Svei umsögn borgarinnar um menntunarfrumvarp kennara - afturhaldssemi og fordómar

Vonbrigði, vonbrigði, vonbrigði. Mér finnst umsögn borgarinnar bera vott um skort á framsýni í leikskólamálum. Hvernig dettur fólkinu í hug að það þurfi og eigi að gera aðrar menntunarkröfur til leikskólakennara en t.d grunnskólakennara? Þessi umsögn ber vott um að hræðslu og hræðsluáróður. Mér finnst hún byggja á virðingarleysi fyrir leikskólanum og því starfi sem er þar. 

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að takmarkið náist 1.2. og þrír heldur að það geti tekið lengri tíma, það er gert ráð fyrir að þeir sem útskrifist með 1 gráðu (B.ed próf) hafi starfsréttindi í leikskólanum sem séu þó víkjandi þegar meistari sækir um. Leyfi ég mér jafnframt að benda á eftirfarandi heimild í 23 gr. frumvarpsins;

"Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í leikskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í leikskólum samkvæmt þessari grein."

Mönnunarvandi leikskólanna - margþættur

Miðað við mannfjöldaspár má reikna með að fjölgun barna í landinu standi í stað eða jafnvel að þeim fari fækkandi á næstu áratugum. Miðað við þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað í leikskólum má ætla að ekki þurfi að byggja leikskóla jafn mikið og hratt og gert hefur verið undanfarin 10 ár. En á það skal líka bent að undanfarin 10 ár hefur menntun og inntaka í leikskólakennaranám ekki fylgt fjölgun leikskólarýma. Það er m.a. hluti af mönnunarvandanum fyrir utan starfsaðstæður í leikskólum sem eru mannskemmandi bæði fyrir börn og starfsfólk. Þá á ég við fáránleg mörk um fermetra sem leiða til marháttaðra vandamála. Rískasta (og stundum nískasta) þjóðfélag í heimi hefur stappað börnum inn í leikskóla eins og síld var stappað í tunnur hér áður fyrr.  Allt af því að hún sér eftir þeim peningum sem fer í að byggja hús utan um börnin.

Í fyrsta sinn er löglegt að ráð ófaglært fólk - bætt réttarstaða 

Mér finnst borgin líka gleyma því að nú er gert ráð fyrir í fyrsta sinn að það sé löglegt að ráða aðra en leikskólakennara til starfa með börnum.  Hluti af samkomulaginu um lögverndun og meistaragráðuna er að nú er gert ráð fyrir að 2/3 hluti starfsmanna sé leikskólakennarar og 1/3 ófaglærður. Veit ég að stéttarfélög þessa hópa fagna ákvæðinu - enda lengi beðið um það. Varðandi lögverndun þá skiptir hún máli. t.d. er ekki hægt að bjóða upp á kennsluréttindanám til starfa í leikskólum eins og gert er grunnskólum vegna skorts á ákvæði um leyfisbréf og kennsluréttindi. Í landinu starfa fleiri hundruð manns sem gætu nýtt sér slíka námsleið en hún er þeim lokuð núna. Þessi hópur horfir til lögverndunarlaganna.  

Það er rétt hjá borginni að menntunarskortur leikskólakennara hefur ekki staðið starfinu þar fyrir þrifum, það hafa þeir hinvegar sjálfir gert með pínlegum fjárhagsáætlunum.

af vef ruv

"Borgarráð gagnrýnir kennarafrumvarp

Borgarráð Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við ríkisstjórnarfrumvarp til laga um ráðningu kennara og hafnar þeirri meginbreytingu, sem boðuð er með frumvarpinu, að meistaragráðu sé krafist til að geta kennt við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Borgarráð segir í umsögn sinni að frumvarpinu sé ætlað að leysa af hólmi lög frá 1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Veigamikil breyting felist í því að frumvarpið taki einnig til leikskólastigsins og boði að starfsheiti og starfsréttindi leikskólakennara og leikskólastjóra því verði lögvernduð.

Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um fyrirkomulag ráðninga, auglýsingaskyldu, mat á umsóknum, ráðningarsamninga og uppsagnarfresti. Borgarráð leggst eindregið gegn því að með þessum hætti sé í lögum kveðið á um atriði sem fyrst og fremst eigi heima í kjarasamningum. Slík ítarleg lagasetning stangist meðal annars á við þá meginreglu í sveitastjórnarlögum, þar sem segir að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ákvæðum ráðningarsamninga. Í frumvarpinu séu ákvæði sem kveða á um að leyfisbréf til þess að nota starfsheitin leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari séu skilyrði fyrir ráðningu.
Sambærileg lagaákvæði þekkist hvorki um aðrar starfsstéttir hjá sveitarfélögum né í öðrum lögum sem kveða á um lögverndun eða löggildingu tiltekinna starfsheita og/eða starfsréttinda. Sú löggjöf sem frumvarpinu sé ætlað að leysa af hólmi hafi verið sett til þess að tryggja að kennarar héldu öllum réttindum sínum við það að grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þau rök eigi ekki við nú og þannig ekkert sem kalli á að um þessa starfsstétt gildi annað en aðrar starfsstéttir sem vinna hjá sveitarfélögum. Hafi það ekki valdið erfiðleikum að slík ákvæði hafi ekki gilt um leikskólakennara.
Í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, segir í umsögn borgarráðs, er hvergi gerð krafa um meistararéttindi vegna kennslu og uppeldis barna frá 0-5 ára aldurs. Akkilesarhællinn í starfi leikskóla Reykjavíkurborgar er ekki menntunarskortur leikskólakennara heldur skortur á menntuðum kennurum. Þá segir að fullt tilefni sé til að hafa þungar áhyggjur af því hvaða áhrif lenging kennaranáms muni hafa fyrir mönnun starfa í leikskólum og grunnskólum. Hætt sé við að einsleit krafa um meistaragráðu til að starfa á leikskólum muni frekar fæla frá hæft starfsfólk leikskóla sem áhuga hefur á að tryggja starfsöryggi sitt og bæta við sig styttra námi í því skyni."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband