Sjálfshvörf og ísull - af heimspekitorgi í gær

Í gær fór ég á heimspekitorg í Háskóla Íslands. Þar fluttu tveir heimspekingar þeir Kristján Kristjánsson prófessor við KHÍ og HA og  Ólafur Páll Jónsson, lektor við KHÍ erindi um ritgerðir sínar í nýjasta hefti Huga. Bæði held ég að heimspekitorgið hafi verið hugsað sem kynning á Huga og sem kynning á nýju námi í heimspeki menntunar við hið nýja Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Torgið var byggt upp þannig að fyrstur tók Kristján til máls, síðan fékk Ólafur orðið og gagnrýndi erindi Kristjáns. Kristjáni var svo veitt tækifæri til andsvars og síðan var opnað fyrir spurningar úr sal. Sama fyrirkomulag var um erindi Ólafs Páls. Vel var mætt og stofan fullsetin.

Sjálfshvörf og ísull

Áhugi Kristjáns þessa daga snýr m.a, að því að tengja saman og skoða sama fyrirbærið/viðfangsefnið af sjónarhorni mismunandi fræðigreina. Hann er að leitast við að brjóta niður háa múra fræðigreinanna. Afurðina kennir hann við ísull. Í ljósi skrifa Kristjáns fyrir allmörgum árum í Moggann gegn póstmódernískum hugmyndum var áhugavert að sjá að hann virðist vera að meyrna gangvart sumum hugmyndum. Hann fjallaði töluvert um það sem hann kallar ísullsaðferðina, og nauðsyn hennar fyrir menntunarfræðin. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hann hafa getað valið sér betra heiti. En kannski er það einmitt svo að heitið gefur hugmynd um djúpstæð viðhorf hans til aðferðarinnar. Og þrátt fyrir að hann velji að beita henni sé það gert með trega.

Eins og ég skildi ísullsaðferðina þá byggir hún að hluta á því sem sumir vilja ættfæra til póststrúktúralískra aðferða. Meðal þess er að greina tungumál og hugmyndir, að leita fanga í textum víða að og blanda saman, hugmyndafræðilega og aðferðafræðilega. Meðal póststrútúralista innan leikskólafræðanna er ekki óalgengt að  fólk geri grein fyrir siðrænum gildum sínum. Gildum sem byggja á virðingu fyrir mannhelgi og mannréttindum, trú á réttlæti og jöfnuð. Þeir höfundar sem ég styðst við afneita siðrænni afstæðishyggju en viðurkenna samtímis að til séu margir og mismunandi sannleikar og að ríkjandi sannleikur stjórnist af m.a. pólitík ríkjandi stétta.  

Viðfangsefni Kristjáns í gær var það sem hann nefnir sjálfshvörf. Sjálfshvörf verða að hans mati þegar einstaklingur verður fyrir róttækum áhrifum af hugmynd, annarri manneskju sem breytir honum og hugmyndakerfi hans til framtíðar. Innan kvikmyndanna hafa margar slíkar sögur verið festar á blað og er kennari gjarnan í hlutverki þess sem hefur slík áhrif á einstaklinga. Hluti af umræðunni um sjálfshvörf er umræða um sjálfið, hvort það sé til, ef svo er hvernig það þróist, hvort að sama manneskja geti átt mörg og jafnvel andstæð sjálf.

Kristján er nú að safna íslenskum sögum af slíkum sjálfshvörfum og leitar m.a. fanga í ýmsum ævisögum.  

Miklar og skemmtilegar umræður spunnust um sjálfshvörf. Páll Skúlason velti upp hugtakinu sinnaskipti. Jónas Pálsson um hvort að það sem fólk nefnir að frelsast eða taka trúskipti falli undir sjálfshvörf. Kristján upplýsti okkur um að mikið hefur verið rætt um trúskipti og trúarleg sjálfshvörf innan trúfræðinnar en minna innan sálfræðinnar. Sigurður Grétarsson velti því upp hvort að sjálfshvörf væru raunverulegt mælanlegt sálfræðilegt fyrirbrigði, fannst það geta verið áhugavert rannsóknarefni. Þórdís Þórðardóttir velti upp tengslum sjálfshvarfa við hugmyndir um resiliance eða þrautseigju. En þar kemur fram að ein mikilvægasta vísbending um þrautseigju barna sé að þau hafi í lífi sínu einstakling sem trúir á það (signifiant other) oft er það kennari.

Kristján hvatti þá sem mundu efir ævisögum eða frásögnum þar sem slíkum sjálfshvörfum er lýst til að hafa samband við sig.

Eftir báða fyrirlestrana settumst við nokkrar saman í kaffi til að ræða þá. Við veltum fyrir okkur hvort það teldist til sjálfshvarfa þegar t.d. sterkur einstaklingur hrífur heilan hóp með sér í sömu átt. Eða hvort slíkt væri til vitnis um hjarðeðli okkar. Við spurðum Kristján (sem sat á næsta karlaborði og ræddi „fótbolta“) hvort slíkt félli undir sjálfshvörf. Hann vildi meina að til að breyting gæti flokkast sem sjálfshvörf yrðu áhrif hennar að vera varanleg og föst. Ef t.d. viðkomandi sterki aðili væri ekki lengur í lífi fólks og áhrif hugmynda hans og skoðana dofnuðu eða „hyrfu“ væri ekki um sjálfshvörf að ræða.

Um fyrirlestur Ólafs Páls þyrfti að skrifa aðra eins færslu sem ég geri kannski í dag. Fyrirlestur hans og umfjöllunarefni eru enda meira á mínu sviði en umfjöllunarefni Kristjáns.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband