Valdgreining Sturlubarnsins

píanóð hennar langömmu í Skeifu

Eitt af því sem er talið aðalsmerki góðra ritgerða er að þær séu bæði greinandi og frumlegar.  Eftir að hafa fylgst með litla Sturlubarninu okkar undafarna mánuði sé ég hvað greinandi hugsun kemur snemma fram hjá börnum. Þau skoða, vega og meta kosti ólíklegustu þátta í umhverfinu. Þau greina til að mynda snemma hvar valdið liggur og þau læra líka snemma að bera sig eftir því. Þau gera hvað þau geta til að hafa áhrif á og stjórna umhverfi sínu.

Sem dæmi þá finnst Sturlubarninu gaman að dansa og hreyfa sig í takt við tónlist. Í stofunni okkar eru græjur og um daginn ákváðu amma og afi að hlusta á geisladiska með Sturlubarninu. Hann varð auðvitað ósköp ánægður, stóð upp við græjurnar og iðaði allur. En hann reyndi líka sitt besta til að koma við þetta undratæki sem hljóðin bárust úr. Í eitt skiptið tókst honum óvart að ýta á takkann sem opnar geisladiskaspilarann. Um leið og við lokuðum horfði hann á okkur en ýtti svo aftur og aftur og aftur á hann. Sama á við um sjónvarpið heima hjá honum, hann skríður að borðinu, reisir sig, og reynir að ýta á takkann, enn hefur honum ekki tekist að slökkva eða kveikja en hann veit að það er þarna sem það gerist. Þetta er takkinn. 

Fjarstýringar og símar vekja með Sturlubarninu sérstaka ánægju og hann gerir sitt besta til að ná í þessi áhrifamiklu tæki. Þegar það svo tekst eru fáir kátari enn hann. Ef pabbi hans setur t.d. fjarstýringu upp í glugga horfir Sturlubarnið á og hann veit að hann nær ekki í hana og heldur áfram að dunda við sitt. En um leið og hann er kominn upp í sófa (sem er undir gluggakistunni) er hann snöggur og ber sig eftir fjarstýringunni, reisir sig upp við sófabakið, nær með fingurgómunum í gluggakistuna og vegur sig upp, svo þreifa litlir puttar í átt að þessu undra og valdatæki, fjarstýringunni. Það er nefnilega svo að Sturlubarnið er alveg fær um að leggja á minnið það sem skiptir hann máli. Ef sími er skilinn eftir á stað sem Sturlubarnið nær til er hann snöggur að koma sér af stað. Reyndar má sama segja um bolta og gítar (og af öllu hefur hann gríðarmikinn áhuga á derhúfum, hummm). En bæði gítar og boltar eru hlutir sem hann getur haft áhrif á. Hann gerir og það gerist eitthvað. Hann er að uppgötva eigin áhrif á orsök og afleiðingu.

Á flestum heimilum eru tækin sem ég hef verið að fjalla um ákveðin valdatæki. Ekki í skilninginum að völd séu endilega af hinu illa heldur að völd byggist á því að hafa afgerandi áhrif á tiltekna þætti. Sturlubarnið hefur veitt því athygli að fullorðna fólkið er mjög áhugasamt um þau tæki sem hann hefur svona mikinn áhuga á. Hvað gerum við ef sími hringir, við veitum honum öll athygli, hlaupum af stað. Við flökkum á milli stöðva með fjarstýringunni. Allt þetta er Sturlubarnið búið að greina. En fyrsta greining hans á valdinu er auðvitað miklu eldri, hún hófst strax við fæðingu. Á þeirri þekkingu sem hann öðlaðist þar byggir hann rannsóknir sínar nú.

Sturlubarnið er nokkuð dæmigert barn. Á hverjum degi eiga sér stað álíka rannsóknir barna um veröld alla á umhverfi sínu. Þar sem börn greina aðstæður, draga ályktanir og framkvæma. Það eru forréttindi að vera amma  og fá tækifæri til að fylgjast með rannsóknum Sturlubarnsins á veröldinni. Meðal annars vegna þess að það eru öðruvísi gleraugu sem sem maður getur sett upp sem amma, já eða afi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég á líka einn svona dótturson sem elskar síma og fjarstýringar.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.6.2008 kl. 01:27

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

og eins og þú hefur væntanlega tekið eftir gildir mestu að fá það sem er alvöru - ekki plat síma eða fjarstýringu.  Sturla hefur t.d. engan áhuga á fjarstýringunni að dvd tækinu enda gerist ekkert þegar hann nær í hana.

Kristín Dýrfjörð, 24.6.2008 kl. 11:53

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Myndin sýnir hvar Sturlubarnið spilar svokallaða nútímatónlist, en annars fílar hann allt með takti og góðu trukki.

Hann syngur líka eða sönglar með afa; leggst upp að öxlinni stóru og beinaberu og afi slær taktinn léttilega á bakið og við tónum saman: Aaaah - stopp, anda - Aaaah - stopp, anda - Aaaah (o.s.frv.). Hann kann nefnilega ekki textann ennþá. Mér skilst að það komi eitthvað seinna en við 10 mánaða markið. O, jæja.

Friðrik Þór Guðmundsson, 24.6.2008 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband