Amma og Sturlubarn saman í sundi

Í gær fékk amman að fara ofan í laugina með Sturlubarninu. þetta var alveg einstök upplifun þó að amman hafi stundum haft á orði að þetta væri ill meðferð á börnum. En Sturlubarninu virtist líka vel þessi illa meðferð og hló bara en saup líka stundum hveljur. Amman keypti handa Sturlubarni nýja sundskýlu í Stokkhólmi og í gær var hún vígð. Varla var hægt að ná sambandi við Sturlubarnið þegar inn í laugarhúsið kom, hann féll næstum í tilhlökkunartrans, okkur fannst það oggu fyndið. En það bráði af honum um leið og hann fór ofan í vatnið. Þar átti bolti hug hans allan og lagði hann ýmislegt á sig til að nálgast hann. Sturlubarnið er nefnilega búið að komast að því að hann getur sjálfur nálgast það sem hann hefur áhuga á.   

Reyndar hefur sundtíma Sturlubarnsins aðeins seinkað og virðist það ekki eiga eins vel við hann. Hann er nefnilega alveg úrvinda alla daga eftir rannsóknir sínar á veruleikanum og kominn upp í rúm milli 8 og 9. Að koma upp úr lauginni um hálfátta er fullseint fyrir hann.  

Eftir sundið var ömmu og afa boðið í mat hjá hinni ömmunni og afanum með Sturlubarni, pabba og mömmu. Sturlubarnið sat í barnastól við matarborðið og horfði hissa á okkur öll. Allt í einu var heimunum hans blandað saman á óvæntan hátt. En þið megið alveg trúa því að hann fékk ómælda athygli og það voru margar hendur tilbúnar að taka hann og hugga, hvenær sem þörf var á.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að lesa færslurnar þínar -

Síta (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband