Ég lofa að hrósa

Howard Gardner* kom hingað fyrir nokkrum árum og hélt fjöldamarga fyrirlestra í Kennaraháskólanum um kenningar sínar og rannsóknir. Í umræðum eftir einn fyrirlesturinn varpaði ég til hans spurningu um atferlismótunaraðferðir og fjölgreindakenninguna. Nú rita ég svarið eftir minni en það var eitthvað á þá leiða að hann eins og fleiri sá það geta verið not fyrir atferlismótunaraðferðir við ákveðnar aðstæður en mælti ekki með að fólk byggði uppeldisstarf sitt á þeim, þær væru verkfæri í kistu sem stundum er hægt að grípa til en þær eru ekki kistan sjálf.

Til að koma í veg fyrir mögulegan misskilning þá ætla ég að taka fram að það er ekki svo að ég taki mark á öllum fræðigreinum sem ég les, ekki einu sinni þó mér finnist vit í sumu sem þar kemur fram. Mér dugir ekki alltaf, að hægt sé að segja tölfræðilega er hægt að sýna fram á svona eða hinsegin tengsl. Og það að ég velji að vekja athygli á hugmynd á jákvæðan hátt, þýðir ekki að ég sé fylgjandi henni 100%. Dæmi um þetta er greinin hér að neðan um Kohn. Ég tek undir áhyggjur hans af slæmum afleiðingum atferlismiðaðra uppeldisaðferða. Þegar ég las hana, fann ég samhljóm með mínum eigin áhyggjum. Mér finnst margt umhugsunarvert fyrir mig og jafnvel aðra sem þar kemur fram. Þess vegna valdi ég að vekja á henni athygli.    

 

Til að vera trú mínum eigin hugmyndum og lífsýn verð ég að taka fram að ég held að ÖLL börn séu hugsandi verur. Öll börn taki sjálfstæða afstöðu til hugmynda og hluta. Ég hafna hugmyndum um að börn séu eins og svampar eða leir sem hægt er að móta að vild, þau eru gerendur í eigin lífi. En ég held líka að það sé hægt að gera börnum illt og uppeldisaðferðir sem byggja ALFARIÐ eða að stærstu leyti á hugmyndum um ytri aga og atferlismótun, tel ég vera af hinu illa (benda á aðra færslu hér að neðan um börn sem ögra).  

 

Sjálf ætla ég að halda áfram að hrósa, halda áfram að sýna tilfinningar (bæði þegar ég gleðst og reiðist), halda áfram að láta fólk vita þegar mér finnst það gera vel, ég ætla að halda áfram að klappa á tónleikum og í leikhúsi, ég ætla áfram að vera hrifnæm, ég ætla að halda áfram að verðlauna eða hegna stjórnmálamönnum með því að kjósa þá eða kjósa ekki í prófkjörum og kosningum, ég ætla að halda áfram að segja ungum frænkum og frændum að mér finnist frammistaða þeirra í hinu ýmsu tómstundum stórkostleg.   

 

En samtímis lofa ég að útdeila hrósum ekki eins nammi, lofa að gera mitt besta til að nota það ekki til að drepa frumkvæði eða stuðla að því að börn verði hrósfíkin og auðvitað lofa ég að vekja áfram athygli á greinum sem vekja áhuga minn.

Gardner var hér á vegum Íslensku menntasamtakanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Takk fyrir þetta Kristín.  Það var gott að heyra þetta því undanfarið hef ég heyrt mikið af því að byggja uppeldisaðferðir á atferlismótunaraðferðum.  En er það ekki einmitt málið, að viða að sér, lesa og hlusta og móta sínar eigin skoðanir og sannfæringu því án hennar nær maður varla viðunandi árangri.

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 13:43

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl Rósa, vonandi höfum við vit til að velja og finna þá aðferð sem fellur að lífskoðunum okkar. Var annars að lesa í Mogganum áðan að foreldrar barna í Bretlandi séu einhverjir að missa tökin, m.a. var sagt vegna þess að þeir væru orðnir uppiskroppa með hugmyndir að verðlaunum fyrir börnin.

Af mbl.is

Haft er eftir kennurum að sumir „sveigjanlegir“ foreldrar viðurkenni að þeir láti of mikið eftir börnunum, oft til að halda friðinn eða þá vegna þess að þeir hafa gefist upp á að finna nothæfa hvatningu eða refsingu sem virkar.

Kristín Dýrfjörð, 23.3.2008 kl. 16:26

3 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Já skrifaði um þetta á síðunni minni og þetta er vandamál er ég tel við standa frammi fyrir hér en er eldfimt umræðuefni.

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband