10.8.2011 | 12:43
Verkfall leikskólakennara
Það eru margir sem hafa og munu á næstu dögum og vikum skrifa um mikilvægi leikskólans og þess starfs sem þar fer fram. Hversvegna það skiptir samfélagið máli að leikskólar séu til. Um það ætla ég ekki að skrifa nú. Ég ætla að fjalla um hvers vegna leikskólakennarar telja sig eiga inni hjá sínum viðsemjendum eitt stykki samning.
Leikskólakennarar hafa verið öflugir í kjarabaráttu, lengi. Með mikilli fylgni við eigin málstað hafði þeim tekist að ná því markmiði að standa launalega jafnfætis viðmiðunarstéttinni, grunnskólakennurum. Báðar kennarastéttirnar eru saman í stéttarfélagi og fátt sem réttlætir mun á launum og öðrum kjörum. Haustið 2008 höfðu grunnskólakennarar lokið sinni samningsgerð og fengið umsamda hækkanir. Leikskólakennarar voru hinsvegar með lausa samninga. Eins og alþjóð veit. voru þá um haustið allir samningar frystir (stöðugleikasáttmálinn). Nú þegar samningar eru aftur á borðinu eru leikskólakennarar því í raun samning á eftir viðmiðunarstétt sinni. Krafa leikskólakennara er að standa þeim aftur jafnfætis. Það má í raun segja að vegna þess að ekki var búið að semja haustið 2008 hafi leikskólakennarar sparað sveitarfélögum umfram það sem lagt var á ýmsar aðrar stéttir. Þá er ekki sá gríðarlegi niðurskurður sem verið hefur innan leikskólans meðtalinn.
Leikskólakennarar þurfa á stuðningi samfélagsins að halda næstu daga og vikur. Þeir þurfa skilning og samstöðu um að kröfur þeirra séu réttlátar og sanngjarnar.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.