Ég er kjarklaust fórnarlamb

Kom heim um helgina og leit á Silfur Eglis á netinu. Sá þar Margréti Pálu kollega minn úr stétt leikskólakennara. Ég er ein þeirra kvenna sem samkvæmt hennar skilgreiningu er valdsvipt vinnukona kerfisins – sem hef ekki haft neitt um kaup mín, kjör eða starfsaðstæður að segja. Sem hef væntanlega varla heyrt minnst á hugtakið vinnustaðalýðræði eða jafnvel kjarasamningagerð. Bara rekist eins og rótlaust þangið innan kerfisins, þar sem leynd hönd karla hefur stýrt för minni. Eina von mín til bjargar frá opinberri niðurlægingu minni og hörmung virðist vera að ganga EHF á hönd – fara að starfa í kerfi utan hins opinbera. Þar bíða mín gull og grænir skógar og síðast en ekki síst völd, ég get sjálf valið hvar ég festi mínar rætur. 

En á hver á að greiða mér þessi góðu laun í EHF kerfinu væna?, að sjálfsögðu samneyslan. Margrét virðist hallast að því að menntun sé réttur barna og en það sé hins opinbera að greiða uppsett verð, helst til þeirra sem hafa EHF vætt. Miðað við þá dýrð sem hún lýsir í hinu nýja kerfi  tekst henni annað hvort að fara betur með þær krónur sem sveitarfélögin greiða með hverju barni eða fá meira til sín en sveitarfélögin eru til í að borga inn í hið opinbera kerfi.  Miðað við hennar eigin yfirlýsingar hallast ég að því fyrra – hún sé bara svona glúrin peningakona – hafi fundið leið til að láta grautinn endast. Af því að hún vill veg kvenna sem mestan væri gott fyrir almenning að fá að vita hvað felst í þeim kjörum sem hún bíður. Margrét hafði líka á orði að við konurnar sem vinnum hjá hinu opinbera séum valdalausar, áhrifalausar og nefndi hún sem dæmi að við tækjum ekki þátt í að hanna það húsnæði sem við störfum í eða réðum kjörum og værum undirseldar miðstýrðum námskrám. Í framhaldi af því velti ég fyrir mér hvernig þátttaka hennar starfsfólks er í því t.d. að ákveða hvernig fyrirkomulag deilda er, hvernig dagskipulagið er sett fram, skipulag námskrár? Auðvitað er það augljóst í ljósi orða hennar – má ekki ætla að Margrét stundi það sem hún prédikar? Hennar skólar hljóta að vera fyrirmynd vinnustaðalýðræðis og valdeflingar sem hún veifar af miklum móð. Þar leyfist ekkert valdarán.  

 

Ég hef löngum skipt afstöðu minni til “einkarekinna” skóla í tvennt, í það sem ég kalla lífstefnuskóla og það sem kalla mætti skóla sem eru reknir fyrst og fremst til ágóða fyrir eigendur. Tilverurétt fyrri skólanna hef ég ávalt viðurkennt og stutt en hina tel ég ekki eigi rétt á sér í menntakerfinu. Alveg eins og mér finnst ósiðlegt að auglýsa í barnatíma þá finnst mér ósiðlegt að reka menntastofnanir til ágóða fyrir eigendur sína. Sennilega hefði ég einhvertíma fellt Hjallaskólana undir fyrri flokkinn en ég geri það ekki lengur. Í mínum huga er þeir grímulaust reknir til hagsmuna fyrir eigendur sína svipað og stórar leikskólakeðjur eru í Bandaríkjunum. Þeir eru viðskiptahugmynd, meira að segja í útrás. Ég ætla ekki að steypa mér í sama far og Margrét sem virðist álíta að flestar konur hafi ekki frjálst val, þori ekki að hafa það, ég tel þær hafa val - líka um að starfa hjá Margréti eða senda börnin sín í skóla hennar og gera það sjálfsagt glaðar. Það er þeirra upplýsta val sem mér ber að virða, alveg eins og það er mitt upplýsta val að starfa innan opinbera kerfisins og finnast það eiga fullan rétt á sér. En jafnframt tel ég mig hafa rétt til að berjast fyrir bættri stöðu innan kerfisins, meira að segja fyrir betra opinberu kerfi, mín trú á lausn felst ekki í allsherjar EHF væðingu. Að lokum frábið ég mér að konur sem aðhyllast nýfrjálshyggju stimpli mig sem valdlaust fórnarlamb í eigin lífi.

 

ps. Varð fyrir dálitlum vonbrigðum með flokksystur mína í þessum umræðum -


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr, Kristín. Ég tek undir orð þín og vona að þessi klausa berist víða.

Sigríður Síta (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:11

2 identicon

Frábært Kristín.  Vel að orði komist.

Bergljót (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 12:45

3 identicon

Gaman væri að sjá ykkur  stöllurnar etja kappi hjá Agli í Silfrinu. Það myndi hækka hlutfall kvenkynsins í þættinum og myndi kannski varpa ljósi á það hvað það er sem gerir fólk frjálst í eháeffunum. Hærri laun? svigrúm til starfsþróunar? fjölskyldustefna? Ég ætla að velja að trúa því að ég hafi áhrif sem starfsmaður hjá sjálfri mér og hinum skattborgurunum. En eitt útilokar ekki annað. :) og bæði getur verið best. Amk geta mínar kleinur verið góðar þó að þínar séu það líka.

Kveðja

Ingibjörg Kristleifsdóttir 

Ingibjörg Kristleifsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 13:56

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Alveg sammála því Ingibjörg - þínar geta verið alveg jafn góðar og mínar, og jafnvel þó þér finnist þínar örugglega bestar þá finnst kannski einhverjum öðrum mínar betri eða alla vega góðar. Þess vegna fögnum við fjölbreytileikanum. En segðu mér heldurðu að það sé betra að vera vinnukona EHF en hjá borginni, því allir verða jú ekki eigendur eða stjórnendur. Þetta er nefnilega líka spurning um hver verður frjáls og til hvers innan EHF

Kristín Dýrfjörð, 11.4.2007 kl. 14:20

5 identicon

Ég veit amk að mér líður vel hjá mér og þér og hinum í mínu huggulega innijobbi hjá borginni í leikskólanum sem ég lít á sem mína eign jafnt og annarra og upplifi mig sem geranda í mínu leikskólalífi. eháeffin eru misskilningur sem á eftir að líða hjá eins og hubbabubba tyggjó sem verður bragðlaust eftir þrjú tygg.

Ingibjörg Kristleifsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 15:07

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

hehehehe - þú átt að heyra í mér núna - það er hrossa

Kristín Dýrfjörð, 11.4.2007 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband