Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Komin heim á landið bláa

Komin heim heil, eftir vel heppnaða ferð til Reggio Emilia á Ítalíu. Þar skyldi ég við stóran hóp sem ætlar að vera nokkra daga í viðbót. Á morgun verð ég með hópnum í anda en þá fara þau í mismunandi smiðjur og á fyrirlestra. Sjálf þurfti ég að hraða för minni heim á landið blá því ég ætla að tala á ráðstefnu í Borgarleikshúsinu um Raddir barna. Kannski viðeigandi þar sem Reggio Emilia er sennilega einna þekktust akkúrat fyrir það, ja fyrir utan ostinn parmesano-reggiano sem einmitt rataði í töskuna mína beint úr hinu ítalska kaupfélagi.

Var annars að velta fyrir mér kostum Skype. Nú hafa tveir blaðamenn rætt við mig vegna þessarar ráðstefnu, við annan ræddi ég hér í stofunni en hann sat í austurvegi alla leið í Rússíá, við hinn ræddi ég á hótelherbergi í Reggio Emilia og hann upp í Hádegismóum. Vona svo að heilsan haldi en ég hef verið að fyllast af kvefi og hálsbólgu undanfarna daga.

Erindið mitt ber hið háfleyga heiti: Hvert barn er sinn eigin kór og kannski ég nenni að segja nánar frá því eftir frumflutning, má náttúrulega ekki eyðileggja spennuna fyrir þeim sem hlusta (svona ef þeir skyldu álpast inn á bloggið mitt).

Sé svo að á mánudag er afar áhugavert erindi við Háksólann á Akureyri þar sem Bob Lingard ætlar að fjalla um alþjóðlega strauma í orðræðu um menntun, einkum þá hugmynd að menntun drengja hafi farið hrakandi og hvaða áhrif þetta hefur á réttlátt skólastarf fyrir drengi sem stúlkur.


ReMída: Skapandi efnisveita - starf í anda sjálfbærar þróunar

Það eru tvær vikur síðan við opnuðum á skráningar á ReMída ráðstefnuna og þegar eru sumar smiðjur að fyllast. Við sem stöndum að ráðstefnunni (SARE) erum mjög ánægð með skráninguna. En hámarksfjöldi eru 250 þátttakendur. Við teljum að ráðstefna sem þessi höfði til mjög víðs hóps starfsfólk, leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og allra annarra sem hafa áhuga á skapandi starfi og endurnýjanlegum efnivið. Hún er hæfileg blanda fyrirlestra og smiðja. Og smiðjunum er gefin góður tími.

Í smiðjum taka saman höndum leikskólakennarar og listamenn og vinna skapandi með efnivið sem annars fer oftast forgörðum. Ég tel þetta vera einstakt tækifæri til að kynnast fjölbreyttum vinnubrögðum og hugmyndum. Tækifæri til að nota m.a. ýmis verkfæri sem margir eru stressaðir yfir. Ég verð líka að viðurkenna að mér finnst leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í smiðjum vegna þess að ég held utan um eina sjálf. Hefði viljað fara á þær flestar, en kannski næst ef við gerum eitthvað þessu líkt aftur.

Þar sem ég verð líklega að mestu utan þjónustusvæðis tölvunnar næstu viku ákvað ég að nota tækifærið og láta upplýsingar um ráðstefnuna standa efst á blogginu mínu.  

ReMida – skapandi efnisveita
Ráðstefna á vegum SARE haldin í
Kennaraháskóla Íslands, Skriðu þann 28.maí 2008

00 – 09:00
 Mæting - afhending gagna - kaffisopi
  
09:00 – 09:15
 Setning
  
09:15 – 12:00
 Fyrirlestrar í Skriðu.
  
09:15 – 09:40
 Karen Eskesen– Sögulegt yfirlit um ReMidur og Reggio Netværk, aðkomu sveitafélagsins.
  
09:45 – 10:45
 Rita Willum– Hugmyndafræðin á bak við ReMidu – efnisveitur. Hvað er ReMida? Afhverju að vera með ReMidu?
  
 Rita og Karen munu tala á ensku
  
10:45 – 11:15
 Kaffipása
  
11:15 – 12:00
 

Georg Hollander – „Hringur Lífsins“
„Hringur Lifsins” er síbreytilegur. Við getum til dæmis ekki vera án náttúrunnar en sömuleiðis er orðið erfitt að ímynda sér heim án hátækni. Það er mikilvægt fyrir okkur að muna hvaðan við komum án þess að forma framtíðina og ekki megum við drukkna í hafsjó markaðshyggjunnar. Samvist náttúru og hátækni, markaðshyggju og grassrótarsamfélags, neysluvöru og endurvinnslu virðist óumflýjanleg. Hvernig komum við til móts við þessi fyrirbæri? Er nauðsynlegt að velja eitt fremur en annað? Flest allt hefur eitthvað jákvætt við sig – hinsvegar skiptir máli hvernig við umgöngumst hluti. Getum við blandað saman vistvænu grassrótarsamfélagi með ríkjandi markaðshyggju eða fjöldaframleiðslu og hátækni þróun? Samfélagi sem slakar af og til á ofstöðlun og byggir á samkennd og mannauð?

 SMIÐJUR EFTIR HÁDEGI

Heiti: Fótanuddtæki fæst gefins - gegn því að vera sótt!
Lýsing: Að nýta gamalt dót úr geymslunni. Þessi vinna snýst um að hafa bæði augu og eyru opin í okkar daglega lífi. Að vera tilbúin að föndra með allan þann endurnýtanlega efnivið sem berst. Bæði frá okkur sjálfum, foreldrum og fyrirtækjum. Stundum þarf bara örlitla viðleitni frá kennurum til að byrja með og allt í einu verður eitthvað skemmtilegt til hjá krökkunum úr ólíklegasta dóti.
Smiðjustjóri:  Arnar Yngvarsson, leikskólakennari leikskólanum Iðavelli Akureyri.
 

Heiti:  „Hringur Lífsins“
Lýsing: Unnið verður í skapandi smíðaverkefnum eftir innblástur hvers og eins. Hráefnið er náttúrulegt og manngert í bland. Undiraldan er ef til vil einhverskonar verkleg „spuna-umræða“ um samvist náttúrunnar og hátækni, markaðshyggju og grasrótarsamfélags, neysluvara og endurvinnslu. Afraksturinn verða væntanlega einlæg og persónuleg sköpunarverk. Verk sem færa smiðnum og áhorfendum gleði og nýjar víddir á upplifun sína á tilveruna - eða bara einstakur smíðagripur.
Smiðjustjóri:George Hollanders, þúsundþjalasmiður, leikfangasmiðjan Stubbur, Öldu Eyjafjarðarsveit
 

Heiti: Stelpan sem át allt þar til út úr henni valt.
Lýsing: Vísindasmiðja með ívafi íslenskra ævintýra. Að byggja sögusvið, að hafa hugrekki til að leika þar, að njóta þess að skapa, skoða og skynja.
Smiðjustjóri: Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri.
 

Heiti: Hvað er þetta?  Hvað viltu að þetta sé?
Lýsing: Ég kom til Íslands 1989 frá Cape Town, Suður Afriku, ætlaði að vera í hálft ár, en hef verið hér siðan. Fyrstu sex árin bjó ég á Ísafirði, og flutti svo til Hafnarfjarðar. Ég útskrifast frá Háskólanum á Akureyri 2006 með B.ed í leikskólafræði. Lokaritgerð mín fjallaði um listameðferð og sköpun í leikskólum. Frjáls sköpun hefur ávallt höfðað til mín og því ákvað ég að fara á námskeið í Remidu, til Danmerkur í febrúar s.l.  

Ég starfa sem fagstjóri í myndlist í leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði, þar sem unnið er í anda Reggio Emilia. Starfið mitt felst m.a. í því að hafa umsjón og skipuleggja myndlistarkennslu og frjálsa sköpun, í samráði við deildarstjóra og aðra kennara. Ég hef umsjón með myndlistastofum leikskólans, sé um þann efnivið sem keyptur er inn, safna endurnýtanlegum efnivið frá fyrirtækjum og foreldrum sem nýtist okkur í sköpun. Einnig má geta þess að á Stekkjarási höfum við komið okkur upp eins konar Remidu sem sum börn kalla Töfraherbergi því þar leynast ýmiskonar fjársjóðir.  http://www.leikskolinn.is/stekkjaras/
Smiðjustjóri:Michelle Sonia Horne, leikskólakennari, leikskólanum Stekkjarás Hafnarfirði.

 

Heiti: Hringrás
Lýsing: Hugmyndavinna fyrst. Þátttakendur fá hlut sem þeir pæla í og síðan látnir útfæra hann í stærra rými. (ferlið kvikmyndað).
Smiðjustjóri: Hildigunnur Birgisdóttir myndlistamaður, Arndís Gísladóttir myndlistarmaður og starfsmaður leikskólans Sæborgar Reykjavík.
 

Heiti: Grænar endur
Lýsing: Skapandi endurvinnsla, flöskur, greinar,vírar, við og þið.
Smiðjustjóri: Halla Dögg Önnudóttir og Edda Ýr Garðarsdóttir myndlistamenn, leikskólanum Sæborg Reykjavík.
 

Heiti: Endurreisn hlutanna
Lýsing: Að stökkbreyta hlutum. Hlutir verða endurunnir, endurbættir, endurmetnir og endurreistir
Smiðjustjóri: Ilmur María Stefánsdóttir, myndlistamaður.

 

Heiti: Drasl og Drama
Lýsing:  Samskipti hlutanna skoðað, unnið í nokkrum hópum. Ferlið verður kvikmyndað.
Smiðjustjórar: Steingrímur Eyfjörð og Daði Guðbjörnsson, myndlistamenn


Ný frænka

Í morgun eignaðist ég litla frænku, oggu litla spons sem heilsast vel og mömmunni líka. Með þessari litlu spons lagast aðeins hlutfall stúlkna á móti drengja í  afkomendadeild foreldra minna.

Við erum 6 systkinin, þrjár stelpur og þrír strákar og við eigum samtals ellefu stráka og fjórar stelpur, barnabarnabörnin eru þrír strákar og þrjár stelpur. Pabbi átti 5 systkini þarf af eina systur og mamma átti 7 bræður og eina systur. 

Velkomin í hópinn litla frænka.  


Söngvakeppni framhaldsskóla og lýðræðisdagur

Á morgun ætla framhaldsskólarnir að takast á í söng og hljómsveitarleik á Akureyri. Sá áðan í Kstljósinu eitt minna "gömlu barna" hita raddböndin. Það er hann Dagur sem er í FÁ, sem eitt sinn var leikskólabarn í Ásborginni. Ekkert breyst drengurinn. Og af því að mér er hlýtt til allra minna gömlu barna óska ég honum góðs gengis.

Á morgun er líka íbúðarþing um lýðræði á Akureyri. Ég hlustaði á menntskælinginn Jan minna okkur á að það geta og eiga ekki allir að verða keppnismenn í íþróttum. Ef það er stefnan missa þær nokkuð af forvarnargildi sínu. Góð áminning.

Annars er dagskráin svona:

Thu_og_eg_og_AkureyriÍbúalýðræði
Framsaga: Ágúst Þór Árnason
Umræðustjóri: Margrét Guðjónsdóttir

Mengun, umferð og lýðheilsa
Framsaga: Pétur Halldórsson
Umræðustjóri: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir

Göngu- og hjólreiðastígar
Framsaga: Guðmundur Haukur Sigurðarson
Umræðustjóri: Inga Þöll Þórgnýsdóttir

Lýðheilsa og skipulag
Framsaga: Matthildur Elmarsdóttir
Umræðustjóri: Karl Guðmundsson

Hæglætisbær eða heimsborgarbragur?
Framsaga: Hólmkell Hreinsson
Umræðustjóri: Katrín Björg Ríkarðsdóttir

Vistvernd í verki. Allra hagur.
Framsaga: Stella Árnadóttir
Umræðustjóri: Gunnar Gíslason

Að eldast á Akureyri.
Framsaga: Sigrún Sveinbjörnsdóttir
Umræðustjóri: Þórgnýr Dýrfjörð

Akureyri – fjölskylduvænt samfélag.
Framsaga: Jan Eric Jessen
Umræðustjóri: Sigríður Stefánsdóttir

Að syngja með Sturlubarni

Undanfarið hefur amma leikskólakennari verið að rifja upp einföld barnalög sem höfða til 6 mánaða Sturlubarnsins til að syngja með honum. Síðustu mánuði hafa þau sungið "Ég heyri þrumur" með heimatilbúinni hreyfiútfærslu sem höfðar til 4-6 mánaða, eftirvæntingin eftir síðustu setningunni, "Ég er gegnblautur", þegar amma grípur um upphandleggi Sturlubarnsins og hristir (lauslega auðvitað), er óviðjafnanleg. Nú er Sturlubarnið farinn að sitja og því ákvað amman að bæta inn "Við skulum róa sjóinn á". Fyrst á réttunni svo á röngunni, er líka mjög vinsælt. Þó að Sturlubarnið sé enn ekki farið að syngja orðin með ömmu, þá syngur hann með líkamanum og með andlitinu. Þess vegna finnst ömmunni mikilvægt að syngja lög með hreyfingum.

Í gær sátum við á eldhúsgólfinu, andspænis hvort öðru og amman hélt um báðar hendur á Sturlubarni. Svo var togað og ýtt og sungið "við skulum róa sjóinn á, sækja okkur ýsu. En ef hann krummi kemur þá, að sækja hana Dísu." og þegar amman segir, Dísu, kippir hún Sturlubarni í fangið og hann hlær. 

Annars er Sturlubarn á þeim aldri að allt sem glitrar heillar. Hann er til dæmis afar upptekinn af hnapp á peysunni hennar ömmu. Amma hefur keypt handa honum tvö leikföng frá því að hann fæddist, fyrst keypti hún óróa yfir vögguna og svo spegil sem hægt er að festa við rúmið eða leika með á gólfinu en Sturlubarnið er heillaður af speglum. Hann er líka svo heppinn að amma á slatta af þeim úr plexígleri. Spegla sem ekki brotna og lítil maður má leika með. Sumir speglarnir hennar ömmu er á hjörum og þá setur hún upp í kringum Sturlubarnið, þannig getur hann fylgst með umhverfinu. Nú er amma að fara til útlanda og sagði foreldrum að ef hún rækist á gyllt leikefni handa Sturlubarni þá mundi það rata ofan í tösku.  

    sturla i stol                                   að spegla sig

 


Á 1. árs bloggafmælinu

Ég mundi áðan að í dag er ár síðan ég setti inn fyrstu bloggfærsluna mína. Í tilefni dagsins leit ég á hana og rifjaði í leiðinni upp hversvegna ég fór að blogga. Ég get eiginlega þakkað þáverandi nágranna mínum Agli Helgasyni það. Hann nefnilega hafði helgina áður verið með viðtal við Margréti Pálu, þar sem fram kom að hægt væru að leysa held ég næstum öll vandræði leikskólakerfisins með "sjálfstæðum rekstri"  (það sem ég kallaði "einrekstur á opinberum hækjum" þegar ég var ung og pínu rótæk). Mér varð svo mikið um þáttinn og það sem mér fannst vera hreint bull að ég varð einhverstaðar að láta í ljós álit mitt á honum. Mér fannst skoðun mín ekki vera blaðagreinar virði, (hvað þá á í miðri hríð innsendra greina vegna kosninga), en ég vildi samt hafa skoðun.

Nýlega las ég að árið 2003 hafi New York Times gefið út þá yfirlýsingu að í dag væru tvö ofurveldi eftir í heiminum, annað væri Bandaríkin hitt væri "skoðun almennings" og að Bandaríkin væru að tapa fyrir því veldi. Eitt öflugasta tæki þessa seinna ofurveldis er einmitt bloggið, þar sem flestir (í tilteknum hlutum heimsins reyndar) geta sett fram skoðun sína. Ég sem sagt, þökk sé Agli fyrir að hafa boðið Margréti Pálu, ákvað að láta mína litlu rödd hljóma í heimi bloggsins.    

 

Kannski er það tímanna tákn að nú ári seinna næstum upp á dag hélt Leikskólaráð Reykjavíkur opinberan blaðamannafund þar sem lausnir leikskólamála borgarinnar byggja m.a. á auknum einkarekstri og það sem mér þykir vera fáránlegri þjónustutryggingu og hvar skyldi fundurinn hafa verið haldinn. Í Laufásborg sem er ekki lengur í rekstri borgarinnar heldur fyrirtækis fyrrnefndrar Margrétar Pálu.

 


Hvort er áhugaverðara brúnkugæi eða klárir krakkar?

Einu sinni reyndi ég að selja fjölmiðlamanni á ríkissjónvarpinu þá hugmynd að mæta með myndarvélar í vísindasmiðju sem við settum upp fyrir leikskólabörn í Háskólanum á Akureyri. Sjá öll þau frábæru verkefni sem börn geta tekist á við ef þeim eru skapaðar aðstæður. Ég reyndi að draga upp fallega mynd, sýndi myndir frá sambærilegum atburðum og hvað eina. Á móti fékk ég alltaf spurninguna, "já en þú skilur að það verður að vera fréttapunktur í þessu".  "Hver er fréttapunkturinn?" Ég í einfeldni minni benti á að um 15 til 17 þúsund börn séu á leikskólaaldri og að þau eigi um 30 þúsund foreldra og 60 þúsund afa og ömmur sem vildu örugglega sjá hvers börn eru megnug. Að þarna væri myndrænt efni sem kæmi sér vel á milli atriða, sérstaklega þar sem þetta var kosningarvor og fólk kannski þreytt á endalausri pólitík. Nei ekki um að ræða.

Sem betur fer eru ekki allt fjölmiðlafólk jafn einsýnt og bæði ríkisútvarpið og sjónvarpsfréttastöð á Akureyri gerðu smiðjunni góð skil. Ástæða þess að ég rifja þetta upp er Kastljós mánudagskvöldsins, þar sem við fengum að fylgjast með degi í lífi karlmanns. Þeir þættir í lífi hans sem mér fundust áhugaverðastir þ.e. hvernig hann fellir saman hlutverk sitt sem sérkennari og "líkamsræktartónlistarbrúnkugæi", hvort og hvernig annað styður hitt eða hafi haft áhrif á hann sem manneskju, var ekki til umræðu. Við fengum hinsvegar að sjá hann fara í sturtu, tannbursta sig og bera á sig brúnkukrem. Nú spyr ég eins og ég var spurð: "Hver var fréttapunkturinn í þessu?".  

Hér má sjá lítið myndband sem ég gerði fyrir erlenda gesti af slíkri smiðju, börn á Iðavelli syngja undir. En í fyrra gáfu þau út disk með leikskólanum til að fjármagna kaup á hljóðkerfi fyrir hann.


Hvatningarverðlaun Reykjavíkur til leikskóla borgarinnar

Til að vekja athygli á því merkilega starfi sem fram fer í Leikskólum Reykjarvíkurborgar, ákvað leikskólaráð haustið 2006 að veita 6 leikskólum eða leikskólaverkefnum árlega sérstök hvatningarverðlaun. Allir sem áhuga hafa á leikskólastarfi geta tilnefnt verkefni eða skóla. Ömmur og afar, pabbar og mömmur, stofnanir eða fyrirtæki sem eiga í samskiptum við skóla og hafa þannig kynnst því sem þeir eru að gera geta tilnefnt.

Þar sem ég veit að margt áhugafólk um uppeldisstörf í leikskólum les stundum bloggið mitt fannst mér ekki úr vegi að misnota aðstöðu mína og auglýsa verðlaunin og hvetja sem flesta til að tilnefna skóla eða verkefni.

Frestur til að skila tilnefningum til hvatningarverðlauna leikskólaráðs 2008 rennur út 15. apríl 2008. Sjá tilnefningarblað. Sendið tilnefningar á netfangið: leikskolasvid@reykjavik.is

Verðlaun sem þessi gegna ekki síst því hlutverki að vekja athygli á þeim fjölbreytileika í starfsháttum og hugmyndafræði sem finna má í leikskólum borgarinnar. Þar er að finna skóla sem leggja áherslu á skapandi starf, tónlist, myndlist, hreyfingu, lýðræði, útiveru, samband manns og náttúru, að skynja náttúru í borgarsamfélagi, fjölmenningu og fjölbreytileika hver með sínum hætti.

 

 


Tæknilegósnillingurinn frændi minn

Lítill frændi minn hringdi í okkur í gær og bauð okkur í 9 ára afmælið sitt í dag. Hann heitir Ólíver Goði og er snillingur í höndunum. Hann fékk ýmsar gerðir að tækni-legói í afmælisgjöf og allt var það sett saman eftir flóknustu vinnuteikningum með det samme. Óliver er barn sem verklegir þættir leika í höndunum á og hann er ótrúlega hugmyndaríkur.

 

Ég skoðaði allt tækni-legóið hans, flest virtist vera ótrúlegustu faratæki. Hann sagði mér reyndar að eitt eða tvennt væri ónýtt.  Ég sagði "já en af hverju byggir þú þá ekki eitthvað annað úr því" (ég hélt nefnilega að ónýtt merkti að hann væri búinn að tína merkilegum og nauðsynlegum kubbum). "Ég má það ekki" segir hann "pabbi bannar það, hann segir að ég eigi að finna teikningarnar og byggja aftur".  Kannski er þetta alveg rétt hjá pabba hans og bróður mínum. En ég held samt að næst þegar ég kaupi handa Ólíver gjöf, verði það grunnkassi af legó sem bíður upp á margar lausnir (vona að svoleiðis sé til í tækni-legóinu eins og hinu). Það er allt í lagi stundum að það sé bara ein lausn möguleg og auðvitað verður Ólíver að læra að fara eftir fyrirmælum, en ég held líka að stundum megi vera margar lausnir, margir möguleikar. Þannig eflist skapandi hugsun.

 

Reyndar eiga Ólíver og bræður hans mikið magn af seglakubbum, hann sýndi mér líka hvað hann var búinn að byggja úr þeim. Þar hafði hugmyndaflugið fengið að ráða för. 

 

Á hverjum mánudegi sækja amma og afi, hann og yngri bróður hans í skólann. Í Skeifunni fá þeir að  dunda en líka að læra. Ólíver á lítið borð við hliðina á skrifborðinu hans afa uppi í risi. Þegar þeir bræður mæta í Skeifu, fer Ólíver beint á borðið sitt, dregur fram blöð, blýant og vatnsliti, þar vinnur hann að kappi góðan tíma. Þeir bræður lesa líka fyrir afa og ömmu og svo hef ég sterkan grun um að amma baki fyrir þá kryddbrauð af því að þeim þykir það svo gott. Heitt með þykku smjöri. Stundum þegar ég er búin að kenna á mánudögum dett ég inn í Skeifuna og þá er mér líka boðið kryddbrauð. Heitt með þykku smjöri.

 


Amma og Sturlubarn saman í sundi

Í gær fékk amman að fara ofan í laugina með Sturlubarninu. þetta var alveg einstök upplifun þó að amman hafi stundum haft á orði að þetta væri ill meðferð á börnum. En Sturlubarninu virtist líka vel þessi illa meðferð og hló bara en saup líka stundum hveljur. Amman keypti handa Sturlubarni nýja sundskýlu í Stokkhólmi og í gær var hún vígð. Varla var hægt að ná sambandi við Sturlubarnið þegar inn í laugarhúsið kom, hann féll næstum í tilhlökkunartrans, okkur fannst það oggu fyndið. En það bráði af honum um leið og hann fór ofan í vatnið. Þar átti bolti hug hans allan og lagði hann ýmislegt á sig til að nálgast hann. Sturlubarnið er nefnilega búið að komast að því að hann getur sjálfur nálgast það sem hann hefur áhuga á.   

Reyndar hefur sundtíma Sturlubarnsins aðeins seinkað og virðist það ekki eiga eins vel við hann. Hann er nefnilega alveg úrvinda alla daga eftir rannsóknir sínar á veruleikanum og kominn upp í rúm milli 8 og 9. Að koma upp úr lauginni um hálfátta er fullseint fyrir hann.  

Eftir sundið var ömmu og afa boðið í mat hjá hinni ömmunni og afanum með Sturlubarni, pabba og mömmu. Sturlubarnið sat í barnastól við matarborðið og horfði hissa á okkur öll. Allt í einu var heimunum hans blandað saman á óvæntan hátt. En þið megið alveg trúa því að hann fékk ómælda athygli og það voru margar hendur tilbúnar að taka hann og hugga, hvenær sem þörf var á.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband