Fyrirgefðu, fyrirgefðu sagði innbrotsþjófurinn, haltu bara áfram að sofa

Það finnst ekki öllum það sama kómískt, en innbrotsþjófur sem afsakar sig og segir manni að halda áfram að sofa er samt soldið kómískur. Rétt fyrir klukkan 6 í morgun heyri ég að það er tekið í handfangið á hurðinni í svefnherberginu mínu, hurð sem snýr út í garð. Ég reisi mig í rúminu og horfi í átt að hurðinni. Sé ég ekki kunnuglegt andlit innbrotsþjófs nokkurs sem einmitt er nýbúinn að gera tilraun til að heimsækja okkur stinga hausnum í gegn um gardínurnar.

Ég segi hvassri röddu, "!!!!! hvað ertu eiginlega að gera þarna maður". Garminum bregður svo voðalega að hann fer allur í mínus. Segir "fyrirgefðu, fyrirgefðu ég ætlaði ekkert að trufla, haltu bara áfram að sofa" og svo er hann hlaupinn.

Ég tékka á hurðinni (sem hafði kviklæsts og við erum búin að bæta úr því svo slíkt gerist ekki aftur), leggst aftur upp í og sofna eins og steinn. Eiginmaðurinn við hlið mér opnaði aðeins annað augað og sagði: "er ekki allt í lagi". "Jú, jú" segi ég "þetta var bara hann !!!!!!" og við sofnuðum og sváfum á okkar græna fram á rauða morgun.

Um hádegisbilið segi ég við eiginmanninn; "heyrðu hélstu nokkuð að þig hefði verið að dreyma," "nei, nei en hvað sagði hann !!!!! við þig". Það hefur mikið verið hlegið hér í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mér sýnist að ég komi ekki sem best út úr þessari færslu eiginkonunnar. Saklausa gæti grunað að ég hafi falið mig í skjóli hennar meðan hún dílaði við innbrotsþjófinn. Svo var ekki. Ég vissi sem var að besta leiðin til að flæma innbrotsþjófinn burt var að láta frúna sjá um málið.

Raunar ætlaði ég að stökkva til þegar ég vaknaði rétt sem snöggvast við lætin í frúnni. En þegar ég sá hvaða góðkunningi þetta var þá róaðist ég og hafði ekki áhyggjur. Sami góðkunningi hefur á undanförnum árum 4-5 sinnum gengið inn í húsakynni okkar og virðist þefa uppi ólæstar eða ótryggar dyr. Við höfum komið að honum í öll skiptin (nema hugsanlega í einu tilviki til viðbótar) og aðeins tvisvar séð ástæðu til að láta lögreglu vita, þar af í annað skipti vegna þess að hann var með þýfi úr næsta húsi.

Það eru ekki nema um 2 vikur síðan ég kom að honum að læðast inn um bakdyrnar (brakandi eldhúsgólf er ágætis vörn!) og þá lofaði hann mér einlæglega að láta okkur og okkar hús í friði framvegis. Nú sveik hann það. Hann fær engan annan séns, þótt við höfum ekkert gert í málinu í nótt. Ef hann gerir aftur tilraun til að rjúfa friðhelgi heimilis okkar þá verður honum hvorki hlíft við lögreglu né nafnbirtingu, hversu mikið sem við teljum hann annars meinlausan og vorkennum honum vegna þess sem henti hann og fleiri drengi í æsku. Og ég sem leysti hann út með þúsundkalli síðast í trausti þess að við hefðum komist að heiðursmannasamkomulagi. 

Tek fram að við læsum auðvitað tryggilega fyrir nóttina og alger undantekning ef það gleymist eða ef hurð lokast ekki fyllilega. Sem leiðir hugann að því hversu oft umræddur maður hlýtur að hafa reynt að brjótast inn en læst hefur verið. Líkast til eru það ótal mörg skipti. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.4.2008 kl. 20:08

2 identicon

Þetta kalla ég að taka lífinu með ró.

Diddi (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 20:29

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Er eitthvað annað í boði?

Kristín Dýrfjörð, 26.4.2008 kl. 21:59

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þetta eru dásamleg viðbrögð!

María Kristjánsdóttir, 26.4.2008 kl. 23:19

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta er örugglega rétt með þefskyn þessa manns á ólæstar hurðir. Í fyrravetur gat ég ekki sofið, fór fram og hitaði mér te og las í blaði, heyri þá rjálað við útdyrahurðina og rétt á eftir opnar þessi sem mig grunar að við sé átt í færslunni dyrnar og stendur heimóttalegur í gættinni. Ég bað hann auðvitað bara að standa úti og smellti í lás, prísaði mig sæla fyrir svefnleysið, fyrst gleymst hafði að læsa, hefði ógjarnan viljað fá hann inn á rúmstokk, þó vafalaust sé hann sauðmeinlaus, grey kallinn.

Greta Björg Úlfsdóttir, 27.4.2008 kl. 13:26

6 identicon

Vildi að hægt væri að taka svona á móti öllum innbrotsþjófum, læsa bara á eftir þeim og snúa sér á hina hliðina! Dásamlegt. Vonandi verður heiðursmannasamkomulagið í heiðri haft eftir þetta.

Ásta Kristín Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 23:07

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Orðið innbrotsþjófur er kannski frjálslega notað hérna hjá okkur. Lögin gera greinarmun á innbroti og húsbroti (því að koma óboðinn inn í vafasömum tilgangi en án þess að brjóta sér leið inn, t.d. með kúbeini). Umræddur steluþjófur hefur í okkar tilfellum gerst sekur um húsbrot. Og hann er ekki maður til þess að standa í stórræðum, heldur hygg ég að hann sé í flestum tilvikum fyrst og fremst að leita sér að pening, mat og hlýjum fatnaði.

Hvað heiðursmannasamkomulagið varðar virðist mér ljóst að í mesta lagi einn heiðursmaður var aðili að því.  

Friðrik Þór Guðmundsson, 28.4.2008 kl. 16:11

8 Smámynd: Ásgerður

Haha,,,þetta var nú nokkuð gott,,,farðu bara aftur að sofa

Ásgerður , 29.4.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband