Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Amma fór til útlanda og Sturlubarnið að skríða á maga

Á fyrstu mánuðum hver barns skiptir hver dagur máli fyrir þroskann, því er hægt að koma ömmum sem skreppa til útlanda í nokkra daga verulega á óvart. Fyrir rúmri viku náði Sturlubarnið þeim áfanga að fara að sitja alveg sjálfur. Heimurinn breytti um ásjónu við það. Og meðan amma var að funda í Stokkhólmi náði hann þeim áfanga að uppgötva hvernig maður getur beitt kroppnum til að færa sig úr stað, til að skríða á maganum. Núna sér Sturlubarnið útundan sér áhugaverðan hlut og leggur af stað til að ná í hann. Amman þarf allt í einu að fara að huga að öryggi Sturlubarnsins á nýjan hátt, að ekkert smálegt verði eftir á gólfum.  

Amman stundi hátt í dag og sagði að nú þyrfti hún og afi að fara að skúra gólfin oftar. Það skal fúslega viðurkennt að ömmu finnst það ekkert sérstaklega skemmtilegt.

Annars eru amma og afi náttúrlega mjög hreykinn af piltinum og amma sýndi sumum vinum sínum í útlandinu valið 40 sekúndna myndband af Sturlubarninu að leika sér með óhefðbundið leikfang sem amma útbjó þegar hann var tveggja mánaða og sagði frá leik hennar og Sturlubarnsins með annað óhefðbundið leikfang. Einhver gerði létt grín af ömmu og spurði hvort að á næstu ráðstefnu hún gæti ekki bara að kynnt verkefnið: amma og Sturlubarnið. 

Um hreyfiþroska barna má lesa og sjá hér og hér og hér og hér (vídeó)

En það þarf líka að muna að hvert barn er sérstakt og hvenær barn er tilbúið líkamlega og andlega til að ná tökum á mismunandi þáttum er einstaklingsbundið, sum börn fara að ganga 9-11 mánaða á meðan önnur gera það 14-16 mánaða, bæði er eðlilegt. Annar sonur okkar fór t.d. að ganga 9 mánaða en hinn 14 mánaða.


Eru "krullubörn" framtíðarbörn - það halda sumir Danir

Hver man ekki eftir auglýsingunni sópa, sópa, sópa, sópa, sem sýndi “landsliðið” í krullu sópa öllum hindrunum úr vegi krullunnar. Í Danmörku hafa leikskólakennarar áhyggjur að því að þetta sé  að verða aðalverkefni foreldra í uppeldinu. Sópa öllum hindrunum úr vegi barna sinna. En afleiðingin eru börn sem aldrei hafa þurft að takast á við hindranir og varla áskoranir. Börn sem ekki kunna að bregðast við ef vandamál og ágreiningur kemur upp. Þetta er meðal þess sem rætt var í dag á ótrúlega skemmtilegri ráðstefnu sem ég er á hér í Stokkhólmi ásamt Guðrúnu Öldu samkennara mínum.

Aðrar áhyggjur fram hafa komið eru að leikskólakennarar séu svo uppteknir af því að “hlusta” á börnin að það hafi leitt til að þeir “láti” börnin stjórna öllu sem þau vilja í starfinu. Við sáum dæmi þar sem slíkt hafði gerst, þar sem börnin fundu leið framhjá því að vinna að verkinu sem ákveðið hafði verið. Þetta gerðist af því að leikskólakennararnir “gleymdu” því að þeir eru samverkamenn sem bera jafnframt ábyrgð á þeim námstækifærum sem eiga að vera til staðar í leikskólanum. Okkur fannst börnin vera klár að nota hugmyndir leikskólakennarana lítillega upp á punt inn í sitt verkefni, svona til að leikskólakennurunum fyndist þeir hafa haft eitthvað að segja. Þetta er merkilegt verkefni sem leiddi okkur fram til spurninga eins og; hvað það merki að hlusta á börn, hversu langt á að ganga í lýðræðisátt og hvort það sé í raun lýðræði sem birtast í svona starfsháttum. Amalia Gambetti frá Reggio Emilia, var einstaklega dugleg að leiða hópinn í sameiginlegri ígrundun og samræðu í dag.

Fyrirkomulag ráðstefnunnar er að hvert land fær 45 mínútur til að kynna sitt verkefni og svo eru aðrar 45 mínútur í beinu framhaldi sem fara í að ræða verkefnið. Hér er enginn í því hlutverki að segja þetta er flott hjá ykkur, vá, vá. Heldur hvað voruð þið að hugsa, hvað lærðuð þið, hvað lærðuð börnin, samfélagið, foreldrarnir af verkinu, hvernig var hhugmyndafræðileg undirstaða þess. Hvaða tilgátur settu börnin fram, en þið...    

 

Á morgun fáum við Guðrún Alda tækifæri til þess að kynna okkar verkefni og fá á það gagnrýni, við bíðum spenntar. Svo erum við búin að vera að funda um mögulega sýningu frá Reggio Emilia á verkum barna og starfsfólks árið 2010. Margir muna enn eftir sýningunni sem var á Kjarvalsstöðum 1988. Hér er annars kalt og snjór og þykkar peysur hafa komið sér vel.  

Vorverkin - ég er farin að hlakka til þeirra

Nú fer sá tími í hönd sem krefst nærveru í garðinum. Þegar vorlaukar fara að skjóta upp kollinum og blómstra. Hjá okkur hafa það löngum verið krókusar og vetrargosar sem fyrstir blómgast, núna eru það litlir hvítir dropar (laukar sem ég setti niður í haust og man ekki hvað heita). Ósköp fíngerðir og fallegir í óhrjálegum beðum. Ég setti niður vel á annað hundrað lauka í haust, aðalspennan nú er hvað kemur upp af þeim.

Við kláruðum aldrei að helluleggja gamla hesthúsið sem við grófum óvart niður á í garðinum í fyrra, það er eitt þeirra verka sem nú bíða og já að kaupa nýtt grill. Ákváðum að “dömpa” því gamla enda orðið 13 ára og búið að gera sitt gagn. Orðið illa farið af ryði og síðustu ár hefur aðeins einn brennari verið í lagi.      

 

Ég hef líka verið að hugsa um hvort ekki sé ágætis hugmynd að hengja kassa á garðveginn og setja í  jarðarberjaplöntur. Sé fyrir mér góða uppskeru um mitt sumar. Rjómi og jarðarber, þetta var uppáhaldið hans Sturlu á sumardögum. Mamma er með mikla jarðarberjabreiður í garðinum hjá sér og þar eru gefin út átleyfi þegar líða fer á sumar, fram að því stelast flest börnin undir hvíta jarðvegsdúkinn og næla sér í nokkur. Ég held að krökkunum finnist þau sætari þannig **). Flest börn í fjölskyldunni tengja held ég jarðarber góðum minningum um heita sumardaga í garðinum í Skeifu hjá ömmu og afa. Berin eru líka mun vinsælli en grænkálið sem þar vex líka (ásamt öllu hinu sem mamma ræktar).      

 

Svo fórum við í kirkjugarðinn um páskahelgina ætluðum að hreinsa af leiðinu hans Sturlu (og afanna hans), en þá höfðu duglegir starfsmenn kirkjugarða verið á undan okkur. Öll beðin í reitnum voru snyrtileg og fín. Við erum líka loks búin að kaupa stein, verðum samt að bíða fram á vor eftir honum. Verður grágrýtisdrangi lagður á hlið yfir öll leiðin.  

 

af pallinum  

Og já ég legg hér með fram formlega kvörtun yfir snjónum hér fyrir utan. Hann var indæll, en nú er komið nóg. (Svo sá ég eitthvað um það á 60 mínútum áðan hvað það er óhollt að sofa ekki svo ég er hugsa um að koma mér í bælið).


Gripum góðkunningja löggunar í dyragættinni

Ég sat og horfði sænskan krimma í danska sjónvarpinu rétt eftir miðnættið þegar ég heyri að það er tekið í útidyrahurðina. Ég kalla í Lilló sem átti náðugan tíma með sódúkúinu sínu við eldhúsborðið að aðgæta málið (eldhúsið er einum metra nær útidyrunum en sjónvarpsherbergið). Hann stökk fram og sá að það var komin rifa á útidyrnar, stekkur út og sér í hælana á einum góðkunningja lögreglunnar. Við húshornið nær hann honum og í leiðinni ýmsum gripum sem höfðu verið hreinsaðir úr vösum nágranna okkar í næsta húsi. Vinurinn reyndi þrátt fyrir að vera gripinn með hendurnar glóðvolgar að bera af sér gerðina, það hefðu nú verið einhverjir aðrir að verki. Lilló náttúrulega trúði honum mátulega. Við eiginlega vorkenndum honum soldið og voru að spá í hvort við ættum nokkuð að vera ónáða lögguna, en ákváðum svo nágranna okkar og kannski kortanna þeirra vegna að það væri betra. Höldum að þessi góðkunningi sem hefur nú reyndar áður gert sér dælt við ganginn hjá okkur hafi verið að leita að klinki og kannski einhverju til að hlýja sér.

Þetta er ekki fyrsta og sjálfsagt ekki síðasta skiptið sem einhver athugar með hurðina hjá okkur. Venjulega munum við eftir að læsa um leið og við komum inn - en í kvöld var ég með dót úr veislu dagsins í fanginu og gleymdi því alveg. Löggan kom svo snarhendis tók af okkur skýrslu og kom fengnum í hendur rétts eigenda.

Sannarlega vona ég svo að þessi góðkunningi löggunnar finni sér hlýjan náttstað.  

Að lokum verð ég að segja að ég hlæ enn af þjófunum sem stálu öllu lífrænt ræktaða grænmetinu okkar hér um árið.  


Sturlubarnið elskar að fara í feluleik og við að leika við hann

Margir telja það að fara í feluleik (pík a bú) við ungabörn einn mikilvægasta leik sem leikinn er. Hann gegni lykilhlutverki í þróun hugmynda barna um að hlutir séu til þó þeir sjáist ekki. Sturlubarnið elskar að fara í feluleik. Hvar er Sturla? Þarna er hann! Hendur, bleyja, hvað sem er, er notað til að fara í leikinn. Sturlubarnið er glatt barn sem brosir nánast hringinn en þegar við fórum í hvar er Sturla, hlær hann dátt. 

Í kvöld kom Sturlubarnið með foreldrum sínum í mat. Á eftir matinn settumst ég og Sturlubarnið inn í sjónvarpsherbergi. Pabbi hans var frammi og kom hoppandi fyrir horn inn í herbergið og sagði ákveðinni röddu; hvar er Sturla? og veifaði höndunum. Og Sturlubarnið hló og hló, og svo fór pabbi aftur fram og endurtók leikinn. Eftir tvö skipti fór Sturlubarnið að bíða, horfa í áttina að hurðaropinu. Og að sjálfsögðu varð hann ekki fyrir vonbrigðum, pabbi kom og lét honum bregða og hann hló. Svo bað ég um að afi mundi hoppa inn í stað pabba. Ég vildi sjá hvað gerðist. Sturlubarnið horfði eftirvæntingarfullur í áttina að hurðinni. Beið eftir pabba, tilbúinn á svipinn að fara að hlæja, nema að það er afi sem birtist.  Á munninn kom skeifa svo fóru munvikin að titra og tár lak niður kinn. Til að laga stöðuna varð pabbi að koma og bregða litla barninu og allt varð gott á ný. Afi spilaði svo bara nokkur lög á gítar og söng með og hann og Sturlubarnið voru aftur orðnir bestu vinir.

  

Rakst á þessa síðu um ungabörn, getur verið áhugaverð fyrir aðrar ömmur (kannski líka afa og jafnvel foreldra) líka.  


Ég lofa að hrósa

Howard Gardner* kom hingað fyrir nokkrum árum og hélt fjöldamarga fyrirlestra í Kennaraháskólanum um kenningar sínar og rannsóknir. Í umræðum eftir einn fyrirlesturinn varpaði ég til hans spurningu um atferlismótunaraðferðir og fjölgreindakenninguna. Nú rita ég svarið eftir minni en það var eitthvað á þá leiða að hann eins og fleiri sá það geta verið not fyrir atferlismótunaraðferðir við ákveðnar aðstæður en mælti ekki með að fólk byggði uppeldisstarf sitt á þeim, þær væru verkfæri í kistu sem stundum er hægt að grípa til en þær eru ekki kistan sjálf.

Til að koma í veg fyrir mögulegan misskilning þá ætla ég að taka fram að það er ekki svo að ég taki mark á öllum fræðigreinum sem ég les, ekki einu sinni þó mér finnist vit í sumu sem þar kemur fram. Mér dugir ekki alltaf, að hægt sé að segja tölfræðilega er hægt að sýna fram á svona eða hinsegin tengsl. Og það að ég velji að vekja athygli á hugmynd á jákvæðan hátt, þýðir ekki að ég sé fylgjandi henni 100%. Dæmi um þetta er greinin hér að neðan um Kohn. Ég tek undir áhyggjur hans af slæmum afleiðingum atferlismiðaðra uppeldisaðferða. Þegar ég las hana, fann ég samhljóm með mínum eigin áhyggjum. Mér finnst margt umhugsunarvert fyrir mig og jafnvel aðra sem þar kemur fram. Þess vegna valdi ég að vekja á henni athygli.    

 

Til að vera trú mínum eigin hugmyndum og lífsýn verð ég að taka fram að ég held að ÖLL börn séu hugsandi verur. Öll börn taki sjálfstæða afstöðu til hugmynda og hluta. Ég hafna hugmyndum um að börn séu eins og svampar eða leir sem hægt er að móta að vild, þau eru gerendur í eigin lífi. En ég held líka að það sé hægt að gera börnum illt og uppeldisaðferðir sem byggja ALFARIÐ eða að stærstu leyti á hugmyndum um ytri aga og atferlismótun, tel ég vera af hinu illa (benda á aðra færslu hér að neðan um börn sem ögra).  

 

Sjálf ætla ég að halda áfram að hrósa, halda áfram að sýna tilfinningar (bæði þegar ég gleðst og reiðist), halda áfram að láta fólk vita þegar mér finnst það gera vel, ég ætla að halda áfram að klappa á tónleikum og í leikhúsi, ég ætla áfram að vera hrifnæm, ég ætla að halda áfram að verðlauna eða hegna stjórnmálamönnum með því að kjósa þá eða kjósa ekki í prófkjörum og kosningum, ég ætla að halda áfram að segja ungum frænkum og frændum að mér finnist frammistaða þeirra í hinu ýmsu tómstundum stórkostleg.   

 

En samtímis lofa ég að útdeila hrósum ekki eins nammi, lofa að gera mitt besta til að nota það ekki til að drepa frumkvæði eða stuðla að því að börn verði hrósfíkin og auðvitað lofa ég að vekja áfram athygli á greinum sem vekja áhuga minn.

Gardner var hér á vegum Íslensku menntasamtakanna.


Niðurdrepandi hrós

Fyrir nokkru var mér fært dýrindis myndband úr leikskólastarfi. Stoltir foreldrar höfðu fengið það í leikskólanum sem dæmi um það frábæra starf sem þar á sér stað. Á myndbandinu var sýnd hreyfistund með tónlist. Fyrst byrjuðu öll börnin að hreyfa sig skipulega í tengslum við tónlistina sem leikin var undir. En smá saman hættu þau því og á endanum voru tvö börn sem hreyfðu sig. Þessi tvö litu samt reglulega í átt að starfsmanninum og hikuðu. Hvað var að gerast? Alveg frá því að börnin og starfsfólkið kom inn í salinn, heyrðist hávært gjamm í starfsmanninum, hann nefndi í óða önn nöfn barnanna og svo kom; vel gert, flottur, flottur, flott Jóna, flott Sigga, flottur Andrés, frábær frammistaða Gylfi, glæsilegt Anna og svo framvegis. Börnin sem byrjuðu í upphafi að hreyfa sig í takt við tónlistina af innlifun, hættu því smá saman og biðu eftir að heyra nafnið sitt, þau litu í átt til þessa háværa starfsmanns sem útdeildi hrósum eins og nammi. Það vill svo til að þau börn sem lengst héldu áfram að hreyfa sig voru þau sem fengu mest hrósið, þeirra  nöfn voru oftast nefnd. Við lok hreyfistundarinnar stóðu flest börnin aðgerðarlaus og fylgdust með þeim sem enn fengu hrós.

 

Ég skal viðurkenna að ég var í sjokki. Er enn í sjokki í hvert sinn sem ég horfi á myndbandið. Ég upplifði það sem mér finnst vera hræðileg birtingarmynd  falskra hrósa. Þegar ég rakst á grein Kohn um fimm ástæður þess að sleppa því að nota hrós og verðlaun sem uppeldisaðferð(færslan hérna á undan) varð mér strax hugsað til þessa myndbands.  

   

Það er holl starfsaðferð að taka upp vinnu sína annað slagið. Ég vona sannarlega að í þessum leikskóla og öðrum noti starfsfólk slík myndbönd til að kryfja starfið.

Ég er þeirrar trúar í lífinu að það skipti máli að vera glöð og jákvæð, almennt reyni ég að tileinka mér slík gildi, (hvort mér tekst það er svo annað mál). Ég hef stundum rætt um að við fullorðna fólkið kunnum ekki að hrósa, en kannski er það frekar að við kunnum ekki að vera jákvæð gagnvart öðrum og aðstæðum okkar. Ætli glösin okkar eru séu ekki að jafnaði hálftóm?  


Ef þú vilt drepa frumkvæði, verðlaunaðu það. Getur verið neikvætt að hrósa/verðlauna börn?

Sumarið 2000 var haldin hér á landi merkileg ráðstefna um Öfga öfganna, um áhrif flóða á umhverfið, einn fyrirlesarinn var prófessor Victor R. Baker frá Arizona í Bandaríkjunum en hann ræddi um flóð á plánetunni Mars. Með honum í för var kona hans Pauline Baker sem þá hafði nýlega sigrast á krabba og var ferðin hingað hennar eigin verðlaun. Pauline er áhugamanneskja um leikskólauppeldi í anda Reggio Emilia. Og einmitt í gegn um slík alþjóðleg tengsl hafði hún upp á mér. Dagana sem flóð og afleiðingar þeirra á heiminn voru rædd á Grand hótel, fórum við víða, skoðuðum leikskóla, landið og borgina. Við ræddum auðvitað mikið um leikskólamál. Þegar við kvöddumst sagðist hún ætla að senda mér bók sem ég hefði örugglega áhuga á. Bókina fékk ég svo skömmu seinna. Af öðrum ástæðum fór líf mitt á haus seinna þetta sumar og ég hafði ekki samband til baka og missti tengslin við Pauline.  

 

Bókin sem ég fékk, heitir því skemmtilega nafni Punished by reward eða Refsað með verðlaunum og er eftir Alfie nokkurn Kohn. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að til lengri tíma litið sé sú uppeldisfræði sem byggir á arfleið Skinners hættuleg fyrir börn og þ.a.l. samfélagið. Hann styður niðurstöður sínar með ýmsum rannsóknum sem gerðar hafa verið síðastliðna áratugi. Í tímaritinu Young Children, (sem margir leikskólakennara þekkja vel) september, 2001 er grein eftir hann um fimm ástæður þess að hætta að hrósa börnum í tíma og ótíma fyrir vel unnin verk.   

 

Ég ákvað í tilefni Páska að draga fram þessar fimm ástæður og hvað hann telur að geti komið þeirra í stað. En áhugasömum vísa ég annars á heimasíðu Kohn. 
  1.  DULIN STJÓRN. Segjum sem svo að þú notir orð til að styrkja eða verðlauna hegðun hjá tveggja ára barni sem borðar matinn sinn án þess að káma allt út, eða fimm ára barni sem tekur litina sína saman eftir notkun. Kohn spyr hver hagnast á hrósinu? Hann veltir fyrr sér hvort það hafi minna með tilfinningarlegar þarfir barna að gera en meira með okkar eigin þægindi.  Hann vísar til Rhetu DeVries sem margir leikskólakennarar þekkja frá námsárum sínum, en hún nefnir þessa tegund stjórnunar “sykurhjúpaða stjórnun” (sugar-coated control). Þar sem málið snýst um að við gerum eitthvað við börn til að fá þau til að fara að óskum okkar. En hún bendir á muninn á að gera við og gera með. Sem dæmi að ræða við börn um áhrif þess á aðra að ganga ekki frá eftir sig eða ræða um hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra. Að nota í sífellu GOD JOB eða FLOTTUR getur auðveldað líf okkar fullorðna fólksins í skamman tíma en til lengri tíma er afleiðingin fíkn barna í hrós.
  2. Þá kemur að ástæðu númer 2, að við sköpum HRÓS FÍKLA. Því meira sem við hrósum börnum fyrir allt og ekkert því meira fara þau að treysta á dómgreind og ákvarðanir okkar um hvað er gott eða slæmt. Viðmið þeirra verða hvort þau fá hrós eða bros frá okkur ekki þeirra eigin gleði yfir vel unnu verki. Kohn bendir á rannsókn Rowe sem komst að því að börn sem biðu eftir styrkingu hróssins voru líklegri til að gefa eftir eigin hugmynd og svar, þau svöruðu líka gjarnan í spurnartón. Dæmi: kennari spyr hvað eru  5 + 5, barnið svarar í spurnartón 10. Önnur afleiðing er að þau voru líka ólíklegri til að halda áfram við erfið verkefni og að deila hugmyndum með öðrum. Kohn kemst að þeirri niðurstöðu að FLOTT – FLOTTUR geti leitt börn inn í vítahring sem erfitt er að komast út úr. Vítahring þess að treysta sífellt á hrós og viðurkenningu annarra. Hann spyr; viljum börnum okkar þá framtíð að geta aldrei treyst á eigið sjálf, heldur á hrós og viðurkenningu annarra?
  3.  AÐ RÆNA BÖRN ÁNÆGJU. Börn eiga skilið að upplifa ánægju þess að hafa tekist vel til. Að finna til stolts yfir eigin afrekum. Börn eiga rétt til að ákveða hvenær þau finna til stolts. Með því að vera síflett að hrósa þeim fyrir allt, með sífellt að klifa á flott, flottur, vel að verki staðið erum við í leiðinni að segja börnum hvernig þeim á að líða. Kohn bendir á að það sé enginn að halda því fram að hrós sé ekki viðeigandi stundum. Auðvitað er það notað sem leið í uppeldi, en stöðugur straumur hrósyrða, og gildisdóma um verk barnanna, er hvorki nauðsynlegt né börnum notadrjúgt. Sjálfur segist hann gleðjast og geyma með sér andartök þegar dóttir hans gerir eitthvað í fyrsta sinn eða gerir eitthvað alveg sérstaklega vel. En hann segist reyna að halda aftur af sér með að hrósa henni, vegna þess að hann vill að þau eigi þessa ánægju saman en ekki að hún líti til hans og bíði eftir úrskurði um vel eða illa unnið verk. Hann segist vilja heyra, ég gat það, ég gerði það, í stað þess að heyra: Var þetta flott hjá mér?
  4.  MISSA ÁHUGANN. Sífelldar setningar eins og FLOTT VERK getur stuðlað að því að börn haldi áfram að mála (eða hvað annað) eins lengi og hrósið kemur. Hann bendir á annan leikskólasérfræðing sem við leikskólakennarar þekkjum vel Lilian Katz en hún segir að um leið og athygli kennarans fer af verkinu (hrósið stoppi), geti þessi aðferðafræði leitt til að það líði langur tími þar til að börn taki upp viðkomandi verkefni aftur. Málið verði ekki að teikna, lesa eða hugsa, heldur að fá verðlaunin, hvort sem þau eru hrós, ís eða límmiði. Kohn segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að því meira sem fólki er hrósað því líklegra sé það til að missa áhugann á verkinu. Hann vísar í rannsókn Grusec um börn sem fengu iðulega hrós fyrir örlæti, þau höfðu tilhneigingu til að sýna minna örlæti í daglega lífinu en börn sem ekki var hrósað.  Þannig að örlæt var ekki eitthvað sem skipti máli í sjálfu sér, heldur eitthvað sem þú fékkst verðlaun fyrir frá fullorðnum.
  5. DRAGA ÚR ÁRANGRI. Ekki nóg með að VEL GERT, flottur geti dregið úr sjálfstæði barna, heldur sýna rannsóknir að börnum sem er hrósað fyrir skapandi starf, séu líkleg til að eiga erfitt með næsta verkefni og þau nái ekki sama árangri og börn sem ekki er hrósað.

Kohn veltir fyrir sér hversvegna þetta gerist. Að hluta telur hann það vera vegna þess að pressan við að halda í fyrri árangur stendur í veginum. Að hluta vegna þess að þessi börn eru ólíklegri til að þora að taka áhættu (sem er í raun forsenda sköpunar). En almennara vegna þess að “Flott, vel gert” smættar alla mannalega hegðun í það sem hægt er að mæla og sjá. Þá er horft framhjá, hugsunum, tilfinningum og gildum sem að baki liggja. Og verst að öllu afleiðingin er að börn fara á endalausar veiðar eftir hrósi.   

Kohn mælir almennt með meiri og lýðræðislegri hugsunargangi og vinnubrögðum í skólum. Þar sem hlustað er á börn og á þeim tekið mark. Hann biður fólk líka að hugsa um þrjár aðferðir til að svara börnum þegar þau gera eitthvað sem við, hin fullorðnu, erum stolt af.

  • Segðu ekkert.
  •  Orðaðu það sem þú sást/upplifðir. “Þú settir skóna sjálf í hilluna”, “þú tókst til eftir þig, þér tókst það”. Með þessu sýnir þú barni að þú hafir tekið eftir því. Þú getur líka í stað þess að segja “fín eða flott teikning” sagt, “þetta er nú stór dreki”. Þegar þú vilt hrósa fyrir örlæti, er hægt að draga athygli að líðan þess sem verður fyrir örlætinu, “sjáðu hvað amma varð glöð þegar þú gafst henni teikninguna þína”.
  • Enn betra en orðun er spurning. “Hvað líkar þér best við teikninguna þína?”, “hvað var erfiðast að teikna?”, “hvernig fattaðirðu hvað allt átti að vera stórt?”,  "hvað viltu segja mér um teikninguna þína?"

Að lokum, Pauline Baker sá ég svo ekki aftur fyrr en ég heimsótti leikskóla í Stokkhólmi með alþjóðlega Reggio netinu síðasta sumar. Þegar við komum í einn leikskólann sátu þau hjón og biðu hópsins. Þau höfðu þá hitt Gunnillu Dahlberg í Helsinki þar sem þau gistu öll í gistiheimili sem háskólinn í Helsinki á, en Victor hafði verið með erindi þar. Gunilla bauð þeim yfir og að taka þátt í hluta af dagskránni. Þetta varð skemmtilegur endurfundur. Já heimurinn er lítill.

* Fyrirsögnin "Ef þú vilt drepa frumkvæði, verðlaunaðu það" er frá Kohn komin.


Sturlubarnið í kafsundi

Sturlubarnið hefur ástundað ungbarnasund af miklum móð, kvef og nefrennsli eru ekki látin stoppa sundferðir kappans. Foreldrarnir segja að um leið og hann er borinn inn í sundlaugina byrji hann að iða og brosa. Þegar við fylgdumst með fyrir rúmum mánuði, var honum dýft eldsnöggt í kaf, nú er kafsundið aðalskemmtunin. En stundum segir ein mynd meira en 1000 orð.

synda bro
synda
 

Að viðurkenna trúarlegan bakgrunn leikskólabarna

Nýlega hélt ég erindi í Akureyrarkirkju um tengsl kirkju og skóla. Ég sagði þar m.a. að ég teldi mikilvægt að við viðurkenndum áhrifavalda í lífi barna. Leikskóli sem lokar umheiminn úti og starfar samkvæmt rómatískri mynd af börnum, sýslandi með trékubba og leir, er ekki endilega að gera það. Slíkir leikskólar vinna iðulega samkvæmt þeirri stefnu að viðurkenna í raun aðeins þá áhrifavalda í lífi barna sem þeir sjálfir velja. Þegar slíkt val á sér stað er næsta víst að óþægileg atriði eins og trúarbrögð sérstaklega minnihlutahópa og dægurmenning fjölþjóðafyrirtækja eru sett út í kuldann. 

 
Margir vita að ég er lítt fylgjandi samstarfi kirkju og skóla þar sem fulltúrar kirkjunnar eru í samskiptum og samverustundum með börnum inn í leikskólanum. En ég er hins vegar fylgjandi því að börn eiga ekki að upplifa reynslu sína og fjölskyldu sinnar út á jarði samfélagsins. Þess vegna skiptir máli í leikskólum að börn kynnist því snemma að fjölskyldur og bakgrunnur þeirra er mismundandi. Það á líka við um trúarlíf og lífssýn foreldra. Nýlega rakst ég á grein um hvernig leikskólinn getur virt og kennt um mismunandi trúarbrögð í gegn um barnabókmenntir. Mér finnst að sú grein eiga erindi við íslenska leikskólakennara og jafnvel fleiri.
 

Þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla 1978 voru fáar barnabækur fyrir yngsta aldurshópinn til á íslensku. Þar sem ég starfaði var hins vegar til mikið úrval af dönskum barnabókum. Þær voru þýddar á mismunandi hátt, stundum var íslenska þýðingin skrifuð á milli lína. Stundum var sett blað yfir með þýðingunni sem maður gat lyft upp (svona ef viðkomandi treysti ekki þýðingunni) og stundum var límt alveg yfir danska textann. Þessir dagar er nú alveg liðnir, töluvert úrval barnabóka fyrir yngstu börnin kemur út á hverju ári. Hins vegar er hægt að velta fyrir sér hvað sýna þessar bækur, er fjölbreytileiki mannlífsins, bæði frá kynþætti, trú og t.d. fötlun mjög augljós í þessum bókum. Nýlega unnu nemar hjá mér verkefni og skoðuðu m.a. útgefnar bækur síðustu ára fyrir leikskólaaldurinn. Þeirra niðurstöður eru að bækur síðustu 3-4 ára séu frekar einsleitar, að fjölbreytileiki sé undantekning en ekki regla. Kannski að það bíði metnaðarfullra leikskólakennara að fara aftur að þýða bækur, núna kannski úr ensku frekar en dönsku.  
 

Ég hvet hinsvegar leikskólakennara sem hafa áhuga á lífi barna, áhuga á að virða bakgrunn og fjölbreytileika fjölskyldna að kynna sér grein þeirra Peyton og Jalongo frá því í febrúar 2008, sem ber heitið:Make Me an Instrument of Your Peace: Honoring Religious Diversity and Modeling Respect for Faiths Through Children’s Literature.

Í sama riti er líka að finna yfirlit yfir barnabækur sem ætti að nýtast þeim sem hafa áhuga á að kynna fyrir börnum trúarlegan fjölbreytileika mannlífsins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband