikskólum eins og gert er grunnskólum vegna skorts á ákvæði um leyfisbréf og kennsluréttindi. Í landinu starfa fleiri hundruð manns sem gætu nýtt sér slíka námsleið en hún er þeim lokuð núna. Þessi hópur horfir til lögverndunarlaganna.  

Það er rétt hjá borginni að menntunarskortur leikskólakennara hefur ekki staðið starfinu þar fyrir þrifum, það hafa þeir hinvegar sjálfir gert með pínlegum fjárhagsáætlunum.

af vef ruv

"Borgarráð gagnrýnir kennarafrumvarp

Borgarráð Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við ríkisstjórnarfrumvarp til laga um ráðningu kennara og hafnar þeirri meginbreytingu, sem boðuð er með frumvarpinu, að meistaragráðu sé krafist til að geta kennt við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Borgarráð segir í umsögn sinni að frumvarpinu sé ætlað að leysa af hólmi lög frá 1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Veigamikil breyting felist í því að frumvarpið taki einnig til leikskólastigsins og boði að starfsheiti og starfsréttindi leikskólakennara og leikskólastjóra því verði lögvernduð.

Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um fyrirkomulag ráðninga, auglýsingaskyldu, mat á umsóknum, ráðningarsamninga og uppsagnarfresti. Borgarráð leggst eindregið gegn því að með þessum hætti sé í lögum kveðið á um atriði sem fyrst og fremst eigi heima í kjarasamningum. Slík ítarleg lagasetning stangist meðal annars á við þá meginreglu í sveitastjórnarlögum, þar sem segir að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga. Í frumvarpinu séu ákvæði sem kveða á um að leyfisbréf til þess að nota starfsheitin leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari séu skilyrði fyrir ráðningu.
Sambærileg lagaákvæði þekkist hvorki um aðrar starfsstéttir hjá sveitarfélögum né í öðrum lögum sem kveða á um lögverndun eða löggildingu tiltekinna starfsheita og/eða starfsréttinda. Sú löggjöf sem frumvarpinu sé ætlað að leysa af hólmi hafi verið sett til þess að tryggja að kennarar héldu öllum réttindum sínum við það að grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þau rök eigi ekki við nú og þannig ekkert sem kalli á að um þessa starfsstétt gildi annað en aðrar starfsstéttir sem vinna hjá sveitarfélögum. Hafi það ekki valdið erfiðleikum að slík ákvæði hafi ekki gilt um leikskólakennara.
Í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, segir í umsögn borgarráðs, er hvergi gerð krafa um meistararéttindi vegna kennslu og uppeldis barna frá 0-5 ára aldurs. Akkilesarhællinn í starfi leikskóla Reykjavíkurborgar er ekki menntunarskortur leikskólakennara heldur skortur á menntuðum kennurum. Þá segir að fullt tilefni sé til að hafa þungar áhyggjur af því hvaða áhrif lenging kennaranáms muni hafa fyrir mönnun starfa í leikskólum og grunnskólum. Hætt sé við að einsleit krafa um meistaragráðu til að starfa á leikskólum muni frekar fæla frá hæft starfsfólk leikskóla sem áhuga hefur á að tryggja starfsöryggi sitt og bæta við sig styttra námi í því skyni."


löglegt en siðlaust

Ég er ein þeirra fjölmörgu Reykvíkinga sem horfði á beina útsendingu frá ráðhúsinu. Ég varð vitni að því þegar mótmælin fóru úr böndunum. Frá upphafi átti e.t.v. ekki að kalla uppákomuna mótmæli heldur opinbera vandlætingu. Því þó flestum okkar hafi þótt illa farið með lýðræðislegan rétt borgarfulltrúa þegar Villi lagðist á Ólaf og af því er virðist með lygar í farateskinu, þá var þetta ekki ólöglegur gjörningur. Eins og annar fyrrum samherji minn úr pólitík sagði, „löglegt en siðlaust“.  Vilhjálmur situr upp með þann kaleik að verða dæmdur af sögunni sem siðlaus pólitíkus.


Ég skil vel unga fólkið sem var misboðið en það réttlætir ekki dónaskap sem því miður örfáir sýndu. Ég var ekkert ofurkát að heyra rök þeirra sem voru í forsvari. En ég get skilið þau. Hinsvegar leiðist mér að heyra hvernig víða er fjallað er um mótmælin. Aðferðafræðin er vel þekkt og um leið og ég sá hvað var að gerast á pöllunum, vissi ég að því miður höfðu þessir örfáu fært upp í hendurnar á sjálfstæðimönnum vopn hneykslunar og sjálfsréttlætingar. Þetta er nefnilega sama aðferðarfræðin og við notum þegar við ræðum um unglingana okkar, það eru örfáir sem haga sér e.t.v. illa en samfélagið talar um agalausan skríl sem verði að koma böndum á. Ég vona að unga fólkið sem tók þátt í mótmælunum hristi af sér þessa umræðu og læri af henni. Afleiðingin verið sú að fjöldi fólks eigi eftir að sitja oft á pöllum næstu tvö árin og sýna vandlætingu sína. Setja upp þöglan fyrirlitningarsvip gagnvart siðlausum pólitíkusum.


Mér leið illa að horfa á Ólaf í pontu, ég fann verulega til með manninum. Og ég ætla engum svo illt eða slíkt siðleysi að hafa haft það sem markmið að brjóta manninn niður. Væntanlega og vonandi þarf meira til, upp á það hefur hann líka skilað inn vottorði.


En fari svo að Ólafur haldi ekki heilsu, þá á ég þá von að nýi minnihlutinn leyfi Sjálfstæðisflokknum að stjórna til loka kjörtímabilsins. Ég skal viðurkenna að ég er með hroll vegna hinna nýju valdhafa en mér finnst hvorki, borgarbúum eða stofnunum þess bjóðandi upp á þriðju stjórnina á kjörtímabilinu. Minnihlutinn á að greiða atkvæði með málefnum og annars sitja hjá. Á að sýna hvað hann er stór. Það á að láta sjálfstæðimenn standa frammi fyrir kjósendum og svara fyrir verk sín í næstu kosningum. Ég hef enga trú á að hið fræga gullfiskaminni nái tökum á kjósendum. Ég held að núverandi meirihluti hafi undirritað pólitíska aftöku sína.


Ingibjörg Kristleifsdóttir - nýr varaformaður í Félagi leikskólakennara

Er með tvær hamingjuóskir á dagskránni. Í Félagi leikskólakennara gerðist það í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir endurreisn þess sem stéttarfélags fyrir 20 árum að það komu fram tvö framboð til varaformanns. Tvær mætar konur vildu leggja á sig það hlutverk í þágu allra hinna að gæta hagsmuna þeirra og barnanna okkar. Úrslit voru afgerandi en samtímis þannig að báðar geta verið stoltar af. Ingibjörg Kristleifsdóttir sem var kjörin varaformaður hlaut rúm 54% atkvæða og Marta Dögg Sigurðardóttir fékk tæplega 44%, atkvæða. Ég óska þeim báðum hjartanlega til hamingju. 

Svo horfði ég á sjónvarp frá Alþingi í dag, þar var menntamálaráðherra að svara fyrirspurn um Háskólann á Akureyri. Sagði meðal annars að ein stærsta útstöð HA væri hennar eigin heimbær, Hafnarfjörður. En þar er skólinn í samstarfi við öfluga fjarkennslumiðstöð.

 

Meðal þeirra sem stigu í stól er ung varaþingkona Vinstri grænna úr Norðausturkjördæminu, Dýrleif Skjóldal nemi við leikskólabraut HA. En meðal þess sem hún nefndi var þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið á Akureyri í leikskólamálum eftir tilkomu leikskólabrautarinnar þar. Fáir geta státað af jafn mikilli mönnun fagfólks á leikskólum eins og Akureyrarbær, meðaltalið er um 70% á meðan landsmeðaltalið er nærri 40%. Þetta má rekja beint til HA. Ég vil nota tækifærið og þakka varaþingkonunni ungu að beina kastljósinu að gleðilegum fréttum af leikskólum. Til hamingju með að nota það tækifæri sem þér gefst til að koma málefnum barna á framfæri.  

Fréttir af Reggio hópnum

Það er helst í fréttum að SARE stendur fyrir skólaþróunardegi næsta laugardag á Stekkjarási í Hafnarfirði. Þar kemur saman starfsfólk leikskóla sem starfar í anda Reggio Emilia um 150 manns. Starfsfólkið ætlar sjálft að vera með allar smiðjur og málstofur, ætlar að kynna fyrir hvort öðru hvað það er að gera, hvernig og hversvegna. Við hlökkum auðvitað öll mikið til. Það skemmir ekki fyrir að við erum að fagna styrk Reykjavíkurborgar til okkar. En hann fengum við til að koma upp miðstöð fyrir endurnýtanlegan efnivið. Við veljum að kalla hana ReMída -skapandi efnisveita. Svona í höfuðið á öllum hinum veitunum. Og hugmyndin er sú sama að vera leiðari, dreifikerfi fyrir efnivið til leikskóla, en jafnframt að veita efnivið viðtöku frá fyrirtækjum og stofnunum.  
 

Við erum líka langt komin með að skipuleggja ReMídu ráðstefnu í vor og námskeið í tengslum við það. Þannig að SARE er mjög öflugt þó ekki hafi heyrst mikið frá því akkúrat núna.

Föstudaginn og laugardaginn 8. og 9. febrúar verður vísindasmiðja í Ráðhúsinu í Reykjavík sem verður opin öllum. Að henni stendur þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í samvinnu við leikskólabraut Háskólans á Akureyri. Þar gefast börnum og foreldrum tækifæri til að taka saman þátt í skemmtilegum  verkefnum sem tengjast byggingum, ljósi og skugga. Ég er á fullu við að undirbúa þennan atburð. Allir í kring um mig eru að safna efnivið til að byggja úr, pabbi að smíða ljósaborð. Stofnanir borgarinnar leggja líka sitt af mörkum, á morgun ætlum við Guðrún Alda (sem er fulltrúi þjónustumiðstöðvarinnar í verkinu, upphafsmaður þess og sú sem plataði mig með) að heimsækja skógræktina en þeir eru meðal þeirra sem eru að taka saman efnivið.

Svo er það Sturlubarnið

Þá er komið að fréttapistli vikunnar. Tottenham vann Arsenal í fyrsta sinn í fjölda ára og hér var mikill fögnuður. Sturlubarnið var viðstatt og tók fagnaðarlátunum af mikilli stillingu. Hann gladdist líka með okkur í kvöld yfir handboltaliðinu, sem eru auðvitað strákarnir okkar núna. Hann heillaði líka vinkonur ömmu sinnar upp úr skónum með brosi og hlátri alveg þangað til að hann fór að háskæla með skeifu og allt, sýndi af mikilli snilld hvað lungun eru kraftmikil. Og þá gátu þrír leikskólakennarar sem eru allar líka ömmur ekkert gert til að hugga.      

 

elsku afi
 Sturlubarnið er að verða 4ra mánaða, hann fór í sína fyrstu gönguferð í vagninum daginn sem Tjarnarkvartettinn myndaði meirihluta í borginni. Fór þá á sinn fyrsta blaðamannafund. Við samfylkingarfólk glöddumst yfir stjórnarskiptum í borginni þá. Ég hef nú ekki séð eða skynjað jafn almenna gleði hjá sjálfstæðisfólki nú. Enda erfitt þegar margir virðast sammála Jóhanni Haukssyni blaðamanni sem líkti Sjálfstæðiflokknum í borginni við dópdílera á skólavelli. Þeir reyna við alla og ná svo venjulega þeim sem eru ekki sterkastir á svellinu. Ekki fleiri orð um það í bili. 

 

í munninn
Ástæðan fyrir að ég fór að ræða um borgina er þetta með fyrstu vagnaferð Sturlubarnsins. Mér finnst líka eins og ég hafi alltaf þekkt Sturlubarnið. Samt er hann rétt þremur vikum eldri en fráfarandi meirihluti. Og hann er búinn að læra og gera svo ótal margt á þessum tíma. Halda höfði, uppgötva á sér hendur og tær, læra að velta sér á milli hliða og af maga yfir á bak, hjala, halda athygli, hann er byrjaður í ungbarnasundi, búinn að fá RS og á leiðinni til útlanda í fyrsta sinn, búinn að fá sinn eigin passa. Hann er búin að lengjast um 16 sentímetra og meira en tvöfalda fæðingarþyngd sína. Honum finnst gaman þegar afi spilar á úkulele og sílafón. Og líka þegar amma er að reyna ýmis óhefðbundin leikföng með honum. Tóm tveggja lítra flaska með litríku sellófani innan í, er ótrúlega áhugaverð og æfir líka grip og samhæfingu handa og fóta. Það er nefnilega gott að krækja tánum utan um hana, auðveldar að stýra henni að munninum. En eitt aðalrannsóknartæki Sturlubarnsins er einmitt munnurinn. Sturlubarnið er líka með sitt eigið skap, miklu meira en pabbinn og mamman geta státað af, segja þau. Hann getur grenjað eins og ljón og hlegið innilega og er bara æðislegur.

 

á maga

Heimaskítsmát

Þetta er snilldar leikflétta hjá Ólafi F. Magnússyni og miklu dýpri en menn almennt virðast ræða. Ég held að þetta sé djúphugsuð og mjög óvenjuleg leikflétta. Sönn hefnd, tilreidd köld. Sumir eiga verr skilið en aðrir og kannski “vinur minn Villi” mest. Leikfléttan getur litið svona út.

 
  1. Ólafur er guðfaðir nýs R-lista samstarfs, nær þar að komast inn í hlýjum sem honum var neitað um þegar R -listinn var enn við völd. Þá fékk hann að dúsa úti hjá bæði meirihluta og minnihluta. Stund endurgjalds er komin. 
  2. Villi hittir Ólaf og skynjar að hann er ekki alveg glaður í hinum nýja R-lista. hann sér leik á borði og bíður Ólafi upp í dans.   
  3. Ólafur heldur Villa volgum, en lætur samtímis fréttast að það sé verið að bjóða í sig.
  4. Villi tapar kúlinu og bíður allt, með eða án, málefna D-listans. Villi hefur ekki hugmynd um að Ólafur er að sóla, ekki fyrr en of seint.
  5. Ólafur er orðinn borgarstjóri, kemur sínum hjartans málum að – nú verða sjálfstæðismenn að vinna að þeim. Vera þjónar Ólafs, þjónar sem ávallt eru með það sverð hangandi yfir að með litlum fyrirvara sé hægt að hrifsa af þeim völdin.
  6. Ólafur veit sem er að hans dagar í pólitík eru hvort eð er taldir eftir næstu kosningar, en arfleið hans (flugvöllur og Laugavegur) mun lifa.
  7. Villi er búinn – liðið hans Villa er búið, borgarbúar munu refsa þeim í næstu kosningum. Innreið þeirra í landsmálin verður þyrnum stráð ef þau á annað borð treysta sér þá leið. Eftir þetta verða þau aldrei meira en meðreiðasveinar í pólitík
  8. Sannkallað heimaskítsmát hjá Villa og D- listann
 

Ég efast um að Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að fagna þessum gjörningi þegar fram í sækir. Allt sem þeir hafa hingað til talið sér til tekna og státað sig af (hvort sem það hefur nú verið rétt) er nú fallið. Hefndarþorstinn varð flokkshollustunni yfirsterkari.

 
mbl.is Vörður fagnar nýjum meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki rotuð - bara bisí

Ég fékk upphringingu í dag, viðkomandi vinkona var bara að tékka á hvort ég væri ekki lífs, hafði ekki talað við mig í viku og ekkert séð á blogginu. Ég er lifandi og við góða heilsu. Á morgun hefst hins vegar kennsla og hana þarf að undirbúa. Sit hér nú og útbý glærur. Í fyrra ákvað ég að sleppa glærunum og flytja fyrirlestrana. Nemarnir voru eins og vængbrotnir fuglar og alls ekki þakklátir kvalara sínum. Þrátt fyrir að ég talaði fyrirlestrana inn á hljóðglærur var það ekki nóg. Fátt virðist koma í stað fyrir vel massaðar power point glærur.

Bókin sem ég byrja að kenna heitir því skemmtilega nafni Doing Foucalt in early chidhood studies og er eftir ástralska fræðikonu Glendu MacNaughton, í inngangi bókarinnar stendur að markmið hennar sé að:

byggja upp þekkingu í leikskólafræðum sem styður að daglegt lif með börnum í leikskólum sé byggt á siðfræði og lýðræði. Henni er ætlað að hjálpa nemum að bera kennsl á pólitíska ferla, þar sem einni tegund þekkingar í leikskólafræðum er raðað í forgang umfram aðra.

Sem dæmi þá var Piaget lengi vel alsráðandi sem fulltrúi hinar réttu kenningar, önnur kenning sem átti upp á pallborð stjórnvalda í hinum vestræna heimi var kenning Bolwby um geðtengsl. koðað er  hvernig hún var nýtt til að stýra konum af vinnumarkaði og inn á heimilin. Hérlendis var kenningin kölluð móðurafrækslukenningin. Í bókinni er hvatt til ígrundunar um hver velur, hvaða þekking er nýtt og framleidd. Fyrir hverja og hver hagnist helst.

Annars er það helst af mér að frétta að í gær var ég með mínum skólasystrum úr framhaldsnámi í stjórnun. Hittumst við með mökum í árlegu áramótaboði. Ræddum um dagskrá ársins sem er auðvitað tilbúin fyrir utan smáatriði eins og hvert á að halda í júní með mökum. Lagt var til að í ár færum við í útilegu út í guðsgræna náttúruna en samt nálægt golfvelli. Kom í ljós að ýmsir í hópnum eiga "skuldahala" (nýyrði sem ég lærði í gær), öðru nafni tjaldvagn eða fellihýsi. Sumir eiga líka appelsínugul Belgjagerðartjöld. Aðrir eins og undirrituð lagði til að tjaldað væri nálægt bústöðum sem leigðir væru út til þeirra sem ekki eru veikir fyrir tjaldlífi.

Við fengum annars tapas rétti að snæða og sátum við borðhaldið í marga klukkutíma og skemmtum okkur vel.   

 


Rota jólin

Tæmum glös og gleðjum lund
þó gusti um norðurpólinn.
Það er vani að vaka stund
við að „rota“ jólin.
                  (Stefán Stefánsson frá Móskógum á Bökkum)
Þessi vísa er eftir Skagfirðing nokkurn sem lýsir þar þeim sið að rota jólin á Þrettándanum. Það gerum við líka í minni fjölskyldu. Aðallega held ég nú að við höfum haldið í siðinn vegna þess að þá á mamma afmæli. Þegar við mættum í Skeifuna í dag var hún búin að útbúa veisluborð úr öllum afgöngum jólanna og meiru til. Við mættum öll til að gleðjast með henni og kýla vömbina svona áður en lagt verður í átak ársins. Bræður mínir mættu að venju með rakettur og blys. Held að stærstu kökurnar sem þeir sprengdu hafi verið á stærð við þvottavélar.  Börn á ýmsum aldri skemmtu sér við að skjóta upp en við hin létum nægja að horfa út um stofugluggann.  
  
Við rifjuðum líka upp úr æsku okkar Þrettándagleði á Króknum, þegar Álfadrottning og Álfakóngur komu í hestakerru á Þrettándabrennu á Flæðunum. Þegar fólk safnaðist þar saman og söng Stóð ég út í tunglsljósi og fleiri lög.   
   
Já við rotuðum jólin með glæsibrag þó ekki hafi verið vakað lengur að skagfirskum sið - enda fylgir víst þeim sið að fá sér oggulítið í tána og á morgun er vinnudagur.

Gleðileg að mestu en líka ónákvæm frétt

Þó svo að ég gleðjist yfir því að enginn hafi látist af völdu flugslyss á síðustu árum í íslenskri vél, og fagni öllu sem bendi til aukins öryggis í flugi, verð ég að gera athugasemd við fréttaflutning Morgunblaðsins af skýrslu RNF.

 "Ekki hefur orðið banaslys í íslensku loftfari síðustu árin og frá árinu 1998 til 2006 var eitt banaslys í íslenskri flugvél, árið 2000."

Árið 2000 var eitt mannskætt flugslys, þá fórst í Skerjafirði farþegavél með 6 manneskjum (en í fréttinni er þetta matreitt eins og eitt banaslys). Vegna Skerjafjarðarslyssins létust sex manneskjur þar af fjórar innan við sólahring frá slysinu. 

Í skýrslu RNF er sagt að 4 hafi látist og tveir lifað slasaðir (bls. 64). Þeir tveir sem lifðu af slysið þökk sé björgunarfólki og íslensku heilbrigðiskerfi létust báðir innan við ár frá slysinu af völdum meiðsla sem þeir urðu fyrir. Sonur minn Sturla Þór, þann 1. janúar 2001 (samkvæmt dánarvottorði vegna meiðsla af völdum slyssins) og vinur hans Jón Börkur þann 16. júní 2001. 


mbl.is Ekki banaslys í flugi frá árinu 2000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband