Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Það er "list" að snuða

Fyrir rúmri viku þurfti ég að bregða mér af landi brott í nokkra daga. Þar sem litla ferðataskan hafði orðið eftir fyrir norðan ákvað ég að bregða mér í búð og skoða töskur sem mega fara með í handfarangur. Í einni slíkri sérverslun var nokkuð úrval en vörur ekki allar verðmerktar. Með mér var vinkona mín sem skoðaði handtöskur. Henni leist vel á eina og spyr hvað hún kosti. Afgreiðslukonan varð létt stressuð og hóf leit (það virtist sem svo að flestir verðmiðar hefðu nýlega verið fjarlægðir af varningi búðarinnar) - hún fann svo eitthvert verð og segir við okkur, "æi þið vitið, gengið hefur verið svo á svo mikilli ferð undafarna daga". Ég hugsaði samstundis hér er ég stödd í lifandi dæmi þess að nú á að maka krókinn. Fýkur pínu í mig og ég segi við mína vinkonu, "heyrðu við skulum skella okkur í Eymundson og tékka á hvort töskurnar þar kosta ekki það sama og fyrir jól," en þá hafði ég verið að pæla í tösku (sem þær líka kostuðu). Í dag sat ég í bílnum og heyri sérverslunina auglýsa 20% verðlækkun á völdum töskum. Kannski þeim sem þau hækkuðu í síðustu viku, hvað veit ég.  

Á leið til Reggio Emilia

Í lok næstu viku er ég að fara til borgarinnar Reggio Emilia á alþjóðlega ráðstefnu og námsferð. Í dag hitti ég ferðafélaga mína frá Reykjavíkurborg og var ásamt Guðrúnu Öldu með kynningu á ýmsum sem snýr að Reggio Emilia fyrir þá. Fjölluðum við m.a. um borgina, hvar er best að kaupa parmessan (sem er upprunninn þaðan) og á hvaða kaffihúsi vertinn er alltaf fullur. En líka um samstarf leikskólafólksins og pólitíkusana, um aðferðina sem hefur verið þróðuð þar til að gera nám barna sýnilegt. Um fjölbreytileika og þá sýn sem þar ríkir til barna og náms þeirra.

Við Guðrún Alda tókum með okkur sameiginlegt bókasafn okkar um starf í anda Reggio Emila, þetta voru nokkrir tugir bóka á ýmsum tungumálum. Sú elsta rúmlega 20 ára gömul, nýjasta útgefin 2008. Við ræddum um skipulag leikskólanna í Reggio Emilia, um fjölda starfsmanna og fyrirkomulega deildastarfs, um kaffitíma starfsfólks og um það að þar eru engir leikskólastjórar, en þar eru pedagógistur og atelíeristur. Þ.e. fólk sem hefur sérstaka þekkingu á uppeldisfræði og listum. Það vinnur mjög náið með leikskólakennurunum að því að þróa starfið og þær hugmyndir sem eru uppi hverju sinni. Skoðar og rýnir í skráningar og hvernig hægt er að nýta þær til frekari þróunar.

Í Reggioferðinni núna verða um 15 manns frá Reykjavík, flestir leikskólastjórar sem eru að vinna í anda Reggio Emilia, það verða  5 leikskólakennarar frá leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði og leikskólaráðgjafi þaðan, og svo verða nokkrir kennarar við Myndlistaskóla Reykjavíkur. En Myndlistaskólinn hefur verið í heilmiklu samstarfi við Leikskólasvið Reykjavíkurborgar.  

Sennilega hefur ekki stærri hópur farið héðan frá því að leikskólakennaranemar úr gamla Fóstruskólanum fóru þangað í útskriftarferðir, síðast sennilega 1987. En á þeim tíma var nokkuð auðvelt að heimsækja borgina og leikskólana. Það breyttist með auknum áhuga skólafólks allstaðar úr heiminum.  Í dag heimsækja Reggio fleiri þúsund leikskólakennarar og fræðimenn á hverju ári.  

Ferðin núna er sérstök fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn sem Ísland fær að senda sérstakan hóp í eigin nafni, vonandi verður framhald þar á.


Þessir lesa bloggið mitt

Eftir að hafa haft í gangi alllegni spurningu um hver les bloggið mitt hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðu. Um 60% fastra lesenda er að öllum líkindum leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla. Ef að meðalinnlit á dag er um 200 gestir merkir það að um 120 leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla ítur inn hjá mér daglega. Mér finnst það bara nokkuð gott. Um fjórðungur lesenda eða um 50 daglegir gestir eru almennt áhugasamri um málefni líðandi stundar og barna sem mér finnst líka bara nokkuð gott.

Að lokum þakka ég fyrir þátttöku og er að hugsa næstu spurningu.

 


Leikskólabörn sem kunna að smíða, gera rafmagnstilraunir og leikskólakennari (ég) sem er eilítið utan við sig

Ég skrapp í heimsókn í leikskólann Iðavöll á Akureyri í morgun. Hitti þar fyrir börn og starfsfólk. Settist með hóp 4 ára barna og rabbaði dáldla stund. Börnin voru að búa til kassa utan um fígúru sem þau gerðu um daginn, eitt stelpuskott hafði ekki gert fígúru en gerði kassa. Á þann hluta blaðsins sem klipptur var í burtu hafði hún teiknað fugl. Eftir nokkra umræðu um hvort kassar gætu ekki verið hreiður eða búr, ákvað hún að klippa út fuglinn og setja hann í kassann sem hún ákvað að væri hreiður. Þetta er fullorðinn fugl en ekki ungi sagði hún mér og hann getur þess vegna sjálfur flogið úr hreiðrinu þegar hann vill. Af þessari umræðu dettur út úr mér; Fuglinn segir bí, bí, bí. Bí, bí segir Stína. Og börnin kláruðu; Kveldúlfur er kominn í, kerlinguna mína. Við ræddum svo um kvöldúlfa og hvernig þeir geta komist í börn. Og hvað eru Kveldúlfar eiginlega og hvernig er hægt að losna við þá? Mjög fróðlegar umræður.

 

Ég skoðaði líka smíðagripi sem börnin á Iðavelli hafa verið að gera með Georg Hollander, fyrst ákveða börnin hvað það er sem þau vilja smíða í samvinnu við starfsfólkið og svo gera þau vinnuteikningu af gripunum sínum og smíða þá. Þau eru orðin fær í að nota sagir og bora og ímyndunaraflið. Ég sá broddgelti í ýmsum myndum og Spiderman og kónguló og prinsessur á bleikum skóm, allt hlutir sem börnin smíðuðu sjálf. Núna eru starfsfólkið, börnin og Georg að hanna stórt útlistaverk sem á að eiga heima fram í Eyjafjarðarsveit.

 

Svo skoðaði ég tilraunaborðið hans Arnars, við fórum yfir nokkrar tilraunir og ræddum um frekari útfærslur á sumum þeirra. Arnar hefur safnað innan úr tölvum og hinum ýmsum rafmagnstækjum efni sem er síðan notað í vinnu með börnunum. Þetta er sérstak áhugamál okkar Arnars, ég lærði eina nýja tilraun, sem felst í að búa til einfaldan mótor úr rafhlöðu, skrúfu, segulstáli og vír. Í vor þegar ég verð í langri lotu fyrir norðan hef ég áhuga á að við reynum að smíða segullestarbraut. Sérstaklega þar sem nú er auðvelt að fá nógu sterka segla. Síðast þegar ég reyndi við lestina voru seglarnir mínir ekki nógur sterkir.

 

Svo hringdi síminn á Iðavelli, spurt um mig, þá átti ég víst að vera byrjuð að kenna. Ég hafði einhverveginn bitið mig í að kennsla hæfist ekki fyrr en tveimur tímum seinna. Af einskærri tilviljun hafði einn samkennari minn heyrt mig minnast á það deginum áður að ég ætlaði í heimsókn á Iðavöll. Á leiðinni út af leikskólanum flýtti ég mér svo mikið að ég fór í kápuna mína úthverfa, einni fjögurra ára fannst það frekar fyndið og spurði mig hvað ég héti. Ég náði að snúa kápunni við (hugsaði samt hvort ég ætti ekki bara að skella mér í henni úthverfri, skipti það í raun einhverju máli). Ég dreif mig upp í skóla, þar sem fólk var farið að óttast um að eitthvað hefði komið fyrir mig. (Ég var ekki með gemsann, hafði auðvitað gleymt honum hjá vinkonu minni kvöldið áður). En allt gekk vel og ég kenndi og mætti á flugvöllinn í tíma.

 

Suðurflugið var fínt utan nokkurrar ókyrrðar í Hvalfirðinum og yfir Faxaflóanum. Ég hugsaði og svo er fólk að kvarta þegar komið er niður Eyjafjörð.

 

PS. Svo er SARE (Reggio samtökin) búin að opna fyrir skráningu á okkar frábæru ráðstefnu sem verður í vor. Ráðstefnu sem byggir að miklu leyti á vinnusmiðjum.  Hvet sem flesta til að kynna sér hana.


Gott hjá þeim

Ég sit á skrifstofu minni í Þingvallastræti og heyri sjálfa mig varla hugsa fyrir hávaða úr flautunum. Fremstur er hefill sem fer á svona fimm. Held að þetta séu nokkrir tugir ökutækja. Svo flauta þeir inn á milli lög í kór, sumir hljóma eins og leiðinlegar vekjaraklukkur á meðan í aðrir hljóma eins og kirkjuklukkur, flottur hljóðgjörningur sem þeir eru að fremja.
mbl.is Bílstjórar mótmæla á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband