Leikskóli á útsölu

Þegar verið er að ræða leikskólamál heyrist gjarnan hvað hann sér dýr fyrir samfélagið. Að sveitarfélög hafi bara ekki kost á að gera betur en þau gera. Í leikskólum hefur hins vegar borið við að fólk sé orðið þreytt á sínum vinnuaðstæðum t.d. í nýjum tölum frá RannUng þar sem m.a. streita á meðal leikskólakennara var rannsökuð. Við vitum að allir þurftu að herða ólar eftir hrun líka þeir sem höfðu ekkert hagnast á góðærinu og voru bara með nokkuð herta ól. En meira þurfti til.

Alvarleg staða í Reykjavík

Í Reykjavík var farið út í hraðar sameiningar leikskóla og dregið úr t.d. afleysingum. Leikskólakennarastéttin fékk að heyra hvað hún hefði það gott og nú ætti að taka á. Stöður sem styrktu leikskólann faglega og gáfu oft reyndum og vel menntuðum leikskólakennurum færi á að þróa sig á sínu sérsviði (verkefnastjórastöður) voru lagðar af, þær voru bruðl. Neysluhléið í Reykjavík var að mestu tekið af leikskólakennurum. Víða hefur verið erfitt að komast í undirbúning á dagvinnutíma. Framlag til yfirvinnu hefur minnkað, í borginni ríkti um tíma yfirvinnu- og ráðningarbann. Leikskólakennarar njóta ekki lengur forgangs með börn sín í leikskóla, það merkir að þeir eru lengur heima í foreldraorlofi og eða þeir færa sig til sveitarfélaga þar sem forgangur ríkir, eins og í Kópavog. Staða aðstoðarleikskólastjóra hefur breyst og víða að þeim saumað, þeim hefur fækkað og dregið úr starfi þeirra utan deilda. Allir í leikskólanum hafa hlaupið hraðar, sumir vegna þess að þeir trúðu því að leikskólinn væri svona dýr og mikil áþján fyrir skattgreiðendur. Að hann væri lúxsus.

Dýr leikskóli

Allt hefur þetta verið gert til að spara vegna þess að leikskólinn er svo dýr fyrir samfélagið. En hvað kemur í ljós. Í nýjum tölum frá borginni kemur í ljós að leikskólinn er á ÚTSÖLU. Að hver klukkutími í grunnskóla er um 60% dýrari en klukkustund í leikskóla. Að hvert leikskólabarn kostar 824 kr. á klukkutímann en hvert grunnskólabarn 1335 kr. á klukkutímann. Það kemur í ljós að með 6- 15 ára börnum eru fleiri stöðugildi en fyrir börn í leikskóla þar sem börn eru frá 18 mánaða til 5 ára. (Hér ætla ég ekki að fara í klassískan samanburð á fermetrum fyrir börn í leikskólum og grunnskólum sem eru leikskólanum mjög í óhag). Stundum þegar rætt er um mismuna á dreifingu á fjármagni milli leikskóla er borið við jafnræðisreglu, hvað með jafnræði á milli barna á mismunandi aldursskeiðum?

Þjónustustofnun

Foreldrar kvarta stundum undan því að leikskólinn sé ekki nógu mikil þjónustustofnun samt eru starfsdagar þar eru 235 en í grunnskólanum 180, leikskólinn er opinn 11.1 mánuði en grunnskólinn 5,76 mánuði. Hvert barn er 1996 tíma í leikskóla á ári en 998 tíma í grunnskóla. Til að skila fullri vinnuskyldu þarf hver launamaður að skila 1800 vinnuskyldustundum og lágmarks orlof er 196 vinnuskyldustundir. 100% vinna og sumarorlof er sambærilegt meðalviðveru BARNS Á ÁRI Í LEIKSKÓLUM. Svo er kvartað undan skilningsleysi leikskólans við foreldra og atvinnulíf. Það er ljóst að leikskólakennarar hafa ekki nema brot af undirbúning grunnskólakennara, til að undirbúa nærri tvöþúsund klukkutíma fyrir börn. Starfsaðstæður þeirra til að sinna þessum undirbúningi er líka mun lakari fyrir utan almennt starfsumhverfi.

Ef ég væri leikskólakennari í Reykjavík væri ég öskuill. Nú fer í hönd fjárhagsáætlanagerð, vonandi sjá pólitíkusar að þeir hafa höggið of lengi og of fast í sama knérum. Leikskólinn er ekki ÚTSÖLUVARA.

Að lokum hér er ekki ætlunin að gera lítið úr grunnskólanum aðeins að benda á samanburðinn og hversu óhagstæður hann er leikskólanum. Og þó svo hér sé fjallað um borgina eru tölur sennilega sambærilegar fyrir önnur sveitarfélög.

Erindi og glærur Kristínar Egilsdóttur fjármálastjóra mennta- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Svona bjartsýnismoli - þrátt fyrir þessar aðstæður hitti ég dag eftir dag leikskólakennara sem elska starfið sitt sem gætu ekki hugsað sér að gera neitt annað sem eru skuldbundnir börnunum og faginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Kristín góður pistill hjá þér.

Ég tók þátt í umræðunum hér í Kópavogi fyrir hrun, þegar vöntun var á starfsfólki í leikskólanna bæði faglega menntaða og ófaglært starfsfólk. Þetta var leyst með leiðréttingum en einnig með því að starfsfólk leiksólanna fékk ákveðin fríðindi með eigin börn. Þegar oddviti Samfylkingarinnar Guðríður Arnardóttir tók við þá voru þessi fríðindi tekin af og jafnframt því hótað að hægt væri að láta kanna hvort þessi fríðindi hafi verið gefin upp til skatt. Ósvífnara geta stjórnmálamenn vart verið. 

Fæ síðan stöðuna reglulega úr Reykjavík frá  fagmenntuðu vinafólki. Framganga nú verandi meirihluta í Borginni er leikskólum ekki hagstæð.

Ein af fagmenntuðu reynsluboltunum sagði: ,,Ég held að það  hái séttinni, hvað hún er tengd einum stjórnmálaflokki Samfylkingunni. Forráðamenn okkar hafa sem betur fer látið í sér heyra undanfarin ár og náð að rétta hlut okkar all nokkuð. Þegar Samfylkingin er við völd og skerðir okkur umfram aðra, tísta forráðamennirnr."

Sigurður Þorsteinsson, 9.10.2012 kl. 07:25

2 identicon

tímabær umræða og vel gert Kristín!

Það sóttu á hugann vangaveltur um réttindi barna og jafnræðisreglur í þessu samhengi. Ung börn hafa lágstemmda rödd og fáir sem tala fyrir þeirra munn. Það gerir Kristín og takk fyrir það. Þjóðin ætti öll að vilja veg barna sinna sem mestan og gefa þeim það allra besta inn í framtíðina en sú er því miður ekki raunin í öllum tilvikum. Ég velti oft fyrir mér vinnuaðstæðum ungra barna, þau fá lítið húsrými, eru mörg saman í litlum stofum, langan vinnudag (með fáa, verkefnum hlaðna kennara). líklega myndu fáir foreldrar, stjórnmálamenn eða fullorðnir almennt þegjandi láta yfir sig ganga þær aðstæður sem börn (og leikskólakennarar) búa við í vinnunni sinni. Svo leiða rannsóknir í ljós að það heyrist of mikið í börnum (í þröngu, yfirfullu rýmunum) og þá þarf að finna leiðir til að þagga niður í þeim í stað þess að búa þeim aðstæður þar sem hægt er að leika sér, hafa gaman og hafa hátt inn á milli. Börn eiga að heyrast! Börn eiga rétt á plássi til að hreyfa sig og leika leiki sem taka pláss, þau þurfa á því að halda að geta eflt hreyfiþroskann. Þau ættu að geta teygt úr sér og snúið sér í hringi án þess að stíga á önnur börn eða detta um þau. Ég er þess líka fullviss að agamál eru í beinum tengslum við þrengsli. Þar sem er þröngt er líklegra að árekstrar eigi sér stað, eða hvað? Mín vegna mætti byggja ódýrari hús og gefa í staðinn börnum meira rými, rými sem þau þurfa og ættu að eiga rétt á. Mín vegna mætti þrífa ögn sjaldnar og gefa leikskólakennurum fleiri tækifæri til undirbúnings og mín vegna mætti svo sannarlega skera af yfirbyggingar og fjölga fólki sem er á gólfinu með börnunum. Ég velti fyrri mér hversvegna forgangsröðin er á skjön og umræðan þar sem hún er. Hversvegna?

Anna Elísa (IP-tala skráð) 9.10.2012 kl. 15:12

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég er reyndar ekki sammála um að það sé stéttinni neitt til trafala að í henni er fólk sem er í Samfylkingunni. Ég er jafn ófeimin við að gagnrýna þau verk sem annarra og er ég  ein þeirra sem þar er flokksbundin. Mér finnst stundum aðrir vera með Samfylkinguna meira á heilanum en við sem þar erum.

Kristín Dýrfjörð, 9.10.2012 kl. 20:00

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk Anna Elísa tek undir hvert orð.

Kristín Dýrfjörð, 13.10.2012 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband