Síðustu daga hefur Sturlubarnið verið hjá okkur á daginn og það haft áhrif á dagskrá heimilisins. Við fórum með hann í gær í fyrsta sinn í leikskóla, ekki hans eigin heldur frænku hans, hennar Diljá. Hún er á Njálsborg og þar var haldin sumarhátíð. Diljá var fyrst svolítið hissa á að hitta okkur en jafnaði sig á því og varð eftir það hin glaðasta. Hinni pabbi hennar Diljá stóð við grillið allan tímann og handlék pylsur og brauð af mikilli list. Svo var búið að fá lánaðan hoppkastala og einn afi (reikna ég með) spilaði á harmonikku og einn pabbi mætti með lítið trommusett og nokkur ásláttar hljóðfæri. Úr varð mikið djamm í leikskólagarðinum. Sturlubarnið fékk að skríða aðeins á jörðinni, í grjótinu og ljósbláu buxurnar hans urðu vel skítugar. Ég sagði við Eddu leikskólastjóra að hann þyrfti að æfa sig í þessu og foreldrarnir að æfa sig í að taka ámóti honum skítugum. Ég hef nefnilega aldrei skilið þegar fólk reiknar með að börn komi heim af leikskólanum í jafnreinum fötum og þau fóru eða stress starfsfólksins að halda fötum barnanna hreinum. Leikskólar eru í eðli sínu staðir til að skíta sig út. Þar eru atkvæðamikill börn sem eru að kanna tilveruna. Hluti af því er að verða skítugur og vita að það er í lagi. Svo er á flestum heimilum ágætis þvottavélar, fyrir utan að flest börn eiga orðið svo mikið af fötum að þau komast varla yfir að fara í þau öll.
Við þurftum að drífa okkur heim en stoppuðum samt við í Vörðunni og keyptum eitt stykki hókus pókus stól. það var svo gestaþraut gærkvöldsins að setja hann saman. Ástæða þess að við þurftum að drífa okkur var að klukkan hálf sjö átti ég von á ljósmyndara frá mogganum. Hann kom til að taka myndir af mér ELDA. Á morgun birtist sem sagt í mogganum uppskrift af súpu frá mér. Frekar fyndið. En ástæða þess að ég var beðin um uppskriftina var að súpan í fimmtugs afmælinu hennar Systu. Hún spurðist út. Ég kom heim rétt fyrir fimm og skellti mér í súpugerðina. Krakkarnir gáfu mér mandólín hníf frá Kokku í jólagjöf sem ég hélt að ég myndi lítið nota. Nú er ég komin upp á lagið með að skera grænmetið í honum, allt voða flott og hver einasta gullrótarsneið jafnskorin. Ljósmyndarinn mætti svo á tilsettum tíma, þá var súpan tilbúin og líka brauðið sem ég skellti í með. Allt ljósmyndað í bak og fyrir. Aðalvandamálið við súpugerðina var að ég þurfti að skrifa allt niður jafnóðum og ég eldaði, ég á nefnilega ekki uppskrift og hún er í raun alltaf síbreytileg, ákveð að skella oggu af þessu og oggu af hinu. Íris kvað upp um að súpan væri hin besta og vona ég að ef einhver leggur í að elda hana, reynist það rétt.
Í dag eigum við svo von á næturgestum en Palli og Liv ætla að gifta sig að heiðnum sið á laugardag. Til brúðkaupsins koma gestir víða að úr heiminum meðal annars frá Noregi, heimalandi brúðarinnar. Við vorum beðin um að hýsa einhverja þeirra í nokkra daga. Lilló er þessa daga að æfa söng og gítarspil með Dedda frænda sínum en þeir ætla víst að spila í veislunni.
Jæja er annars að velta fyrir mér fréttum að REI og hvað sé í þeim pakka, meðferð okkar á flóttafólki, og ég hef eins og aðrir áhyggjur af atvinnuástandi og fjármálum heimilanna og viðbrögðum stjórnvalda. ég vona að okkur beri samt gæfu til að nýta þetta sem tækifæri til að endurforgangsraða í lífinu. Að við leyfum okkur að setja fjölskylduna og börnin ofar en nú er gert. Setja tíma okkar með börnunum ofarlega ef ekki efst.
ps. Við sem erum yfirleitt alltaf með myndavél á okkur vorum það ekki í gær, því miður engar myndir til hjá mér enn af þessum fyrsta degi Sturlubarnsins í leikskóla.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:19 | Facebook
Athugasemdir
Já, börn eiga að fá að skíta sig út. Allt þetta hreinlæti er að verða hreint og klárt vnadamál. T.d. er það álitið vera ein af orsökunum fyrir aukningu margvíslegra ofnæmissjúkdóma sem herja á okkur í dag.
Og mmmmmm--- ég hlakka til að sjá uppkskriftina að súpunni.
Bestu kveðjur í bæinn
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 21:25
afi minn sagði alltaf lidt skid skader ikke, þau áttu sjö syni og tvær dætur hann og amma. held að hann hafi talaði af nokkurri reynslu.
Kristín Dýrfjörð, 3.7.2008 kl. 22:25
Flott í Mogganum í morgun, súpan hljómaði vel
Sita (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 10:33
Lítill heimur, sá ykkur á Njálsborg á sumarhátíðinni hjá henni Jenný Unu barnabarninu mínu, en ég kveikti ekki.
Svo var það pabbi hennar Jennýjar sem spilaði á trommusettið hennar og Árni Ísleifs langafi Söru Kamban sem teygði nikkuna.
Langar í mér leiðslurnar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 4.7.2008 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.