Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ytra mat, árangur eða tímasóun?

Á mánudag flutti ég fyrirlestur fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga um ytra mat. En í nýjum lögum um bæði leik- og grunnskóla er sveitarfélögunum færð ýmis ný verkefni meðal annars að bera ábyrgð á ytra mati á skólastarfinu. Í erindinu reifaði ég m.a. áhyggjur mínar af þeim kostnaði sem ég tel að verið að sé að koma yfir á sveitarfélögin. En líka ýmislegt um mat. Alla vega þá var ég spurð hvort ég mundi ekki skella erindinu inn á bloggið og þar sem ég sé ekki að ég ætli að nýta erindið til annars ákvað ég að skella því hér með. Svona fyrir þá sem hafa áhuga.

Í málstofunni voru nokkrir ræðumenn á undan mér sem höfðu ákveðið að tileinka sér bíssnesmál til að ræða um; skólamál, börn, foreldra og kennara. Þeir ræddu um aðföng, um hráefni, um skilvirkni og árangur á þann hátt að mér varð bumbult. Ég held að viðkomandi nái ekki til skólafólks með því að tala á þennan hátt. Sérstaklega ef þeir vilja í raun taka höndum saman við það og breyta skólastarfinu. Bíssnessmálið er ekki aðferðin sem dugar til að ná sér í bandamenn. En auðvitað getum við lært af því sem hefur átt sér stað í viðskiptaumhverfinu við þurfum bara ekki að éta það hrátt upp.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óróleg börn

Ég fór í leikskóla í morgun, einn leikskólakennarinn sagði við mig. "Ég veit ekki hvað er að börnin sofa ekki þau eru búin að vera óróleg í allan morgun." Þetta er leikskóli fyrir ársgömul börn. Ég held að þau skynji spennuna í umhverfinu og það hefur áhrif á líðan þeirra. OG ÞETTA eru ómálga börn sem ekki vita hvað er rætt. Ræðum við börnin okkar, róum þau og reynum að gera þeim lífið bærilegt. 


Málverkasafn Landsbankans til Listasafns Íslands

Nú er að horfa björtum augum til framtíðar segja ráðmenn. Eitt það sem ég ætla að gleðjast yfir og vona að ríki passi betur upp á næst er málverkasafn Landsbankans. Það er aftur komið heim, vonandi hefur bara bæst við safnið, miðað við ást fráfarandi eigenda á listum á ég ekki von á öðru. Því sannarlega mega þeir eiga að þeir hafa veitt veglega til þeirra mála og þrátt fyrir að Landsbankinn sé ekki lengur í þeirra eigu vona ég að hann verði áfram bakhjarl Listasafns Íslands. En þó svo að síðustu eigendur hafi verið listunnendur þá er ekki víst að svo verði um þá næstu,  því  legg ég til að áður en ríkið gefur bankann aftur, verði það búið að tryggja Listasafni Íslands yfirráð yfir öllu safni Landsbankans.

Það er vitað mál að þegar Landabankinn var færður einkaframtakinu á silfurfati átti það eitt glæsilegasta safn málverka í landinu. Á sínum tíma var ég ein þeirra sem taldi að hluti af þjóðararfinum hefði verið gefinn með. Nú er tækifæri til að tryggja að hann til baka til þjóðarinnar. Ég skora á ráðamenn að sjá til þess að svo verði gert.


Að vera utan frétta

Það var merkilegt tilfinning að vera lokuð inn á ráðstefnu í morgun fjarri öllum símum og tölvum. Vita af því gjörningaveðri sem geysti fyrir utan en samtímis verða ekki vör við annað en rigninguna sem slóst á gluggum kennaraháskólans.  Koma svo heim í boð um ávarp forsætisráðherra. Nú á að slá um okkur skjaldborg, ekki ganga í ábyrgðir fyrir gulldrengina utan landssteinana. Ég hef frá því ég kom heim verið límd við sjónvarpið. Hlustað og hlustað, metið og hugsað.   

Það eiga margir um sárt að binda næstu daga og vikur. Sem fyrr, ræðum við börnin okkar en gerum það að nærfærni.  

 

PS. Mér finnst það kostur og ákveðið öryggi að Jón Sigurðsson, hagfræðingur, og fyrrum ráðherra Alþýðuflokksins, bankastjóri Norræna fjárfestingabankans og seðlabankastjóri er formaður fjármálaeftirlitsins.


Hryðjuverkamaður og leikskólakennari

Mér fannst nafnið Bill Ayers hringja einhverjum bjöllum. Gat verið að frú Pallin væri að meina að terroristinn sem Obama hefði verið að slæpast með væri hinn eini sanni leikskólakennari Ayers. Þessi sem skrifaði bókina The good preschool teacher, sem meira að segja er lesin í minnst einum kúrs við Háskólann á Akureyri hjá Ingólfi Ásgeiri, (hann er kannski með því að stuðla að terrorisma við HA). Sennilega hafa nokkrir Íslendingar meira að segja rætt við umræddan Ayers og eru þá samkvæmt sömu skilgreiningu búnir að vera að slæpast með hryðjuverkamönnum.

Ég man eftir ráðstefnum þar sem að fólk flokkast og sækist eftir að hlusta á umræddan Ayers. Ayers sem er menntaður í leikskólafræðum frá tveimur merkum skólum sem sérhæfa sig í leikskólauppeldi. Frá Columbia skóla sjálfs John Dewey og frá Bank Street sem er einn þeirra skóla sem fjöldi íslenskra leikskólakennara hefur heimsótt. Bank Street er talinn einn af fjórum helstu skólum í leikskólafræðum í Bandaríkjunum.  

Nýjasta bókin hans heitir  Handbook of Social Justice in Education, William C. Ayers, Routledge, June 2008, ISBN 978-0805859270  fyrir þá sem hafa áhuga.


mbl.is Obama svarar ásökunum Palin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúgirni okkar Íslendinga

Er eftirfarandi setning sem höfð er eftir Francis Bacon (í lauslegri þýðingu minni) kannski það sem hefur einkennt viðhorf okkar Íslendinga til útrásardrengjanna okkar?  „Það sem maðurinn vill að sé sannleikur því á hann auðveldara með að trúa.“  Á það hefur verið bent að þessi tilhneiging er talin geta leitt til þess að við sjáum t.d. árangur þar sem hann er ekki til staðar, vegna þess að við viljum að hann sé þar ja eða öfugt.

og þannig erum við öll teymd áfram í átt til ... 


Kona líttu þér nær

Held að það sé ekki fleira að segja. Var annars að lesa um hvernig óháðir kjósendur séu að hrynja af McCain og henni sé að hluta til kennt um. Annars er síðasta blogg mitt líka um frúnna sem ekki virðist ekki lifa samkvæmt "Practicewhat you Preach".
mbl.is Palin ræðst á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að greiða tíund

Ég verð að viðurkenna að ég hélt að hún Sarah greiddi tíund í einhverja kirkju, taldi það samræmi við lífsgildi hennar. Mér finnst líka svolítið fyndið að telja til barnafötin og dótið sem hún hefur gefið til "hins góða hirðis" þeirra Bandaríkjamanna fram til skattafrádráttar. Hinsvegar finnst mér nú ekki hægt að segja að konan sé loðin um lófana. Alla vega ekki í þeim skilning sem flestir leggja í það. Nema viðmið okkur hafi breyst meira en verulega hina síðust og verstu tíma.

 

einu sinni skrifaði ég blogg um tíundina og kunningja okkar í Ameríku þetta er úr því bloggi

Já, til að þið skiljið Zouk þá verðið þið að vita að hann tilheyrir einhverri kirkju hér sem ég ekki þekki, en þetta er mikið rík kirkja. Svo rík að hún er risastór og hefur keypt nærliggjandi iðnaðarlóð undir bílastæði, svo fer strætó á milli bílastæðisins og kirkjunnar. Það er víst ætíð prédikað fyrir fullu húsi. Hér er það þannig að allar kirkjur eru í samkeppni um kúnna. Þannig eru þær voða duglegar að auglýsa sig og gera allt sem hægt er til að halda í þá kúnna sem þær ná í. Lofa eilífri himnavist og mikilli blessun í þetta líf. Og svo eru kirkjurnar líka duglegar að fara fram á tíund og gott betur.

Í kirkjunni um daginn var sérstök prédikun um gildi tíundarinnar, til hvers hún væri og að hún væri guði þóknanleg, væri biblíuleg. Einhver spurði prédikarann hvernig það væri ef maður gæfi meira en tíund hvað þá? Hann var fljótur að svara og sagði að þá nyti fólk bara meiri blessunar og það hlytu nú allir að vilja. Eitt er morgunljóst að það er hægt að kaupa sér kirkjulega velþóknun, líka í lúterskunni, alla vega hérna í landinu sem allir trúa að njóti meiri guðblessunar en önnur lönd. Þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er algjör en hver einasti pólitíkus líkur ræðu sinni á Guð blessi Ameríku.  


mbl.is Sarah Palin loðin um lófana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrisþurrð

Í gær skruppum við hjónin í Landsbankann sem er viðskiptabanki hins helmingsins. Þar eigum við lítinn gjaldeyrisreikning og höfum átt lengi. Á honum eru dollarar sem við höfum lagt inn á hann. Nú er ég á leiðinni á ráðstefnu í Bandaríkjunum og ákváðum við því að taka megnið út af reikningunum. Þegar í bankann kom og við höfðum sinnt öðrum málum sögðumst við ætla að taka af gjaldeyrisreikningnum. Okkur var tjáð að við gætum ekki tekið allt vegna lausafjárdollarastöðu bankans. Okkur var vísað á aðalgjaldeyrisdeild bankans í Mjódd. Ég bað þá þjónustufulltrúann að spyrja hvort ef við færum í Mjóddina hvort það væru öruggt að það væri hægt að fá dollara. Eftir nokkra stund kom hún og sagði nei. Við yrðum að panta dollarana okkar og gætum fengið þá á mánudag í Mjóddinni. En við gætum tekið út eitthvað í aðalbankanum núna. Hversu mikið vildi ég vita, þjónustufulltrúin fór aftur og sagði, svona þúsund til tvö þúsund dollara. En þið verið þá að fara í röðina til gjaldkera (við vorum auðvitað fyrst búin að bíða eftir þjónustufulltrúa). Þannig að þegar upp var staðið gat Landsbankinn ekki afhent okkur óbundna eign okkar þegar við töldum okkur þurfa á henni að halda. (Vel að merkja við vorum ekki að tæma aðra reikninga og skella peningum í bankahólf í kjallara bankans eins og við fréttum að fólk hefði verið að gera).  

Viðskiptabanki tengdamömmu var líka Landsbankinn, hún fékk eftirlaun eftir tengdapabba í dollurum frá bandaríska ríkinu. Hún lagði stóran hluta þeirra eftirlauna inn á gjaldeyrisreikning, enda stærstur hluti fjölskyldunnar í Bandaríkjunum og oft farið þangað. Því miður lést hún fyrr á þessu ári en ég verð að segja að það hefði tekið mikið á að þurfa að greina henni frá stöðunni eins og hún var á föstudag. Það andalega álag og kvíði sem því hefði fylgt hefði verið henni óbærilegur. 

 


Ég er dáið barn - áhrif fjölmiðla á leik barna á ögurstundu

Þetta er tímabær færsla og bendi ég á færslu mína frá í gær um sama efni. Vinkona mín Guðrún Alda er sérfræðingur í áföllum leikskólabarna. Fyrir mörgum árum var ég með henni í Svíþjóð þar sem hún hélt erindi um efnið m.a. þá vinnu sem átti sér stað í leikskólanum á Flateyri eftir snjóflóðið. Þetta var nokkrum dögum eftir brunann mikla í Gautaborg þar sem fjöldi ungmenna fórust og þjóðarsorg ríkti í Svíþjóð. Barnið hafði komið í skólann á mánudegi og þegar kennarinn spurði hvað gerðist um helgina. Vildi dóttir hennar ræða brunann. Kennarinn skautaði framhjá og spurði;"hver fór eitthvað um helgina?" 

Reyndar báðu Svíar þessa vinkonu mína að skrifa grein um áfallahjálp með börnum í sænskt fagblað í kjölfar þessa fyrirlesturs. Viðbrögðin sem þessi kennari sýndi eru alls ekki óalgeng, þetta er ákveðinn varnarháttur viðkomandi kennara sem stendur aflvana gangvart atburðum.

Möguleg viðbrögð

En hvernig á að bregðast við, sennilega er ekki vitlaust að t.d. stóru sveitarfélögin skipuleggi fundi með sínum skólastjórum þar sem áfallasérfræðingar sem þessi vinkona mín ræða við fólkið.  Skipuleggi örnámskeið með lykilstarfsmönnum til að ræða um hvernig er hægt að ræða við börn. Við vitum að áhyggjur barnanna birtast í leik þeirra. Þau reyna að ná skilning í það sem er að gerast í gegn um leik, samræður og sögur.  Sjálf hef ég reynslu að þörf starfsfólks fyrir leiðsögn um viðbrögð við áföllum og sorg og ég veit að hún skipti máli í mínum leikskóla á sínum tíma.,

Áhrif á leik barna 

Eftir árásirnar á tvíburaturnana 2001, veit ég að í sumum leikskólum byggðu börn turna og "flugu" svo á þá og felldu. Á árum áður léku börn í mínum leikskóla endalaust leikinn "ég er dáið barn í Sarajevo", þar sem þau byggðu kistur og lögðu hvert annað ofan í. Hvað gerum við kennarar þegar við upplifum þessa leiki? Stoppum við þá? Sérfræðingar segja nei, þetta er leið barnanna að vinna úr reynslu sinni. Hvernig eru leikir barna þessa daga? Hvað er starfsfólk að ræða þegar það heldur jafnvel að börn heyri ekki til? Hvar eru útvörp, sjónvörp eða tölvur í gangi nærri börnum þar sem málin eru rædd?


mbl.is Hvetja til aðgátar í umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband