25.6.2007 | 01:57
Leikskólinn - staður pólitískra breytinga
Verkfæri og efniviður aðgengilegur börnum,
bíður upp á að litlir hópar vinni saman
samskipti og traust
Var að lesa nýútgefna skýrslu þar sem fjallað er um leikskólann sem hluta af hinu pólitíska umhverfi, og hvernig leikskólinn getur í raun verið hluti af því að ala börn upp til lýðræðis. Ekki bara í orði heldur líka á borði. Bent er á að lýðræði sé besta vörnin gegn alhæfingum, hvort sem heldur er hjá yfirvöldum sem annarstaðar. Í skýrslunni sem er skrifuð af Peter Moss, prófessor við Institute of Education, University of London, er m.a. fjallað um hinar norrænu leikskólanámskrár og þá áherslu sem þar er lögð á lýðræði. Íslenska Aðalnámskrá leikskóla er meðal þess sem Moss bendir á og vitnar til. Moss leggur til að leikskólar þróist og verði mögulegir staðir nýrrar þekkingar en geti jafnfram verið staðir þar sem gömul þekking er varðveitt. Að þeir séu í raun staðir breytinga.
Sem hluta af lýðræðislegum leikskóla sér Moss fyrir sér að þar vinni kjörnir fulltrúar foreldra og starfsfólk saman að málefnum leiksólans, að þar ríki sá andi að rökræður og skoðanaskipti séu velkomin og æskileg. (Meira en hægt er að segja t.d. um leikskólann sem ég bloggaði um 1. maí þar sem samtöl um pólitík og stéttarfélagsmál voru óæskileg, á þann hátt að starfsfólk upplifði bann).
Ein undirstaða þess að leikskóli geti talið sig lýðræðislegan að mati Moss er að litið sé á barnið sem hæfan borgara, sem er sérfræðingur í eigin lífi, sem hefur skoðanir sem vert er að hlusta á, sem hefur rétt og er veitt hæfni til þess að taka þátt í sameiginlegri ákvarðanatöku. Hann bendir á 7 tilskipun SÞ, þar sem bent er á að barnið búi yfir mörgum mismunandi tungumálum sem það notar til að koma skoðunum sínum og tilfinningum á framfæri , löngu áður en það getur tjáð sig með því sem okkur er tamast þ.e. sjálfu móðurmálinu, en til að skilja barnið kalli það á þeir sem vinna með börn að læri að skilja öll þessi fjölbreyttu mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.