29.9.2008 | 02:25
Sturla
Sturla kom í heimsókn í dag, hann kom með foreldrunum að horfa á fótbolta. Sturla fór nú fljótlega út í vagn og svaf þar af sér megnið af fótboltanum. Ég held reyndar að honum hafi veri slétt sama. Þegar hann kom inn dundaði hann sér með dótið sitt, dósalokin eru enn vinsæl og svo eru nú af tæknilegum ástæðum alla vega húsgögn hér í stofunni, m.a. forláta skápur með hömruðu gleri í hurðum. Það er gaman að opna skápinn og skoða í gegn um glerið, já eða bara opna skápinn. Sturla fékk líka brauð með bláberjasultu og osti. Brauðið fór upp í hann en osturinn á gólfið.
Svo kom afi heim og bjart bros færðist yfir Sturlu. Hann fór beint í fangið á afa (hann fékk varla næði til að heyra úrslitin í boltanum sem voru reyndar miður gleðileg fyrir Tottenham). Sturla benti ákveðið í átt að fatahenginu. Afi fór með hann upp að því og lét hann hafa derhúfu. Það var nú ekki það sem Sturla vildi. Hann benti bara aftur, og það var alveg ljóst á hvað, hann var að benda á bláa útigallann sinn. Svo réttum við honum hann og hann reyndi strax að byrja að troða sér í. Nú var orðið nokkuð ljóst hvað barnið vildi. Hann vildi út. Við ákváðum að það væri líka einmitt það sem við vildum gera með honum. Svo afinn og amman drifu sig í útiföt og lögðu af stað niður að tjörn. Ætluðum að líta eftir nokkrum kisum í leiðinni. Þær eru nefnilega alltaf jafnvinsælar.
Sturla fékk að labba parta úr leiðinni. Afi hafði gefið honum steinbít í roði sem hann nagaði af áfergju. Ég hélt kannski að fnykurinn yrði til þess að allir ketti hverfisins mundu trítla á eftir okkur. Það varð nú ekki raunin, en við sáum alla vega einn. Inn á milli fékk Sturla að hvíla litlu beinin og vera í fangi afa.
Amma tók að sjálfsögðu myndavélina með. Enda finnst henni frekar skemmtilegt að taka myndir af piltunum sínum. Hinsvegar komst amma að því þegar á tjörnina var komið að batteríið væri búið. Þegar við vorum búin að gefa öndum, gæsum og tveimur frekum mávaungum töltu við sem lá leið í 10-11 í Austurstræti. Sturla vildi reyndar fá að komast í tölvuna hjá afgreiðslustúlkunni en var haldið frá, ekki honum til ánægju. Á bakaleiðinni skoðuðum við hinn sívinsæla vegg barnanna. Vegg sem er mikið augnayndi í miðborginni. Við stoppuðum líka smá við Stöðlakot á Bókhlöðustíg og þar fékk Sturla að leika og rannsaka heiminn lítillega.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.