Menntaþing

Á föstudaginn fór ég á menntaþing, menntamálaráðherra í tilefni nýrra laga um öll skólastigin og um kennaramenntunina. Það var tilkomumikið að hitta sjá 800 kennara af öllum skólastigum safnast saman og ræða og pæla í sínum málum. Ræða ráðherra var upplýsandi og sagði töluvert um sýn hennar á framtíð skólamála. Lykilorðin eru sveigjanleiki og frelsi og svo eru öllu pakkað inn í lýðræðisbúning. Að hluta virka þessar lýðræðisáherslur eins og kápa til að hylja það sem undir er. Mér finnst nefnilega vera svolítill frjálshyggjusvipur á sumum af þeim nýmælum sem eru í lögum um leikskóla og jafnvel miðstýringarárátta. Með því á ég t.d. við hæfnisviðmið og þrepamarkmið í leikskólastarfinu. Hvorugt atriði sem falla mér í geð. Sumt annað er ég ánægð með og tel vera til bóta. Ég tek reyndar undir orð Þorbjargar Helgu en í málstofu um leikskólann taldi hún að með nýjum lögum væri frelsi leikskólans frá því sem áður var, vera skert. Sumt af því sem hún taldi aftur ógnandi við nýju lögin tel ég hinsvegar vera styrkeika þeirra. Þar á meðal það ákvæði að fermetrum á barn verði fjölgað. Hún taldi það ákvæði hugsanlega eiga eftir að íþyngja sveitarfélögum. Um það skal ég ekki segja. Ég veit hinsvegar að það er líklegt til að styrkja innra starf fjölmargra skóla og það á eftir að hafa mikil áhrif á líðan bæði barna og starfsfólks. Og þannig að að auðvelda sveitarfélögum rekstur leikskóla.

Aðalerindin 

Aðalerindin voru nokkuð misjöfn, Catherine Lewis fjallaði um það sem hún kallar lesson study, og byggir í því að rýna í eigið starf og starfsaðferðir, en ekki síst í það hvernig börn læra. Mörgum leikskólakennurum sem ég hitti fannst að á eftir fyrilestri Lewis hefði mátt koma umfjöllun um uppeldisfræðilega skráningu því tenging þar á milli er mjög ljós. Bæði byggir á því að ígrunda eigið starf og það sem er á gerast á deildinni (skólastofunni) í ljósi kenninga og fyrri þekkingar. Einn þinggestur spurði mig hvað ég teldi að leikskólakennurum hafi fundist um fyrirlestur Lewis, sjálfur taldi hann að leikskólakennarar og yngri barna kennarar hefðu skilið hann en hann hafi farið ofan garðs og neðan hjá framhaldsskólakennurum. Vinnubrögð í þessa átt væru þeim ekki jafn eiginleg og okkur sem vinnum á yngri stigunum.  

Ég var að hugsa um að sleppa því að hlusta á Jens Bjornavold en var eftir á fegin að hafa ekki gert það. Hann var afar áhugaverður en ég er ekki viss um að margir leikskólakennarar séu mér sammála um það. Held að hann hafi verið of sértækur fyrir allflesta. Ástæða þess að ég hlustaði á Bjornavold var að á undan honum kom fram kór Fögrubrekku undir stjórn Jennýjar Gunnarsdóttur og Asako Ichiachi og þau voru guðdómleg. Ég gat náttúrulega ekki sleppt því að hlusta á þau og ílentist svo. Takk Fagrabrekka.

Málstofa 

Ég fór í málstofu um leikskólann um morguninn, það sem mér fannst helst að var að erindi fólks voru of löng og ekki gafst nægur tími til fyrirspurna. Margir leikskólakennara höfðu á orði fyrir ráðstefnuna að þá undraði að enginn leikskólakennari væri á dagskrá á málstofu um leikskólann. Bæði í málstofu um grunnskólann og framhaldsskólann var þeirra fulltrúi að sjálfsögðu í pallborði. Þegar að málstofunni kom hafði ráðuneytið áttað sig á þessu og bað Sigurlaugu Einarsdóttur leikskólastjóra að vera með, hún byrjaði á að greina frá að hún væri frekar óundirbúin enda bara beðin með tæpum sólahringsfyrirvara.

Ráðherra var mjög sýnileg á þinginu. Hún sló á létta strengi en tókst samtímis að vera alvarleg. Tókst það bara nokkuð vel. Einn þinggest hitti ég sem var afar ánægð með frammistöðu ráðherrans. Sagði hana bara vera í vitlausum flokki. En er einhver einhvertíma í réttum flokki?, spurði þá annar kennari í hópnum.  

Umkvörtunarefni mitt við ráðuneyti menntamála 

Annars er það mitt helsta umkvörtunarefni við ráðuneyti menntamála sem hefur faglegt eftirlit með starfi leikskóla og ber á því ábyrgð að þar hefur ekki starfað leikskólakennari síðan Svandís Skúladóttir fór á eftirlaun á síðustu öld. Mér finnst það alveg ótrúleg móðgun við leikskólakennara að þar hafa menn ekki talið þörf á að nýta sér þekkingu þeirra að staðaldri. Það er ekki nóg að kalla til fólk í starfshópa inn á milli. Ég veit að stéttarfélag leikskólakennara hefur í gegn um tíðin gert við þetta athugasemdir en fyrir tómum eyrum. Kannski var undirbúningur ráðuneytisins fyrir málstofuna um leikskólann lýsandi dæmi um viðhorf ráðuneytisins gagnvart leikskólanum eða einmitt afleiðing þess að þar starfar enginn leikskólakennari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Sæl, var einnig á Menntaþingi, að vísu aðeins fyrir hádegi.  Var þarna á vegum framhaldsskóla. Það sem fannst standa uppúr hjá Catherine Lewis var þessi hugsun, með hvaða "nesti"  við viljum senda nemendur frá okkur, og hvar þeir standa eftir fimm ár, hafi ég tekið rétt eftir.

Einnig fannst mér þetta með "glampann" í augum nemandans samsvara mínum hugmyndum varðandi hvað góð kennsla þýðir.  Mikilvægi þess að kynda undir áhuga nemenda á viðfangsefninu.

Tek undir umkvörtunarefni þitt. -

kv.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.9.2008 kl. 15:20

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það. Já ég er alveg sammála þessu með blikið í augunum og líka að skoða það sem börnin eru að muldra ofan í sig. Sjálfsagt er það svo að framhaldskólakennarar eru jafnmisjafnir og þeir eru margir og ég er ekki endilega viss um þeir séu almennt jafn afturhaldsamir og viðkomandi viðmælandi minn taldi. En ég held reyndar að það sé til afturhald á öllum skólastigum. Ætla að horfa á ráðherra á netinu í kvöld, hér á þessum bæ var nefnilega fótbolti valinn fram yfir slíkt efni í sjónvarpinu. Þrjár kynslóðir karla sitja og horfa.

Kristín Dýrfjörð, 15.9.2008 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband