Aðför að leikskólanum a la Viðskiptaráð

Eftir kosningar s.l. vor lagði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ofuráherslu á að aðskilja leikskólasvið frá menntasviði, taldi hann að einungis þannig nyti leikskólinn sérstöðu sinnar og aukin færi gæfust til að styrkja innviði hans og starf. Því var haldið fram að leikskólinn hefði ekki notið athygli og hann staðnað í tíð Reykjavíkurlistans. En nú eru hin raunverulegu markmið aðskilnaðarins að koma fram. Þau virðast vera ótrúlega samhljóma hugmyndum Viðskiptaráðs sem m.a. komu fram í skýrslu þeirra frá því 2006  og ýmsum eldri hugmyndum sem tengdust styttingu náms til stúdentsprófs. Það virðist sem að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík setji hugmyndir viðskiptalífsins ofar hugmyndum t.d. bæði fræða- og kennarasamfélagsins í skólamálum. Er þetta í raun í samræmi við það sem gerist á hinum stóru veiðilendum stórfyrirtækjanna, kaupa og búta niður þangað til að ekkert er eftir að upprunalega fyrirtækinu. 

  

Áhrif Viðskiptaráðs eru víðtæk, s.l. haust sáum við hvernig átti að leysa vandamál leikskólans með einkavæðingu – gera mannekluvandann að vandamáli annarra, nýta tækifærið og láta draum Viðskiptaráðs rætast. Láta fyrirtæki eins og banka sjá um leikskóla fyrir sitt starfsfólk, koma upp leikskólakeðjum, svona eins og hamborgarakeðjum. Reyndar er í skýrslu Viðskiptaráðs meira og minna talað um daggæslumál en ekki leikskóla, hér eru nokkur dæmi úr skýrslunni og þau viðhorf sem speglast í henni til leikskólans, foreldra og hlutverk samfélagsins.

 

Samt er það svo að ákaflega lítið hefur miðað í átt að skilvirkari og þjónustumiðaðari leikskóla. ... Það er lítið því til fyrirstöðu að einkaaðilar hefji rekstur á sviði daggæslu. ... Vandinn sem við er að etja á daggæslusviðinu er því einkum fjárhagslegur. Í vissum tilvikum  má rekja hann til aukinna krafna á hendur rekstraraðilum og þrengri heimilda hvað stærð rekstrareininga snertir.”

 

Viðskiptaráð telur að rekstareiningar í daggæslu sé alltof litlar og megi vel stækka án þess að gæði þjónustu minnki. Ella verði rekstur leikskóla varla fýsilegur út frá hagkvæmnissjónarmiði. Þá telur Viðskiptaráð Íslands æskilegt að foreldrar taki almennt ríkari þátt í fjármögnun dagvistunar með beinum hætti frekar en að styðjast við það millifærslukerfi sem nú er við lýði.

 

Nú sjáum við næsta stig aðfarar að leikskólanum sem Þorbjörg Helga leiðir fyrir hönd frjálshyggjuaflanna í Sjálfstæðisflokknum. Sjálf hef ég af sögulegum ástæðum aldrei lagst gegn öðrum rekstrarformum leikskólans. Ég get tekið undir hugmyndir um þjónustusamninga svo framarlega sem réttindi bæði barna og starfsfólk sé tryggður. En ég hef ávallt talið og sú skoðun mín hefur ekki breyst að leikskólinn sé og eigi að vera samfélagslegt verkefni á samfélagslega ábyrgð. Kannski við endum með kerfi eins og Hollendingar sem enn sögðu mér þegar ég var þar í haust, enn vera að borga fyrir eigin aðför af leikskólakerfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Hitt er þó annað og mun stærra mál, sem ég veit ekki hvort að þú gerir þér grein fyrir, vegna eigin skoðana eða reiði eða hvers þess sem blindar sýn þína á málið og það er það að eitthvað þarf að gera til þess að leysa þennan vanda!

Svo að ég gefi þér dæmi þá erum við hjónin með eina 15 mánaða stúlku, sem átti að komast inn hjá dagmömmu 1. mars. Konan mín náði að teygja fæðingarorlofið sitt út allt síðasta ár og svo klára ég mitt orlof núna um næstu mánaðarmót. Svo fáum við það í hausinn fyrir 11 dögum síðan að barnið sem átti að fara út hjá dagmömmunni og inn á leikskóla kemst ekki lengur inn á leikskólann þar sem starfsmaður á leikskólanum segir upp fyrirvaralaust og gengur út og barnið fer þá aftur á biðlista. Þetta þýðir að stúlkan okkar er ekki með dagmömmupláss, þó svo að hún sé fyrst inn af biðlista hjá tveimur dagmæðrum núna.

Dagforeldrarnir eru með allt fullt af því að enginn kemst lengur inn á leikskólana og vandinn safnast bara upp.

Á meðan við erum með handónýtt dagforeldrarkerfi og yfirfulla opinbera leikskóla og eftirspurnin eykst með hverjum degi.

En staðreyndin er sú að nú þurfum við að skerða starfshlutfallið hjá okkur, sem kemur niður á rekstri þeirra fyrirtækja sem við störfum hjá og smitast þá út til þeirra sem sækja þjónusta sína til þessara fyrirtækja. Vegna skertra tekna þá verða ríki og sveitarfélag af minni tekjum af okkur sem skattgreiðendum . . .

Af hverju ekki að fjölga úrræðum og lausnum á markaðnum? Það er greinilegt á öllu að félagshyggjuarmurinn hér í borg hefur gjörsamlega brugðist og eitthvað þarf að gera til að leysa vandann!

Ef það eru hagur fyrirtækis að bjóða upp á daggæslu/leikskólavistun til þess að tryggja það að starfshlutfall starfsmanna hjá sér skerðist ekki, við hvern er þá að sakast? Akkúrat engan, það er málið!

Magnús V. Skúlason, 19.2.2008 kl. 10:21

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll og takk fyrir, þú hittir á stóran hluta vandans þegar þú sagðir,

"þar sem starfsmaður á leikskólanum segir upp fyrirvaralaust og gengur út" 

þetta hefur ekki með rekstrarform að gera, ekki með einkavæðingu. Vandmálið er að hluta kjaramál, (en ekki bara), að hluta starfsaðstaða og að hluta að það vantar leikskólakennara. Í dag eru tækifæri fyrir þá sem það vilja (líka fyrirtæki) að stofna og reka leikskóla. Það eru t.d. fjölmargir einkaleikskólar. Sumir þeirra glíma við starfsmannavanda, aðrir minna - alveg eins og leikskólarnir sem sveitarfélögin reka.

Miðað við það sem boðað er í skýrslu Viðskiptaráðs er verið að hugsa um rekstrarlega hagkvæmar einingar, ég velti fyrir mér hvað það þýði fyrir innra starfið, metnað og launamál. Í skýrslunni er ýjað að því að gefa ætti dagforeldrum frelsi til að fjölga börnum, sem ég get ekki sé að sé í þágu barna, foreldra eða dagforeldra, m.a. vegna öryggismála. 

Uppbygging á leikskólum hefur jafnframt verið svo hröð að HA og KHÍ hafa ekki haft undan. Samt hafa stærri árgangar brautskráðst þaðan en gerðu að jafnaði frá Fósturskólanum. 

Ég tel reyndar að framundan sé ákveðin "kólnun"í uppbyggingu leikskóla, m.a. vegna þess að börnum á samkvæmt mannfjöldaspám ekki eftir að fjölga jafn hratt og hingað til. Ég tel að ef að samfélagið viðurkennir þessi störf sem mikilvæg (ekki bara í orði líka í buddu) þá komist líka á ákveðið jafnvægi. En það breytir ekki því vandamáli sem þú stendur frammi fyrir. Starfsfólk leikskóla er eftir sem áður takmörkuð auðlind.

Kristín Dýrfjörð, 19.2.2008 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband