Ég er ánægð með menntamálaráðherra

Ég er ein þeirra sem fagna fram komnu frumvarpi menntmálaráðherra um kennaramenntunina. Og ég fagna því sérstaklega að aldrei hafi komið annað til greina en að fara eins með menntun kennara allra skólastiganna. Ég tel að ef menntun leikskólakennara verður skilin eftir á B.ed stiginu verði það rothögg fyrir starf leikskólanna. Sem rök gegn því að menntun leikskólakennara eigi að fylgja annarri kennaramenntun er bent á manneklu í leikskólum. Fyrst má benda á að mannekla hefur ekkert með menntunina að gera. Hún er auk þess staðbundið vandmál á höfuðborgarsvæðinu. Ef það gerist hinsvegar að menntun leikskólakennara verður skilin eftir, fer öll orka stéttarinnar næstu ár í að berjast fyrir þeirri leiðréttingu, því geti ég lofað.  Leikskólakennarar munu ekki sætta sig við að verða skildir eftir sem "annars flokks" kennarastétt. Sumt það sem er ritað hefur verið á ýmsum bloggsíðum bendir til þess að það sé afar stutt í þau viðhorf að leikskólinn sé fyrst og fremst gæsla þar sem mestu skiptir að "góðar" "konur" sinni börnunum.    

Ég vil nota tækifærið og benda á að hluti af samkomulaginu um meistararéttindin er að fallið er frá því ákvæði sem nú er í lögum að allt starfsfólk hafi leikskólakennaramenntun. Samkvæmt núgildandi lögum eiga 100% þeirra sem starfa með börnum í leikskólum að vera leikskólakennarar, nú er hlutfallið fært niður í 2/3 eða um 66%. Hafa félög þeirra sem eru ófaglærðir í leikskólum löngum barist fyrir þessu. M.a. til að bæta réttarstöðu síns fólks. Hvað sem mér finnst um málið persónulega get ekki annað en glaðst með því fólki sem fær þessa réttarbót. Ég held að áhrifin af ákvæðinu verði að störf inn í leikskólanum veðri betur og öðruvísi skilgreind en nú er- hvert verður hlutverk leikskólakennarar og hvert hlutverk ófaglærðra. Ég er ekki viss um að ég sé endilega sammála þessari þróun en spái að svona verði hún.

Ég vona sannarlega að samflokksfólk mitt á þingi styðji við frumvarpið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tek undir orð þín Kristín. Það er undarlegt að það skuli enn finnast sveitarstjórnarmenn, sem átta sig ekki á því mikilvæga hlutverki sem leikskólinn gegnir í samfélaginu, sem halda að hann sé einungis gæsla og því sé ekki jafnmikilvægt að þar séu allir með menntun eins og á öðrum skólastigum. Þeim vil ég benda á eftirfarandi:

Nýlegar rannsóknir sýna að þegar saman fara hátt menntunarstig kennara og samskipti sem einkennast af umhyggju fyrir einstaklingnum, er líklegt að börnin nái að nýta möguleika sína og hæfileika til fulls.

Mér finnst það afturför og er satt að segja undrandi á að það skuli eiga að taka úr lögum að allt starfsfólk sem annast uppeldi og menntun barna hafi leikskólakennaramenntun. Bara vegna þess að illa hefur gengið að manna leikskóla höfuðborgarsvæðisins, er talið fullnægjandi að einungis 2/3 hluti starfsfólks séu með leikskólakennaramenntun. Er það virkilega trú þeirra sem fyrir þessu standa að þetta verði til að fjölga leikskólakennurum?

Hvað með þá leikskóla sem nú þegar eru með 75% og þaðan af hærra hlutfall af leikskólakennurum, sem er staðreynd á nokkrum stöðum á landinu, á að segja þeim upp eða ...?

Ég hvet alla leikskólakennara til að mótmæla þessum gjörningi og láta í sér heyra inn á svæði menntamálaráðherra. http://www.nymenntastefna.is/log-um-leikskola/spurtogsvarad/

Síta (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 19:38

2 identicon

Ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með afstöðuna sem kom fram hjá sambandi sveitarfélaga. Ég hélt að það væri almenn sátt um að taka þetta skref.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 19:52

3 Smámynd: Hörður Svavarsson

Ég tel líka að ef menntun leikskólakennara verður skilin eftir á B.ed stiginu verði það a.m.k. rothögg fyrir starf leikskólanna.

Því er ekki haldið fram að fullnægjandi sé að einungis 2/3 hluti starfsfólks séu með leikskólakennaramenntun.

Í frumvarpinu segir: "Að lágmarki 2/3hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara."

Í þessu felst engin sérstök réttarbót fyrir ófaglærða og það er ekki verið að eigna þeim restina af stöðugildunum, einungis er kveðið á um lágmark leikskólakennara. 

Frumvarpið um þetta er hér

Hörður Svavarsson, 4.2.2008 kl. 21:28

4 Smámynd: Elías Theódórsson

Verður næsta skref að krefjast háskólamenntunar hjá heima vinnandi foreldri sem kýs að ala upp sín börn án aðstoðar leikskóla? Heimavinnandi foreldrar án háskólamenntunar hafa unnið frábært starf við uppeldi barna sinna.

Elías Theódórsson, 5.2.2008 kl. 10:28

5 identicon

Rétt hjá þér Elías. Kennarar eiga allt gott skilið og þar með mun hærri laun fyrir störf sín. En það er alveg fáránlegt að kennarar og stuðningsmenn þeirra gleðjist svona mjög yfir frumvarpi menntamálaráðherra. Hvers vegna eiga kennarar að þurfa að leggja á sig meiri menntun til að fá hærri laun? Það er það sem ráðherrann vill meina? Og kennarar ganga eina ferðina enn í gildruna. Kennarar eiga að fá hærri laun fyrir þá menntun sem þeir hafa NÚ og þau störf sem þeir vinna NÚ. Og það er alveg fáránlegt að þess verði krafist að starfsfólks á barnaheimilum hafi meistarapróf! Hvernig getur fullorðið og sæmilega upplýst fólk tekið undir Þessa vitleysu?

Karl (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:16

6 identicon

Hva, er einhver á móti hærra menntunarstig kennara? Jú, því miður virðist það vera ansi útbreitt að það sé óþarfi að háskólamennta fólk sem "passar börn". Lesið aftur röksemdir Kristínar. Menntun er langtímamarkmið en kjarasamningar eru daglegt brauð.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:30

7 Smámynd: Guðrún Árnadóttir

það er fráleitt að skilja menntun leikskólakennara eftir og í engu samræmi við þær stórauknu kröfur sem gerðar eru til leikskólans um uppeldi og menntun barna.

Innan OECD er markmiðið að gera Evrópu að samkeppnishæfasta og helsta vísindasamfélagi heimsins og til þess að ná því markmiðið er talið að það verði að fjárfesta í uppeldi og menntun barna. Ýmsar leiðir eru nefndar í þeim tilgangi og er t.d  menntun þeirra sem hafa með uppeldi og menntun barna að gera talin vera lykilatriði.

Ég óttast einnig afleiðingar þess að færa hlutfall leikskólakennara niður i 2/3.  Þrátt fyrir að í frumvarpinu standi "að lámarki" er hættan sú að þegar fram í sækir og sparnaðaraðgerðir sveitarfélaganna fara að láta til sín taka snúist þetta upp í að ekki verði gert ráð fyrir fjármagni til ráðningar á leikskólakennurum í fleiri en 2/3 hlutum stöðugildanna.

Sú er reyndin ímörgum kommunum hérna í Danmörku þar sem það er ekki lögbundið að 100% þeirra stöðugilda sem vinna að uppeldi og menntun í leikskólum skuli vera leikskólakennarar. í mörgum kommunanna hafa sparnaðaraðgerðir haft það í för með sér að fjárhagsáætlunum er svo knöpp að leikskólastjórarnir hafa ekki efni á að ráða leikskólakennara þó þeir séu í boði og t.d alls ekki reynda leikskólakennara, með t.d framhaldsmenntun af einhverju tagi því þeir eru kosta of mikið. 

Ég tek undir orð Sítu og hvet leikskólakennara til að láta í sér heyra.

Guðrún Árnadóttir, 5.2.2008 kl. 12:02

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir góða grein Kristín.  Annað atriði sem mig langar að spyrja þig að - þar sem þú virðist vel inní málefnum leikskólanna er hvort það sé rétt sem ég hef heyrt að í sumum leikskólum sé aldrei mannekla og/eða að þar sé starfsfólk árum saman á meðan á öðrum séu sífelld skipti á fólki ? 

Ef svo er, er þá ekki ástæða til að skoða stefnu leikskólans og stjórnun ?

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 5.2.2008 kl. 13:21

9 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk öll fyrir góðar athugasemdir, ég skal alveg viðurkenna Síta og Guðrún að ég hefði viljað sjá að allir sem störfuðu með börnum ættu samkvæmt lögunum að vera leikskólakennarar. En ég get skilið þennan gjörning og að félagið sé samþykkt honum. Þar slær sennilega enn mitt samningahjarta.  

Sannarlega vona ég að einhver tíma verði lögin tekin upp aftur og þessu breytt í ljósi breyttra aðstæðna (ég er nefnilega bjartsýn að eðlisfari). Ég vil líka minna á að hluti af starfsliði grunnskólans sem vinur með börnum er "ófaglærður" þar eru hinsvegar að því er virðist vera sterkari skil á milli mismunandi hlutverka.

Hörður - engin réttarbót!, áður var ekki minnst á þennan hóp í lögum- það fór fyrir brjóstið á mörgum. Nú hefur hann þó einhverja stöðu.

Jóhanna það er rétt hjá þér að leikskólum tekst misjafnlega að halda í "starfsfólk" og að manneklan komi mismunandi niður á þeim. En ég verð líka að hryggja þig með því að það er ekki línuleg samhengi í orsök og afleiðinum. Orsakir geta verið mjög fjölbreytilegar. Hér koma nokkrar og öðrum er velkomið að bæta á listann.

  • Húsnæði leikskólans, þröngt slæmt húsnæði - húsnæði sem er illa hannað með tilliti til þess starfs sem þar fer fram. Mikill hávaði í húsnæði. Bágar starfsaðstæður fyrir starfsfólk.
  • Stjórnun leikskóla - getur auðvitað verið mjög misjöfn - í einhverjum tilfellum getur það verið málið.
  • Staðsetning leikskóla -  hverfi sem leikskólakennarar hafa ekki efni á að búa í - fáir sem búa þar sem hafa áhuga á starfi í leikskóla.
  • Stefna eða stefnuleysi leikskóla (getur verið hluti af stjórnun), held reyndar að þessi þáttur sé sjaldnast orsök. En auðvitað getur haft áhrif bæði til góðs og ills.

Og að lokum það er eitt að ala upp og mennta sín eigin börn og annað að ala upp börn annarra. Með því að setja þetta á sama stað ert þú í reynd Elías að segja að hlutverk leikskólans sé að koma barni í foreldra stað. Ég er viss um að við erum sammála að það er ekki hlutverk leikskólans. 

Kristín Dýrfjörð, 5.2.2008 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband