Vetrarstarf leikskóla undirbúið

Þessa dagana eru leikskólar landsins í óða önn að undirbúa vetrarstarfið. Ráða inn það fólk sem vantar og leggja línur um áherslur í vetur. Í því tilefni fékk ég í gær að heimsækja einn skóla og verja dagsparti með þeim við undirbúning. Ég var með innlögn um leikskólastarf með yngstu börnunum í anda Reggio Emilia í nýjum ungbarnaskóla sem opnar í Hafnarfirði í næstu viku. Skólinn er fullmannaður og er flest starfsfólkið leikskólakennarar. Leikskólastjórinn segir mér að hún hafi staðið frammi fyrir því að hafna hæfu menntuðu fólki. Auðvitað er staðan ekki allstaðar jafn gleðileg, alla vega ekki enn. En ég vænti þess að ástandið í haust verði þó ólíkt því sem verið hefur undafarin haust. Ég hef af því reynslu að vera leikskólastjóri á tímum uppgangs og þegar þrengra er í þjóðarbúinu. Það er tvennt ólíkt, því miður. Ég vildi óska að staðan væri ávallt sú að störf við umönnun og menntun væru sjálfkrafa fyrstu störfin sem fólk veldi sig til.

Ein ástæða þess að skólinn sem ég minntist á hér að ofan er svona vel settur með mönnun er að hann býr að því að vera nýr og að hafa þegar markað þá stefnu sem ætlunin er að starf samkvæmt. Ekki bara það að það sé búið að marka stefnuna heldur hafa leiðtogar skólans varið mörgum árum í að lesa sér til og reyna ýmislegt samkvæmt stefnunni. Meðal annars starfað í leikskóla þar sem hún var lögð til grundvallar. Það er löngum vitað að það heillar marga leikskólakennara að vinna á stað sem hefur frá upphafi markað sér sérstöðu. Ég óska öllum leikskólum landsins velfarnaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Brilliant að lesa "draumkennda hugmyndir sem standast ekki raunveruleikan" hjá manneskju sem á sinni eigin bloggsíðu heldur ekki vatni yfir dásemdum Árna Johnsen! Kannski er grasrótin sem hún talar um einmitt illgresis-grasrót!

Birta (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 19:05

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl Hallgerður ég held nú að ég sé ekkert mjög langt frá grasrótinni, er með nefið inn í mörgum leikskólum og hitti starfandi leikskólakennara mjög reglulega. Skólarnir sem ég hef komið í eru bæði vel mannaðir fagfólki og verr mannaðir. Það vill svo til að ég veit líka ágætlega að á þriðja tug skóla (yfirlýst) það minnsta á Íslandi starfa að einhverju leyti í anda Reggio Emilia. Skil ekki alveg þann punkt hjá þér, ég var bara að segja að þessi nýi skóli hefði ákveðið að fara þá leið.

Hins vegar hefur það lengi verið svo bæði það var þannig þegar ég var leikskólastjóri og eftir það að leikskólakennurum finnst spennandi að takast á við ný verkefni í nýjum skólum sem hafa markað sér stefnu, taka þátt í uppbyggingar og mótunarstarfi þessara skóla. Um það eru fjölmörg dæmi.  Ég held að þú hljótir að hafa misskilið mig á einhvern hátt.

Ég var í raun aðeins að fagna því að fleiri gæfu leikskólanum tækifæri sem vinnustað og mín von er að það fólk sem það reynir finni hvað þetta er skemmtilegt og gefandi starf og velji þann starfsvettvang áfram, jafnvel þó betur ári, að það jafnvel mennti sig annað hvort sem leikskólakennari eða leiðbeinandi (veit ekki hvert starfsheitið er nú eftir að nýju lögin tóku gildi).

Kristín Dýrfjörð, 7.8.2008 kl. 19:26

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. svo þarftu að útskýra betur fyrir mér hvað þú átt við með að ég hafi draumkenndar hugmyndir sem ekki standist raunveruleikann, fatta ekki alveg þann punkt.

og Birta það geta verið ýmsar ástæður fyrir aðdáun á Árna Johnsen, þó að hvorki ég né þú skiljir þær, það skal líka viðurkennt að mínar skoðanir á manninum markast ef til vill af veru hans í flugráði á sínum tíma og það hvernig maðurinn leyfði sér að tala um okkur í útvarpsviðtali eftir flugslysið í Skerjafirði. Ekki að það hafi verið aðdáun á honum fyrir en ég gat umborið hann í ljósi þess að hann var val kjósenda og í því felst lýðræðið. En það að vera val kjósenda fylgir mikil ábyrgð sem hann á sínum tíma stóð því miður ekki undir. Aðrir geta haft sínar ástæður fyrir aðdáun það er ekki okkar að skamma fólk fyrir það.

Kristín Dýrfjörð, 7.8.2008 kl. 20:14

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Bíddu Hallgerður, hvað er rangt við þetta? Er ekki rétt að leikskólakennarar hafa löngum sóst eftir að vinna í nýjum skólum og í skólum þar sem ákveðin sýn eða stefna ríkir? Þessi sýn hún þarf ekki að heita Reggio, hún getur heitið, tónlist, umhverfisáherslur, heilsa, hjallastefna eða hvað annað. Skólinn sem ég nefndi hér að ofan er dæmi um slíkan skóla, ástæða þess að ég var þar með erindi er að hann ætlar sér að starfa í anda Reggio. Stefna sem er mér hugleikin og ég hef sérstaka þekkingu á. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr öðrum skólum (ég veit líka eins og þú að staðsetning hefur áhrif á mönnun, sennilega er heldur erfiðara að manna skóla hvort sem er með fagfólki eða ekki ef þeir eru úr alfaraleið). Ég er heldur ekki að gera lítið úr leikskólakennurum, en annað slagið kemur upp sú staða á meðal þeirra að þá langar að skipta um starf, við slíkar aðstæður langar þá marga að taka þátt í uppbyggingar og mótunarstarfi. Sumir eins og í þessu tilfelli hafa þegar ákveðið að Reggio hugmyndafræðin falli að þeirra lífsýn og þess vegna sækja þeir í skóla þar sem starfað er eða að starfa á samkvæmt henni. Hallgerður ég hlýt að vera ótrúlega fattlaus því ég sé bara ekki hvar mín veruleikafirring er. ÆTLUN mín var ekki og er ekki að gera lítið úr þeim skólum sem hafa átt í erfiðleikum, skólum sem jafnvel hafa mótað sér sýn (samkvæmt rannsókn Menntamálaráðuneytisins hafa ekki allir skólar gert það svo það komi fram). Heldur að fagna því að sumstaðar allavega sé ástandið að skána. Ég held líka að það sé ekki bara fólk án menntunar sem komi við þessar aðstæður inn í leikskólana heldur líka fólk sem hefur ýmiskonar menntun á öllum skólastigum.  

Kristín Dýrfjörð, 7.8.2008 kl. 20:42

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. ég ætlaði ekki að blanda ÁJ í umræðuna, var raun að segja að hann skiptir ekki máli. En ég skal viðurkenna að ég er pínu hrá gagnvart öllu sem snýr að flugslysinu í Skerjafirði í dag, það eru nefnilega átta ár (núna um þetta leyti dags) síðan það var og þann dag urðu straumhvörf í lífi mínu.

Kristín Dýrfjörð, 7.8.2008 kl. 20:46

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

"Ein ástæða þess að skólinn sem ég minntist á hér að ofan er svona vel settur með mönnun er að hann býr að því að vera nýr og að hafa þegar markað þá stefnu sem ætlunin er að starf samkvæmt. " Jú Hallgerður ég sé vel feitletrunina þína, en ef þú lest sjálf það sem ég skrifa ættirðu að sjá að ég segi EIN ÁSTÆÐA. Ætlar þú að segja mér að það hafi ekki áhrif að skólinn er nýr að hann starfar samkvæmt stefnu (ekki öll áhrif en áhrif). Hvernig vilt þú annars skýra að í þessum tiltekna skóla séu aðstæður eins og þær eru? Þú verður að fyrirgefa mér en mér hugkvæmdist aldrei að einhverjum dytti í hug að það að skóli sé nýr eða marki sér stefnu sé allsherjarlausn á mönnunarmálum. Mitt hugarflug náði bara ekki svo langt. Ég var að segja frá staðreynd og að gera tilraun til að skýra hana.     

Þar sem ég er nú búin að borða villisveppa rísottóið sem ég var að elda (úr íslenskum villisveppum) með grænmeti úr garðinum, ætla ég að ljúka þessum samræðum í bili. 

Mér þykir leitt að þú teljir mig hafa gert starf þitt erfiðara með því sem þú telur vera villandi upplýsingar, það var aldrei ætlunin. Ætlunin var að samgleðjast þessum skóla og þeim skólum sem ég hef heyrt í sem segja ívið auðveldara að manna nú en síðustu ár. Vonandi staðreynd í einhverjum tilfellum sem á eftir að gera þitt starf auðveldara.  

Kristín Dýrfjörð, 7.8.2008 kl. 21:08

7 Smámynd: Bergljót B Guðmundsdóttir

Ég á erfitt með  að fatta um hvað þessi umræða er.  Hver er t.d. útópían sem verið er að tala um? Er það leikskóli sem er vel mannaður af fagfólki? En sem betur fer eru nú til svoleiðis leikskólar. Ég bara skil ekki alveg út á hvða þessi umræða gengur og get ekki séð að þú Kristín sért að vega að leikskólafólki með þessu móti eða sért komin í eitthvað glerbúr. ??????? Hver er gæpurinn?

Bergljót B Guðmundsdóttir, 7.8.2008 kl. 21:38

8 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Nú held ég Hallgerður að þú hafir farið út fyrir strikið. Þú borðar sjálfsagt lunda sem þú veiðir eða svartfuglsegg, ég borða íslenska lerkisveppi sem ég tíni og grænmeti sem ég rækta. Hefur ekkert með neitt að gera nema ég var í södd eftir vel heppnaða máltíð. 

Ég verð að taka undir með Bergljótu og spyrja hver er útópían? Hvaða veruleika á ég að halda mig við? Nú vill svo til að ég er lektor við Háskólann á Akureyri, þar er veruleikinn sá að keppst er um stöður í flestum leikskólum. Þar eru iðulega  tveir til fjórir leikskólakennarar á deild. Það er þeirra veruleiki. Veruleiki leikskóla Reykjavíkur þar sem þú starfar sem innritunarfulltrúi er ekki eini veruleikinn í leikskólastarfi á Íslandi. Sem betur fer. Sem betur fer ef þú lítur á það sem útópíu að skólar geti verið bæði vel mannaðir og starfi samkvæmt tiltekinni hugmyndafræði. Svona til að ljúka þessu þá var ég sjálf leikskólastjóri í skóla (í Reykjavík) sem var oftast vel mannaður fagfólki. Þar vann líka fullt af fólki sem ekki voru leikskólakennarar en var frábært starfsfólk. Fólk sem ég hef síðar kennt leikskólakennarafræði. Fólk sem kom inn í leikskólann ætlaði að stoppa stutt við en hefur gert starfið þar að ævistarfi sínu. Ég á von á að slíkt gerist líka núna. Að á vissan hátt sé einmitt nú tækifæri fyrir leikskólann.       

Kristín Dýrfjörð, 7.8.2008 kl. 22:21

9 Smámynd: Jóhanna Sigrún Jónsdóttir

Lofar góðu þessi leikskóli, fullmannaður af leikskólakennurum. Gott framtak í Hafnarfirði. Gaman að hitta þig á opnunarteitinu í dag Kristín.

Kveðja fyrrverandi nemandi þinn, Jóhanna (Hanna Rúna)

Jóhanna Sigrún Jónsdóttir, 9.8.2008 kl. 00:28

10 identicon

 Sumt sem sagt er eða skrifað vekja hjá mér undrun og verða til þess að ég þarf að hafa á því skoðun.

Þegar ég sá færslu þína í gær Kristín þá hugsaði ég; "flott, mikið er það nú gott að til er leikskóli sem hefur á að skipa vel menntaða og áhugasama leikskólakennara, það skiptir máli".

Síðar sá ég það sem Hallgerður skrifar inn á síðuna þína og stöðst ekki mátið. Ég skil nefnilega ekki alveg reiði Hallgerðar yfir því að til séu leikskólar og þar með leikskólabörn sem eru það lánsöm að hafa vel menntaða og áhugasama leikskólakennara að störfum nema að vera skildi að henni finnist erfitt að sannfæra foreldara um að sama starf fari fram á öllum leikskólum án tillits til menntunar starfsfólks. Ef það er raunin er það kannski innanhúsvandamál þeirrar stofnunar sem hún vinnur hjá frekar en eitthvað annað.  

Það er von mín að bæði þú Kristín sem lektor og aðrir þeir kennarar sem hafa starf af því að mennta leikskólakennara framtíðar standi í þeirri trú að menntaðir leikskólakennarar séu hæfari til að sinna störfum á leikskólum heldur en ómenntaðir. Ég veit af eigin reynslu að ófaglært starfsfólk leikskóla sinnir sínu starfi vel og á bæði heiður og mannsæmandi laun skilin, fyrir sín störf. En menntun skiptir máli.

Kristín leikskólakennari

Kristín Björk Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 08:20

11 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sælar báðar tvær, hitti allnokkra leikskólakennara í gær, nokkrir höfðu lesið bloggið og áttu í basli með að skilja hvað Hallgerður er að fara. Þannig að það eru fleiri en ég sem ekki skilja hvað var svona alvarlegt og móðgandi við bloggið mitt. En um helgina á ég örugglega eftir að blogga aftur um nýja leikskólann, Sturlubarnið var nefnilega líka við opnunin og við (afi sá um að taka slatta af myndum) fylgdum honum að hluta eftir með myndavélinni, þegar hann var að kanna umhverfið. (Amman var ekki eins með augun á barninu hún þurfti svolítið að rabba, enda þekkti hún marga, bæði fyrrum nema og samstarfsfólk) .  

Kristín Dýrfjörð, 9.8.2008 kl. 13:00

12 Smámynd: Jóhanna Sigrún Jónsdóttir

Skildi ekki þetta sem Hallgerður skrifaði eða öllu heldur hver er punkturinn með þessu?

 "Ég veit ekki betur en við opnun nýrra skóla sé sé hún mörkuð stefna.Það er afleitt  svo ekki sé meira sagt að manneskja í þinni stöðu sendi svona skilaboð"

Hvað áttu við Hallgerður: að manneskja í þessari stöðu sendir svona skilaboð?? Voru þetta ekki góð og skýr skilaboð. Voru þau neikvæð? eða? 

Endilega útskýra á mannamáli. Það er faglegast

kv Leikskólakennari með athyglisbrest

Jóhanna Sigrún Jónsdóttir, 9.8.2008 kl. 13:53

13 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl Hallgerður þetta er ekkert mál. Allir hafa sinn villukvóta, okkur getur öllum orðið á. Mislesið, misskilið eða eitthvað. **)

Kristín Dýrfjörð, 9.8.2008 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband