Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
30.4.2008 | 10:54
Alvarlegt
Ég hef lengi haft ákveðnar áhyggjur af sífellt lengri dögum barna í leikskóla. Þegar vikuleg viðvera barna er þetta 40 - 45 stundir í leikskóla er það langur tími. Engin sem þekkir mig getur efast um að ég hef tröllatrú á leikskólanum og tel hann skipta gríðarlegu máli. Mér finnst hinsvegar að börn og foreldrar eigi líka rétt til þess að verja tíma saman. Tíma þar sem barn eða fullorðnir eru ekki annað eða bæði örþreytt. Því miður bíður samfélagið ekki alltaf upp á slíkt. Mér finnst líka athyglivert að karlar með ung börn vinna langan vinnudag (50 tíma á viku), kannski er það vegna þess kynbundna launamunar sem enn viðgengst og eðli starfa þeirra, en konur með ung börn vinna a meðaltali um 80% starf. Í óskasamfélagi ætti vinnutími foreldra ungra barna ekki að vera yfir 35 -37 stundum að meðaltali hjá báðum.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 12.027 börn í leikskólum á aldrinum 3-5 ára um síðustu áramót, af þeim er rúmlega þriðjungur eða 4.712 börn í 9 tíma vistun eða meira. Önnur 4.797 börn eru í 8 tíma vistun samtals eru þetta tæplega 80% barna á þessum aldri. Af þeim börnum undir þriggja ára sem eru í leikskóla eru 75% þeirra í 8 tíma eða lengur.
Leikskólarnir hafa eins og alþjóð veit sumir átt í miklum erfiðleikum með mönnun undanfarin ár. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem Capacent birti nýlega er stór hluti leikskólakennara í um það bil 80% starfi, vinnur um 6,5 tíma á dag í þessum sömu leikskólum. Af reynslu veit ég að leikskólakennarar vinna frekar fyrri hluta dagsins (auðvitað ekki algilt og sumir vinna 4 daga og frí þann fimmta, sem ). Vegna þess má ætla að fæst börn séu með leikskólakennurum síðustu 2 til 2,5 tíma dagsins. Mér finnst það alvarlegt.
Sumir hafa viljað skipta tíma leikskólans upp í "kennslu" og "gæslu" tíma, eða "gæða" og "gæslu" tíma. Sjálf er ég algjörlega ósammála slíkri skiptingu og tel hana í andstöðu við allar hugmyndir um nám og reynslu. Við vitum það að börn læra álíka af því sem er óskipulagt og óyrt og hinu, þau læra af viðmóti og viðhorfum sem þau finna. Þættir sem m.a. eru teknir fyrir í námi leikskólakennara.
Allur tími barna er námstími og allt það fólk sem vinnur með börnum eru þátttakendur í uppeldi þeirra. Sjálf vil ég ekki nota orðið kennsla um starfið í leikskólanum (og geri það aldrei) eða nemendur um börnin. Ég segi að okkur leikskólakennurum beri að skapa námstækifæri fyrir börn og starfsfólk. Skapa umhverfi sem styður við og hvetur til náms barna. Og börn eiga rétt á slíku umhverfi, þau eiga rétt á menntandi umönnun eins og einhverstaðar segir.
Ef að flestir leikskólakennarar eru farnir heim um þrjú eða jafnvel fyrr þá velti ég því fyrir mér hver sé með börnin seinni part dagsins- og í hverju stafið á þeim tíma sé fólgið. Með þessu er ég ekki að efast um að leiðbeinendur eru upp til hópa hið vænsta fólk sem hefur metnað fyrir starfinu. En til einhvers held ég að starfsfólk þurfi leikskólakennaramenntun.
Mér fannst það líka athyglivert í fréttinni að Hagstofan reynir að afsaka foreldra, þeir kaupi nú átta tíma en séu ekki að nýta þá. Með þessari athugasemd er Hagstofan í raun að halda því fram að langir dagar séu óæskilegir, annars væri þessi skýring ekki sett með.
Leikskólabörn aldrei fleiri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2008 | 20:59
Erlendu úttektaraðilar Háskólans á Akureyri ánægðir með fjarnámið
Háskólinn á Akureyri fékk sérstakt hrós í nýlegri úttekt á fræðasviðum fyrir fyrirkomulag og styrk fjarkennslu. Það vakti sérstaka eftirtek útlendu úttektaraðilanna hversu vel skólanum helst á fjarnemum miðað við staðnema. ÞAð er þekkt að brotfall fjarnema sé hærra en staðnema, samkvæmt skýrslunni er það áþekkt í báðum hópum hjá HA.
Leikskólabraut Háskólans á Akureyri tók fyrsta fjarnemahópinn inn haustið 1999, þetta var hópur úr Skagafirði og frá Akureyri. Kennslufyrirkomulag var það sama og núna, það er að hópurinn á hvoru landssvæði safnaðist á einn stað í og var í gagnvirku sjónvarpssambandi við kennara. Frá upphafi var kennslan samtímis studd efni sem miðlað var á vef. Um leið og t.d. Webct var tekið upp við HA, tókum við kennarar á leikskólabraut það upp.
Með þessu fjarnáminu var gert átak víða um land til að mennta leikskólakennara, (Ísafjörður, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Selfoss, Borgarnes, Hafnarfjörður, Kópavogur allir þessi bæir og fleiri til nutu góðs af). Fyrir nokkrum árum bað ég nema sem þá voru að brautskrást að setja niður á blað hvað skipti þá máli varðandi fjarkennsluna og þá kom sterklega fram að það að vera í hópi skipti máli, að það hafi tekist að skapa námsumhverfi þar sem fólk gat rætt saman og tekist á.
Sjálf hef ég frá upphafi kennt í fjarkennslunni og er stolt af því gæfuspori sem ég tel okkur hafa stigið. Ég tel átakið sem við gerðum varðandi leikskólakennaramenntunina hafa skipt máli fyrir leikskólabörn landsins. Háskólinn var í úttektinni hvattur til að gera fjarnámið sýnilegra í stefnumótun sinni. Þar fuðruðu menn sig reyndar á að skólinn hreykti sér ekki meira á pappírum af fjarnáminu.
Læt fylgja með brot úr skýrslunni (með undirstrikunum mínum)
UNAK has a very strong record role in distance learning. Therefore it is surprising that the visions and challenges connected with a strong distance learning effort are not more visible in the strategic documents. UNAK is recommended to give more evidence at the strategic level to its work on distance learning, including development of methodologies and techniques, special activities and counselling for distant learners and implications for staff.Distance teaching is as a rule not directed at individual students. Groups of distance learners meet at eight Learning Centres around Iceland where the physical and learning facilities for distance learning are provided. The Centres are linked to UNAK via TC_P/IP protocol, optical fibre or leased line. The distance learners are required to be on the UNAK campus twice each term. Interestingly enough their drop-out rate is no higher than for on-site students. Part of the explanation seems to be that the students are usually older and more committed.Specifically concerning distance education agreements have been made with the continuing education centres/knowledge centres in other parts of Iceland, specifying the facilities that should be provided for distance learners in each locality. Both staff and students are well-supported. Considering the high proportion of distance students UNAK must be recognised for the facilities it offers these and for the cooperation with the reginal learning centres.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er í átaki, sem felst í því að skreppa alla vega einu sinni á dag út úr húsi. Það getur nefnilega verið hættulegt að vinna alltaf heima. Heimili, vinnan, frítíminn, og það heila verður að einum graut. Núna ákvað ég að skunda einn hring í kringum tjörnina. Ákvað samt að fara inn í Ráðhúsið vegna þess að oft eru þar áhugaverðar sýningar sem gaman er að reka nefið inn á (það samræmist meginmarkmiðinu að vera á ferli og fara út úr húsi).
Að detta inn á málþing - einmana gamalt fólk
Á leið minni í gegn um Ráðhúsið datt ég inn á málþing um stöðu eldri borgar, þar var verið að kynna nýja rannsókn sem unnin var á meðal fólks yfir áttrætt hér í borginni. Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að stoppa og hlusta. Komst að því að það er um 5% hópur í þessum aldurshóp sem af eigin sögn hefur það skítt, fjárhagslega, tilfinningalega og heilsulega (auðvitað ekki sömu 5% í öllum tilvikum). Um 5% fá sjaldan eða aldrei heimsóknir, eru einmana. Eins og sama hópastærð í leikskólanum. Í Reykjavík eru þetta milli 200-300 manns yfir átrætt.
Rannsóknir sýna að það getur verið manninum lífshættulegt að vera einmana til lengri tíma. Þessar upplýsingar sem og niðurstöður rannsókna á meðal barna og unglinga eiga að vekja okkur til umhugsunar.
Sóknarnámskeið áður fyrr
Á málþinginu hitti ég Þórunni Sveinbjörnsdóttur fyrrum formmann Sóknar og síðar varaformanns Eflingar. Hún er nú hætt, gat ekki hugsað sér fleiri kjarasamninga. Hún sagði mér að hún sé að vinna að ótrúlega skemmtilegu verkefni, að taka saman sögu námskeiða og starfsþróunar hjá Sókn/Eflingu - skoða hvernig námskeiðin og námsleiðirnar hafa þróast. Heyrðist hún enn vera pínu vonsvikin yfir okkur leikskólakennurum - við soldið fastheldin og ósveigjanleg í réttindamálum leiðbeinenda. En hvað um það - við rifjuðum líka upp að ég kenndi oft slatta á námskeiðum Sóknar í gamla daga þegar ég var leikskólastjóri. Sagði Þórunni að einn leikskólastjóri hefði einmitt rifjað það upp með mér um daginn að hún hafi fyrst hitt mig sem leiðbeinandi í leikskóla á námskeiði hjá Sókn. Seinna fór hún í KHÍ og er núna leikskólastjóri - held í sama leikskólanum og hún hóf feril sinn innan leikskólans. (hefur reyndar komið við á fleiri stöðum í millitíðinni). Þetta sannaði fyrir okkur Þórunni að það skiptir máli að hafa tækifæri til að mennta sig til allra starfa innan leikskólans. Ekki endilega til að verða leikskólakennari eða stjóri, heldur til að hafa gleði og ánægju af vinnu sinni. Verða betri í því sem maður er að gera.
Ráðhúskaffið
Þegar öllu lauk, ég búin að samskipta settist ég inn á Ráðhúskaffið - þar bauð vertinn mér í tvöfaldan expressó, fyrir aðstoð í vetur. Sit þar nú og sýp á mínu kaffi og hlusta á hroturnar í fastagestinum. Ferkar vinalegt.
Best að klára tjarnarhringinn og koma sér heim í æestur verkefna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 20:55
Er það trygging fyrir gæðum leikskóla að börnin séu glöð?
Ég hef oft heyrt starfsfólk leikskóla segja að það vinni í anda Dewey. Kenningar hans séu hafðar sem leiðarljós í starfi. Ég efa ekki að það geti verið að hluta til rétt, sérstaklega það sem snýr að reynslu og tilfinningum. En ég hlýt að taka undir með Dewey að reynsla er mismunandi og þó börnin séu glöð og virðist ánægð í leikskólanum er það ekki ávísun á að reynsla þeirra þar hafi nauðsynlega verið menntandi og hjálpi barninu að vera þátttakandi í því sem er að gerast hér og nú og í framtíðinni.
Dewey taldi reynsluna þurfa að uppfylla skilyrði til þess að hún teldist menntandi, hún þyrfti að byggja upp hæfni til að takast á við og vinna úr nýrri og breyttri reynslu í framtíðinni. Hægt er að velta fyrir sé hvort leikskólakennarar séu vissir um að það eigi við um starfið í leikskólanum, jafnvel þó börnin séu ánægð? Er t.d. með sanni hægt að segja að ánægð börn, ánægðir foreldrar séu merki um gæðastarf í leikskólum? Er í raun hægt að styðjast við yfirborðkennda frasa þegar verið er að fjalla um starfið í leikskólanum?
Greinarkornið hér að ofan er hluti af fyrirlestri sem ég samdi og flutti í tilefni 10 ára afmælis leikskólabrautar Háskólans á Akureyri.
Fyrir þá sem áhuga hafa á að lesa allan fyrirlesturinn má finna hann hér í meðfylgjandi skrá.
Menntun og skóli | Breytt 29.4.2008 kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2008 | 16:28
Fyrirgefðu, fyrirgefðu sagði innbrotsþjófurinn, haltu bara áfram að sofa
Það finnst ekki öllum það sama kómískt, en innbrotsþjófur sem afsakar sig og segir manni að halda áfram að sofa er samt soldið kómískur. Rétt fyrir klukkan 6 í morgun heyri ég að það er tekið í handfangið á hurðinni í svefnherberginu mínu, hurð sem snýr út í garð. Ég reisi mig í rúminu og horfi í átt að hurðinni. Sé ég ekki kunnuglegt andlit innbrotsþjófs nokkurs sem einmitt er nýbúinn að gera tilraun til að heimsækja okkur stinga hausnum í gegn um gardínurnar.
Ég segi hvassri röddu, "!!!!! hvað ertu eiginlega að gera þarna maður". Garminum bregður svo voðalega að hann fer allur í mínus. Segir "fyrirgefðu, fyrirgefðu ég ætlaði ekkert að trufla, haltu bara áfram að sofa" og svo er hann hlaupinn.
Ég tékka á hurðinni (sem hafði kviklæsts og við erum búin að bæta úr því svo slíkt gerist ekki aftur), leggst aftur upp í og sofna eins og steinn. Eiginmaðurinn við hlið mér opnaði aðeins annað augað og sagði: "er ekki allt í lagi". "Jú, jú" segi ég "þetta var bara hann !!!!!!" og við sofnuðum og sváfum á okkar græna fram á rauða morgun.
Um hádegisbilið segi ég við eiginmanninn; "heyrðu hélstu nokkuð að þig hefði verið að dreyma," "nei, nei en hvað sagði hann !!!!! við þig". Það hefur mikið verið hlegið hér í dag.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.4.2008 | 15:37
Lofsvert framtak
32 Vildarbörn á leið í draumaferðina með fjölskyldu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.4.2008 | 19:35
Vinátta barna - sjálfstæð börn, einmana börn
Flest börn eiga vini, flest eiga þau sér vini af sama kyni og á svipuðum aldri, en ekki öll, sum börn eiga vini af hinu kyninu og sum börn eiga ekki vini. Sum börn í leikskólum eru einmana. Þetta kom fram í afar áhugaverðum fyrirlestri Fannýjar Jónsdóttur upp í KHÍ í dag.
Fanný Jónsdóttir er leikskólakennari og lektor við kennaraháskólann í Malmö. Í fyrirlestrinum kynnti hún doktorsverkefni sitt um vináttu barna í leikskólum. Hún skoðaði 18 leikskóladeildir í tveimur bæjarfélögum. Hún komst að því að það sem einkenndi þær deildir þar sem börn voru einmanna (vel að merkja í þessari rannsókn, ekkert er verið að alhæfa en kannski má þarna finna vísbendingar), það sem einkenndi þær deildir er að þar er mikil ytri stjórn, þar er mikið talað til barna en minna við börn. Ég les úr að uppeldið sé byggt á fyrirmælum og skipunum, að láta hlýða sér. Sjálf sá ég heilmiklar tengingar milli þess sem styður við vináttu og hugmyndafræði um lýðræði í skólastarfi, við skilgreiningar sem tengjast því að hafa rétt til að tilheyra, til að eiga vini til að geta nýtt reynslu sína og svo framvegis. Að hluta til það sem ég ræddi á ráðstefnunni Raddir barna í síðustu viku.
Á fyrirlestri Fannýjar sem var vel sóttur var meðal annars rætt um hvernig dagskipulag og starfshættir styðja við eða draga úr vináttu barna og þær afleiðingar sem það hefur fyrir börn að alast upp einmana. Fanný er skemmtilegur fyrirlesari, hún þekkti marga í salnum og nýtti sér það óspart. Tengdi fyrirlestur sinn því fólki. Magga þegar þú kenndir mér um uppeldisfræði yngstu barnanna (við Margréti Schram), Sigga þegar við lékum okkur á Brekkunni, Kristín .... Hún notaði allan kroppinn til að túlka það sem hún vildi leggja áherslu á. Fanný er búin að vera lengi, lengi í Svíþjóð og hefur alls ekkert hugsað leikskólafræði á íslensku í áratugi, en það var ekkert mál, þá skaut hún yfir í svísslensku.
Það sem er skemmtilegast við að fara á svona fundi er að hitta alla leikskólakennarana sem mæta, að sjá öll kunnuglegu andlitin og líka þau nýju. Verð að fá að vera aðeins væmin, á svona stundum er ég svo stolt af því að vera leikskólakennari. (snuff snuff)
Eftir fyrirlestur Fannýjar hitti ég nokkra leikskólakennara sem þurftu svolítið að ræða við mig um fyrirlesturinn minn á föstudaginn og túlkun á honum. Virðist sem umfjöllun mín um þátttöku og stýringu starfsfólks í verkefnum og athöfnum barna hafi vakið umræður í þeirra leikskólum. Aðrir hafa komið til mín og viljað halda áfram að ræða vangaveltur mínar um einstaklingsnámskránna. Það verður að segjast að það er ótrúlega skemmtilegt að finna að fyrirlestur vekur svona miklar pælingar. Kannski er það viðeigandi á síðasta Vetrardegi að ræða breytingar og hugmyndir í uppeldismálum því að á morgun hefst nýtt sumar. Þá nær margt fleira að blómstra en náttúran.
Á morgun er nefnilega Sumardagurinn fyrsti, mér þykir reyndar einstaklega vænt um þann dag og að hann skuli enn vera frídagur. Að einn dagur á ári sé helgaður börnum segir svolítið um gildi samfélagsins. Þegar ég fjalla um leikskóla og málefni barna í útlöndum tengi ég gjarnan við Sumardaginn fyrstaog þá sérstöku merkingu sem hann hefur fyrir okkur leikskólakennara. Ég vona að Félag atvinnurekanda takist aldrei að fá þennan frídag burt í samningum eins og stundum hefur heyrst að áhugi sé fyrir.
Á morgun ætla nemar af leikskólabraut HA að lesa fyrir börn upp úr sínum uppáhaldsbókum en þá verður opið hús í Háskólanum á Akureyri. Ég vona að margir foreldrar nýti sér það að kynna sér háskólann og hlýða á sögur.
Gleðilegt sumar.
PS. Hér er slóðin inn á doktorsritgerðina hennar Fannýjar fyrir áhugasama.
Menntun og skóli | Breytt 2.5.2008 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2008 | 18:10
Sturlubarnið rannsakar dýraríkið
Á laugardag kom Sturlubarnið í þessu líka fallega vorveðri í foreldralausa heimsókn. Afinn og amman ákváðu að nota tækifærið og mennta Sturlubarnið aðeins í dýrafræði. Fyrst var farið út í garð og kisan Snati heimsótt. Snati er nú reyndar þeirrar náttúru að vilja ekkert mikið kjass, vill frekar fá að klifra upp í svo sem eins og eina grein á stóra reyninum. En Snata er vel við afa svo hann fékk hana augnablik til sín og hann og Sturlubarnið gátu saman dáðst að Snata (sem er þrílit læða). Það er líka viðeigandi að Sturlubarnið kynnist Snata, Sturla stóri frændi hans sem hann heitir í höfuðið á átti nefnilega Snata fyrst og gaf honum nafn. þegar Snati var búinn að fá nóg af athyglinni þá rúlluðu afi og Sturlubarn stórum fótbolta ögn á milli sín á pallinum.
Í garðinum görguðu mávar himins yfir afa og Sturlubarni. Til að skoða þessi merkilegu dýr og vængjaða ættingja þeirra í návígi ákváðu amman og afinn að skjótast niður á tjörn með Sturlubarn til frekari rannsókna á dýraríkinu. Tjörnin var eins og vænsti drullupollur, brauðið flaut eins og kúkur í rotþró á vatninu, (alveg satt, ég er ekki að ýkja). Fuglarnir sýndi okkur mannfólkinu engan sérstakan áhuga, syntu fjarri öllum bökkum. Sturlubarnið fékk því ekki að sjá önd eða álft í nærvígi, það verður að bíða betri tíma. Hann horfði reyndar hissa á þessi dýr í fjarlægð en ég held að hann hafi meira langað til að steypa sér út í drullupyttinn, enda sennilega líkari sundlaug í augum Sturlubarnsins en rotþró. Hann á nefnilega eftir að læra um þær en sundlaugar þekkir hann.
Amman og afinn eiga vini í miðbænum og vinir þeirra eiga hund. Þar sem menntun barnsins um fánu landsins hafði ekki tekist nógu vel við tjörnina, ákváðu amma og afi að skreppa í heimsókn til vina sinna. Hundurinn fyrrnefndi er tík sem heitir Birta. Birta er fyrir löngu búin að átta sig á að láta ömmu í friði, henni er ekkert of vel við fleður. En afi og Birta eru sérstakir vinir, afi settist því á gólfið með Sturlubarnið og kallaði Birtu til sín. Hún var nú svolítið forvitin um þennan litla mann, hnusaði af honum og Sturlubarnið hló og hló og skellihló. Svo hljóp Birta og Sturlubarnið leit hissa í kringum sig. Hvar er hún? Svo koma hún og skransaði fyrir framan Sturlubarn og hann hló. Amman tók allt vel og vandlega upp á myndband. Þannig að þegar Sturlubarnið seinna þarf að gera grein fyrir fyrstu rannsóknum sínum í dýrafræði á hann um það skráða heimild.
Núna er litla Sturlubarnið lasið, búinn að vera með sama kvef og amma síðan á sunnudag. Amma leit áðan á hann og hann brosti sínu blíðasta og hjalaði. Amma vonar að hann verði fljótur að ná þessu úr sér.
Vinir og fjölskylda | Breytt 22.4.2008 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.4.2008 | 12:37
Af dónaskap mínum og frammistöðu fyrrum bogarstjóra í gær
Það var dónaskapur af minni hálfu í gærkveldi að minnast ekki annarra erinda á ráðstefnunni. Sue Dockett sagði okkur frá rannsóknum sínum á meðal barna í Ástralíu. Hún fjallaði m.a. um siðferðileg álitamál rannsókna og meðal þess neikvæð áhrif hennar eigin rannsókna á aðstæður barna í skólum. Í Ástralíu virðist vera gríðarleg þörf fyrir miklu eftirliti með börnum, þannig jafnvel að þau séu aldrei úr mögulegri augnsýn kennara. Meðal þess sem Sue hefur rannsakað eru leyndir staðir og einkarými barna í skólum. Afleiðingin hefur verið að þegar hún kemur í suma skóla er búið að "taka fyrir" og útrýma þeim stöðum sem börn hafa trúað henni fyrir. Koma í veg fyrir að þau geti átt sitt einkarými.
Ég er undir sterkum áhrifum frá ýmsu sem ég sá í Reggio Emilia í vikunni. Þar er lögð áhersla á að börn geti einmitt búið til og átt slík einkarými. Á einni deildinni sem ég kom á voru nokkur börn búin að fá nóg að heimsókninni og náðu sér í bókastandinn sem er á hjólum og drógu hann út í horn. Þau komu sér þar fyrir 4 og lásu í bókum. Ég spurði leikskólakennarann hvort þau væru að búa til sitt einkarými, já sagði hún, þetta gera þau mikið sækja líka teppi og loka sig af með bækur eða dýr eða eitthvað annað sem þau hafa áhuga á. Þegar Sue svaraði spurningu Umboðsmanns barna um hvað henni væri minnistætt úr æsku, svaraði Sue því til að það væri einmitt lítil kofi úti í garði - að hafa möguleika til að leika án þess að vera undir stöðugu eftirliti hins fullorðna.
Dagur B. Eggertsson ræddi um minningar sínar úr leikskóla, ýmislegt var þar kunnuglegt. En kannski var það frjálsræði sem hann lýsti einkennandi. Dagur átti salinn og ekki síst þegar hann hvatti leikskólakennara til að vera stoltir af sínu, leikskólinn ætti að standa upp og hrópa þetta kunnum við. Viljið þið ekki læra af okkur. Hann taldi að betra væri að vinnubrögð leikskólans smituðu upp i grunnskólann en grunnskólans til leikskólans. Það leyndi sér ekki að hér var hann að ræða um hugmyndir um fimm ára bekki.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sleit svo ráðstefnunni með stuttri samantekt úr erindum.
Ráðstefnan bar það ágæta nafn Raddir barna, kannski er það tímanna tákn að fyrir allmörgum arum hélt félag leikskólakennara ráðstefnu undir heitinu Rödd barnsins, en nú er þetta ekki lengur ein rödd heldur margar. Þetta er sem sagt kórsöngur en ekki einsöngur. þegar Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri Leikskólasvið var að setja ráðstefnuna vitnaði hún m.a. í bók Þórbergs Þórðarsonar um Sálminn um blómið, en svo skemmtilega vill til að fleiri af fyrirlesurum höfðu einmitt hugsað til Þórbergs við undirbúning erinda sinna. Ég held að það séu varla til betri lýsingar á þroska barna en einmitt Sálmurinn um blómið. Kannski að hún ætti að vera skyldulesning í kennaranámi.
Að lokum ætla að fá að vitna beint í hana hér áður en okkar eigið Sturlubarn kemur í heimsókn án foreldra.
Litli sannleiksleitandinn sem hann Sobeggi afi hafði haldið, að alltaf yrði eins og hann Gvuð, var að ummyndast i óskahugsara. Það, sem hún þráði, að væri satt eða ósatt, það varð að vera satt eða ósatt. Hún var að verða eins og stóra fólkið. Hún var að byrja hlutverk sitt í hinum mikla sorgarleik mannkyns. (úr Sálminum um blómið)
Menntun og skóli | Breytt 26.4.2008 kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2008 | 01:53
Lasin að flytja fyrirlestur - og skemmtilegar minningar
þá er dagur að kveldi kominn, ég búin að flytja minn fyrirlestur og hlusta á ýmsa aðra mjög svo áhugaverða. Í morgun vaknaði ég með hita og kvef, en ætli það sé með okkur fyrirlesara eins og þá leikara sem ég fetaði í fótspor að; the show must go on. Ráðstefnan fór nefnilega fram í Borgarleikhúsinu og ég fékk að stíga á stóra sviðið. Rástefnan var aðallega á vegum Leikskólasviðs Reykjavíkuren í samstarfi við RannUng, Rannsóknarstofnun í menntunarfræðum ungra barna. Það var því við hæfi að umgjörðin var borgarinnar.
Binna í Borgarleikhúsinu annaðist vel um mig og, ég fékk soðið vatn til að þamba eða dreypa á þegar hóstaköstin sóttu á mig. Við Binna erum skólasystur frá menntaskólaárum, að hennar sið voru allar veitingar ótrúlega flottar. Ég rifjaði upp fyrsta matarboðið sem ég hélt sjálf fyrir um 30 árum. Binna hjálpaði til við eldamennskuna. Við elduðum nautahakk kryddað með lauksúpu og við það bætt hrísgrjónum, þessum herlegheitum slengdum við ofan á pitsubotna sem við að sjálfsögðum bökuðum og settum tómatsósu á botninn, yfir allt skelltum við svo vænum skammti að osti. Mig minnir að þetta hafi nú bara þótt ágætt í okkar vinahóp. Og öðruvísi pitsur fengu drengirnir mínir ekki í mörg ár. Þeim fannst þær reyndar vandræðalegar og vildu alls ekki bjóða upp á svoleiðis pitsur í afmælum.
Ég var pínu stressuð yfir heilsunni og hafði áhyggjur að því að vera ekki sá fyrirlesari sem ég venjulega er. Við þær aðstæður verð ég að viðurkenna að mér fannst ágætt að vera búin að skrifa allan fyrirlesturinn. Frá orði til orðs, heil fimm þúsund stykki. Mér tókst þetta held ég nokkur veginn skammlaust. Einn og einn sem þekkir vel til mín, söknuðu þess að ég færi ekki inn á milli meira út fyrir efnið. Það væri ég. Öðrum fannst ég vera svo ótrúlega vel skipulögð. Já, svona getur sami atburðurinn virkað mismunandi á fólk.
Sjálfri fannst mér fyrirlestrar þeirra Jóhönnu Einarsdóttur prófessors við KHÍ og Önnu Magneu Hreinsdóttur, doktorsnema og leikskólafulltrúa í Garðabæ áhugaverðastir. Mér fannst ýmislegt sláandi sem þar kom fram, um viðhorf barna til leikskólans. Atriði sem mér finnst okkur leikskólakennurum bera skylda til að ræða betur, kryfja og leita nýrra leiða. Í fyrirlestrum þeirra gáfu þær röddum barna hljóm um viðhorf þeirra og líðan í leikskólanum. Börn eru nösk á þau viðhorf sem þau finna gangvart sér, þau eru nösk á okkur sem kennara og þær væntingar sem þau gera til okkar, annarra barna og umhverfisins. Það er líka ljóst að ákveðin viðfangsefni eiga hug þeirra meira en önnur. Ég hlakka mjög til að lesa doktorsritgerð Önnu Magneu og vona að hún hristi svolítið upp í okkur. Umboðsmaður barna Margrét María Sigurðardóttir var ráðstefnustjóri og tókst það vel. Hún bað okkur öll sem í pontu komum að rifja upp skemmtilegar æskuminningar. Flest tengdum við þær leik, frelsi og því að geta átt stund og stað fyrir okkur. Sjálfsagt hafa ráðstefnugestir flestir farið að rifja upp eigin æsku. Rifja upp það sem skipti þá máli.
Eftir að hafa lagst á mitt græna eyra og sofnað í klukkutíma ákvað ég að ég væri nógu heilsuhraust til að fara út að borða með aðstandendum ráðastefnunnar og fyrirlesurum. Við áttum ánægjulega kvöldstund þar sem margt var krufið og skemmtilegar sögur sagðar.
Að lokum þakka ég Leikskólasviði Reykjavíkur og samstarfsaðila RannUng fyrir að standa fyrir ráðstefnunni og auðvitað sérstaklega fyrir að bjóð mér að tala.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)