Meðvirk þjóð - erum við öll samsek?

Ég hef verið aðeins á ferðinni undafarna daga, hef ekki verið mikið nálægt tölvu. Hvar sem ég kem er aðalumræðuefnið hrun bankanna og þær aðstæður sem þjóðin er komin í. Fólk er sárt en enn hef ég ekki orðið vör við mikla reiði. Hún á eftir að koma og hún er eðlileg. Undafarið hefur verið klifað á því að við séum öll samsek, allt að því jafnsek. Jafnvel þó ég vilji ekki kenna okkar ágætu auðmönnum alfarið um ófarirnar þá er ég heldur ekki tilbúin að taka á mig sök. Ég hef reyndar hitt fullt af fólki sem er ekki tilbúið til þess, fólk sem hefur ekki lifað á yfirdrætti, hefur ekki keypt sér stærri hús, bíl eða spanderað í óþarfa. Þessu fólki er misboðið þegar það allt í einu er ábyrgt fyrir óráðsíu ungra og aldinna auðmanna og aðhaldsskort þess opinbera. Sumt á þetta fólk kannski einhvern smápening í banka og það hefur undafarin ár og vikur fengið óteljandi upphringingar og bréf frá bankanum um að færa nú sparnaðinn yfir á peningasjóði. Já það hefur fengið upphringingar frá bankafólki á árangurstengdum launum sem hefur pressað og fullvissað um algjört öryggi. Í dag er þetta fólk reitt og því er alvarlega misboðið. Finnst eins og ofbeldismennirnir séu að reyna að koma sökina yfir á það.

Íslenska þjóðin hefur undanfarin ár verið meðvirk. Lýðræði hefur verið buss orð sem við höfum notað ótæpilega en hreinlega ekki skilið. Þeir sem hafa viljað halda uppi umræðu hafa verið stimplaðir sem neikvæðir og leiðinlegir. Svona gaggandi lýður sem enginn nennir á hlusta á. Samansem merki var sett á milli gagnrýninnar hugsunar og neikvæðni. En þetta hefur verið okkur hættulegt og enn og aftur erum við að falla í sömu gryfjuna. Vegna þess hversu lýðræðishugmyndir okkar eru óþroskaðar erum við að falla í þá gryfju að verða aftur meðvirk. Við erum allt í einu tilbúin að taka á okkur skuldina. Við sem þjóð berum ábyrgð á að hafa fallið fyrir gylliboðum bankanna, við höfum keypt bílana, við höfum steypt okkur í skuldir. Nú eru þeir sem afneita þessum veruleika, vilja ekki taka ábyrgð á óráðsíunni vegna þess einfaldlega að þeir tóku ekki þátt í henni, nú eru þeir allt í einu orðnir gaggandi minnihluti sem vilja ekki horfast í augu við eigin ábyrgð.  

Mér finnst reyndar allt í lagi að minna á að árið 2002 var Ísland í ágætismálum, líka 1992. Áður en bankarnir voru gefnir og pressuðu öllu upp í samfélaginu, urðu valdir að þeirri þenslu sem við höfum upplifað á síðustu árum. Árið 1992 og 2002 átti Ísland orðspor og stolt. Hvað eigum við í dag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég tel mig ekki samseka, ég hef ekki lifað um efni fram.  Ég neita líka að taka á mig ábyrgðina á útrásarbarónunum.  Ég fékk svona gylliboð frá Glitni í fyrra, það var ávísun á bílalán að upphæð 5.000.000.  Ekki fór ég og keypti mér bíl á þessum hagstæðu myntkörfulánum sem voru aðallega í boði þá.  Ég keyri ennþá minn 8 ára gamla bíl, sem ég hef átt skuldlausan í 6 ár. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.10.2008 kl. 00:41

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Alveg eins og þúsundir annarra Íslendinga en nú heyrist eilífðar söngur um að við höfum öll tekið þátt og berum öll ábyrgð. Hjarðeðlið lætur sannarlega á sér kræla.

Kristín Dýrfjörð, 21.10.2008 kl. 00:45

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, við erum fjarri því öll samsek. Það er til fullt af fólki sem hefur ekki ástundað neyslufyllerí, sem hefur ávaxtað sparifé á skynsömum reikningum, sem hefur neitað sér um glórulausu neyslulánin, sem hefur látið 0-1 bíl duga o.s.frv.

Það er líka til fullt af fólki sem sat eftir í góðærinu.

En hagtölurnar ljúga svo sem ekki um "okkur" sem þjóð. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.10.2008 kl. 01:06

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Nei hagtölur ljúga ekki um neysluna, en þær réttlæta samt ekki sönginn. Ekki það að við og börnin okkar sem erum með skráð heimili hér á landi en ekki á fínum eyjum í skattaparadísum, við borgum brúsann. Það er nú einu sinni kostur jafnaðarsamfélagsins að við berum ábyrgð á okkar systur og bróður og gerum það með reisn, líka ef okkar minnsti bróðir heitir Björgúlfur. Og ég verð að segja að umfram allt ber okkur að verja þann grundvöll, þá hugsun.

Kristín Dýrfjörð, 21.10.2008 kl. 01:13

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Vonandi verðum við í góðum málum 2012!

Eigum við ekki bara að setja markið á það?

Greta Björg Úlfsdóttir, 21.10.2008 kl. 01:39

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Júbb, helst fyrr en held að 2012 sé raunhæfara. Er bjartsýn að eðlisfari og hef óbilandi trú á okkur sem þjóð, samstaðan á eftir að skila okkur langt (hún er ekki það sama og meðvirkni í mínum huga).

Kristín Dýrfjörð, 21.10.2008 kl. 02:09

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Góður punktur Guðjón.

Það sem þjóðin hefur fyrst og fremst gert sig seka um er andvaraleysi, að treysta stjórnvöldum þrátt fyrir að mörg teikn væru á lofti um þenslu, nú eða að gera ekkert í því þó það væru blikur á lofti. Margir, þar á meðal ég, voru búnir að sjá að þetta gæti gerst, alla vega hefur maður oft haft á orði að þetta ætti allt eftir að hrynja, það er að segja hið svokallaða góðæri, sem var þó bara hjá sumum. Svo kom að því. Kannski á samtakamáttur fólks í landinu eftir að eflast við þessi ósköp.

Greta Björg Úlfsdóttir, 21.10.2008 kl. 10:33

8 identicon

Ég er saklaus... keyri um á bíl sem er árgerð 1999, fór ekki að sukka á lánum eða neitt.
þeir sem fóru offari, keyptu Hummera og alles... ég get ekki vorkennt þeim

DoctorE (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 15:57

9 Smámynd: Einar Ólafsson

Takk, eins og talað út úr mínu hjarta. Mér finnst það óþolandi þegar sagt er að öll séum við samsek, öll höfum við tekið þátt í dansinum kringum gullkálfinn og svoleiðis. Sumir höfðu nú aldrei efni á að borga sig inn á ballið, og sumir vildu bara ekkert inn, vildu ekki þetta ball. Það er eins og við eigum öll að vera sátt við að taka á okkur kostnaðinn. Vera meðvirk með þjófunum. Takk enn og aftur.

Einar Ólafsson, 21.10.2008 kl. 15:59

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ha, ha, bíllinn minn er reyndar árgerð 1995, Doksi, ég á eldri bíl en þú!

Ætli þetta verði nýja tendið...

Greta Björg Úlfsdóttir, 21.10.2008 kl. 16:56

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Æ-i, TRENDIÐ

...ég slekk á tölvunni núna.

Greta Björg Úlfsdóttir, 21.10.2008 kl. 16:57

13 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir góðan pistil - með kveðju frá Cleveland, Ohio

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.10.2008 kl. 21:30

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Bíllinn okkar hjónanna er að vísu tiltölulega nýr, 2ja eða 3ja ára, en er bilanafrí og sparneytin Toyota Yaris; metinn næstgrænasti bíll jarðarinnar. Og við erum sem sé bara með hann einan. Við lifum spart og skuldum bara klassísk íbúðakaupalán frá ríki og stéttarfélagi vegna aldargamallar fasteignar okkar sem við keyptum fyrir meira en 20 árum síðan. Okkar sparnað settum við á skynsama reikninga en eltumst ekki við áhættusama galdravexti. Við erum ekki meðsek. Fjarri því.

En auðvitað stöndum við saman. Ekki síst gegn Bretum og öðrum ribböldum sem nú beita handrukkaraaðferðum við að kúga af okkur fé. Svei.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.10.2008 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband