Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Sólborg nafli Akureyrar

Ríkiskaup hefur nú boðið út fjórða áfangann  á Sólborg – en þar er Háskólinn á Akureyri til húsa. Þegar þessari byggingu verður lokið verður vonandi hægt að sameina svo til alla starfsemi háskólans undir “eitt þak”. Með nýju byggingunni skapast líka aukið svigrúm og sóknarfæri fyrir Akureyri – t.d. varðandi ráðstefnuhald.  Ég sé reyndar að þar sem nýi áfanginn á að mæta “gömlu” Sólborg myndast stórt og mikið L laga svæði sem snýr á móti suðri og austri og er í skjóli frá norðanáttinni, þaðan er er líka nokkur skref í fallegt útivistarsvæði.

Í horninu á eftir að myndast fyrirmyndartorg fyrir ýmsa atburði og jafnvel tónleikahald. Arkitektarnir sögðu mér að gert sé ráð fyrir raflögnum utan dyra á svæðið. Ég held að Sólborg geti orðið að nafla bæjarins. Kannski loksins – þegar ég byrjaði við HA gekk strætó ekki einu sinni nálægt nú stoppar hann þó á Borgarbrautinni. Saga Sólborgar er líka saga heimila sem voru reist utan við samfélög – svona í hæfilegri fjarlægði fyrir okkur öll, þannig að við þyrftum ekki að upplifa að til var fólk sem bjó eða fæddist til öðruvísi lífs en við sjálf. Þó ekki væri nema í nafni þeirrar sögu á Sólborg skilið að verða nafli bæjarins. Reyndar finnst mér vanta skjöld (kannski hefur hann bara farið fram hjá mér) með sögu þessa húss – með ágripi af sögu þeirrar stofnunar sem þar var. Alveg eins og Íslandsklukkan er áminning (og fær heilmikla umfjöllun á vef skólans) er saga Sólborgar líka áminning Hún má ekki verða gleymsku að bráð.


Hin sívinsæla grænmetissúpa

Sonur minn hringdi áðan og spurði hvort það sé ekki langt síðan ég hafi eldað matarmikla grænmetissúpu? Jú ekki frá því þið voruð hér síðast að spyrja um það sama – en segi svo að ég skulu demba einni saman.

 

Uppskriftin er pínu lauslegt viðmið um hvað eigi að vera í súpu á þessum bæ,

Núna lenti í henni

  • Lítil blómkálshaus,
  • Einn púrrulaukur
  • 2 stilkar af sellerí
  • 3 lauf hvítlauk
  • 1 rauðlaukur
  • 1 rauð paprika
  • 6-8 gulrætur
 

Allt smátt skorið og bakað upp í olíu – slatta af vatni bætt út í.

 
  • Slatti af íslensku bankabyggi
  • Ólívuolía
 
  • 1 Msk koriander fræ – mulin í mortélinu
  • 2. Ferningar af grænmetiskrafti úr Yggdrasil –eru reyndar vel sterkir.
  • Slatti pipar

Soðið í ca 45 – 55 mín

 

Tvær dósir af niðursoðnum smáskornum tómötum

Með þessu er hent saman í litlar brauðbollur – slatti af

  • Hveiti
  • Risahöfrum
  • Semsamfræjum
  • Durumhveiti
  • Salt og ólívuolía
  • Lífræn ab mjólk blönduð vatni,

Til að flýta fyrir hefingu (af því að fyrirvarinn var svo skammur – skellti ég deiginu í 15 mínútur í 50 gráðu heitan ofninn). Svo bara að móta bollur – og baka.

   

Og svo bloggar maður bara um heila galleríið og leggur á borð.


Kjarkleysi - mig brestur kjark til að steypa mér út í ...

Stundum er ég spurð hvort ég sakni þess ekki að vera ekki lengur á vettvangi – vinna í sjálfri grasrótinni, í leikskólanum. Ég skal fúslega viðurkenna að ég sakna þess oft, ég sakna þess mikið, sérstaklega sakna ég samveru með börnum. Stundum þegar ég er orðin leið á að vera sem mest með mér – hugsa ég til þess að kannski ætti ég að fara aftur inn í leikskólann. Sennilega verð ég líka að meira gagni þar en í háskólanum. Það er svo ótalmargt sem mig langar að gera, sem mig langar að prufa, nýjar leiðir sem ég vil fá að skoða og slóðir að troða í leikskólastarfinu. En svo man ég eftir síðustu árunum mínum í starfi, man eftir morgnum sem ég vaknaði og fyrsta hugsun með ónotum var, “hvað skyldi vanta marga í dag?” Það er nefnilega ekki nóg að byggja og byggja leikskóla ef ekkert er fólkið til að starfa.Starfa þar af metnaði. Auðvitað eiga öll börn rétt á leikskóla, en eiga þau ekki líka rétt á frábæru starfi og starfsfólki? Það skal fúslega viðurkennt að ég sakna þessara morgna ekki.

 

Svo skal viðurkennt að ég þekki það að vera góðu vön, þekki muninn á að vinna í andrúmslofti metnaðar og þess að láta hlutina ganga upp. Ég hef notið þeirra forréttinda að starfa í hóp með frábæru fagfólki. Ég held ég þyrfti að vera nokkuð örugg um það sama aftur til að þora út í laugina.

Ég tek hattinn ofan fyrir öllu því frábæra fólki sem er þarna úti að þreyja þorra og góu sem trúir því að betri tíð sé handann við hornið.  


Hver yrkir leikskólahugmyndafræði á Ísalandi?

Þegar ég lít hingað heim á Íslands strendur og hugsa hver hefur haft viðlíka áhrif á leikskólastarf og frumkvöðlarnir sem ég minnist á í síðasta bloggi, koma fáir upp í hugann. Sennilega er það Steingrímur Arason sem stendur upp úr, jafnvel að hluta óverðskuldað. Því sannarlega voru það konur sem ruddu brautina að stofnun Sumargjafar en vikju svo til hliðar fyrir Steingrími. Áhrif á mig persónulega, auðvitað Bryndís Zoëga, ekki vegna þess að ég hafi verið barn hjá henni, ekki vegna þess að ég hafi starfað með henni, heldur fyrir okkar fyrsta fund á sandkassabrún á Vesturgöturóló þegar ég var að sleikja sautjánda árið. Að sjálfsögðu eiga Þórhildur, Ída, Gyða, Svandís og Valborg sinn sess í leikskólasögunni. En það voru fleiri sem ruddu brautina, um flestar hefur lítið verið skrifað og saga þeirra því að mestu fallið í gleymsku. Því miður. Mér finnst líka leitt að játa að ég sé engan hugmyndafræðilegan arftaka hérlendis. Með arftaka á ég nefnilega ekki bara við fólk sem gerir, heldur líka fólk sem yrkir, yrkir hugmyndafræði. Fólk sem fjallar á þann hátt um leikskólastarf og hugmyndafræði að það framkalli AHA viðbrögð hjá mér. Sem veitir mér nýja sýn á leikskólastarf, opnar áður óþekktar gáttir sem setur málefni barna á einhvern hátt í nýtt alþjóðlegt og/eða félagslegt samhengi. Einhver gæti spurt hvað um þær sem halda uppi merkjum kynjaskipts starfs, heilsuleikskóla, eða jafnvel þær sem voru frumkvöðlar í að innleiða valkerfi í íslenska leikskóla – ég verð að hryggja viðkomandi með að óumdeilanlega hafa þær konur haft gríðarmikil áhrif hérlendis en ég flokka þær ekki undir þá sem yrkja.


Hvernig leti afvegaleiðir besta fólk

Ég er illa haldin af leti, sýki sem hrjáir mig með jöfnu millibili. Þessi leti mín lýsir sér í miklu framtaksleysi og gælum við algjörlega nytlausar iðjur. Ein þeirra er að blogga, önnur að lesa allt annað en það sem ég þarf að lesa. Í mörg ár hefur saga heillað mig, saga leikskólans sérstaklega. Og núna þegar ég ætti að vera að lesa um póststrúktúralískan femínisma, um hugmyndir Foucault um vald eða hvernig opinberar áætlanir verða til, eru ýmsar pælingar um frumkvöðlanna mér ofar í huga, Fridrich Fröbel ávallt vinsæll, John Dewey, Elsa Kölher, Alfa Myrdal, Ellen Key, Johann Pestalozzi, Robert Owen, MacMillan systur, Maria Montesorri, Paulo Freire,  Loris Malaguzzi, eru þau sem halda mér hugfanginni. Annað slagið rekur svo á fjörur mínar  áhugaverð lesning, núna er ég t.d. að bíða eftir “Dagbók kennarans” eftir Ítalann Albino Bernardini en upp úr þeirri bók var gerð kvikmynd sem er ábyrg fyrir starfsvali mínu. Kvikmynd sem sýnd var í tveimur pörtum í sjónvarpinu veturinn 1975 (minnir mig) og hafði gríðarsterk áhrif á mig. Alla götur síðan má segja að minningin um þennan frábæra kennara hafi fylgt mér og verið ákveðið leiðarljós. Ég hlakka því mikið til að fá ævisögu hans í hendur – og leggjast í leti upp í sófa.


Maria Montessori

mm

Maria Montessori (1870 -1952)

Er ein af rissessunum í uppeldisfræðinni. Hún var ítölsk fædd 1870, fyrsta konan þar í landi til að ljúka prófi í læknisfræði (1896). Hún sinnti læknisstörfum m.a. á svonnefndum “fávitaheimilum” fyrir börn. Þar veitti hún því eftirtekt að börn sem fengu einhverskonar minnstu örvun, vegnaði betur en öðrum börnum. Hún komst að þeirri niðurstöðu að andlegur vanþroski stafaði  m.a. af skorti á örvun, börnin þurftu ekki læknishjálp þau þurftu menntun. Hún opnaði 1907 fyrsta skólann sinn "Casa dei Bambini" eða "Hús barnanna". Þar sem hún lagði drögin að og reyndi í verki uppeldifræðikenningar sínar og 1912 gaf hún út sína fyrstu bók um uppeldismál. Með uppgangi fasismans á Ítalíu varð hún landflótta – flutti fyrst til Spánar en hrökklaðist þaðan við upphaf borgarstríðsins og hélt til Hollands þar sem hún lést í hárri elli (1952). Áhrifa hennar gæta í leikskólastarfi um allan heim. Sumstaðar má segja að um ákveðna bókstafstrú sé að ræða á meðan aðrir sækja innblástur í hugmyndir hennar.


 

Maria Montessori fléttaði saman þekkingu sinni í læknisfræði, mannfræði og uppeldisfræði. Hún byggði uppeldisfræðin sína m.a. á kenningum Fröbles sem og á hugmyndum franskra samtímamanna. Hugmyndir Montesorri eru tengdar pósitívismanum sem hafði á þeim tíma mikil áhrif á uppeldis- félags og sálarfræði. Sennilega má jafnvel telja hugmyndir hennar um hlutverk ímyndunaraflsins í þroska barna að hluta runnur frá þeim grunni. En hún vildi ekki að börn leituðu í fantasíuna til að vinna skapandi, sköpunin átti að grundvallast á raunveruleikanum.  

 
Grundvallaratriði

Grundvallarhugmynd í hugmyndafræði Montessori var og er virðing fyrir börnum. Sjálf sagðist hún hafa lært af börnunum, þau hafi kennt henni. Börn eiga að þroskast á eigin hraða og á eigin forsendum, þess vegna verður allt starf að vera einstaklingsmiðað – hvert barn verður að fá að fara í gegn um sín þroskaverkefni á eigin hraða. Þau verða að fá tækifæri til að gera aftur og aftur. En þar sem þroski hvers og eins er einstaklingsbundin verða verkefnin líka að vera það. Vegna þessa verða börn að hafa val. Val um verkefni, tíma og hraða. Má e.t.v. segja að Montessori hafi innleitt val í starf með börnum.

  
Leikefni sem flestir þekkja

Montessoribeitti einna fyrst þeirri aðferð að gera nákvæmar skriflegar skráningar á atferli og gerðum barna, þar kom þekking hennar á sviði vísindalegra vinnubragða læknisfræðinnar og mannfræðinnar að miklum notum. Í Reggio Emilia er upphaf skráninga sem aðferð í leikskólastarfi rekið til hennar. Í kjölfar skráninga þróaði Montessori leikefni sem hún byggði á þessum athugunum. Leikefni sem til er á flestum heimilum í dag og flokkast jafnvel sumt sem eitt af fyrstu leikföngum margra barna. Leikefni Montessori reyndi á öll skynfæri en byggðu líka á mjög sterku flokkunar og röðunarkerfi. Meðal annars þess vegna hefur mikið verið litið til þeirra í stærðfræðikennslu. Dæmi um slíkt er kassinn sem mót eru flokkuð í, misstórir hringir sem er raðað upp á keilu. Það sem einkennir leikefni Montessori er að það er sjálfleiðréttandi – ef barnið gerir ekki rétt, gengur leikefnið ekki upp.  

 
Leikur barna

Sýn Montessori á leik barna hefur löngum verið gagnrýnd – hún leit á leikinn eins og hann er skilgreindur t.d. samkvæmt Fröbelskri hefð sem tímasóun. Með hinum “frjálsa” leik væri illa farið með tíma barna. Börn eru forvitin og leitandi. Því á sterkur rammi að vera í kring um leik barna – umhverfið á að vísa þeim veginn en börnin sjálf að komast að niðurstöðu. Þess vegna eiga kennarar að vera í bakgrunni – eiga ekki að skipta sér of mikið af nema þeir sjái að barnið er að lenda í ógögnum. En samtímis er mikilvægt að þeir séu góðar fyrirmyndir t.d. í meðferð málsins og þeir eiga að vera vakandi fyrir þroska hvers barns. Má segja að umhverfið hafi verið aðalkennari barnsins  - en seinna voru það aðrir Ítalar sem gerðu að leiðarstefi sínu að "umhverfið sé þriðji kennarinn" eftir barnahópnum og leikskólakennaranum (Reggio Emilia).

 
Rýmið

Vegna mikillar áherslu á eigin virkni og frumkvæði barnsins eru Montessori leikskólar innréttaðir með þarfir barna í huga. Borð og stólar eru í hæð barna – efniviður er mjög aðgengilegur og settur fram á tiltekinn hátt. Umhverfið þarf að vera þannig að barnið geti einbeitt sér en jafnframt að vera hlýlegt. Mikil áhersla er lögð á þátttöku barna í daglegum störfum, svo sem að þrífa og hugsa um húsnæðið, en jafnframt er áhersla á  smádýr séu í leikskólanum og flestir Montessori leikskólar reyna að hafa matjurtargarða fyrir börn til að vinna og á þann hátt að tengjast náttúrunni en samtímis læra um gildi vinnunnar.

 
Eign reynsla

Sjálf var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera með litlu tána í Montessori leikskóla í Bandaríkjunum. Sá leikskóli var nokkurn veginn eins lítil afsteypa af lýsingunni hér að ofan. Lilló vann þar hálfan daginn og ég fékk að leysa af sem professional volunteer þá daga sem hann var frá eða aðra starfsmenn vantaði. Skilningur minn á Montessori fræðum í samtímanum jókst töluvert en samtímis styrktist sú skoðun mín að eins og önnur fræði þarf öll uppeldisfræði að þroskast – vera rædd og taka breytingum. Til að uppeldisstarf geti þróast þarf að vera til staðar umræða, gagnrýnin umræða. Ég hafna þeirri sýn á leikskólastarf að það geti verið ein og niðursoðinn súpa sem allstaðar bragðast eins. Ég hafna einhæfum vinnubrögðum og að til sé lausn eða einn sannleikur í leikskólastarfi.


Frábært afrek

Kæru hjón hjartanlega til hamingju. Þetta hlýtur að vera mögnuð tilfinning.

Ég veit um eina stallsystur sem er búin að sjá myndina nokkuð oft. Í hvert sinn til að sjá nýjan flöt, eitt sinn til að upplifa með lokuð augu sagði hún mér.   


mbl.is Sigurinn á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni kom Baltasar Kormáki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilló og Snati

Það er tvennt sem Lilló stenst ekki boð frá, börn og dýr. Þau þurfa ekki nema rétt að líta á hann og hann bráðnar og "hlýðir". Nú kom Snati í heimsókn, Snati, þrílita læðan sem Sturla átti, en varð að flytja í næsta hús. Ástæðan fyrir flutning var nefnilega spurning um mig eða kisu - reyndar held ég að þeir feðgar  hafi þurft að hugsa sig aðeins um. En ég sem sagt hafði vinninginn, en þá voru augnlokin orðin fjórföld - ég leit út eins og leikari í B horromynd. Snati hún flutti í næsta hús og svo kemur hún í heimsókn. Hún er hérna núna - snuddaðist í kring um Lilló - labbaði ein hring upp á sjónvarsstólnum hans og og horfði svo biðjandi á hann. Lilló segir " á ég að láta það eftir þér og fá mér sæti" - " æi ég nenni því ekki" og svo var aðeins meira mænt og nú situr Lilló með malandi kisu í fanginu og klappar henni.

 

lillosnati

-- JANUSZ KORCZAK --

 Korczak with children under the chestnut tree

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    

Í heimi uppeldisfræðinnar eru nokkrir risar og risessur, fólk sem hefur lagt meira af mörkum til viðhorfa okkar til barna en aðrir. Einn þessara risa er pólski, gyðingurinn, læknirinn, rithöfundurinn og mannvinurinn Janusz Korczak(1879 -1942). En hann lagði einna fyrstur fram hugmyndir um sjálfstæðan rétt barna. 

Á árunum fyrir seinna stríð og á stríðsárunum rak hann munaðarleysingarheimili í Varsjá, og hann lét lífið í gasklefum Treblinka ásamt “börnum” sínum. Korczak hafi fengið fjölda tilboða um hjálp til að komast undan nasistum en neitaði staðfastlega, sagðist fylgja börnunum alla leið.    

Korczak stofnaði munaðarleysingjaheimili sem hann nefndi ”lýðveldi barnanna” þetta átti að vera  réttlátt samfélag, þar sem börnin áttu að vera með sitt eigið þing, dagblað, og rétt með kviðdómi. Þar sem börn voru börn án tilliti til trúarbragða, því öll börn hlæja, gráta og hræðast það sama. Börnin áttu að læra að ber umhyggju fyrir hvert öðru og þau áttu að læra sanngirni, áttu að læra að ber ábyrgð á öðrum á þann hátt að það fylgdi þeim til fullorðinsára.  Hann var ekki upptekinn af því að kenna börnum stafrófið, heldur það sem honum fannst mikilvægara, málfræði siðfræðinnar.

 

Hann vildi að fullorðnir kæmu fram við börn af virðingu og sanngirni.  Í yfirlýsingu hans um réttindi barna stóð að hvert barn ætti rétt á að:

 

vera elskað

vera virt

hafa áhrif á eigin uppvöxt og þroska

vera tekið alvarlega

vera ekki barn morgundagsins heldur barn samtímans

fá leyfi til að verða og þroskast eins og því er ætlað

við lærum öll að í óþekktu manneskjunni sem býr innra með hverju barni,

felst von framtíðarinnar

  

Hornsteinn uppeldistarfsins var rétturinn og kviðdómurinn, vegna þess að þannig lærðu börnin að jafnvel í óréttlátri veröld er að finna réttlæti.

 

Gestapó sótti Janusz Korczak þann 6. ágúst 1942, hann gekk í farabroddi barnahópsins að lestinni sem færði þau til Treblikna, tvö yngstu börnin leiddi hann sér við hlið og hin 190 ásamt 10 manna starfsliði fylgdi fast á eftir, á lofti héldu þau fána barnalýðveldisins. Grænn öðrum megin, Davíðstjarna hinumegin.

 

Barnaár Sameinuðu þjóðanna 1970 – 1980 var tileinkað og nefnt eftir Janusz Korczak, eftir hann liggja mikil skrif um málefni barna - þar sem uppeldisfræði hans birtist. Uppeldisfræði byggð á trú á getu og hæfileika barna, uppeldisfræði byggð á ást og virðingu.   

 

Síðasta ritverk Janusz Korczak var Dagbók úr gettói - sem á ótrúlegan hátt lýsir lífinu á munaðarleysingjaheimilinu síðustu 3 mánuðina.


Bakkus bróðir býr víða

 

Ég er búin að búa í miðborg Reykjavíkur í 25 ár, ég er allan þann tíma búin að búa í næsta nágrenni við Farsóttarhúsið í Þingholtstræti. Þar sem börnin mín upplifðu nábýli við Bakkus, en þau þurftu því miður ekkert svo langt til þess, Bakkus bróðir er nefnilega í fjölda íslenskra fjölskyldna, minni meðtalinni.

En hluti af því að ala börn upp hér í miðbænum (sem við völdum) er að kenna þeim á umhverfið, við sem hér búum kennum börnunum okkar á bíla sem ekki virða hámarkshraða, við kennum þeim að fara ekki inn hjá ókunnugum, við fræðum þau um barnaperra og við kennum þeim á það sem finnst í moldinni og í blómabeðum, þ.m.t. sprautur. Það eru meira en 20 ár síðan ég átti slíka samræðu fyrst við syni mína. En ég átti hana og við ræddum þetta fram og til baka.

Systir mín sem býr í sómakæru úthverfi taldi sig ekki á sama tíma þurfa að ræða þessi mál við sín börn - hún bjó jú í Kópavoginum - en hvar skyldu sprautir hafa fundist - nema á skólalóðinni í þessu líka fína hverfi - Þar höfðu foreldrar ekki talið á þeim tíma ástæðu til að ræða þessi mál. Þau áttu nefnilega ekki heima í miðbænum.

Ég var leikskólastjóri í 10 ár - eitt af því sem er gert í mörgum leikskólum, bæði í betri og "verri" hverfum borgarinnar er að yfirfara lóðirnar á morgnana - m.a. til að leita af sprautum og öðru sem þar á ekki heima.  

Í Bretlandi hafa menn nú áhyggjur af því að hafa vafið börn svo inn í bómull að þau beri ekki kennsl á hættur í umhverfinu, kunni ekki að meta hana. Þetta leiði til hluta af þeirri áhættuhegðunar sem nú er uppi. Ég veit ekki hvort það sama eigi við um okkur en að halda það að sprautur finnist bara nálægt heimilum útgangsfólks og heimilisleysinga er hættulegt sakleysi. 

Ég held að ég hafi lesið einhverstaðar að í Sviss hafi yfirvöld boðið fíklum öruggum stað til að sprauta sig á og hreinar nálar - þetta hafi dregið mjög úr þessum fylgifiskum neyslunnar og úr lifrabólgutilfellum, sem ég las áðan í Morgunblaðinu að hafi fjölgað umtalsvert á síðasta ári.

 

(Upphaflega bloggði ég þetta sem svar við athugsemd á blogginu "Bakkus bíll og börn fara ekki saman"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband