8.7.2007 | 04:09
Maria Montessori
Maria Montessori (1870 -1952)
Er ein af rissessunum í uppeldisfræðinni. Hún var ítölsk fædd 1870, fyrsta konan þar í landi til að ljúka prófi í læknisfræði (1896). Hún sinnti læknisstörfum m.a. á svonnefndum fávitaheimilum fyrir börn. Þar veitti hún því eftirtekt að börn sem fengu einhverskonar minnstu örvun, vegnaði betur en öðrum börnum. Hún komst að þeirri niðurstöðu að andlegur vanþroski stafaði m.a. af skorti á örvun, börnin þurftu ekki læknishjálp þau þurftu menntun. Hún opnaði 1907 fyrsta skólann sinn "Casa dei Bambini" eða "Hús barnanna". Þar sem hún lagði drögin að og reyndi í verki uppeldifræðikenningar sínar og 1912 gaf hún út sína fyrstu bók um uppeldismál. Með uppgangi fasismans á Ítalíu varð hún landflótta flutti fyrst til Spánar en hrökklaðist þaðan við upphaf borgarstríðsins og hélt til Hollands þar sem hún lést í hárri elli (1952). Áhrifa hennar gæta í leikskólastarfi um allan heim. Sumstaðar má segja að um ákveðna bókstafstrú sé að ræða á meðan aðrir sækja innblástur í hugmyndir hennar.
Maria Montessori fléttaði saman þekkingu sinni í læknisfræði, mannfræði og uppeldisfræði. Hún byggði uppeldisfræðin sína m.a. á kenningum Fröbles sem og á hugmyndum franskra samtímamanna. Hugmyndir Montesorri eru tengdar pósitívismanum sem hafði á þeim tíma mikil áhrif á uppeldis- félags og sálarfræði. Sennilega má jafnvel telja hugmyndir hennar um hlutverk ímyndunaraflsins í þroska barna að hluta runnur frá þeim grunni. En hún vildi ekki að börn leituðu í fantasíuna til að vinna skapandi, sköpunin átti að grundvallast á raunveruleikanum.
Grundvallaratriði
Grundvallarhugmynd í hugmyndafræði Montessori var og er virðing fyrir börnum. Sjálf sagðist hún hafa lært af börnunum, þau hafi kennt henni. Börn eiga að þroskast á eigin hraða og á eigin forsendum, þess vegna verður allt starf að vera einstaklingsmiðað hvert barn verður að fá að fara í gegn um sín þroskaverkefni á eigin hraða. Þau verða að fá tækifæri til að gera aftur og aftur. En þar sem þroski hvers og eins er einstaklingsbundin verða verkefnin líka að vera það. Vegna þessa verða börn að hafa val. Val um verkefni, tíma og hraða. Má e.t.v. segja að Montessori hafi innleitt val í starf með börnum.
Leikefni sem flestir þekkja
Montessoribeitti einna fyrst þeirri aðferð að gera nákvæmar skriflegar skráningar á atferli og gerðum barna, þar kom þekking hennar á sviði vísindalegra vinnubragða læknisfræðinnar og mannfræðinnar að miklum notum. Í Reggio Emilia er upphaf skráninga sem aðferð í leikskólastarfi rekið til hennar. Í kjölfar skráninga þróaði Montessori leikefni sem hún byggði á þessum athugunum. Leikefni sem til er á flestum heimilum í dag og flokkast jafnvel sumt sem eitt af fyrstu leikföngum margra barna. Leikefni Montessori reyndi á öll skynfæri en byggðu líka á mjög sterku flokkunar og röðunarkerfi. Meðal annars þess vegna hefur mikið verið litið til þeirra í stærðfræðikennslu. Dæmi um slíkt er kassinn sem mót eru flokkuð í, misstórir hringir sem er raðað upp á keilu. Það sem einkennir leikefni Montessori er að það er sjálfleiðréttandi ef barnið gerir ekki rétt, gengur leikefnið ekki upp.
Leikur barna
Sýn Montessori á leik barna hefur löngum verið gagnrýnd hún leit á leikinn eins og hann er skilgreindur t.d. samkvæmt Fröbelskri hefð sem tímasóun. Með hinum frjálsa leik væri illa farið með tíma barna. Börn eru forvitin og leitandi. Því á sterkur rammi að vera í kring um leik barna umhverfið á að vísa þeim veginn en börnin sjálf að komast að niðurstöðu. Þess vegna eiga kennarar að vera í bakgrunni eiga ekki að skipta sér of mikið af nema þeir sjái að barnið er að lenda í ógögnum. En samtímis er mikilvægt að þeir séu góðar fyrirmyndir t.d. í meðferð málsins og þeir eiga að vera vakandi fyrir þroska hvers barns. Má segja að umhverfið hafi verið aðalkennari barnsins - en seinna voru það aðrir Ítalar sem gerðu að leiðarstefi sínu að "umhverfið sé þriðji kennarinn" eftir barnahópnum og leikskólakennaranum (Reggio Emilia).
Rýmið
Vegna mikillar áherslu á eigin virkni og frumkvæði barnsins eru Montessori leikskólar innréttaðir með þarfir barna í huga. Borð og stólar eru í hæð barna efniviður er mjög aðgengilegur og settur fram á tiltekinn hátt. Umhverfið þarf að vera þannig að barnið geti einbeitt sér en jafnframt að vera hlýlegt. Mikil áhersla er lögð á þátttöku barna í daglegum störfum, svo sem að þrífa og hugsa um húsnæðið, en jafnframt er áhersla á smádýr séu í leikskólanum og flestir Montessori leikskólar reyna að hafa matjurtargarða fyrir börn til að vinna og á þann hátt að tengjast náttúrunni en samtímis læra um gildi vinnunnar.
Eign reynsla
Sjálf var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera með litlu tána í Montessori leikskóla í Bandaríkjunum. Sá leikskóli var nokkurn veginn eins lítil afsteypa af lýsingunni hér að ofan. Lilló vann þar hálfan daginn og ég fékk að leysa af sem professional volunteer þá daga sem hann var frá eða aðra starfsmenn vantaði. Skilningur minn á Montessori fræðum í samtímanum jókst töluvert en samtímis styrktist sú skoðun mín að eins og önnur fræði þarf öll uppeldisfræði að þroskast vera rædd og taka breytingum. Til að uppeldisstarf geti þróast þarf að vera til staðar umræða, gagnrýnin umræða. Ég hafna þeirri sýn á leikskólastarf að það geti verið ein og niðursoðinn súpa sem allstaðar bragðast eins. Ég hafna einhæfum vinnubrögðum og að til sé lausn eða einn sannleikur í leikskólastarfi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.4.2012 kl. 11:40 | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg frábær Montessori leikskóli hér í Sheffield. Gömul kella sem átti risastórt hús og ennþástærri lóð og fyrir 20 árum stofnaði hún Montesori leikskóla. Einn af fáum hér í bæ sem hefur fengið excellent út úr OFSTED matinu.
Hópur af íslenskum leikskólakellum heimsóttu skólan í vetur og þær voru mjög hrifnar. Sérstaklega af samskiptum fullorðinna við börnin.
svarta, 8.7.2007 kl. 18:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.