9.5.2007 | 22:07
Fagrabrekka starfar í anda Reggio
Í kvöld var ég á skemmtilegum fundi. Leikskólinn Fagrabrekka í Kópavogi kynnti starfið sitt fyrir starfsfólki sjö annarra leikskóla sem allir starfa að einhverju leyti í anda Reggio. Þarna mættu um 40 leikskólakennarar og komust færri að en vildu. Allar voru þær á eigin tíma. Held að það sé þessi óþrjótandi fagáhugi sem er styrkur þessarar stéttar. Á fundinum í kvöld voru sex sveitarfélagsreknir leikskólar og tveir einkareknir, frá fjórum sveitarfélögum.
Á fundinum sýndi starfsfólkið á Fögrubrekku nokkrar skráningar. Bæði frá eldri heildstæðum verkefnum og frá verkefnum sem enn eru í gangi. Verkefni sem sína mátt barna og megin. Við létum okkur hafa það að sitja í tvo tíma á stólum sem ætlaðir eru fyrir 4ára börn, og horfðum og hlustuðum hugfangnar á lýsingar á þessu frábæra starfi.
Það sem mér finnst svo vænt um í Reggio skólunum er þessi óþrjótandi virðing fyrir börnum og hugmyndum þeirra sem birtist í öllu starfinu. Þar er litið á barnið sem samverkamann, sem kennara. Í leikskólum sem starfa í anda Reggio eru ekki áhyggjur af valdráni barna. Þar felst lýðræðið í hlustun.
Fagrabrekka fékk líka að vita í vikunni að þær hefðu fengið styrk úr þróunarsjóð leikskóla til þess að vinna úr skráningum á verkefni fjögurra ára barna, þar sem þau hönnuðu og saumuðu kjól frá grunni. Frábært verkefni sem ég hlakka til að sjá gefið út.
Í kvöld ákváðum við næstu skref okkar, ræddum um sameiginlega starfsdaga, þar sem við gætum miðlað hvor annarri þekkingu og reynslu. Við settum sama vinnunefnd og mikið óskaplega hlakka ég til að hitta þær í júníbyrjun. Takk fyrir mig Fagrabrekka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.