Þegar lægsti samnefnari verður viðmið - leikskólastarfsins

 

Í dag endurnýjaði ég kynni við bók um uppeldislega sýn í leikskólanum, hvernig hún er sameiginleg og hvernig hún hefur áhrif á hvernig fólk hugsar og starfar þar. Höfundinn norsk fræðikona notar kenningar frakkans Bourdieu til að skýra það sem hún á við. En hún fer víða yfir og skoðar fjölda rannsókna um leikskólastarf. Hún vitnar m.a. í sænska rannsókn þar sem niðurstaðan er að  í leikskólanum hættir okkar til að taka tillit til lægsta samnefnara í starfsmannahópnum – Þar sé fólk upptekið við að fela fagþekkingu sína til að virðast ekki hærra settir eða snobbaðri en samstarfsfólkið. Leikskólakennarar gera allt til að skapa ekki faglega gjá á milli sín og þeirra ófaglærðu. Til að skapa einingu og góðan starfsanda.

  

Niðurstaðan er hinsvegar að þetta viðhorf og vinnubrögð komi í bakið á okkur, menntunin og fagið verður við þetta ósýnilegt. Við festumst í neti vinnumenningar  sem við eigum erfitt með að klóra okkur út úr. Og þetta styrki viðhorf í samfélaginu um að í leikskólanum sé ekkert að gerast – engin menntun, þar séu börn "bara" að leika sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já og sópar frammi í forstofu á meðan að leiðbeinandinn les fyrir börnin.

Sæl Kristín.

Ég er nýbúin að finna bloggið þitt. Til hamingju með það. Þú ert að skrifa um margt áhugavert sem mér finnst gaman að lesa um. Þú leiðir mig á slóðir (faglegar) sem ég hef ekki áður komið á.
Kær kveðja,
Fjóla Þorvaldsdóttir

P.S. Til hamingju með afmælið um daginn

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 22:57

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Já það er eitt birtingarformið, ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að við verðum að geta og gera alla þessa hluti - svona af ákveðnum siðferðilegum ástæðum. Það er líka hluti af því að ég tel að allar stöður eigi að vera fagstöður. Og ef sum störf eru ekki fagstörf en önnur eru það- þarf þá allt þetta fagfólk?

En auðvitað er spurning hvaða störf við vinnum og svo er nú ekki víst að þessi rannsókn eigi við um okkur þó hún hafi átt við í Svíþjóð (held nú samt að hér sé margt líkt með skyldum). En ég held líka að við þurfum að taka þessa umræðu. Og þar þurfum við að taka saman höndum félagið og við sem kennum verðandi leikskólakennurum.

Þér að segja tók ég þá ákvörðun að láta t.d. ákvörðun félagsins um nýju hugtökin sem þau leggja til, ekki verða mína. Ég hef heitið sjálfri mér því að skrifa ekki um börn eða leikskólabörn sem nemendur - það leggst alveg ótrúlega illa í mig - og í leiðinni sú hugmyndafræði sem ég tel verið sé að koma á framfæri, um starf og starfsvið leikskólans og um hlutverk og viðhorf til barna.  En það er umræða sem ég hefði talið að hefði átt að bjóða okkur sem vinnum í kennaramenntunarstofnunum og menntum verðandi leikskólakennara að taka þátt í. - kannski hefði meirihluti þeirra verið samþykkur - en það fáum við aldrei að vita, því miður.

og svona að lokum, það gaman að fá að vera leiðangurstjóri fyrir einhverja á nýjar slóðir.

Kristín Dýrfjörð, 2.7.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband