Niðurdrepandi hrós

Fyrir nokkru var mér fært dýrindis myndband úr leikskólastarfi. Stoltir foreldrar höfðu fengið það í leikskólanum sem dæmi um það frábæra starf sem þar á sér stað. Á myndbandinu var sýnd hreyfistund með tónlist. Fyrst byrjuðu öll börnin að hreyfa sig skipulega í tengslum við tónlistina sem leikin var undir. En smá saman hættu þau því og á endanum voru tvö börn sem hreyfðu sig. Þessi tvö litu samt reglulega í átt að starfsmanninum og hikuðu. Hvað var að gerast? Alveg frá því að börnin og starfsfólkið kom inn í salinn, heyrðist hávært gjamm í starfsmanninum, hann nefndi í óða önn nöfn barnanna og svo kom; vel gert, flottur, flottur, flott Jóna, flott Sigga, flottur Andrés, frábær frammistaða Gylfi, glæsilegt Anna og svo framvegis. Börnin sem byrjuðu í upphafi að hreyfa sig í takt við tónlistina af innlifun, hættu því smá saman og biðu eftir að heyra nafnið sitt, þau litu í átt til þessa háværa starfsmanns sem útdeildi hrósum eins og nammi. Það vill svo til að þau börn sem lengst héldu áfram að hreyfa sig voru þau sem fengu mest hrósið, þeirra  nöfn voru oftast nefnd. Við lok hreyfistundarinnar stóðu flest börnin aðgerðarlaus og fylgdust með þeim sem enn fengu hrós.

 

Ég skal viðurkenna að ég var í sjokki. Er enn í sjokki í hvert sinn sem ég horfi á myndbandið. Ég upplifði það sem mér finnst vera hræðileg birtingarmynd  falskra hrósa. Þegar ég rakst á grein Kohn um fimm ástæður þess að sleppa því að nota hrós og verðlaun sem uppeldisaðferð(færslan hérna á undan) varð mér strax hugsað til þessa myndbands.  

   

Það er holl starfsaðferð að taka upp vinnu sína annað slagið. Ég vona sannarlega að í þessum leikskóla og öðrum noti starfsfólk slík myndbönd til að kryfja starfið.

Ég er þeirrar trúar í lífinu að það skipti máli að vera glöð og jákvæð, almennt reyni ég að tileinka mér slík gildi, (hvort mér tekst það er svo annað mál). Ég hef stundum rætt um að við fullorðna fólkið kunnum ekki að hrósa, en kannski er það frekar að við kunnum ekki að vera jákvæð gagnvart öðrum og aðstæðum okkar. Ætli glösin okkar eru séu ekki að jafnaði hálftóm?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Frábær grein og afar þörf áminning fyrir alla uppalendur. Gæti haft um þetta mörg fleiri orð en greinin sem þú bendir á er fín. Takk Kristín.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.3.2008 kl. 17:50

2 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Rakst á síðuna þína eiginlega bara óvart og langar að deila smá með þér. 

Ég var að lesa hér að neðan um hrós og hrósfíkn, og held þvímiður að ég eigi eitt stykki hrósfíkil, á meðan ég er alveg viss um að ég hafi verið svoleiðis sjálf sem barn 

En eitt get ég sagt þér að um leið og ég var að lesa þetta hjólaði litla trítlan okkar alveg sjálf í fyrsta skipti og ég dreif í að nota þessar aðferðir, ss í staðinn fyrir að hoppa upp og hrósa sagði ég "Nú hjólar þú sjálf, við verðum að sýna ömmu þegar hún kemur" og nú hættir hún ekki að hjóla og við ætlum sko að sýna ömmu þegar hún kemur, rosalega spes hvað þetta hefur strax áhrif og enginn vafi á því að þetta verður gullin regla á þessu heimili hér eftir

Takk fyrir

Ylfa Lind Gylfadóttir, 22.3.2008 kl. 10:09

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk bæði, en í tengslum við færsluna hér að neðan langar mig til að deilda með ykkur smá reynslu. Fyrir nærri 20 árum var ég á ráðstefnu í Kaupmannahöfn þar sem verið var að fjalla um samskipti m.a. þar kom fram að í þeirri rannsókn (sem var gerð á Spáni) sendi starfsfólk mjög sjaldan óyrt skilaboð til barna, t.d. í formi bros og börnin urðu að vera fyrir framan þau til að ættu í samskiptum við þau. Á það var bent að börn leituðu að staðfestingu á því sem þau eru að gera og við sem höfum unnið með börnum vitum líka að þeim er í mun að geðjast okkur, þau leita til okkar eftir staðfestingu og viðkenningu.

Á þessum tíma var ég leikskólastjóri og ákvað að taka þessa rannsókn alvarlega. Eftir þetta tileinkaði ég mér að nota ýmis merki, svo sem bros, blikk, lyfta putta og svo framvegis meira og markvissara en ég hafði áður gert, ef ég vildi láta barn í fjarlægð vita að ég hafi tekið eftir því. Nú gerði ég enga rannsókn en ég er viss um að þetta skipti máli.    

Kristín Dýrfjörð, 22.3.2008 kl. 11:47

4 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Takk fyrir þessa ábendingu Kristín, gott innlegg fyrir  okkur í skólanum því við erum mikið að velta hrósi fyrir okkur þessa dagana. Ég var einu sinni vitni að hrósi sem var umhugsunarvert.  Kennari sem gargaði mikið og talaði í kvörtunartón alla daga kom að nemendum sem unnu vel og voru "stillt" , gargaði á þau "mikið svakalega eruð þið dugleg núna" en í sama tón og hún notaði þegar hún skammaðist. Þau litu hissa á hana sem og ég gerði en hún var nokkuð ánægð með sig.

Rósa Harðardóttir, 22.3.2008 kl. 22:38

5 identicon

Er það að nota hrós ekki atferlismótun? Í hvaða líki sem það er?

Bergljót Björg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 13:01

6 identicon

Áhugaverðar hugleiðingar. Mig langaði bara að benda á að atferlisstefnan og notkun hagnýtrar atferlisgreiningar er misskilin af ansi mörgum og oft eru það einstaklingar, kennarar og aðrir, sem hafa litla eða enga þekkingu á grundvallaratriðum fræðanna sem agnúast út í gagnleysi þeirra og slæm áhrif á börn. Alfie Kohn fer þar fremstur í flokki. Sá herramaður lifir í einhverjum útópíuheimi og hefur færni í vísindalegri aðferðafræði á við fjögurra ára barn. Úthrópar atferlisgreiningu sem skaðlega, en hefur ekki lesið rannsóknir úr geiranum í áratugi ef hliðsjón er tekin af innihaldi gagnrýninnar. Vanþekkingin og misskilningurinn er alger. Ég hef í allmörg skipti skrifað inn á heimasíðu hans, bent á ógrynnin öll af rannsóknum sem sýna fram á þvæluna í honum en í hvert einasta skipti fara skrif mín í gegnum ritskoðun hans og komast ekki að. Einungis lofsöngvar um Kohn er hleypt í gegn. Ef farið væri eftir kennslumódeli hans, þá værum við ekki lengi að setja menntun eins og hún leggur sig á sorphaugana, svo ég steli nú orðum biskups. Hann er eins langt frá "evidence-based practice" eins og hugsast getur. En því miður hefur atferlisgreining þurft að glíma við grýlur og misskilning úr fortíðinni og þrífst því óréttmæt gagnrýni oft á því.  Sjálfur hef ég séð kennara beita því sem þeir kalla umbunarkerfi, en eru langt frá því að nota það rétt. Fólk ætti því að lesa rannsóknir og kynna sér hvað er að gerast í fræðunum. Mig langar að nefna Morningside Academy í Seattle í Bandaríkjunum þar sem börn ljúka sem samsvarar 2-3 skólaárum á einu ári og Headsprout lestrarkennsluprógramið sem hefur óyggjandi stuðning rannsókna um gagnsemi þess. Alfie Kohn hefði gott af því að kynna sér þetta.

Þórhallur Flosason (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband