5.7.2007 | 21:23
Hvað er kyn-legt við dúkku eða bíl – þurfa drottningar að kúka?
Í rannsókn sem gerð var í Svíþjóð kom í ljós að flestir leikskólar eru búnir svipuðum efnivið og leikföngum. Þar kom fram að hægt væri að flokka efniviðinn á nokkra vegu.
Efniviður til skapandi starfs s.s. málning, litir, perlur, leir og ýmislegt sem tilheyrir dúkkuleik, bílaleik og byggingarleikjum (kubbar af ýmsum tegundum), leikföng sem ýta undir og styðja við grófhreyfingar. Mest var til af leikföngum sem studdu félaglegan og vitrænan þroska, næst kom hreyfiþroski.
Þegar skoðað hvað hvernig skiptingin á milli flokka var, kom í ljós að mest var til af efnivið sem tengdist skapandi starfi og smíðum en minnst þar sem, tónlist, málið og bókmenntir eru umfjöllunarefni. Það sem hinsvegar kom líka í ljós að þrátt fyrir að mikið væri að efnivið til skapandi starfa var aðgengi barnanna að því lítið. Þetta er efniviður sem er lokaður inni, notaður spari eða að börnin þurfa alltaf að biðja um hann. Það er enginn ástæða að ætla að íslenski leikskólar séu mikið öðruvísi en þeir sænsku kannski minna um smíðar en annar efniviður er nokkuð svipaður.
Leikföngin sem finna má í flestum leikskólum endurspegla sterkt hinar Fröbelsku hefðir og rætur leikskólans en minna daglegt líf flestra barna. Má segja að leikskólinn á vissan átt neiti að viðurkenna þróun samfélagsins, vilji halda í þá rómantísku sýn sem Fröbelleikskólinn stendur fyrir. Fyrir mörgum árum skrifaði ég grein um þrá okkar leikskólakennara til að skilgreina fyrir barnið til að afneita því umhverfi sem það býr í. Afneita, barbie, he-man; transformers og öllum hinum ofurhetju- og álfameyjuleikjunum. Afneita áhrifum barnaefnisins - auglýsinganna, poppmenningarinnar og tölvanna sem flest börn búa við heima.
Þetta er gert með því m.a. að ræða um að leikskólinn eigi að vera öðruvísi en heimilið, að vera hvíld frá yfirfullum barnaherbergjum og kröfum um nýjasta tæknidótið. Má meira að segja lesa út ákveðna fyrirlitningu gangvart þeirri "áráttu" foreldra að fylla barnaherbergin af "drasli".
Annað viðhorf til barn og dægurmenningar má lesa úr þessari tilvísun til Loris Malaguzzi þar sem hann fjallaði um tölvur og börn árið 1986 (á íslenku 1988).
Það dugir ekki að snúa baki við raunveruleikanum í leitandi uppeldisstarfi, sem áttar sig á breytingum í heiminum. Þau fyrirbrigði sem barnið kemst í kynni við í raunveruleikanum þarf það einnig að fræðast um í skólanum til þess að geta séð þau sem þátt í menningunni.
Með því að henda út og banna öll leikföng sem annaðhvort falla ekki að hinni fröbelísku hefð eða sem við teljum stuðli að "slæmum" staðalímyndum barna, erum við í leiðinni að gjaldfella líf þeirra og reynslu. Við erum að ákveða hvað er merkingarbært eða á að vera merkingarbært fyrir börn. Og við fáum aldrei tækifæri til að ræða um þær merkingar sem börnin leggja sjálf í leikheim sinn fáum ekki tækifæri til að ræða um eða efast um skilning þeirra. Til að ögra honum.
Af þessu öllu missum við af því að við erum svo upptekin af okkar mynd af barninu. Takamarkaða barninu barninu sem þarf að gæta sín á og temja, barninu sem virðist samkvæmt námskrá sumra leikskóla vera óvinurinn- barnið sem rænir völdum * ef við pössum ekki upp á völdin.
Þegar ég var 7 ára velti ég því fyrir mér hvort að drottningar þyrftu að kúka spurningarnar hafa breyst þær gætu verið; þarf He-man að hugsa um börnin sín eða Superman að kaupa í matinn þarf Barbie á klóið, hver les fyrir ofurstelpurnar á kvöldin? Hvað gerist inn í tölvuleiknum? Hugsa tölvur? Af hverju leika strákar ofurhetjur á meðan stelpur leika prinsessur og álfmeyjar? Eða leika kannski stelpur líka ofurhetjur og strákar álfmeyjar? Hvernig er hægt að stuðla að viðhorfsbreytingu hjá börnum ef við erum ekki einu sinni til í að setja þeirra mál og leiki á dagskrá leikskólans?
Hvenær eru leikföng kynbundin Hvað með kynjaða leiki?
* Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum aga og hegðun á jákvæðan, hlýlegan og hreinskiptinn hátt þar sem taminn vilji er leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla... í stað undanlátssemi sem leyfir börnum að ræna völdum og stjórna í skjóli valdaráns sem þau hafa engar forsendur til að axla og í stað þess að nöldra, skammast og þora ekki að taka fullorðinsábyrgð á að stjórna og temja. (sjötta meginregla stefnunnar af http://www.hjalli.is/fraedsla/)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.7.2007 kl. 00:45 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristín.
Mjög athyglisverð og vel skrifuðu grein hjá þér. Mjög þarft er að endurskoða stöðugt uppeldisstefnu(r) þær (eða skort á slíkum) sem við fylgjum ekki hvað síst þegar viðfangsefnið er leikskólar.
Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er þessum málum lítt kunnugur og veit alls ekki hvað Fröbelíska er.
Alfreð Jónsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 22:34
Fröbelska er það sem við innan leikskólans nefnum arfleið Fridrich Förbels - en hann er gjarnan nefndur faðir leikskólans. Hann var þýskur prestsonur sem langaði að vera landfræðingur og stærðfræðingur, fékk ekki fé til að mennta sig og fann sig svo sem kennari yngstu barnanna. Hann hannaði það sem hann nefndi leikgjafirnarog eru þær að mörgu leyti fyrirmynd hluta þess efniviðs sem við notum í leikskólum nútímans - efnivið eins og kubba. Fröbel stofnaði sinn fyrsta leikskóla 1837 og þar menntaði hann líka ungar konur til þess að verða leikskólakennarar, hugtakið Kindergarten er frá honum komið (hér voru þeir nenfid barnagarðar á Siglufirði og Ólafsfirði og svo leikskólar). Fröbel hugmyndafræðin barst út um Evrópu með konum, af efri millistétt, konum sem höfðu margar sterka sýn á samfélagið og hlutverk sitt. Leikskólauppeldi hefur frá upphafi verið sterkt tengt alþjóðasýn og ákveðinni alþjóðahyggju sem dæmi er hægt að rekja hluta af sögu leikskólans saman við sögu annars alþjóðasambands jafnaðarmanna (CLara Zetkin sem er talin vera ein upphafskvenna 8. mars alþjóðabaráttudags kvenna hélt t.a.m. ræðu um hvernig leikskóla á fundinum í París 1899).
Myndir sem eru hér í albúmi merktrar leikskólakennarasafni í Helsinki eru sterkt tengdar Fröbel- en fyrsti leikskólakennaraskólinn í Finnlandi var Fröbelskóli - konurnar sem hann stofnuðu og ráku fóru til Þýskalands í læri um aldamótin 1900 og voru svo eftir það í miklum samskiptum við aðra Fröbelkennara á Norðurlöndum - en þeir hittust reglulega á fundum.
Fyrsti íslenski leikskólakennarinn Bryndís Zoega var líka menntuð í Fröbelskóla í Kaupmannahöfn.
Kristín Dýrfjörð, 5.7.2007 kl. 23:55
Mér finnst persónulega Hjallastefnan allt of "kennaramiðuð". Ég held einmitt að börn læri best á því að vera börn og leikskólakennarinn á einmitt ekki að kenna þeim aga. Finnst þetta fáránlegt: "undanlátssemi sem leyfir börnum að ræna völdum og stjórna í skjóli valdaráns". Kommon! Kennarinn á að skapa barninu umhverfi sem er skapandi og öruggt. Og það þarf ekki að þýða agalaust umhverfi.
Annars burrar 4 ára sonur minn stundum með bangsana og hann svæfir alltaf bílana sína á kvöldin. Hvað eru kynbundin leikföng?
svarta, 6.7.2007 kl. 09:47
Takk fyrir þessi skrif. Það er kominn tími til að fá debatt í uppeldissmálum leikskólanna. Það er gott að líta gagnrýnum augum á leikskólann þar sem hann hefur mjög mótandi áhrif á börn og jafnvel hugmydnir foreldra um uppeldi. Ég held að alltof oft skoðum við ekki nægilega vel hvers konar hugmyndir liggja að baki því starfi sem unnið er í leikskóla barnanna okkar, svo framarlega sem börnunum líður vel og vilja fara í leikskólann.
Með kveðju,
Systa
Bergljót B Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 10:06
Takk báðar - Svarta einmitt en - eiga ekki menn börn og eiga ekki konur bíla?
Annars held ég því fram (og reyndar sýna rannsóknir) að foreldrar eru næstum skyldugir til að vera ánægðir með leikskóla barna sinna - kannski ekki rosalega ánægðir en alla vega nokkuð ánægðir - ef þeir teldu leikskólann ekki vera nógu góðan - hvernig gætu þeir þá rökstudd fyrir sjálfum sér að "skilja" börnin eftir þar í 45 -50 tíma á viku. AÐ "skilja" barnið eftir í leikskóla sem foreldri telur vera mjög slæman eða óhæfan segir annað hvort mikið til um neyð foreldra eða siðferði. Ekki satt?
Kristín Dýrfjörð, 6.7.2007 kl. 13:05
Það erlíka spurning vhernig við ölum upp jafnrétti kynjanna. Hvaða aðferðir eru árangursríkar. Er það með boðum og bönnum eða hvernig er það ? Eru ekki fyrirmyndirnar ennþá gulls í gildi. Hvernig við komum fram við hvort annað, hvernig við leikum með leikföng. Ég tel nefnilega að öll leikföng séu þroskaleikföng á einhvern hátt eða hægt að nýta þau til aukins þroska og hefti ekki þroska barna nema leikurinn sé of einhæfur og þar hlýtur fagfólkið og foreldrar að koma inní til að leiðbeina og vísa veginn án þess að um valdatafl þurfi að vera að ræða.
Bergljót B. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 16:50
sæl
Er nýlega komin aftur inn í leikskóla eftir langa fjarveru og hef aðeins velt fyrir mér þegar leikskólar telja sér það til hróss að bjóða ekki upp á ,,lokaðann" efnivið - sem nóta bene fullorðnir ákveða að séu lokaðir.
Í mínum huga er það vanvirðing við barnshugann að taka svona ákvarðanir - þau börn sem ég hef kynnst í gegnum árin eru skapandi og frjó og nota leikföngin, sem alla jafna myndu vera á bannlista á þessum leikskólum, á skemmtilegan og hugmyndaríkan hátt.
kv. Díana
díana Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 17:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.