Listir og eðlisfræði í leikskóla

skoða með stækkunarglerjum
 

Síðustu tvær vikur hafa verið ótrúlega skemmtilegar og gefandi. Ég var að ljúka kennslu á sumarönn leikskólakennaranema við Háskólann á Akureyri. Ég er svo heppin að fá að kenna og hafa umsjón með námskeiði sem er tengin á milli nokkurra greina. Í námskeiðinu kenna, börn og starfsfólk leikskóla, starfandi fjöllistakona á Akureyri og prófessor í eðlisfræði við HA. Námskeiðið er hugsað til að tengja saman skapandi starf og raunvísindi. Sérstaklega leggjum við áherslu á stærðfræði og eðlisfræði, og útfærum verkefni þeim tengd í gegn um skapandi starf. Tengjum saman í leik listgreinar og raungreinar.  

Það sem alltaf gleður mig jafnmikið og styrkir trú mína á getu barna eru þær AHA upplifanir sem ég verð vitni að, sú gleði sem ég sé og skynja hjá börnunum. Sú ótrúlega einbeiting sem á sér stað og það að þarna taka allir þátt á eigin forsendum. 

          Skoða auga 2    Skoða auga 3

Ég var svo heppin  að ná mynd af einu svona AHA andartaki – reyndar mitt eigið AHA. Þannig var að nokkur börn á Iðavelli höfðu verið að spá í flotkraft og verið með ýmislegt úr sínu nánasta umhverfi til að skoða hvað flýtur og sekkur – þau höfðu líka verið að spá í hvernig ýmis efni taka misjafnlega hratt í sig lit (rauðan í þessu tilfelli)eða taka engan lit. Eftir að hafa skoðað þetta í góða stund og sett fram ýmsar tilgátur athuguðu þau hvort þær stæðust. Komust t.d. að því að sykurmolar ekki bara sökkva heldur leystast líka upp. Á eftir færðu þau sig svo yfir á myndvarpa og skoðuðu sömu hluti þar. Ég spyr hvernig standi á því að pastaslaufan á myndvarpanum er ekki bleik á veggnum. Mín hugmynd var að leiða þau í umræður um hluti sem hleypa ljósi í gegn um sig og eðli skugga. Nema stúlka á fimmta ári tekur þá pastaslaufuna af myndvarpanum gengur yfir að veggnum og segir “sjáðu núna er hún bleik”.  Í framhaldi fóru börnin að vinna með það sem var á veggnum samtímis því sem var á myndvarpanum.

       skoða skugga       bleikt pasta                              Myndavarpi      

Annað svona dæmi tengist heimsókn barna af Lundarseli í listgreinastofu Háskólans á Akureyri sl. föstudag. Ein af þeim vinnustöðvum sem við settum upp var myrkrarými til að skoða með vasaljósi. Inn í rýmið höfðum við fest ýmislegt sem gaf frá sér mismunandi endurvarp þegar ljósgeisli lenti á því og nokkrar handbrúður. Fyrir framan þetta litla rými var önnur vinnustöð sem tengdist rafmagni. Það leið ekki langur tími þangað til börnin uppgötuðu og fóru  að búa til sína "eigin ljósgjafa" úr gömlum jólaseríum og fara með inn til að skoða. Svo heyrðist –“æi nú datt þetta í sundur” og þá þurfti að koma fram og tengja upp á nýtt.

    rafmagn ljós í myrkri        ljós í myrkri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband