Eru Bubbi og Birgir kellingar eða leikskólabörn? - betra ef svo væri

Ég lá og mókti í bæli mínu hér á KEA með sjónvarpið á heyri ég ekki allt í einu umfjöllun um slag kóngsins Bubba við unga gagnrýnendur, sem virða ekki stærð og mikilleika kóngsins nóg að hans mati. Inn í draumaheiminn smaug orð og orð, það sem "slóg" mig hjá þessum mikilmennum var val á lýsingarorðum. Átti nú að ástunda orðabox, og ætluðu "vinirnir" aldeilis að slá (nú eða kýla) andstæðinginn út af borðinu. 

Annarsvegar var talað um að málið væri komið á leikskólastig, þar með gefið í skyn að leikskólabörn séu lítt hugsandi, síkýtandi, smásmuguleg og hörundsár.

Sem leikskólakennari á þriðja áratug vil ég benda viðkomandi á að þetta er ekki dæmigerð lýsing á leikskólabörnum og þeirra framkomum hvert við annað. ÞAU eru snillingar, fljót að fyrirgefa, erfa ekki og festa sig ekki í leiðindum gærdagsins heldur horfa þau björtum augum til framtíðar. Svo hörundsárir popparar ættu að leita annað í fyrirmyndum af slæmum samskiptum.

Hitt orðið sem mér féll líka illa var að viðkomandi væri algjör kelling og þá í niðrandi merkingu. Sem kellingu, var mér misboðið fyrir mína hönd og allra annarra kellinga. Ef þetta hefði verið sagt viðkomandi til hróss hefði ég verið stolt og upp með mér. Svo strákar í leðjuslag ef þið viljið endilega vera lýsandi en samtímis niðrandi í orðavali, vinsamlegast veljið orð úr ykkar eigin reynsluheimi.

Annars vaknaði ég endanlega við að hlusta á viðtal Boga við Billie August. Billie talaði dásamlega dönsku, unun á að hlýða og svo hafði hann líka margt áhugavert að segja. Mér var hugsað til leikskólakennara sem segja gjarnan að þeirra mesta lífsfylling í starfi sé þegar þær ná til barna - eiga augnablik með barni eða barnahóp sem skilur eftir sig spor í sálinni. Þannig fannst mér Billie tala um starfið sitt.

Á Akureyri snjóar annars í augnablikinu, þráðbeint.

Svona að lokum þá skal viðurkennt að ég hef ekki hundsvit á tónlistarsögunni og hver á hvað stein í hvað vörðu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er öskurkeppni, Kristín. Skal viðurkenna að orðið "sandkassaleikur" kom í huga minn. En eins og stóð í kvæðinu :"Þá stóð svínið upp og labbaði sína leið".

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 16:20

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

heheheh -góður

Kristín Dýrfjörð, 12.3.2008 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband