Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Ekki nema þú borgir

Fyrir nokkrum árum gerði ég úttekt á starfi leikskóla, ég gerði þar athugasemd við að leikskólinn bauð upp á danskennslu á leikskólatíma sem foreldrar borguðu aukalega fyrir, fannst það tæpast standast lagalega eða siðferðislega. 

Í dag las ég í Morgunblaðinu að á Akureyri, þar hafi foreldrar leikskólabarna val um ýmsar aukagreiðslur. Sem dæmi þá borga foreldrar aukalega fyrir að sjá myndir af börnum sínum í leikskólastarfinu. Þáttur sem í öðrum leikskólum á Akureyri er hluti af því sem öllum er boðið, hluti af því að vera með barn í leikskóla. Væntanlega fylgir þessari skýringu Elínar Hallgrímsdóttur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á valgjaldinu að nú megi hinir leikskólarnir á Akureyri ef þeir sig svo kæra farið að rukka fyrir aðgengi að myndasíðum barnanna. Í mínum huga er myndaskráningar af því sem börn eru að gera í leikskólanum samsvarandi einkunnar- og umsagnarblöðum grunnskólans. Kannski að bærinn telji líka eðlilegt að foreldrar borgi fyrir þá vinnu - aukalega.  

Annað sem bærinn taldi foreldrum frjálst að gera er að velja hvort börnin eru í skólabúning og þá hvort foreldrar fjárfesti í slíkum búningi. En er það val fyrir foreldra í skóla sem hefur skólabúninga að yfirlýstu markmiði?

Í þriðja lagi eru foreldrar rukkaðir fyrir aukagjald fyrir hvert byrjað korter sem börnin eru umfram umsaminn vistunartíma. Nú veit ég ekki hvort það tíðkast í öðrum skólum bæjarins. Í sjálfu sér er kannski ekkert athugunarvert við það, nema að það verður að gæta jafnræðis og gera öðrum leikskólum í bænum kleift að gera hið sama.

Mér fannst líka merkilegt að heyra hvað Elín hafði að segja um þá skólastefnu sem í einkaleikskólanum er rekin. Að hún sé ein sú athygliverðasta og þekkasta á Norðurlöndum, það hef ég hvergi lesið nema á heimasíðu þeirra sjálfra. Hún segir líka að þangað streymi rannsakendur, mér finnst líka leitt hvað mér hefur gengið illa að finna niðurstöður þeirra rannsókna sem þessir  rannsakendur hafa væntanlega verið að gera. En það er sjálfsagt mitt vandamál og þekkingarskortur. Væntanlega get ég bara haft samband við Elínu og beðið hana að vísa mér leiðina.

Eftir stendur að Hlynur Hallsson fór með rétt mál.  

 


Einkarekstur leikskóla

Í ljósi vaxandi einkareksturs í leikskólum hérlendis er ekki úr vegi að skoða hvernig þróunin hefur verið annarstaðar. Peter Moss er enskur fræðimaður sem mikið hefur um þessi mál skrifað og er oft kallaður til af alþjóðasamtökum til að fjalla um leikskóla meðal annars OECD. Í nýlegri grein eftir hann vöktu eftirfarandi upplýsingar athygli mína.

Í mörgum enskumælandi löndum hafa áherslur samfélagsins á leikskóla verið í að láta markaðinum hann eftir. Afleiðingin er leikskólauppbygging í sumum þessara landa er í auknum mæli markaðsvædd. Sem dæmi fjölguðu einkaleikskólum sem reknir eru í hagnaðarskini um 400 % í Ástralíu frá 1991 til 2001 á meðan fjölgun hinna var um 55%. Í dag eru um 70% barna þar í landi í leikskólum sem eru reknir í hagnaðarskini. Í áströlsku kauphöllinni eru nú 4 fyrirtæki sem sérhæfa sig í leikskólarekstri, það stærsta alþjóðlegt fyrirtæki sem á yfir 2300 leikskóla í ýmsum enskumælandi löndum.

Sama sagan er að endurtaka sig í Bretlandi þar sem leikskólarekstur er sá rekstur sem er í sem mest vexti af greinum í þjónustu. Sem dæmi þá voru leikskólar í einkarekstri árið 1997 1,5 milljarða punda virðr en voru 2006 orðnir 3,5 milljarða punda virði. Bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn hafa stutt við og ýtt undir þessa þróun. Í Hollandi er þróunin svipuð, þar sem fjármunum er nú beint til foreldra en ekki til leikskólanna. „gæsla“ er einkamál foreldra og vinnustaða, en í Hollandi er gert ráð fyrir að atvinnurekendur greiði 1/3 af kostnaði við „gæslu“. Raunin er að 75% atvinnurekanda gera það að einhverju marki.   

Moss fjallar um markaðsvædda leikskóla sem hluta af því sem kallað hefur verið Quasi market eða markaðsígildi. Þar sem markaðinum eru sett ákveðin takmörk og stjórnað af hinu opinbera. Hann veltir líka fyrir sér gæðum menntunar í hagnaðarreknum leikskólum og hinum. Moss bendir á að rannsóknir segi að hagnaðarleikskólar séu líklegri til að vera verri, gæði menntunar, minni. Sé þetta vegna þess að þar er reynt að spara á öllum sviðum, bæði varðandi gögn/efnivið og mannskap. Starfsfólk með tilskilda menntun er líklegra til að vera færra í hagnaðarleikskólum en hinum.

Að lokum þá er vert að benda á að ég er ekki að halda því fram að rekstur einkaaðila eða samtaka sé af hinu illa og að slíkur rekstur sé endilega verri en sá sem samfélagið sér um. En það er þess vert að vara við þeirri þróun sem hefur verið í Bretlandi, Hollandi og í Ástralíu. Þar sem leikskólarekstur er í mörgum tilvikum fyrst og fremst markaðstækifæri og drifinn áfram af hagnaðarvon. Að fyrirtæki í leikskólarekstri sæki inn í kauphallir ætti að segja nokkuð.


Er þetta dæmi um handvömm meirihlutans í borginni?

Er eðlilegt að Reykjavíkurborg auglýsi fyrir einkaskóla, eftir fólki. Mér finnst það ekki, en á vef leikskólaráðs má lesa auglýsinguna hér að neðan. Hinsvegar má vera að þetta sé almenn auglýsing og viðkomandi þurfi ekki að vera í samstarfi við Skóla ehf, en verði að reka skólann undir formerkjum ákveðinnar stefnu og hafa sérþekkingu sem ætla má að starfsfólk skóla ehf búi yfir. Af auglýsingunni er það ekki alveg ljóst. Reyndar sé ég ekki alveg hvernig það stenst t.d. lög um leikskóla og Aðalnámskrá leikskóla þar sem sterk áhersla er á faglega ábyrgð og frelsi að auglýsa eftir rekstaraðila á þennan hátt. En kannski það sé arfleið Sjálfstæðisflokksins að stuðla að aukinni forræðishyggju og miðstýringu.

 

Ég er líka að velta fyrir mér hvort að leikskólaráð hafi pissað í skóinn sinn þegar það kynnti hugmyndina um Borgarbörn, í þeirri áætlun kom fram að opna ætti fjóra heilsuungbarnaleikskóla(deildir). Ég held kannski að þegar farið var að skoða málið hafi komið í ljós að borgin verður auðvitað að leita tilboða, hún geti ekki boðið einum aðila svona samning, það standist ekki góða stjórnsýslu. Og til að bjarga sér úr vondum málum er nú búið að sérsníða auglýsingu svo að Skólar ehf geti fengið verkefnið enda í framrás að eigin sögn. Hér held ég að sé ekki við Skóla ehf að sakast heldur sé málið dæmi um enn eina handvömm núverandi meirihluta í Reykjavík.

 

Heilsuleikskóli - auglýst eftir rekstraraðila

Auglýst er eftir áhugasömum aðilum sem vilja reka ungbarnaskóla í Reykjavík undir formerkjum svokallaðrar heilsustefnu fyrir leikskóla. Sjá heimasíðuna www.skolar.is/heilsustefnanUngbarnaskólinn verður fyrir börn á aldrinum 1-3 ára og mun njóta rekstrarstyrkja Reykjavíkurborgar líkt og aðrir sjálfstætt starfandi leikskólar í borginni.

Gerð er krafa um reynslu af skólastjórnun og að rekstraraðilar ráði yfir starfsfólki með faglega menntun í uppeldi og menntun ungra barna með áherslu á heilbrigði, hollustu og hreyfingu. Gerður verður þjónustusamningur við einn skóla um þetta verkefni.

 Frekari upplýsingar veitir Ragnhildur E. Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar í síma 411 7000


Matsfræði og skapandi efnisveitur

Í gær fór ég á aðalfund Íslenska matsfræðingafélagsins. Þetta eru ársgömul samtök fólks sem hefur flest sérmenntað sig í matsfræðum. Á fundinn mættu rúmlega 50% félagsmanna og rúmuðumst við öll, við eitt borð. Í gærkvöldi fór ég í Hafnarfjörð og skoða húsnæði sem leikskólinn Stekkjarás  hefur fengið til að setja upp ReMídu smiðju fyrir afmæli bæjarins. Ég hafði fyrr um daginn stefnt Soffíu á Sæborginni  hingað heim til að fara með mér, sagst verða svolítið sein fyrir vegna aðalfundarins. Hún hélt að ég væri á fundi tengdum matvælum. Fattaði það ekki alveg, en hvað veit maður um einkaáhugamál fólks, mín gætu alveg verið matur.

En hvers vegna ætti einhver sem ekki er að spá í mati og matsfræðum endilega að vita að matsfræði snúast um að meta starf ýmissa stofnana. Að matsfræði eru viðurkennd og sívaxandi fræðigrein. Grein sem hefur í nokkur ár verið kennd við Háskóla Íslands.

Húsnæðið sem Stekkjarás er búin að fá er ótrúlega rúmgott og hentar vel fyrir skapandi efnisveitu. Þar er rými fyrir fjölbreytt tilrauna- og byggingarsvæði. Þar er rými fyrir handverkssvæði. Þar er rými fyrir það sem sumir kalla drasl og við köllum gull.

Nú er framundan að safna alla vega efnivið og þá þurfa margir að leggja hönd á plóg. Stekkjaráskonur ætla líka að leggja SARE (Reggio-samtökunum) lið, hluti af ráðstefnunni okkar í maí verður hjá þeim í þessu húsnæði og námskeiðið um skapandi efnisveitu verður líka þar. Íslensk samhjálp og samstarf af bestu gerð.

Ég finn að helst að öllu vil ég henda öllu til hliðar og steypa mér í þetta ótrúlega spennandi verkefnið með þeim. En mín bíða víst önnur verkefni og ætli sé ekki best að láta þau ganga fyrir.

Ánægð með okkar bláu

Eftir langa bið í fyrra fengum við bláa tunnu. Hún var og er, biðarinnar virði. Við lítil fjölbýli eins og okkar er hrein snilld að hafa bláa tunnu. Ég veit ekki hvort þær borga sig við einbýli, alla vega er sennilega nóg að tæma þar mánaðarlega. Það er nefnilega ekki góð tilfinning að vita stóra bíla keyra um þröngar íbúðagötur til að tæma hálftómar tunnur.
mbl.is Auknar vinsældir bláu tunnanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprungin blaðra

Ég er eins og sprungin blaðra. Held að margir kennarar séu í sömu sporum á þessum árstíma, kapphlaup við tímann um að klára að fara yfir, semja próf, skrifa fyrirlestra, greinar  og svo er ég að fara að kenna á sumarönn. Kennsluáætlun og hvað eina framundan.  

Annars átti sér stað skemmtilegt atvik hér í gærmorgun. Lilló opnaði útidyrahurðina og finnur eitt par af kvenmannsskóm fyrir utan. Hann kallar hvort ég hafi gleymt skónum mínum utandyra. Neibb kannaðist ekki við það. Þetta eru svartir tátiljuskór.

Við ákváðum að leyfa skónum að vera á pallinum allavega í bili. Nú búum við til sögur um skóna fyrir gesti og gangandi. Aðallega um að þetta sé friðþægingargjöf frá innbrotsþjófnum okkar. Lilló hitti hann annars í bænum og skammaði hann svolítið. Hann lofaði bót og betrun, sagðist ekki hafa áttað sig á að þetta var hurðin okkar. Ég held að Lilló trúi honum mátulega. Vinurinn hafði annars komist í álnir og veitti öðrum félögum sínum á bekknum í Austurstræti vel úr forláta viskíflösku. Þar ríkir samkennd.

Sturlubarnið fékk að vera hjá mér á meðan mamman skrapp í dag, hann er á mikilli ferð og festir sig þessa daga undir öllum stólum. Við fórum út að leita að kisu, en ég held að Snati láti bara sjá sig þegar afi er með Sturlubarnið úti. Enda Snati eins og Sturlubarnið hrifið af afa. 

undir stól - dæmigerð sjón þessa daga   vandræði2 

 


Mamma og Kvöldskóli Kópavogs

Kvöldskólinn í Kópavogi var með sýningu í dag á afurðum vetrarins. Við Lilló skruppum á sýninguna. Mamma er búin að vera þar á málaranámskeiði í vetur og hennar myndir voru á meðal þess sem sýnt var. Mamma hefur sérstök tengsl við Kvöldskólann í Kópavogi. Hún sat í fyrstu jafnréttisnefndinni í Kópavogi og varð seinna formaður hennar. Á þeim tíma var það eitt baráttumála jafnréttisnefndarinnar að koma á kvöldskóla. Hann var í upphafi hugsaður sem skref fyrir konur af heimilum út á vinnumarkað og fyrstu námskeiðin tengdust skrifstofustörfum, tölvum og slíku. Það var fyrir tæpum 30 árum. Núna nýtur mamma góðs af þessum sama skóla er þar á námskeiðum.

Ég hitti leikskólastjóra á sýningunni, sú sækir þar námskeið eftir námskeið í silfursmíði, segir að það séu heilagar stundir. Hennar hugleiðsla. Ég var að rabba við hana um upphaf kvöldskólans, “maður hugsar aldrei hvernig til þessara hluta var stofnað, þeir eru einhverveginn svo sjálfsagðir, fastur hluti af tilverunni”. Sagði hún.

Mamma mín hefur kannski skilið hvað það getur verið stórt skref fyrir konur að hefja aftur nám. Eftir að við fluttum suður og við öll sex systkinin byrjuð í grunnskóla fór hún að vinna sem “gangastúlka” á spítölum. Eftir nokkur ár í því starfi ákvað hún að mennta sig. Fór í Sjúkraliðaskólann og útskrifaðist þaðan, en á sama tíma lét hún annan draum rætast, hún var í einum af fyrstu árgöngunum sem hófu nám við Söngskólann, lærði hjá Sigríði Ellu og Guðrúnu Á Símonar, kláraði 7 stig í söng með fullt hús barna. Á þessum árum var mamma líka virk í pólitík og í stéttarfélagspólitík. Á þessum árum saumaði hún líka fötin á okkur og prjónaði peysur.

Stundum er ég spurð að því hvort ég sé ofvirk (og ég verð að segja að ég skil ekki hvernig nokkrum getur dottið það í hug), “nei, nei” segi ég, “ég er húðlöt”. Sumir verða alveg stúm þegar ég svara svona, og segja ´”hvaða vitleysa”. En það er alveg satt, ég er húðlöt. En vel að merkja mín viðmið eru kannski konur eins og mamma mín og við hliðina á þeim er ég húðlöt.  

Mamma var samt lengi að fyrirgefa mér að þegar ég varð stúdent lét ég hana ekki vita, hún var nefnilega að flytja pólitíska kosningarræðu sama dag, á sama tíma. Í því ljósi fannst mér ekkert merkilegt að verða stúdent. Ég var tvítug, gift, með barn á öðru ári og löngu farin að heiman. En hún og pabbi pössuðu um kvöldið og við Lilló gerðum okkur dagamun.  

 

Smákrimminn á loftinu

Í miðbænum býr alla vega fólk, sennilega mesta þversnið samfélagsins sem hægt er að finna á einum bletti. Hér búa námsmenn, ung hjón, barnafólk, börn, roskið fólk og aldrað, hér býr miðaldrafólk, hér býr ríkt fólk og hér býr fátækt fólk, samkynhneigt og gagnkynhneigt fólk, hér búa hvítflippaþjófar og hinir sem reyna stundum að koma óbeðnir í heimsókn. Í húsinu mínu má meira að segja finna fulltrúa margra þessara hópa bæði fyrr og nú

Einu sinnu fyrir löngu, löngu átt hér heima þekkur smákrimmi. Til hans komu í heimsókn aðrir þekktir smákrimmar. Ég man eftir einum smákrimmanum sem skúraði stigann í sameigninni nokkrum sinnum á dag. Fólkið sem notaði stigann segir að hann hafi aldrei verið jafn hreinn, þessi vinur var auðfúsa-gestur.

Einn veturinn hékk forláta gólfteppi vikum saman úti á snúru. Ég hélt að konan á hæðinni fyrir ofan okkur ætti það, hún hélt að við ættum það. Svo bara hvarf teppið einn daginn og reyndar líka flaggstöng sem legið hafði upp  við húsvegg í einhvern tíma. “ég sé að þú hefur tekið inn teppið” segi ég, “Ha” segir hún, “áttir þú það ekki?” Í því sveif að hinn hreinláti þjófur og tísti í honum. “Nei ég átti það” segir hann “og svo notaði ég tækifærið og geirfinnaði stöngina.” “Hvað er það”, spurðum við undrandi, “jú þegar hlutir hverfa og sjást aldrei aftur”. Við sáum teppið og stöngina aldrei aftur.

Stundum fór smákrimminn á loftinu á Hraunið, alltaf sagði hann okkur af því. En sambýliskona hans átti erfiðara með það, “hann er á sjónum” sagði hún.

Smákrimminn var barngóður og átti það til að gefa drengjunum mínum allskyns hluti. Held að toppurinn hafi verið slatti af hárkollum. “Ég var að taka til í geymslunni” sagði hann.

Smákrimminn okkar var í smá sölustarfi. Seldi betri borgurum bæjarins hass. Það stoppuðu fínir og dýrir bílar hér fyrir utan húsið og eigendurnir skutust laumulega upp, litu flóttalega til hliðar. Niður aftur eftir 3 mínútur. Brunað að stað. Á þessum árum var aldrei brotist inn til okkar. Við gátum skilið eftir ólæst alla daga. Einhver sagði “tófan bítur víst ekki nálægt greninu”.

Góðkunningi löggunnar sem hefur verið gera sér heimatítt hér var líka fastagestur á loftinu. Þess vegna held ég að lappirnar beri hann að húsinu okkar. Hér átti hann einu sinni skjól. 

 


Listahátíð í Reykjavík - Vísindamiðja

Leikur, listir, náttúruvísindi - góð blanda. Það fannst okkur (mér, Guðrúnu Öldu og Örnu Valsdóttur) kennurum við leikskólabrautina á Akureyri þegar við fyrir átta árum funduðum á Öngulstöðum í Eyjafirði um nýja námskrá fyrir bæði kennaradeildina og leikskólabrautina.

Eitt af því sem okkur langaði að prófa og þróa, var að tengja saman listir, náttúruvísindi og leik. Arna sem á þessum tíma kenndi listir við brautina hafði áður unnið á leikskóla. Þar komst hún að því að margt er sameiginlegt í rannsóknum barna og tilraunum og nálgun listamanna. Hún sá ótal snertifleti leikskólastarfs og lista. Bæði hugmyndafræði og leiðir. Við sem höfðum unnið með skapandi starf - skapandi hugsun í leikskólum eins lengi og við höfðum unnið í leikskólum, höfum auðvitað aldrei skilið hvernig allir sjá ekki þessi tengsl. Tengsl sem okkur finnst svo augljós.  

Við kennaradeildina starfar líka prófessor í eðlisfræði, Axel Björnsson og við vildum hann í lið með okkur. Ég held að ég móðgi Axel ekkert þó ég segi að í upphafi var hann tregur í taumi. En eftir miklar samræður sá hann gildi þess sem við vildum gera. Á endanum varð hann einn okkar helsti stuðningsaðili. Meðal þess sem við skoðum bæði með augum "vísindanna" og "listanna" eru fyrirbæri eins og stærðir, litir, lögun, hljóð, kraftar, rafmagn og fleira og fleira.  

Í upphafi kenndum við hver í sínu lagi og nemarnir settu saman verkefni þar sem sviðin snertust. Mitt hlutverk var að halda leikskólafókus og  rannsóknaraðferðum leikskólans á lofti. 

Með árunum hefur samstarfið þróast og undanfarin ár hafa fjögura ára börn af leikskólanum Iðavelli á Akureyri komið upp í háskóla í eðlisfræðistofuna. Nemarnir hafa þá verið búnir að undirbúa ýmsar tilraunir sem þeir hafa áður gert með Axel og framkvæma þær með börnunum.

Enn lengra gengum við þegar nemarnir skipulögðu opið hús fyrir ákveðna leikskóla á Akureyri þar sem börn og starfsfólk fengu tækifæri til að takast á við fjölbreyttar tilraunir. Í vetur fórum við þá leið að verkefnin og hluti af kennslunni fóru alfarið fram á Iðavelli. Bæði á yngri og eldri deildum.  

Frá upphafi höfum við lagt áherslu á að nemarnir geri uppeldisfræðilega skráningu á ferlinu, haldi ferlibók og skili skýrslum sem eru byggðar á framkvæmd og fræðum. Fræðilegi þátturinn er bæði uppeldisfræðilegur og raunvísindalegur, en nemarnir tengja verkefni sín líka starfi og hugmyndafræði listamanna (Ólafur Elíasson og Leonardo daVinci eru báðir vinsælir). Undafarin ár hafa nemarnir skilað öllum verkum til mín í formi heimasíðna. Nú stendur líka til að stækka áfangann um eina einingu og tengja við fleiri þætti. Aðallega er ætlunin að huga betur að notkun ýmiskonar tölvubúnaðar en líka styrkja ýmislegt sem fyrir er.  

Þessi tilraun sem á upphaf sitt að rekja til Öngulstaða fékk strax nafnið vísindasmiðja. Síðan hafa liðið mörg ár og við kennt námskeiðið undir þessu nafni. Myndir geta áhugasamir litið hér til hliðar undir myndaalbúm.

Í dag flétti ég í gegn um dagskrá listahátíðar og hvað sé ég, í Listasafni Reykjavíkur verður boðið upp á VÍSINDASMIÐJU fyrir börn.  Ég gladdist í hjarta mín, hugtakið okkar frá Öngulstöðum hefur náð inn í samfélagið.

 

Læt hér fylgja með sem skrá, fyrirlestur sem ég flutti um vísindasmiðju á málþingi KHÍ fyrir nokkrum árum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsta kröfuganga Sturlubarnsins

Okkur fannst ómögulegt annað en að byrja hið pólitíska uppeldi Sturlubarnsins við fyrsta tækifæri. Hann fékk því að verja deginum með afa og ömmu í kröfugöngu og 1. maí kaffi.  Afi hringdi í Palli hinum megin og spurði hvort hann og Liv ætluðu ekki með litla Hannes Hrafn í gönguna. Við gengum svo öll út á Laugarveg, þar sem við biðum eftir okkar stað í göngunni.  Sturlubarnið fékk að koma upp úr vagninum og fylgjast með lúðrahljómsveitum og fánaborgum. Hann horfði á allt hinn kátasti. Þegar fáni Kennarasambandsins kom skelltum við okkur þar inn í gönguna. Liv, Palli og Hannes Hrafn fóru með BSRB svo þar skildu leiðir þeirra félaga. Frá því að félag leikskólakennara var lagt niður sem stéttarfélaga og nýtt Kennarasamband stofnað hef ég gengið undir þeim fána. Að venju voru sömu kunnuglegu andlitin á sínum stað í göngunni. Í raun er hún svolítið eins og stéttarpólitískt stórættarmót.

Dagskráin var of löng að venju, hefði sannarlega mátt sleppa hinum ofnotaða Gísla gamansama fréttamanni úr Borgarfirðinum, mér fannst ekki staður og stund fyrir hans gamnmál þarna. Hins vegar ræddu verkalýðsforkólfar um kaup og kjör, hins almenna borgara og hinna sem eru með ofurlaunin. Áhyggjur af einkavæðingu heilbrigðiskerfisins voru og fyrirferðarmiklar. Áhyggjur sem við deilum mörg. Á torginu voru alla vega tveir ráðherrar Samfylkingar, þau Ingibjörg og Össur, kannski þau hafi hlustað af athygli.

Þegar dagskráin hafði staðið í nærri klukkustund og enn slatti eftir í að syngja alþjóðasöng verkalýðsins, vaknaði Sturlubarnið af værum svefni og við ákváðum að hann þyrfti að komast í hús. Stefnan var því tekin yfir á Kaffi Reykjavík þar sem Kennarasambandið bauð sínum félagsmönnum og gestum í kaffi. Kaffi Reykjavík tekur mörg hundruð manns og þar var setið á hverju borði á tveimur hæðum. Litli bróðir minn, yfirkokkurinn þar, var búinn að útbúa hið glæsilegasta veisluborð, smurt brauð og hnallþórur í bland. Sturlubarnið var alveg upp á sitt besta í margmenninu. Lék við hvurn sinn fingur og heillaði vinkonur ömmu sinnar upp úr skónum (þó amma segi sjálf frá).

Hans helsta verkefni var að henda dótinu sínu á gólfið og láta ömmu taka það upp, aftur og aftur og aftur. Reyndar tekur amma með glöðu geði upp dótið fyrir Sturlubarnið, hún veit sem er að þetta er stórt stökk í vitsmunaþroska hans. Hann er að gera sér grein fyrir fjölmörgu, orsök og afleiðingu, að hafa stjórn á umhverfi sínu, rýminu og fleira og fleira. Leikurinn að henda og sækja er enn einn vaðsteinninn í þroskanum.

Jæja nú eru amma og afi og Sturlubarnið komin heim og afi og Sturlubarnið að leggja sig. Amma í anda áramótaspaugstofunnar ákvað að blogga um daginn, og þar með formlega festa í dagbók Sturlubarnsins hans fyrstu kröfugöngu.  

   1 mai 2 1 mai 3 1 mai 10

1 mai 6 1 mai 7 - Björg Bjarna 1 maí 4 Þröstur

 1 maí 1 1 mai 5 leika á hausnum á afa

 

Guðrún Alda Harðardóttir, fyrrum formaður Félags íslenskra leikskólakennara tók myndirnar


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband