Áhyggjur mínar af 1. gr. frumvarps til laga um leikskóla og mögulegum afleiðingum hennar

Ég er um margt ánægð með nýtt frumvarp menntamálaráðherra til laga um leikskóla. Ég er sérstaklega ánægð með að taka á út úr lögunum ákvæðið um að leikskólinn eigi að efla kristilegt siðgæði og þess í stað standi að leikskólinn eigi "að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra". 

Ég hef hinsvegar áhyggjur af og er andsnúin ákvæði  1. greinar frumvarpsins um fljótandi skil á milli skólastiga. Áhyggjur mínar varða ýmsa jaðarhópa og afleiðingar sem ákvæðið getur haft fyrir þá. Þá á ég við hópa sem standa af ýmsum ástæðum höllum fæti í samfélaginu. En ég hef líka áhyggjur af áhrifum á fyrirkomulag leikskólastarfsins og stýrandi áhrifum þess. Sérstaklega þegar að ákvæðinu verður beitt í báðar áttir. Þ.e.s. að grunnskólinn neitar að taka við börnum sem hann telur ekki tilbúinn til að hefja nám og börn sem teljast "bráðger" fara ári fyrr úr leikskólanum. Þau teljast tilbúin til grunnskólagöngu. Þetta viðhorf til þess að "vera tilbúin" er öllum ljóst sem lesa greinagerð og skýrgreinar með frumvarpinu sem og svörum menntamálaráðherra af mögulegum afleiðingum nýrra laga.  Í greinargerðinni segir: "Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að félagsþroski og námsframvinda barna ráði því hvenær þau ljúka leikskólanámi og hefji nám í grunnskóla. Þessi breyting er liður í því að gera skólakerfið sveigjanlegra með tilliti til þarfa hvers og eins nemanda þannig að þau geti farið hraðar eða hægar í gegnum skólakerfið." (undirstikun mín)

Á sérstökum vef um frumvörpin fær menntamálaráðherra spurningu hvort að frumvarpið hindri að bör geti hafið grunnskólanám fyrr eða síðar. Hún svarar: 

Nei, en við ákvörðun um slíkt er afar mikilvægt að vanda vel til verka og horfa bæði til félagsþroska og námsframvindu barna. Að slíkri ákvörðunartöku verða að koma starfsfólk leikskóla og grunnskóla, foreldrar og þeir fagaðilar sem þurfa þykir.

 

Með þessu er í raun verið að segja að öll börn séu ekki tilbúin til grunnskólagöngu og ef grunnskólinn eða aðrir meti það svo að barn sé enn þroskalega statt á leikskólastigi (hvað sem það svo merkir) sé hægt að neita barni um skólavist. Mér finnst þetta ganga gegn þeirri hugmyndafræði sem Íslendingar hafa hingað til státað sig af um skóla fyrir alla og þeir samþykktu með Salamanca yfirlýsingunni í júní 1994. Þar segir

Við lýsum yfir þeirri sannfæringu okkar að;

  • menntun sé frumréttur hvers barns og skylt sé að gefa því kost á að ná og viðhalda viðunandi stigi menntun;
  • börn séu mismunandi og hafi sérstök áhugamál, hæfileika og námsþarfir;
  • í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra;
  • einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum í þeim anda að mið sé tekið af barninu;
  • almennir skólar séu virkasta aflið til að sigrast á hugarfari mismununar, móta umhverfi sem tekur fötluðum opnum örmum, móta þjóðfélag án aðgreiningar og koma á menntun öllum til handa; enn fremur megni þeir að veita þorra barna góða menntun og stuðli að skilvirkni menntakerfisins í heild og bæti, þegar til lengdar lætur, nýtingu fjármuna.

 

Mér finnst eins og á vissan hátt sé verið að fría grunnskólann undan þeirri skyldu sinni að vera tilbúinn fyrir öll börn. Því samkvæmt t.d. Salamanca er það skólinn sem á að vera tilbúinn til að mæta barninu en ekki barnið að mæta skólanum. Auðvitað fer fram undirbúningur undir grunnskólann í leikskóla, en fyrst og fremst á leikskólinn að undirbúa börn undir lifið, og grunnskólinn er sannarlega stór þáttur í lífi flestra barna.

Ég verð að viðurkenna að ég er með létt óbragð í munninum yfir þessari grein og vona að henni eða túlkun hennar verði breytt í meðförum þingsins. Ég vona sannarlega að samfylkingarfólk á Alþingi sé vakandi fyrir því að verja samfélag félagslegs réttlætis og jöfnunar. Samfélags jöfnuðar til menntunar. Hvert skólastig á auðvitað að mæta hverju barni eins og það er statt, það eru mannréttindi barna. Ég veit ekki hvað foreldrum, börnum eða grunnskólanum fyndist um áhrif seinkunnar þegar á unglingsárin er komið. Þegar í bekkjum yrðu að jafnaði 3- 4 árgangar börn á aldrinum 12 -15 ára saman í bekk. Við vitum að þetta er kannski ekki mikið mál á leikskólaaldri en getur orðið stórmál þegar fram í sækir.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

En ágæti borgari, er lausnin þá falin í að lengja leikskóladvöl barna? Hvernig er leikskólinn í stakk búinn til þessa verkefnis? Hvert skólastig hlýtur að þurfa að leysa málin í sínum ranni og gera sitt besta. Að seinka börnum er hvorki lausn fyrir leikskólann eða grunnskólann og síst af öllu fyrir börnum. 

Við berum öll sameiginlega ábyrgð á því að bjóða öllum börnum mannsæmandi líf, það er ekki og má aldrei verða útópía.  

Kristín Dýrfjörð, 1.2.2008 kl. 22:48

2 Smámynd: Ingibjörg Margrét

Sæl Kristín.

Ég við byrja á að þakka þér fyrir hvað þú ert dugleg að skrifa um málefni leikskólans hér á síðunni þinni. Við mættum mörg taka okkur það til fyrirmyndar. 

Annars langaði mig að segja þér að ég er algerlega sammála þér. Þessar áhrelsur er einnig að finna í starfsáætlun Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar og ég hef bent á áhyggjur mínar vegna þessa í leikskólaráði. Ég tel eins og þú að þetta sé í mikilli mótsögn við áhersluna á einstaklingsmiðað nám. Ég tel að hvert skólastig verði að leitast við að mæta þörfum hvers barns, hverjar svo sem þessar þarfir eru. 

Ingibjörg Margrét , 2.2.2008 kl. 18:17

3 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Sæl Kristín og takk fyrir þessar ábendingar. Ég er þér sammála, tel fljótandi skil milli skólastiga ekki vera gæfuspor.  Undanfarin ár hefur stefnan "skóli fyrir alla" ráðið ríkjum.  Ég tel að enn eigum við langt í land með að uppfylla þær kröfur en á mörgum stöðum hefur þetta tekist vel. Ég tel að þessi grein flæki málið enn meira og velti því fyrir hvernig hægt verði að fylgja þessu eftir.  Hver er það sem tekur endanlega ákvörðun um að barn skuli ekki hefja nám í grunnskóla og hvenær er barn tilbúið til þess.  En kæri borgar vonandi tekur grunnskólinn mið að hverjum nemenda sem sest á skólabekk og reynir að mæta honum á einstaklingsgrunni. Ég tel mig gera það.

Rósa Harðardóttir, 2.2.2008 kl. 18:40

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk, Ingibjörg og Rósa. Ég verð að játa að ég vissi ekki af þessum áherslum hjá borginni en verð líka að segja að þær koma mér ekki sérlega á óvart. Það virðist vera landlægur fjandi að telja allt skólakerfið okkar slæmt og það sé alsherjarleið til úrbóta að hraða námi.

En kannski ég ætti að blogga um áhyggjur mínar af fleiri greinum. Annars er fundur hjá samfylkingunni á mánudagskvöld um frumvörpin.  Hvet samfylkingarfólk sem hefur áhuga á skólamálum að fjölmenna. 

Kristín Dýrfjörð, 2.2.2008 kl. 19:57

5 Smámynd: Bjarnveig Ingvadóttir

Bráðger börn hljóta þó að mega byrja fyrr í grunnskóla. Á sjálf 2 systursyni í Kaupmannahöfn sem byrjuðu 5 ára í grunnskóla og það var akkúrat það sem hentaði þeim. Í bekkjum beggja eru einnig börn sem byrjuðu 7 ára í grunnskóla vegna þess að það hentaði þeim og virðist mér þetta ganga vel og henta börnunum vel.

Bjarnveig Ingvadóttir, 2.2.2008 kl. 20:03

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ÞAð hefur alla tíð gerst að einhver börn hafa byrjað fyrr en önnur. Svo má benda á að öll börn eiga rétt á þeirri menntun við hæfi með sínum jafnöldurm. Auðivtað eru mörg dæmi um að vel hafi gengið en líka á hinn veginn. Fyrir mörgum árum var ég í Bandaríkjunum í skólum þar sem 3 -4 árgangar voru saman í bekk. Sem dæmi í 5 bekk. Þetta var vegna þess að börn eru þar felld um bekk og önnur höfðu byrjað fyrr. Kennarar sem ég ræddi við þar voru als ekki ánægðir með þetta.Þeir upplifðu ýmis vandamál sem tengdust ekki því að börnin voru námslega bráðgerð eða sein, heldur tengdust vandamálin félaglegum og líkamlegum þroska þeirra.

Kristín Dýrfjörð, 2.2.2008 kl. 20:18

7 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Hef haft nemendur í 2. bekk sem hafa skarað fram úr en þegar þau komu í 7. bekk þá voru þau meðalnemendur námslega en á efir í félags- og líkamsþroska. Hverjum er greiði gerður. Eins hef ég haft nemendur í 1. bekk sem hafa verið tilbúnir í miklu meira en "bekkurinn"fór í og ég fann efni við hæfi, engum leiddist og allt gekk upp, viðkomandi einstaklingur er í dag á grænni grein. Hvað er málið?

Rósa Harðardóttir, 3.2.2008 kl. 00:17

8 Smámynd: Halla Rut

Ég er að hugsa mikið um það hvort ég eigi að seinka inngöngu sonar míns í grunnskóla en hann á að byrja í haust. Hann er með ódæmigerða einhverfu og var án þjónustu í 4 mánuði sem hefur haft skelfileg áhrif á hann og er hann rétt að jafna sig núna sjö mánuðum síðan. Hvað sem ég geri þá vil ég eiga rétt á þessu. En valið á að liggja hjá foreldrum og faglegum ráðgjöfum þeirra en ekki hjá grunnskólanum.

Halla Rut , 4.2.2008 kl. 00:43

9 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Og auðvitað leikskólanum líka, ekki satt? En á skólinn ekki að vera tilbúinn til að mæta þínum dreng óháð því hvort hann hafi misst út þjálfun í 4 mánuði? Þó svo að húsnæðið breytist ekki þá má samt minna á að ef hann verður áfram í leikskólanum er víst að bæði starfsfólk og barnahópur eiga eftir að breytast. Þannig að hann verður að takast á við nýjungar hvernig sem fer. Hvað sem þið ákveðið, gangi ykkur vel.  

Kristín Dýrfjörð, 4.2.2008 kl. 02:15

10 identicon

Ég tek undir það sem kemur fram hjá Rósu.

Mín skoðun er: barnið á ekki að passa skólanum - skólinn á að aðlaga sig hverjum einstaklingi og leita leiða til að koma til móts við alla á hvaða skólastigi sem er - fatlaður eða ófatlaður, bráðger eða seinfær, allir eiga rétt á að þeim sé mætt þar sem þeir eru staddir og þaðan er haldið af stað í ævintýrið!

Síta (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband