29.6.2007 | 12:56
Hvernig hræðslan við að verða nashyrningur hefur mótað sjálfsmynd mína
Þegar ég var barn las ég leikritið Nashyrningurinn: leikrit í þremur þáttum og fjórum myndum eftir Rúmenann Eugene Ionesco. Gefið út hér á landi árið sem ég fæddist í þyðingu Jóns Óskars.
Af þeim bókum sem ég sporðrenndi á þessum árum eins og krakkar í dag sporðrenna blandi í poka stendur Nashyrningurinn upp úr. Og sennilega það rit sem hefur mótað viðhorf mín til lífsins meira en margt annað. Ég ákvað þá að ég ætlaði aldrei að vera Nashyrningur og missa mennsku mína, ætlaði aldrei að fylgja flautu rottutemjarans.
Ég man að ég ræddi leikritið við foreldra mína, umræður sem snérust að uppgangi nasisma, fasisma og á þeim tíma kommúnisma. Hvernig fólk hætti að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir hvernig söngur nashyrninganna seiddi það til sína, og hvernig það lét undan söngnum og fannst eftirsóknarvert að vera í þeim hópi, hvernig það smá saman breyttist næstum allt í nashyrninga, sem hugsuðu, töluðu og höguðu sér eins og nashyrningar.
Um daginn hlustaði ég á fyrirlesarar halda því fram að kapítalistar hafi frá upphafi látið Marx stýra gerðum sínum, á þann veg að þeir eru alltaf að mæta því sem hann spáði létu á þann hátt Marx um að skilgreina sig. Svona eins og hræðsla mín við að verða nashyrningur hefur mótað mig.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Breytt 30.6.2007 kl. 12:31 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ákaflega sniðug samlíking.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.6.2007 kl. 18:33
Hvor þessi með nashyrningana eða kommúistana hehe
Kristín Dýrfjörð, 29.6.2007 kl. 20:45
Nashyrningar og kommúnistar í einni andrá! En flott þetta hjá fyrirlesaranum sem létu Marx stýra gerðum sínum ... reyndar ein meginskilgreining mín á orðræðu að "resistance" styrki það sem barist er gegn. Liggja áhrif marxismans því í að styrkja frjálshyggjuna??
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.6.2007 kl. 21:06
Já eiginlega vildi hann meina það - ný-frjálshyggjan væri andsvar hinna ráðandi stétta við spám Marx um þjóðfélagsþróun, og þróun stéttasamfélagsins - kapítalistar væru í raun að mæta þeim spám eins og þeir hafa verið að gera með einu eða öðrum hætti alla 20. öldina. Þannig hafi þeir með því endalaust að vera að reyna að afsanna Marx í sjálfu sér sannað tilgátur hans og kenningar.
Hann vildi og meina að í nútímanum gætum við tekið út hugtakið stétt, og sett inn kynþáttur. Þar sem stéttarmörk og stéttarbarátta er ekki lengur söm við sig - hafi kapítalið fundið upp nýja "hina" - "aðra" til að kenna um vandmál samfélagsins - nefnilega svart fólk - og með því dregið athyglina frá auðsöfnun fárra. Þannig hefur pressunni verið beitt og við verið notuð.
Doktorsritgerð hans (sem er enn á tilgátu stiginu) fjallar um birtingarform fólks af svörtum kynþáttum í helstu bresku dagblöðunum sl. 5 ár minnir mig. En þetta var nú bara 15 mínútna fyrirlestrur og ég var næst á eftir honum - Nú verð ég að bíða í ár til að vita hvort hann getur sannað tilgátu sína - eða hvort hún verður rifin niður - held að hann hafi ætlaði að nota kenningar Paul Dowling -(þessi sem lenti upp á kant við sinn gamla doktorsleiðbeinenda sjálfan Basil Berstein og hægt er að lesa um þau sárindi sem það hefur skapað Paul á heimsíðu hans, held ég hafi bloggað um það)
Kristín Dýrfjörð, 29.6.2007 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.