Tæknilegósnillingurinn frændi minn

Lítill frændi minn hringdi í okkur í gær og bauð okkur í 9 ára afmælið sitt í dag. Hann heitir Ólíver Goði og er snillingur í höndunum. Hann fékk ýmsar gerðir að tækni-legói í afmælisgjöf og allt var það sett saman eftir flóknustu vinnuteikningum með det samme. Óliver er barn sem verklegir þættir leika í höndunum á og hann er ótrúlega hugmyndaríkur.

 

Ég skoðaði allt tækni-legóið hans, flest virtist vera ótrúlegustu faratæki. Hann sagði mér reyndar að eitt eða tvennt væri ónýtt.  Ég sagði "já en af hverju byggir þú þá ekki eitthvað annað úr því" (ég hélt nefnilega að ónýtt merkti að hann væri búinn að tína merkilegum og nauðsynlegum kubbum). "Ég má það ekki" segir hann "pabbi bannar það, hann segir að ég eigi að finna teikningarnar og byggja aftur".  Kannski er þetta alveg rétt hjá pabba hans og bróður mínum. En ég held samt að næst þegar ég kaupi handa Ólíver gjöf, verði það grunnkassi af legó sem bíður upp á margar lausnir (vona að svoleiðis sé til í tækni-legóinu eins og hinu). Það er allt í lagi stundum að það sé bara ein lausn möguleg og auðvitað verður Ólíver að læra að fara eftir fyrirmælum, en ég held líka að stundum megi vera margar lausnir, margir möguleikar. Þannig eflist skapandi hugsun.

 

Reyndar eiga Ólíver og bræður hans mikið magn af seglakubbum, hann sýndi mér líka hvað hann var búinn að byggja úr þeim. Þar hafði hugmyndaflugið fengið að ráða för. 

 

Á hverjum mánudegi sækja amma og afi, hann og yngri bróður hans í skólann. Í Skeifunni fá þeir að  dunda en líka að læra. Ólíver á lítið borð við hliðina á skrifborðinu hans afa uppi í risi. Þegar þeir bræður mæta í Skeifu, fer Ólíver beint á borðið sitt, dregur fram blöð, blýant og vatnsliti, þar vinnur hann að kappi góðan tíma. Þeir bræður lesa líka fyrir afa og ömmu og svo hef ég sterkan grun um að amma baki fyrir þá kryddbrauð af því að þeim þykir það svo gott. Heitt með þykku smjöri. Stundum þegar ég er búin að kenna á mánudögum dett ég inn í Skeifuna og þá er mér líka boðið kryddbrauð. Heitt með þykku smjöri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Skemmtileg færsla. Ég held nú einmitt að einkenni nútímans sé að við notum ekki hlutina á einn ákveðinn veg heldur tengjum saman á ýmsa lund.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.4.2008 kl. 08:09

2 identicon

Sæl Kristín,

smá tillaga, hvað með að hann fái að útbúa Nýsköpunarkassa (finnst það passa betur hér en ReMídukassa;) - með munaðarlausum tæknilegókubbum.

Kveðjur úr Brautarholtinu

Guðrún Alda Harðardóttir (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 08:42

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég get staðfest frá fyrstu hendi að Óliver Goði er að ráða til sín vörubílstjóra og ætli að efna til aðgerða í götunni, Kristín, af því þú kallar hann lítinn frænda þinn. Hann spurði mig galvaskur hvernig þér myndi finnast ef ég kallaði þig "litlu eiginkonuna". Jú, ég sagði honum að það gæti ég ekki, því þú værir vel yfir einn og hálfur metri. Og, bætti ég við, að mér væri annt um velferð mína. En búðu þig undir hávaðasama vörubílstjóra.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.4.2008 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband