14.10.2008 | 01:31
Sturla vildi ekki heim með ömmu
Ég sótti Sturlu í leikskólann í dag. Hann var ekkert voða spenntur að sjá mig. Vildi frekar vera á gólfinu í leik og skríða upp í fangið á Elísabetu leikskólakennaranum sínum og Svövu. Þær voru nú frekar miður sín, að litla barnabarnið tæki leikskólakennarana fram yfir ömmu sína. Amman kippti sér hins vegar ekkert upp við þetta. Vissi sem var að pilturinn var nývaknaður og vildi fá að leika meira í hóp með öðrum börnum. Svo má ekki gleyma að amma er nú búin að líta á hann nokkrum sinnum í leikskólanum og hefur bara farið án þess að taka hann með. Það er í lagi að sína að manni er ekki sama.
Það var ekki annað í boði fyrir mig en bara taka piltinn og þegar upp var staðið mótmælti hann svo sem ekkert rosalega. Það er ekki amalegt að eiga ekki bara ömmur heldur líka langömmur og ég ákvað að skreppa í heimsókn til langömmu í Skeifu. Þar var líka frændi hans Ólíver sem nennti að leika við hann og druslast með hann. Ólíver er alveg með það á hreinu að amma hans er langamma Sturlu. Það var alveg ljóst þegar mamma spurði Ólíver hvort hann áttaði sig á þessu tengslum, svaraði hann, "heyrðirðu ekki, að ég sagði, viltu fara til langömmu".
Hvert sinn sem Ólíver fór eitthvað, hélt Sturla í humátt á eftir. Augljóst að þessi stóri frændi var spennandi leikfélagi. Það verður að segjast að það er alveg ótrúlegt hvað börn hafa snemma áhuga á bílum. Hjá langömmu er karfa með alla vega dóti og hvað dregur Sturla upp, bíl. Og hann var ekinn með hljóðum.
Sturla er mikil aðdáandi útiveru og gerði nokkrar tilraunir til að komast út í garð. Ég leyfði honum að skreppa aðeins út á sokkabuxunum enda veðrið milt og þetta bara augnablik. Þegar við svo fórum heim, klæddi ég hann í útigallann og minn maður stillti sér strax upp við útidyrnar. Vildi ná smá að hlaupa í garðinum hjá afa Bigga og Lóló ömmu áður en haldið var heim. Heima náði hann rétt að knúsa mömmu sína áður en hún rauk á fimleikaæfingu. Enda mikið um að vera hjá henni, á leiðinni á Evrópumót í fimleikum.
Barnasjúkdómur
Annars sögðu þær mér í leikskólanum að upp sé komin handa- og munnveiki (hand foot and mouth disease) sem er algengur en hvimleiður barnasjúkdómur. ég sagði foreldrunum frá því, svo er bara að krossa puttana og sjá hvað gerist. barnasjúkdómar koma þegar þeir koma, ekkert hægt að ráða því.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:43 | Facebook
Athugasemdir
Þessi börn eru alveg frábær.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2008 kl. 01:35
Það er engin lygi og þegar upp er staðið það dýrmætasta sem við eigum, okkar auður.
Kristín Dýrfjörð, 14.10.2008 kl. 01:45
Ég er forrík með 10 afkomendur, sem eru öll frekar vel gerð Ekki eru þau öll fullkomin en góð eru þau samt
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2008 kl. 01:48
Já þú er trilljóner heyrist mér . Ég held að það sé leiðinlegt að vera fullkomin, það er fjölbreytileikinn sem gildir. Mér finnst ég afar lánsöm að eiga þessa tvo hérnamegin.
Kristín Dýrfjörð, 14.10.2008 kl. 01:57
Ég hef nú oft fengið að heyra það í gegnum árin hversu rík ég væri, en ég svarað samstundis endemis vitleysa, ég er alltaf skítblönk. En ríkidæmið er til staðar, maður á eftir að njóta þess seinna
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2008 kl. 02:40
eða njóta þess betur seinna. Þegar fer að hægjast um og streðið er búið.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2008 kl. 02:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.