Að æfa sig

Þessa dagana er Sturla (1.9 ára) að æfa sig í nokkrum mikilvægum atriðum á þroskabrautinni. Hann er afar upptekinn við að fara upp og niður stiga. Hvert sem við komum reynir hann við stigana. Við vorum á leikskólalóð með mörgum stigum. Hann fór aftur og aftur, upp og niður, upp og niður, (leit ekki við löngum og girnilegum rennibrautum). Svo kom að því að reyna við stóra kastalann, að klifra upp kaðla til að komast efst upp í hann. Hann gerði þrjár tilraunir, var við að missa takið þegar hann var kominn nokkuð hátt upp í þriðja sinn. Fetaði sig þá varlega niður og reyndi ekki aftur. Sem sýndi mér að það er sennilega rétt sem sagt er, börn fara ekki hærra en þau treysta sér. Fæst fara sér að voða. 

Annars held ég að þetta með stigana sé að hann er að æfa til að komast hér á milli hæða. Hann hefur nefnilega mikinn áhuga á því sem er á neðri hæðinni, á herberginu þar sem afi geymir hljóðfærin. Þangað niður er brattur stigi og hlið.  

Annað atriði sem Sturla æfir að miklu kappi er að finna reglu í málfræðina. Hann er að reyna að átta sig á hvenær á að segja ömmu og hvenær amma, hvenær mömmu - mamma, afa-afi, pabbi - pabba. Hann mátar og leiðréttir sig svo. Ekki að setningarnar séu orðnar flóknar, þær eru rétt að vera þriggja orða, yfirleitt tveggja orða. Orðskilningurinn er hinsvegar nokkuð mikill. Enda mikið talað við hann og lesið. Nýja útgáfan um Pétur og úlfinn er í miklu uppáhaldi og svo auðvitað öll sönglög. Þá syngjum við fyrstu orðin en leyfum honum  að botna textana.

Í Reggio keypti ég handa honum lítið kaffistell úr leir. Það er oggulítið, gulur, rauður, grænn og blár bolli, undirskálar og teskeiðar í sama lit. Sturla er að æfa sig í alla vega kerfum, kaffistellið er í bastkörfu og hann tekur það upp í ákveðinni röð, fyrst undirskálar og svo eru bollar settir á sína undirskál og skeið við. Allt parað saman. Síðan sækir amma vatn og setur í könnuna (sem fylgir náttúrulega með) og Sturla hellir í bollana og fær sér svo kaffi. Svona eins og kaffikerlingin gerir í kvæðinu eftir Þórarinn Eldjárn, kvæði sem er í miklu uppáhaldi.

Lífið er merkilegt þegar maður er að verða tveggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er skemmtilegasti aldurinn, þegar þau prófa sig áfram.   

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.7.2009 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband