Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hugrekki til að mæta því óvænta

Ég hef verið að velta fyrir mér mikilvægi þess að vera hugrökk og muninum á því og því að þora. Hér áður sungu konur; já ég þori, get og vil.  

Stundum í lífinu stendur maður á krossgötum, verður eins og Lísa í Undarlandi að ákveða hvert skal halda, í hvaða átt á að stefna. Á slíkum krossgötum er það ekki alltaf spurningin um að þora, heldur að hafa hugrekki til að velja sér leið, leið sem kannski er út úr því þekkta og örugga, á vit hins óvænta. Ég hef nokkrum sinnum í lífinu staðið á faglegum krossgötum, oftast hef ég látið slag standa og fylgt þræði ævintýranna og sannarlega hef ég ekki séð eftir því. Nýlega fékk ég bréf sem fékk mig til að fara hugsa um ný ævintýri, hugsa um hvaða möguleika ég get skapað mér sjálf. Eftir eina andvökunótt fór ég á fætur full hugmynda og möguleika. Þessa daga sit ég og kortlegg, útbý leiðarlýsingu, hugsa í möguleikum.    

Es. Og þið sem þekkið söguna um Lísu vitið að þegar hún spurði á krossgötunum hvert hún ætti að fara fékk hún það svar að ef hún vissi ekki sjálf hvað hún vildi og ætlaði, skipti engu máli hvaða leið hún færi. 


Á Seyðisfirði á sitthvoru tæi af sokkum - týpísk ég

Ég sat á kaffihúsi í síðustu viku þegar hringt var í mig og ég spurð um vísindasmiðjuverkefnið sem ég hef verið að vinna að í mörg ár. Þetta var ung kona Þórunn Eymundardóttir, framkvæmdastýra Skaftfells á Seyðisfirði. Í framhaldið var ákveðið að ég færi austur á fund með fólkinu í Skaftfelli og á Tækniminjasafni Austurlands til að ræða um mögulegt samstarf. Í gær fór ég austur. Það skal fúslega viðurkennt að augun voru límd þegar klukkan hringdi rétt fyrir 7 um morguninn, skrefin soldið þung. Vélin lenti á  Egilstöðum rétt fyrir níu. Ég hljóp út í “rútuna” sem ferjaði mig yfir heiðina yfir á Seyðisfjörð. Það snjóaði á heiðinni og snjórinn náði sumum rafmagnsstaurum vel upp fyrir miðju. Smá saman fór að glitta í malbiki og rétt fyrir 10 var rennt upp að Tækniminjasafni Austurlands.    

 fyrir framan Tækniminjasafnið  100_6678

 

Þar tóku á móti mér Pétur Kristjánsson og Helgi Örn Pétursson, þeir reifuðu hugmynd við mig um farandverkefni fyrir skóla. Verkefnið er í formi fræðakistils sem hefur tilvísun, í sögu, sköpun, tilraunir og fleira. Næst fórum við út í Skaftfell og hittum fyrir þar tvær Þórunnar, sú sem er framkvæmdastýra (Hjartardóttir) og sú sem er stýra í barneignarleyfi (Eymundardóttir), með þeir var líka Daníel nokkur Björnsson myndlistamaður. Ég sýndi þeim það sem ég hef verið að fást við, hafði druslað með mér bókum, myndaskráningum og tölvunni. Við ræddum möguleikana um að setja saman verkefni byggt á sameiginlegri reynslu og hugmyndum okkur allra. Ég held ég geti sagt að það hafi farið vel á með okkur og við komist að því að við milli okkar eru margir snertifletir.

 eldsmíða nagla  100_6673 100_6674  

Eftir hádegi fórum við í barnaskóla Seyðisfjarðar (Seyðisfjarðarskóla) sem er í 100 ára húsi, með góðum anda. Allir fara úr skónum í anddyrinu, ég líka á sitthvoru tæi sokkum (svona smá litamunir á dökkbláum og svarbláu sá ég í dagsbirtunni). Á veggjum skólans fann ég svo hópmyndir af foreldrum mínum, pabba frá því að hann varð gagnfræðingur og þeim báðum frá Iðnskóla Seyðisfjarðar frá 1956. Skemmtilegt.

  

 pabbi mamma 100_6645

Við ræddum lífvænleika hugmyndarinnar frekar við skólastjórnendur barnaskólans, þau Jóhönnu Gísladóttur, aðstoðarskólastjóra og Þorstein Arason skólastjóra. Hvernig möguleg framkvæmd gæti litið út, hver ætti að gera hvað, tengingar við aðalnámskrá grunnskóla, hvernig hægt er að fylgja eftir og meta svona verkefni, mögulega úrvinnslu í ýmsu formi og fleira og fleira.

 100_6662 100_6675

Á eftir fórum við og skoðum sýningar fyrst í vélsmiðjunni og svo um sögu ritsímans í ritsímahúsinu á Seyðisfirði. Á þessum stöðum tók á móti okkur Grétar Einarsson skólabróðir foreldra minna úr Iðnskólanum. Við vorum leidd í gegn um leyndardóma ritsímans og vélsmiðjunnar. Um hálf sex fór ég upp í flugvél aftur og var lent í Reykjavík í strekkingsvindi upp úr sjö. Góður dagur á enda kominn.  

 

símastaur  100_6681  100_6683


Tæknivesen, vesen, vesen og mánudagseintök af tölvum

Missti af fluginu mínu heim, tók einni vél seinna en ég fyrirhugaði. Minna eftir af kvöldinu en ég ætlaði og líka minni tími til að láta hluti fara úrskeiðis. Nema þá gengur auðvitað allt á afturfótunum.

Ég er búin að vera í eintómu tækniveseni í kvöld, ætlaði að vera svo flott á því að skella myndbandi frá vísindasmiðju í Ráðhúsinu inn í tölvuna og búa til litla sæta DVD mynd, fyrsta tölvan fann myndabandið (sem er hdd) en hún fraus jafnóðum og ekkert að gera nema endurræsa, samt er ég búin að fá nýtt móðurborð í þá elsku - held hún hljóti að vera mánudagseintak eins og sagt var um suma bíla hér áður fyrr. Spurningin er hvað það er nú, kannski þarf ég sérstakt forrit til að keyra upp fierwire 2. Næst reyndi ég við tölvuna hans Lilló, hún vildi bara alls ekki tala við mig og þegar ég ætlaði að skella nýju Pinacle studio inn sagði hún það ekki tala við Windows vista, á endanum var gamli jálkur og gamla firewire tengið dregið upp og nú spilast þetta allt samviskusamlega inn. 

 

Kannski ef ég er heppin get ég búið til diskinn og tekið með mér á fund á Seyðisfirði í fyrramálið. Fór að rifja upp hvenær ég kom þangað seinast, haustið 1969 með ömmu og kvenfélaginu á Eskifirði í tengslum við berjaferð.

Jæja ég VERÐ víst að játa mig sigraða, þetta HEPPNAÐIST ekki - held ég reyni að koma mér í bælið er á leiðinni í fimmtu og sjöttu flugferðina í vikunni á morgun. Skal viðurkennt að þær taka á kropp.  Skil ekki hvernig þeir sem starfa við flug fara að. Ég verð dösuð.

kæru vinir, góða nótt (eða dag)


Eru Bubbi og Birgir kellingar eða leikskólabörn? - betra ef svo væri

Ég lá og mókti í bæli mínu hér á KEA með sjónvarpið á heyri ég ekki allt í einu umfjöllun um slag kóngsins Bubba við unga gagnrýnendur, sem virða ekki stærð og mikilleika kóngsins nóg að hans mati. Inn í draumaheiminn smaug orð og orð, það sem "slóg" mig hjá þessum mikilmennum var val á lýsingarorðum. Átti nú að ástunda orðabox, og ætluðu "vinirnir" aldeilis að slá (nú eða kýla) andstæðinginn út af borðinu. 

Annarsvegar var talað um að málið væri komið á leikskólastig, þar með gefið í skyn að leikskólabörn séu lítt hugsandi, síkýtandi, smásmuguleg og hörundsár.

Sem leikskólakennari á þriðja áratug vil ég benda viðkomandi á að þetta er ekki dæmigerð lýsing á leikskólabörnum og þeirra framkomum hvert við annað. ÞAU eru snillingar, fljót að fyrirgefa, erfa ekki og festa sig ekki í leiðindum gærdagsins heldur horfa þau björtum augum til framtíðar. Svo hörundsárir popparar ættu að leita annað í fyrirmyndum af slæmum samskiptum.

Hitt orðið sem mér féll líka illa var að viðkomandi væri algjör kelling og þá í niðrandi merkingu. Sem kellingu, var mér misboðið fyrir mína hönd og allra annarra kellinga. Ef þetta hefði verið sagt viðkomandi til hróss hefði ég verið stolt og upp með mér. Svo strákar í leðjuslag ef þið viljið endilega vera lýsandi en samtímis niðrandi í orðavali, vinsamlegast veljið orð úr ykkar eigin reynsluheimi.

Annars vaknaði ég endanlega við að hlusta á viðtal Boga við Billie August. Billie talaði dásamlega dönsku, unun á að hlýða og svo hafði hann líka margt áhugavert að segja. Mér var hugsað til leikskólakennara sem segja gjarnan að þeirra mesta lífsfylling í starfi sé þegar þær ná til barna - eiga augnablik með barni eða barnahóp sem skilur eftir sig spor í sálinni. Þannig fannst mér Billie tala um starfið sitt.

Á Akureyri snjóar annars í augnablikinu, þráðbeint.

Svona að lokum þá skal viðurkennt að ég hef ekki hundsvit á tónlistarsögunni og hver á hvað stein í hvað vörðu.

 


Samræða um kirkju, skóla og samfélag – engin öskurkeppni

 stanley 119

Mas og öskurkeppni eru við það að ganga frá allri samræði dauðri stóð í grein eftir Þröst Helgason í Morgunblaðinu í gær. Þar er hann að fjalla um bókina Conversation: A history of declining art. Eftir Stephen Millier nokkurn. Þar kemur fram að raunveruleg samræða þar sem fólk hefur áhuga á að hlusta á rök og setja fram rök, sé í útrýmingarhættu. Nú sé fólki kennt og selt hugmyndir um niðursoðna  samræðu sem byggir frekar kappræðu og öskurkeppni en því að hlusta. Í leikskólahugmyndafræði sem ég hef löngum aðhyllst er megináherslan lögð á hlustun. Þar er hlustun talin grundvöllur lýðræðis og samræðu. 

af innra minni - tjörnin speglun


Í gær laugardag, tók ég þátt í samræðu. Samræðu um skóla og kirkju. Akureyrarkirkja bauð til hennar og byggðu upp á þann hátt að fyrst voru fjögur stutt innleggserindi (ca 15 mínútur hvert, sjá umfjöllun hér að neðan), þau voru brotin upp með tónlistaratriði sem hjónin á Tjörn í Svarfaðardal, Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Eldjárn Hjartarson sáu um. Eftir seinni tvö erindin veittu hjónin okkur meira tónlistarkonfekt. Bergþóra Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóri í Brekkuskóla sá svo um að halda utan um herligheitin.

Kirkjan bauð svo öllum í kaffi og bakkelsi og efir það hófust fjörugar umræður. Spurningar úr sal voru margar og stórar. Mismunandi sjónarhorn og áhyggjur m.a. af þekkingu landsmanna á kristnum fræðum og sögu komu fram. Aðrir töldu að það að hafa ákvæðið um að siðferði ætti að byggjast á kristilegum gildum einu trygginguna fyrir því að hugtakið yrði ekki togað, teygt og skrumskælt. En aðrir bentu á að kristið fólk á það til að skrumskæla og afbaka kristin hugtök. Það eitt og sér væri því enginn trygging. 


Sú spurning kom fram hvort að ef skólar í meira mæli verða einkareknir hvort þeir geti þá ekki skilgreint sig sem skóla sem byggja á kristnum gildum. Á það var bent að slíkir leikskólar og grunnskólar séu þegar til fyrir þá foreldra sem það velja, m.a. einn leikskóli á Akureyri. 
 
Krakow 009

Leiði gyðinga í kirkjugarði í Krakow

Svanur Kristjánsson prófessor við Háskóla Íslands sagði að lýðræðið þyrfti á fólki að halda sem þyrði að vera hugrakt og standa með lýðræðinu. Það þyrfti fólk sem léti ekki sálarlausa vísindahyggju stjórna gerðum sínum. Hann taldi að fólk sem tryði á guð í sjálfum sér og öllum öðrum mönnum spornaði gegn sálarlausri vísindahyggju, sem hefur leitt til vönunar fólks á Íslandi og útrýmingu fólks í bæði Sovétríkjunum gúllagsins og Þýskalandi nasismans.  En í máli hans kom líka fram sterk gagnrýni á yfirvöld kirkjumála hérlendis sem gangi ekki í takt við þjóðina og hafi látið hennar stærstu réttlætismál (eins og gjafarkvótann) fram hjá sér fara.  
 

Karl Frímannsson, skólastjóri á Hrafnagili í Eyjafirði, fjallaði um nýtt frumvarp til laga um grunnskóla og þá ákvörðun að fella úr því ákvæðið um að skólastarf eigi að byggja á kristilegu siðferði. Hann taldi að sem fyrr þyrfti skólastarf að byggja á siðferðisviðmiðum, á mannvirðingu, á trú á réttlæti, sanngirni, kærleika og því góða í hverri manneskju. En ekki þyrfti að tilgreina þessi gildi sem kristin.  
 

Þórhallur Heimisson prestur í Hafnarfirði fjallaði um tengsl skólastarfs og kirkjunnar frá öndverðu, hann tengdi sig við hugmyndir Grundtvig um mennskuna og guð. En Grundtvig var prestur, skáld, heimspekingur og einn andans aðalforvígismaður lýðskólahreyfingarinnar sem upprunnin er í Danmörku. Hreyfing sem enn er sterk víðast hvar á Norðurlöndum.      

Mitt erindi læt ég svo fylgja með sem sérskjal fyrir þá sem það nenna að lesa. Vel að merkja þetta er handrit að fyrirlestri en ekki unnið til útgáfu og er hvorki skrifað né yfirlesið með tilliti til þess.

Að lokum ber að þakka Akureyrarkirkju og klerkum hennar fyrir hugrekkið og samræðuna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ömmuleikur

Í vikunni fékk ég fékk að vera í ömmuleik. Sturlubarnið kom í aleitt í heimsókn og amma fékk að labba með hann upp og niður Laugaveg, skreppa á kaffihús, labba út í háskóla og til baka. Hann átti reyndar að sofa, en var svo áhugasamur um umhverfið, hljóðin, fuglagarg á tjörninni og svo bara að horfa í augun á ömmu sinni. Sofnaði loks örstutt, vaknaði og hló. Talaði eða hjalaði með sinni djúpu rödd. Fékk svo að liggja á teppi hjá ömmu, hlusta á smá tónlist og leika með tómu gosflöskuna. Litla Sturlubarnið er þegar uppfullt áhuga á fjarstýringum og tökkum. Afi kom snemma heim og Sturlubarnið fékk hláturkast og hló og hló og náði gleraugunum af nefinu af afa. Í dag er ég búin að fara á marga fundi, hitt mikið af fólki, tala mikið og sjá margt.  


Börn sem ögra

Ég var að lesa ótrúlega skemmtilega grein. Þar er fjallað um áhrif þess hvaða afstöðu leikskólakennarar taka til barna almennt til þess hvernig þeir líta á og vinna með hegðun sem þeim finnst óæskileg og/eða ögrandi. Dæmi um slíka hegðun er; öskra, bíta, lemja, sparka, ljótur munnsöfnuður, skilja börn eftir útundan og fleira. Afstöðu leikskólakennara er skipt í fernt (sjá hér að neðan). Í greininni er því lýst hvernig með því að endurskoða afstöðu sína til barna leikskólakennarar breyta starfsaðferðum og áhrifum þess á "hegðun" barna.

  1. Barnið er eign hins fullorðna, hinn fullorðni tekur allar ákvarðanir fyrir barnið, enda hefur barnið ekki til þess þroska. Þegar þetta er afstaða hins fullorðna þá er litið á barn sem ögrar sem ófært um að stjórna hegðun sinni og það er hlutverk hins fullorðna að taka ábyrgð á hegðun barnsins. Þær leiðir geta m.a. byggst á atferlismótun eða lyfjagjöf.
  
  1. Barnið er hlutgert, það er litið á börn sem saklaus og varnarlaus, það er hinna fullorðnu að bera ábyrgð og vernda barnið fyrir sjálfum sér og öðrum. Leikskólakennarar sem hafa þessa afstöðu, kenna barninu viðeigandi hegðun, að vera þægt barn, oft byggða á þekkingu á þroskastigum sálarfræðinnar. Ef kennarinn ræður þrátt fyrir það ekki við hegðunina, kallar hann á sérfræðing, t.d. sérkennsluráðgjafa eða sálfræðing.
  
  1. Barnið er þátttakandi í ákvörðunum um eigið líf. Rætt er við barnið um ögrandi hegðun og afleiðingar hennar, en leikskólakennarinn hefur lokaorðið um hvernig brugðist er við, hann tekur ákvörðunina. Dæmi, leikskólakennari getur sagt börnunum hvaða hegðun sé óæskileg, svo sem að; lemja, skilja útundan, sparka... og hann gefur þeim verkfæri til að þau geti brugðist við, ef þú ert laminn, láttu kennara vita, ef þú ert reið notaðu þá orð. Börn þurfa hjálp hinna fullorðnu til að skilja og bregðast við hegðun sinni, þau hafa ekki forsendur til að skilja hana sjálf.
  
  1. Barnið er gerandi (social actor) í eigin lífi sem tekur þátt í að skapa og hafa skoðanir á umheiminum og hefur rétt til þátttöku í ákvörðunum sem varða það. Leikskólakennari sem hefur þessa afstöðu til barna telur að þau hafi  fram að færa gildar skoðanir um starfið og námskrá leikskólans. Kennarinn íhugar gagnrýnið með börnunum og ræðir t.d. ögrandi hegðun við þau. Börnin hafa fram að færa ýmislegt sem getur t.d. varpað ljósi á hegðun og þau geta breytt henni.

 

  Að lokum þá hvet ég sem flesta leikskólakennara að lesa greinina.

MacNaughton, G., Hughes, P., & Smith, K. (2007). RETHINKING APPROACHES TO WORKING WITH CHILDREN WHO CHALLENGE: ACTION LEARNING FOR EMANCIPATORY PRACTICE. International Journal of Early Childhood, 39(1), 39.


Duldar óskir og þrár

Lítil ómerkt frétt í Morgunblaðinu vakti athygli mína í morgun. Þar er verið að fjalla um vonbrigði OECD yfir að Ísland hafi ekki komið betur út úr PISA rannsóknum og ef eitthvað farið dalandi. Þetta er sérstök vonbrigði OECD í ljósi þess hvað þjóðin leggur til menntamála á hvern einstakling. Nokkur gagnrýni varð á sínum tíma á uppbyggingu Aðalnámskrár grunnskóla (þessari sem Björn setti 1999), hún var talin hefta kennara, draga úr sjálfsforræði þeirra og þróun í starfi. Ég heyrði því fleygt á sínum tíma að margir teldu hana ræna kennara starfi sínu, stuðla að kulnun og draga úr faglegum áhuga. Samkvæmt fréttinni bendir OECD á að beina þurfi sjónum að kennurum, kannski að ein leið sé að veita þeim aftur forræði yfir eigin starfi? En engar slíkar pælingar eru í frétt Morgunblaðsins, þar er hins vegar spyrnt saman umfjöllun um PISA og því að í heilbrigðiskerfinu sé launsnarorð OCED fyrir Ísland, einkavæðing.

  Lesa fleiri en ég út úr þessu duldar óskir og þrár?

Það eru ekki bara smáfuglar heldur líka litlar hagamýs sem þarf að gefa

Ég skrapp í foreldrahús í dag, þar bar helst til frétta að hagamýsnar í garðinum eru að verða matarlausar. Í snjónum sjást agnarsmá spor eftir litlar mýs sem hætta sér úr holum í matarleit. Pabbi og bræðrasynir mínir eru því í önnum þessa daga að bera í þær fræ. Síðan er fylgst með hvernig þær bera sig að, hamstra og hlaupa með fenginn í holu. Öllum köttum sem hugsanlega ætla að nýta sér tækifærið til að ná í litlar mýs eða smáfugla er samviskusamlega bægt á brott.

Frændur mínir voru víst svolítið hissa fyrst yfir að það eru ekki bara smáfuglarnir heldur líka mýsnar sem þarf að fæða, en nú finnst þeim það held ég bara spennandi. Ég man fyrir nokkrum árum þegar ein hagamúsin slapp inn. Pabbi hafði heilmikið fyrir því að veiða hana í gildru og svo var farið langt niður í Fossvog til að sleppa henni lausri. Mamma hristir bara hausinn.


Af hverju eigum við að treysta fólki sem treystir ekki hvert öðru?

Hverju ætli fólk vantreysti? Spreð í gæluverkefni? Illa ígrunduðum ákvörðunum? Blóðugum innbyrðis skylmingum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins?

Það gefst ekki vel í pólitík þegar kjósendum finnst verið sé að að hafa þá að háði og spotti. Fundurinn í Valhöll þar sem flótti barst í liðið og enginn treysti sér til að styðja við bakið á oddvitanum gaf borgarbúum flokkslínuna. Af hverju ættu borgarbúar að treysta borgarstjórnarmeirihluta sem treystir ekki eigin fólki?

 

 


mbl.is Aðeins 9% treysta borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband